þriðjudagur, október 31, 2006

Er að fara að vinna á balli í kvöld...

Djúpa laugin verður fyrsta hálftímann! Voru krakkar sem eru í 8.-10. bekk ekki bara svona 5 ára þegar þetta var. Af hverju vita þau hvað þetta er? eða er kannski ekki svona langt síðan þetta var...

?

mánudagur, október 30, 2006

Ja hérna hvað er mikið sjónvarpsefni og það á mánudagskvöldi...

Ég er nú ekki þekkt fyrir að glápa mikið á sjónvarp en er búin að sitja límd við skjáinn núna síðastliðinn einn og hálfan tímann. Þrívíddarsónarpælingar greinilega aðalmálið þessa dagana, svo sem ágætt enda hefur maður velt þessu fyrir sér. Við ætlum hins vegar ekki í þetta þrátt fyrir að hafa velt þessu mikið fyrir okkur. Endanlega ákvörðun var nú bara tekin yfir þessum þáttum áðan...

Nú er Lífið fyrir fæðingu að fara að byrja og ég mæli með þeim þætti, magnað alveg hreint og minnir mann enn og aftur á hversu mikið kraftaverk þetta allt saman er. Ekki að það hafi eitthvað farið úr huga manni en samt ótrúlegt alveg...

Og já að lokum sáuð þið Omma "gamla" félaga okkar í Kastljósinu... greinilega fleiri LA peyjar að fjölga mannkyninu!

tjuss...

sunnudagur, október 29, 2006

Nú er ég loksins orðin almennilegur kennari...

Á þvælt leðurpennaveski (eins og Sóleveig var alltaf með) og er komin í almennilega klossa, svarta og smekklega. Margir hugsa nú að klossar séu lúðalegir en mínir eru það ekki! Ég var líka alin upp við það að eiga alltaf eitt par af klossum enda móðir mín mikil áhugamanneskja um góða klossa:) Ekki skemmir fyrir að þeir hækka mann töluvert og eru afar þægilegir.

Áfram klossar!

laugardagur, október 28, 2006

Lífs eða liðin?

Ég er hér og komin í helgarfrí, kærkomið. Sorry vinkonur í útlöndum sem voruð kannski farnar að hafa áhyggjur enda þetta eini miðillinn þessa dagana til að fylgjast með! Því ekki er maður duglegur í meilunum! Takk fyrir símtalið í gær Magga mín, frábært að heyra í þér og heyra fréttir af prímataprófessornum og að net sé á leiðinni.
Ég er búin að vera í smá robo Linda pakka undanfarna daga enda leiðsagnarmat og foreldraviðtöl á næsta leyti. Sem þýðir mikil yfirferð á möppum og verkefnum, leiðarbókum og ritgerðum en þetta er allt komið núna og einkunnir skjalfestar í excelskjal.

Á miðvikudaginn hefst síðan kærkomið vetrarfrí en það er afar mikilvægt fyrir bumbur og búendur:)

Í dag ætla ég að njóta þess að vera í fríi, slappa af, lesa bækur og sofa!
Knús Linda

laugardagur, október 21, 2006

Grænmetisæta?

Ég held að litla krílið sé hætt við að verða grænmetisæta, nú vill það bara egg, beikon og amerískar pönnsur í morgunmat. Ég skellti mér í það að matreiða þetta þegar ég vakanði að ganga tólf, afar ólíkt mér! Eins gott að þetta fari ekki að verða að vana. AFO var hins vegar ótrúlegar sáttur með þetta og ryksugaði íbúðina eins og stormsveipur í kjölfarið.

Annars er ég búin að fara í bíó núna tvo daga í röð, báðar myndirnar mjög góðar. Á fimmtudaginn fór ég á World Trade Center, mjög væmin bandarísk mynd en góð. Við systurnar komum út með tárin í augunum. Í gær sá ég síðan Mýrina og ég held að hún sé eitt það besta sem ég hef séð í íslenskri kvikmyndagerð. Gef henni mín bestu meðmæli.

En þá er ég farin í Kringluna, er það ekki annars eitthvað sem maður gerir á laugardögum?

föstudagur, október 20, 2006

Enn ein helgin...once again!

Verða komin jól áður en maður veit af! Og svo örugglega allt í einu mars:)

Skellti mér í lit og klipp áðan, fer alltaf á Línu lokkafínu í Hafnarfirði til frænku hans Andra og ákvað því að skella mér í Fjarðarkaup til að versla og vá hvað er gaman að versla í Fjarðarkaup! Það er bókstaflega allt til í Fjarðarkaup, að vísu aðeins dýrara en Bonni og Krónan en ódýrara en Hagkaup og ræninginn 10/11. Síðan var allskyns dót til að smakka, meðal annars sýrður rjómi í túpu, held það sé nú eitthvað fyrir Láru vinkonu! Spurning um að gera sér oftar ferð í Fjörðinn!

