föstudagur, maí 27, 2011

Lyf til að lifa?


Ára snillingur er búin að vera með einhvern ljótan hósta í vikunni en sagði sjálf í nótt að hún væri samt mjög hraust:) og hún má nú alveg eiga það því síðustu tvo vetur hefur hún verið stálhraust eftir að hafa tekið einn brjálaðan veikindavetur. Í nótt var hún samt alveg með hita og illt í eyrunum sínum líka, mér fannst þetta byrja um leið og loftið varð verra út af gosinu en maður veit svo sem ekki.

Í morgun þurfti ég að tala hana inn á það að vera heima því henni finnst svo ótrúlega gaman í leikskólanum að hún vill alls ekki missa dag úr og reyndi hvað hún gat til þess að fá að fara, það var ekki fyrr en ég sýndi henni útbrotin í andlitinu (sem ég hugsa að hafi komið út af áreynslu við að hósta) að hún sættist á það að vera heima með mér. Núna situr hún og horfir á Fíusól uppáhaldið sitt og fræðir mig um ýmislegt skemmtilegt. Rétt áðan sagði hún t.d að hún hefði einu sinni tekið meðal en svo hefði hún verið rosalega veik og þá hefði hún fengið lyf og svo bætti hún við: "En hvað er eiginlega lyf, er það til þess að lifa":) hahaha!

Vonandi nær hún sér í dag því á morgun er fótboltamót! Og hún og Brynja vinkona hennar ætla mæta galvaskar, ég á nú alveg að sjá þær keppa!

laugardagur, maí 21, 2011

Skammarlegt!
Ég er farin að skammast mín allsvakalega fyrir myndaleysi og bloggleysi og heiti því hér með að úr þessu verði bætt ekki seinna en strax í dag! Var að fara yfir myndatökur síðustu mánaða og eftir afmælið hjá Áru í mars voru ekki teknar nema 20 myndir sem er skammarlegt og í apríl að Blackpool undanskildu, 16 myndir! Ég henti þessu þó samviskusamlega inn á myndasíðuna ásamt Blackpool albúmi sem getur bara verið svo gaman að skoða:)

Af okkur fjöllunni er bara allt fínt að frétta, Andri að vísu handarbrotinn eftir glímuátök og búinn að vera í gipsi á þriðju viku og stefnir í 10 daga í viðbót ef ekki meira. Og þetta er á hægri svo hann þarf aðstoð við ýmislegt eins og gefur að skilja! En við hjálpumst að eins og okkur einum er lagið svo þetta bjargast ágætlega.

Heimasætan er sykusæt sem endranær og rúllaði 4 ára skoðun upp á dögunum. Rétt fyrir skoðun var ég að útskýra fyrir henni að hún þyrfti örugglega að telja og skoða myndir og segja litina og fleira og þá spurði hún mig þessi elska hvort hún ætti að telja á ensku eða íslensku:) Hún fór síðan í skoðunina og stóð sig sérlega vel að mati okkar foreldranna en á svona tímamótum má maður monta sig og vera ofurstoltur en hún tók sjónpróf eins og sex ára og þuldi alla stafina upp eins og ekkert væri, sýndi fram á góðan talnaskilning (annað væri nú fáránlegt;)) og var til fyrirmyndar í alla staði og þá er maður glaður, þannig er það nú bara. Og þá er mont ársins búið!
Einkadóttirin glæsileg á öskudaginn
Í sumar ætlum við síðan heldur betur að söðla um og munum eyða júlí-mánuði í Frakklandi nánar tiltekið í litlu þorpi sem heitir Férel og er á Brittany skaga. Ég bara veit að þetta verður geggjað, bara við þrjú familian í slökun og dekri í fallega Frakklandi og að sjálfsögðu er öllum velkomið að droppa við sem eru á ferðinni á meginlandinu. Við fljúgum til Parísar þann 7. júlí og komum tilbaka þann 28. júlí. Við verðum í húsi í eigu franskrar fjölskyldu en þau verða í okkar íbúð á meðan, ásamt því að skipta á bílum, algjör snilld og hagstætt í kreppuástandi. Þeir sem hafa áhuga geta kynnt sér málið hér

Eftir 9 daga á síðan Sóley elsta æskuvinkona mín von á sínu fyrsta barni, mér finnst svo leiðinlegt að vera ekki stödd í sama landi og hún en ég veit að hún leyfir mér að fylgjast með þessari miklu upplifun en ég er ekki í nokkrum vafa um að hún og Kobbi rúlla þessum nýju hlutverkum upp:)

Í dag er stefnan sett á fótboltaæfingu hjá Þrótti, það er heimasætan sem er að byrja að æfa ásamt vinkonum sínum. Hún vill endilega eignast fótboltaskó en við ætlum nú fyrst að sjá hvað hún endist margar æfingar!