miðvikudagur, febrúar 29, 2012


Til gamans - systurnar nákvæmlega jafngamlar!



Tveggja mánaða Magdalena - á sjálfan hlaupársdaginn 29. febrúar 2012!

Magdalena hefur haldið uppteknum hætti þennan seinni mánuð sinn. Sefur vel og drekkur vel og er alltaf að færa svefninn framar og framar, nú er hún að fá kvöldsopann upp úr tíu og fer síðan að sofa fljótlega eftir það með því að hlusta á óróann sem glymur í hausnum á manni þó það sé ekki kveikt á honum! Hún er enn bara að vakna einu sinni yfir blánóttina til að drekka en ég hef gefið henni snuð ef hún rumskar fyrr en ég óska eftir;) Hvar væri ég án snuða?

Við erum síðan búnar að kerrupúlast fjórum sinnum og ætlum að halda því eitthvað áfram. Hún líkt og systir sín gerði, sefur alveg einstaklega vel í vagni á ferð og er að taka langa lúra þegar ég er á ferðinni - stundum vaknar hún um leið og vagninn stoppar, stundum ekki. Hún er alltaf að splæsa í fleiri og fleiri bros og hefur stóra systir tekið fram úr pabba hvað varðar bros en ég get ímyndað mér að sú stóra verði heldur betur vinsæl þegar fer að koma almennilegt vit í þennan litla koll:)

Mamman er enn í fyrsta sætinu enda skartar hún byssunum sem bjarga öllu. Hún kann líka öll réttu handtökin og veit yfirleitt hvað virkar á Lenulús. Í minningunni var Ára alltaf í essinu sínu ef það voru læti og fjölmenni. Magdalena er öðruvísi, hún kann betur við rólegheitin og ekki of mikil læti, þá er eins og hún pirrist enda eins og ég hef sagt virðist vera rólegri karakter en Ára. Ég held hún sé lík Hörpu frænku sinni en hún sagði oft "læti" þegar hún var lítil ef henni fannst of hávaðasamt, kæmi mér ekki á óvart að Lena tæki upp á því einn daginn!


Orlofið rúllar þennan vanagang, hittingar, þvo, þrífa, ganga frá, ganga meira frá, þurrka meira ryk, þvo meiri þvott o.s.frv. þið vitið hvað ég meina;) En ég er að njóta þess í botn - finn hvað ég er bara hér og nú. Spurning hvort að zen áhrifin séu hægt og bítandi að færast yfir mig;)


Ágústa Rut er hress að vanda, telur nú niður daglega í afmælið sitt og getur ekki ákveðið sig hvort hún ætli að telja daginn sem er þann daginn með eða ekki;) Freistandi náttúrulega að sleppa honum! Sía "frænka" var komin með einhverja pressu hvað varðar bakstur fyrir stóra daginn og vildi að ég myndi leggja mig alla fram við það að uppfylla kökuóskir frumburðarins. Þannig að ég spurði hvernig köku hún vildi hafa og það lá ekki á svörunum - broskallaköku:) Þessi elska þekkir mömmu sína og veit að hún er ekkert að fara að hrista einhvern barbie-kastala fram úr erminni en broskall skal það vera og vel gulur:)

Ég set síðan seinna holl af febrúar á myndasíðuna á morgun!

mánudagur, febrúar 20, 2012

Byrjaði í kerrpúlinu í dag og komst að tvennu:

1. Keppnisskapið er enn til staðar
2. Ýmsir vöðvar - ekki enn til staðar:)

Hlaup, hnébeygjur og kálfaæfingar halda samt áfram að vera mínar æfingar. Armbeygjur eru erfiðari og liðleikinn mætti vera meiri. Gott að setja sér einhver ný markmið fyrir sumarið!

Náði líka í nýja ipod nanó-inn minn - hlakka til að hlaða inn einhverjum hlaupa/göngu vænum lögum!

föstudagur, febrúar 17, 2012

7 vikna Magdalena


Gott að vera vel girtur:) Magdalena með svörtu augun eins og Jónína í ungbarnaeftirlitinu kallar hana!