Helgin verður ljúf, Kringluferð, mommsa kemur frá Dublin og smá vinna á sunnudaginn.

Góða helgi, er farin að elda fylltar kjúllabringur...

miðvikudagur, október 18, 2006

Ég er svo duleg að láta dekra við mig...

  • Fer til kírópraktors aðra hverja viku
  • Fór í litun og plokkun í dag
  • Fór líka í nudd og maska í dag
  • Fer í klipp og lit á fös
  • Fer í jóga 1-2 í viku
  • Og á enn inni gjafakort frá AFO í dekurdag í Laugar Spa...
  • Plús að ég heimta oft aukanudd á kvöldin!

Ég kann þetta enda líður mér eins og Hollywood stjörnu..."uh nei ég kemst ekki fyrr en sex, þarf að hitta hnykkjarann minn og svo er ég að fara í andlitsmaska..." Þetta er ég þessa dagana!

Mjá mjá (svo ég taki stíl Álfrúnar síldar á þetta!)

Hitti einmitt LA gengið áðan + Ingu litlu, vantaði bara Regínu og Auði og svo auðvitað Samíu sem er týnd og tröllum gefin. Hvar ertu Samía?

þriðjudagur, október 17, 2006

Allt í ljómandi góðu standi...

sem eru auðvitað frábær tíðindi. Allt á sínum stað og eins og það á að vera hjá 20. vikna kríli í malla:)

Síðan vorum við svo heppin að ljósmóðurnemi fékk leyfi til að vera inni og þegar aðal- ljósan var búin með þetta reglubundna tjékk og Linda litla hætt með stressið og taugaveiklunina þá fékk neminn bara að æfa sig og gera allt saman aftur þannig að ég náði að njóta þess í botn. Þetta verður þá í fyrsta skiptið sem ég man almennilega eftir sónarskoðun!

Krílið var nú ekkert að sýna sig of mikið, krosslagðar hendur og fætur og í góðu tjilli!
Manni sýnist nú samt sem áður af prófílnum að dæma að andlitsfallið líkist nú eitthvað föðurnum...

Ég fór því og keypti mér eina peysu í gyllta kettinum svona í tilefni dagsins og já hef heldur aldrei borðað jafnmikið og í dag. Stress getur nefnilega alveg farið með matarlystina!

:)

mánudagur, október 16, 2006

Oh ég var svo fúl áðan, var alveg búin að setja mig í stellingar til að horfa á þáttinn Lífið fyrir fæðingu sem ríkissjónvarpið var með á dagskrá sem btw var bæði búið að auglýsa í Fréttablaðinu og Mogganum. Heyrðu nei nei þá hafa þeir bara sett vitlausa dagskrá í blaðið. Þetta er eftir viku...men hvað ég verð pirruð yfir svona!

Annars BIG day tomorrow þannig að það er bað og freyðingur og síðan beint í bælið!

Nighty night:)

laugardagur, október 14, 2006

Eins og flestir Íslendingar lögðum við hjónakornin leið okkar í IKEA í dag...

Ekki það að okkur vantaði eitthvað sérstakt heldur urðum við eða svona meira ég að svala forvitni minni yfir nýju búðinni sem á að vera þrisvar sinnum stærri en hin.

Strax á bílastæðinu veðjuðum við hversu marga við myndum hitta, ég skaut á 10, AFO 8. Niðurstaðan var 8 undir dómgæslu AFO en hann mínusaði tvo ranglega af mér!

Við komum samt auðvitað heim með smá í poka, mottu, pressukönnu og gjafapappír. Hver getur sleppt því að kaupa tiger gjafaumbúðir!

Það besta við þessa nýju búð var samt matarhornið sem var ekki í þeirri gömlu, þetta minnti mig óneitanlega á dvöl mína á Ítalíu en þangað fór ég ósjaldan og keypti mér Bilar besta sænska nammið að mínu mati og Ballerínukex. Þarna fann ég líka ekta sænskar bruður og gömlu góðu salt sílin:)

Einnig höfum við augastað á fallegum sófa með tungu en það hefur verið draumur minn í smá tíma. Ætla tjékka aðeins betur á honum á morgun.

Nýja IKEA hlýtur því ágætiseinkunn!

föstudagur, október 13, 2006

Þjófabjöllur voru það þá...

Eins og ég var nú búin að minnast á við einhver ykkar varð ég vör við nýja tegund af pöddum hjá okkur. En þeir sem þekkja mig vita að ég er með röntgenaugu þegar kemur að allskyns kvikindum. Hver man ekki eftir silfurskottunum gömlu góðu...

Ég bókstaflega þoli ekki svona meindýr en samt sem áður er ég alls ekki hrædd við þau heldur tek ég þau upp, tel lappir, fletti upp í bókum, á neti og trakka niður menn sem geta sagt mér eitthvað um pöddurnar. Nú má ekki halda að ég hafi lifað í pödduumhverfi allt mitt líf heldur byrjaði þetta allt þegar silfurskotturnar komu á Grunninn. Þá fór ég að verða svo vakandi yfir þessu.

Ég gróf sumsé upp mann á netinu sem heitir Erling og er skordýrafræðingur og fór að senda honum meil og spyrja ýmissa spurninga því ég var búin að ákveða að þetta væru pottþétt veggjatítlur sem væru að leggja húsið undir sig. Já ég veit, ég mála alltaf skrattann á vegginn en við hverju býst maður eftir óhappaárið mikla!

Nú síðan sendi ég nokkrar í greiningu sem ég var samviskusamlega búin að safna í box og í ljós kom að þetta eru svokallaðar þjófabjöllur. Aldrei hef ég nú heyrt á þær minnst en komst sem sagt að því að þær geta borist með vörum og ýmsu öðru. Og það þarf að eitra fyrir þeim svo þær fjölgi sér ekki og leggi húsið undir sig! Ok þetta er skárra en veggjatítlur en ég var nú svona meira að vona að þetta væru bara einhverjar gróðurpöddur en ekki einhverjir helv.... þjófar en þeir virðast sækja að úr öllum áttum þetta árið en eins og margur veit er búið að stela græjum, hátölurum og bretti úr bílnum okkar og gaskútnum af grillinu!

Við skulum vona að eitur á þjófabjöllurnar loki óhappahringnum en ég er búin að panta mann í jobbið kl. 14 á morgun.

Annars segi ég góða helgi!
-Ekki ráð nema í tíma sé tekið-

fimmtudagur, október 12, 2006

Núna eru heil fjögur ár síðan ég hóf nám í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands...

sem ég hélt að myndi alveg bjarga heiminum en nei það var ekki alveg minn tebolli og þess vegna er ég kennari í dag.

Nú ætla ég hins vegar aftur að leggja leið mína í ljónagryfjuna og smella mér í framhaldsnám. Stefni á að skrá mig í 7,5 einingu eftir jól, sem ég tek auðvitað í fjarnámi með kennslunni. Þetta verður örugglega stuð og heldur manni virkilega á tánum í fræðunum. Hvað er annars betra kennari sem vellur upp úr vitneskjan?

Nei maður spyr sig?

Annars er ég í yfirferð á verkefnum, 70 náttúrufræðipróf, 50 skiladæmi í stærðfræði og 25 útdrættir úr þjóðsögum!

miðvikudagur, október 11, 2006


Ég hef fundið fyrir loftbólum og litlum fiðrildum í mallakútnum undanfarnar 3 vikur...

Og í gær fundum við Andri lítið spark í lófann!

Ji hvað það var magnað:)

(smá blogg fyrir óléttuáhugasama)

mánudagur, október 09, 2006

Var að bóka flug fyrir AFO til NY þann 15. nóv...

Loksins, loksins kemst Andri í ferð án þess að vera með fótboltaskóna í bakpokanum. Hann ætlar að skella sér á fyrirlestra hjá Badiou og Zizek og um leið heimsækja og taka með sér heim hann Óskar sem býr í NY.

Mikið er ég glöð fyrir hans hönd að "fá" að fara í svona ferð en að eigin sögn hefur hann aldrei gert neitt vegna þess að hann hefur fastur með rembihnút á fótboltaskónum!

Það verða líka nokkrir listar með í för sem þarf að klára fyrir mig!

En ég fór einmitt í slíka ferð fyrir ári síðan og held að ég hafi aldrei skemmt mér jafn vel:)
Þessar tvær fóru nú aldeilis létt með að eyða nokkrum þúsundköllum!

Vá...aðeins að versla

sunnudagur, október 08, 2006


Nýtt æði hefur gripið um sig hjá mér...

Ristuð birkibeygla með hunangsskinku og osti, kókómjólk með og lítil súkkulaðikleina frá ömmubakstri í eftirmat!

Sparar fullt pening sem færi annars í Jóa kallinn:)

Og svo er þetta auðvitað alltaf til í frysti!

laugardagur, október 07, 2006

Ég átti frábæran afmælisdag í gær...