Nú fer óróinn að koma sterkur inn og rimlarúmið búið að vera uppi í tvær vikur - þar sofnar hún alltaf á kvöldin og sefur vært, hefur verið að færa svefninn framar og í þessari viku er hún að sofna um svona ellefu leytið og vaknar kannski hálf fjögur fjögur til að drekka og kúrir þá gjarnan hjá mömmu sinni til morguns eða þangað til stóra systir kemur um hálf átta átta leytið og vill knúsa og kyssa:) Mér finnst ekki gott að láta hana sofna út frá drykkju því hún ælir aldrei nema upp í sig og kyngir aftur - jömmí og þá er betra að gefa henni aðeins áður en hún fer að sofa svo hún nái að jafna sig áður en hún leggst niður!


Lætur fátt raska ró sinni (tekur samt alveg pirring eins og gengur og gerist og er ómöguleg og vill bara láta halda á sér og bossa rass) og er farin að fara mikið í göngutúr en ég elska að fá mér hressingagöngu jafnvel tvisvar á dag og endurnýja súrefnið:)

Mér finnst eins og Lenu lúsin sé slakari karakter en Ára en það á eftir að koma betur í ljós!

Nokkrar af systrunum saman:)


Megastuð svona fyrsta mynd!


Aðeins meira - mamman að prófa aðra stillingu!


Æj þetta er nú farið að verða frekar þreytandi...

 

"Ég nennessekki..." Ára að reyna að tjónka M eitthvað til:)

fimmtudagur, febrúar 16, 2012

Nóg af verkefnum í fæðingarorlofinu!

Maður situr ekkert auðum höndum í orlofinu og nóg að gera á hverjum degi, hversdagslegu hlutirnir eins og að þvo þvott, taka til og ganga frá leirtaui taka sinn tíma í bland við ýmis verkefni sem hafa setið á hakanum eins og að koma brúðkaupsmyndum í ramma ásamt öðrum myndum og búa til myndavegg. Ég er náttúrulega fáránlega mikil reglustika og get ekkert hent upp svona "útumallt" myndavegg eins og mér finnst svo flott. AFO og ÁRA þurftu því að vera mér innan handar og höfðu sínar skoðanir á því hvernig þetta ætti allt saman að vera, Ára svona heldur miklar en útkoman var þessi!



Ég er síðan með endalaust langan lista af bókum sem mig langar að klára að lesa. Á náttborðinu bíður Brakið hennar Yrsu, Jójó eftir Steinunni Sigurðar, Einn dagur, Buddism for Mothers, tvær Nesbö bækur og þar af önnur hálfkláruð. Í bland við þetta allt saman má líka finna Hollráð Hugós, Draumalandið og Stjörnumerkjabókina.

Ef ég væri kannski minna í tölvunni myndi ég lesa þeim mun meira!



þriðjudagur, febrúar 14, 2012


Magdalena orðin sex vikna og gott betur!


Lenulúsin fór í 6 vikna skoðun í síðustu viku og hlaut fína dóma. Jónína ljósmóðir í ungbarnaeftirlitinu nær á einhvern ótrúlegan hátt að kalla það besta fram í svona litlum krílum, hefur alltaf náð einstaklega vel til Ágústu Rutar og sama var uppi á teningnum með Magdalenu en hún brosti og hjalaði og lék á alls oddi í skoðuninni. Orðin 4060 gr. og 54,5 cm, bara búin að ná meðalfæðingarþyngd íslenskra barna;) Fékk síðan Tokyo sushi í verðlaun en við skulum ekkert ræða það hversu oft við fáum okkur bita þar!