Hann hófst á því að við hjúin skelltum okkur á Gráa köttinn í bítið og fengum okkur amerískan morgunverð, pönnsur, beikon, egg og appelsínudjús, delicious svo ekki sé meira sagt!

Ég hafði síðan með dyggri aðstoð mommsu og Svövu bakað skúffuköku til að gefa krökkunum í bekknum mínum í tilefni dagsins. Þegar ég mætti síðan inn í stofu voru þau búin að skreyta töfluna, hengja upp veggspjöld þar sem stóð Linda 24 ára, setja borð í miðjuna með tveimur kökum, gosi, plastglösum og servíettum á. Sungu síðan fyrir mig afmælissönginn og gáfu mér rós og afmælispakka sem innihélt hálsmen sem var L úr semilíusteinum, körfu úr body shop með allskyns ilmdóti og belgískt konfekt! Er hægt að biðja um betri umsjónarbekk?

Um kvöldið buðum við síðan góðum hópi í rauðvín og ostabakka ala amma ostur, sem féll vel í gramið. Menn voru nartandi í gómsæta osta langt fram eftir öllu og sötruðu ljúffengt rauðvín með...

Í kvöld tókum við svo annan í afmælisdag og Ragna og Viðar kíktu í afganga og gáfu mér æðislega gjöf. Síðan skelltum við AFO okkur á Eldhús eftir máli í boði Hjalta K. og fengum okkur ljúffenga pizzu á Horninu á eftir. Fullkomið allt saman, sem hentar jú afmælisstelpu vel!

-Takk fyrir mig-

miðvikudagur, október 04, 2006


Ég fór á glowstick ball í gær...

Ekki bara að gamni mínu heldur fékk ég greitt fyrir að vera þar. Stuðið var mikið og svitinn mikill, ég var svona mest í því að opna hurðir og leyfa nemendum að fá sér ferskt loft...Scooter hljómaði dátt og gömul tónlist frá ca. árinu 1995 en þá var ég einmitt á sama aldri og þeir sem voru á ballinu. Nokkrar stelpur spurðu af hverju ég færi ekki út á gólf með þeim og dansaði af mér rassgatið...ég lét mér nægja glowstick armband og horfði á herlegheitin!

Ég er aftur farin að taka upp á því að nota endann á rúminu sem skrifborð (gerði þetta alltaf þegar við bjuggum bara í 14 fermetrum), Andra til mikillar mæðu, honum finnst ekkert gott að vakna með möppu undir lærunum! Mér finnst þetta hins vegar svo þægilegt því ég næ náttúrulega ekki nema rétt á hálfa lengdina af rúminu, síðan get ég nýtt hitt fyrir allskyns dót. Gekk samt kannski aðeins of langt þegar ég var að fara yfir stærðfræðipróf uppi í rúmi og klukkan var að ganga eitt og ég var orðin alltof þreytt og með úfið hár, setti blýant í hárið til að halda því frá og veit svo ekki fyrr en ég vakna morguninn eftir með blýantinn stingandi út um allt og blöðin á víð og dreif...kannski aðeins of mikill metnaður svo ég tali nú ekki um vanvirðinguna fyrir heilagleika svefnherbergisins!

mánudagur, október 02, 2006


Það er sko aldeilis meira en nóg að gera á starfsdögum kennara...

ég var með þrjú verkefni á dagskrá hjá sjálfri mér sem ég var viss um að geta klárað fyrir fjögur...ég kláraði ekki eitt af þeim!

Reyndar var námskeið strax í morgun fram að kaffi, síðan fundur, svo annar fundur, svo einn enn fundur, síðan smá spjall út af þessu máli, annað smá spjall út af hinu málinu, klukkan var langt gengin í þrjú þegar ég gat farið að skipuleggja kennsluna, fara yfir próf og semja próf!

Já maður leggur mikið á sig í kennarastarfinu EN það er auðvitað fyrir öllu að þetta er alveg hrikalega skemmtilegt og ég gæti ekki hugsað mér annað starf í augnablikinu. Ég er ekkert að kavrta bara aðeins að ítreka hvað maður leggur á sig til að eitthvað nám fari fram hjá blessuðu börnunum...svo ég tali nú ekki um alla þjóðþekktu og frægu einstaklingana sem lærðu skólaljóðin hjá grunnskólakennara ja tja kannski bara ekki svo ólíkum mér! Hafiði ekki annars tekið eftir auglýsingunum frá Kennarasambandinu og ef svo hvað finnst ykkur um þær?

Í matinn í kvöld: Stællinn!

tjuss...