Stóran bað síðan um göt í eyru í síðustu viku en Brynja vinkona hennar er nýlega búin að fá. Ég stóð í þeirri meiningu að hún vildi ekki göt því hún tilkynnti mér það þegar Brynja fékk sín en annað kom á daginn og hún var harðákveðin í þessari götun. Ég er alltaf svo föst í reglum sem voru settar á mínu heimili í denn svo mér fannst hún alltof ung enda Gústa senior með 8 ára regluna en ég var einhvern veginn búin að bjóða upp á þetta svo ég gat ekki sett reglu eftir á! Við mættum því galvaskar mæðgurnar í Mebu eftir leikskóla á föstudaginn og Ára valdi sér lokka og settist í stólinn, lét teikna á sig punkta en HÆTTI svo við:) Eins og mig grunaði, maður þekkir sína nokkuð vel, ég var líka búin að segja henni að Svava frænka hefði hætt við stólnum þegar hún var 8 ára, bara svona til að ítreka að það mætti alveg hætta við - maður þekkir nefnilega alveg keppnisskapið í fjölskyldunni! Ég græt það nú ekkert að hún hafi hætt við og hún gerir þetta bara seinna þegar hún er tilbúin:) Við eigum allaveganna fagurrauða lokka til skiptanna!

Ég lét síðan klippa af mér alla lokkana í gær enda ómögulegt að stífla baðkarið þegar maður fer í sturtu og vera með hárbrúsk samansafn í rassaskorunni;) Brjóstagjafahárlos búið að banka upp á og ekkert annað í stöðunni en að losa sig við hár! Plús það að ég var farin að vera einungis með hárið í hnút alla daga og því frekar tilgangslaust að vera með hár niður á rass. Ég var nýbúin að horfa á Midnight in Paris og fannst svo helvíti flott klippingin á leikkonunni þar Rachel eitthvað, þið vitið með mig og leikaranöfn en allaveganna tók ég mynd af tölvunni og mætti með til hárgreiðslumeistarans hennar Ingigerðar og voula hún töfraði fram góða greiðslu:)

-Linda-


mánudagur, febrúar 06, 2012

"Einstæða móðirin múltitaskar með aðstoð þó!"


Andri er búinn að vera sérlega upptekinn síðast liðna viku. Fyrst skellti hann sér í vinnuferð norður á Akureyri og síðan er hann búinn að vera að klára NLP námskeiðið og taka bæði verklegt og skriflegt próf um helgina. Ég fékk því að þreyta frumraun mína sem einstæð móðir tveggja dætra:) Þar sem ég hef nánast sofið til hádegis allan fyrsta mánuðinn hennar Magdalenu voru ákveðin viðbrigði að vakna og komu einni á leikskólann:) Og þó svo að Ára sé orðin ansi meðfærileg þarf samt koma henni í háttinn með lestri ásamt því að bursta (sem hún telur sig reyndar fullfæra að sjá um) og fleira sem þarf að græja.


En ég komst að því að ég get lesið og gefið, sungið og huggað og svæft allt á sama tímapunktinum - þarf samt að sætta mig við að uppvask og drasl þarf að bíða aðeins lengur en venjulega! Ég á nefnilega mjög bágt með að hafa mikið drasl í kringum mig:) Hver hefði nú getað ímyndað sér það á mínum unglingsárum þegar þurfti bókstaflega að gera göng til komast út úr herberginu mínu!


Þetta gekk samt alveg ljómandi vel með góðri aðstoð frá ömmum og frænkum. Við erum samt mjög fegnar að hafa endurheimt bóndann aftur og Áru leið eins og hann væri bara að fara í tveggja vikna reisu en ekki einn og hálfan sólarhring, svo mikill var söknuðurinn og gott að Andri er ekkert að stefna á flugmanninn eða eitthvað slíkt;)


Ballerínan mín sem vill þótt ótrúlegt sé láta greiða sér svona fyrir balletttíma!


Glæsileg!


Magdalena heldur áfram að stækka eins og sést á þessum galla sem var fáránlega stór á hana fyrir stuttu!


Lena litla er farin að splæsa í bros og smá hjal á útvalda fyrir svona tæpri viku - erfitt að ná á filmu en þau eru alltaf að verða fleiri og fleiri;)


Flottar vinkonur í Sólarkaffi á Laugaborg (á erfitt með að venjast nýja nafninu Laugasól)