þriðjudagur, apríl 29, 2008

Við fórum í afmælisdinner hjá henni yndislegu móður minni sem varð 46 ára í dag og lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 27!

Ég er búin að vera ótrúlega dúgleg að dúndra inn myndum undanfarið og skrifaði meira að segja við þær allar rétt í þessu enda kerfi 123 alltaf að lagast aftur með degi hverjum.

Þegar minnist á það hvað móðir mín er ungleg dettur mér í hug skemmtilegt atvik sem átti sér stað hérna í stigaganginum fyrir stuttu:

Kona á 1. hæð: Linda hvað gerir maðurinn þinn?
L: Hann vinnur í Grandaskóla
Konan: Nú ok en hann er múrari er það ekki?
L: (Hló í huganum þegar ég ímyndaði mér AFO í múraragallanum) uh, nei þú hlýtur að vera að tala um tengdapabba minn!

Já svona eru þetta nú mikil unglömb þessir foreldrar okkar.

Annars vorum við að fá okkur bonsai tré í tengslum við áhuga AFO á Zen og Japan. Ég hef nú ekki verið þekkt fyrir að halda lífi í mikið fleirum en sjálfri mér og jú Áru litlu þannig að það verður spennandi að sjá hvernig litla 5 ára tréð okkar dafnar hérna á Laugarnesveginum en við sáum einmitt eitt 40 ára inni í Blómaval - einmitt 40 ára!

overandout - föstudagur á morgun og útborgun:)
Nú liggur nýr kjarasamningur kennara fyrir...

...samkvæmt honum munu grunnlaun mín verða 279.271 kr þann 1. janúar 2009, svo framarlega að ég haldi áfram að vera umsjónarkennari og fjöldi nemenda í mínum bekk verði áfram yfir tuttugu.

Þessi hækkun nemur rúmum 55.000 kr sem telst bara ágætt á tímum sem þessum. Samningurinn mun svo gilda í eitt ár og þá verður samið aftur og þá verður vonandi enn meiri hækkun því þessi samningur er í raun að stórum hluta gerður til að jafna laun okkar við sambærilegar háskólamenntaðar stéttir.

Með smá yfirvinnu ætti maður því að komast yfir 300.000 kallinn...

Maður sleppur þá kannski bara við að vinna eins mikið og maður áætlaði í "sumarfríinu"

En það eru góðar fréttir að mál kennara séu loks í farvegi og vonandi munu þessi rúmu 130 stöðugildi sem eru auglýst í Reykjavík fyllast fyrir næsta vetur:)

sunnudagur, apríl 27, 2008

Leikhúsdaman...

Komin í sparigallann, gullskóna og á leið í leikhús að sjá Skoppu og Skrítlu:)

Og ekki skemmdi fyrir að fá að sitja í fanginu á sjálfri Skoppu! (dáldið heitt í salnum þannig maður var rjóður í kinnum)

Áran okkar stóð sig eins og hetja í fyrstu leikhúsferðinni og sat stillt og prúð í 40 mínútur og klappaði og dansaði með. Ótrúlega skemmtileg ferð og ekki síður fyrir foreldrana, ömmuna, langömmuna, frænkuna og frændann sem fóru með!

laugardagur, apríl 26, 2008


Ég var að glugga í gamlar bloggfærslur...

síðan 2004! Tölum bara ekki um hvað tíminn líður hratt...

Þar rakst ég á eftirminnilegt ljóð í kommentakerfinu í tengslum við heitar umræður um Laugarnesið og Breiðholtið:


Á Breiðholtshæð er allt býsna hrátt
búa þar margir sem hugsa smátt
og þar eru allir þunglyndir og dán
því þetta er eitt mesta skítatán.

Í Breiðholti búa bara barbarar
en sem betur fer eru þeir ekki alls staðar
því þeir berjast með skóflum og bíta mann úr næstu klíku
ég bið þig Drottinn að geyma mig frá slíku.

Hvergi er hæð án dals.....

-AFO-


Það skemmtilega er að í dag, fjórum árum síðar eru tveir af þessum ofurbreiðhyltingum búnir að festa kaup á íbúð hér í Laugardalnum - segir það ekki allt sem segja þarf!

Ég setti inn nýjar myndir áðan, enn allt í smá rugli þarna á 123 og núna þurfið þið að velja 4 til að komast á nýjustu albúmin - ú fatt it.

Bendi siðan á nokkrar góðar hérna fyrir neðan síðan á miðvikudaginn. Þarf að ritskoða nokkrar áður en þær fá að fljóta inn á vefinn;)

föstudagur, apríl 25, 2008

Nokkrar myndir frá frábæru hip hop kvöld dj moonshine á barnum...

við foreldrarnir tókum skyndiákvörðun, fengum næturpössun og buðum í teiti, héldum síðan down town...

...sem við höfum ekki gert í háa herrans tíð og mikið var nú endalaust gaman hjá okkur enda í frábærum vinahópi. Síðan var haldið heim undir morgun og staldrað við á devitos eins og gengur og gerist.

Daginn eftir voru síðan allir komnir með hor í nös og ekkert alveg jafnhressir en það er nú bara þannig.

Góða afslöppunarhelgi framundan...

miðvikudagur, apríl 23, 2008


Oh hvað ég elska þessi fimmtudagsfrí...


...smá fúlt samt að splæsa 1. maí og uppstigningardegi saman en það sleppur svo sem. Þessi frí færa mann ótrúlega nálægt sumrinu góða.


Loksins er 123.is að komast í lag og núna ættu allar myndir að vera í réttri röð fyrir þá skipulögðu. Tjékkið hér


Við fjölskyldan ætlum að eiga rólega helgi saman enda búið að vera hálfgert útstáelsi á okkur alveg síðan í flutningunum, mikið af afmælum og allskyns boðum. Reyndar ætlum við að gera okkur ferð á Skoppu og Skrítlu á sunnudaginn og það verður án efa mjög vinsælt hér a bæ.


Hvernig er það annars með ykkur hönnunar - og smíðakennara sem lesið þessa síðu, langar ykkur ekki að koma og kenna í frábærum skóla???


Gleðilegt sumar allir saman:)

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Hér er ég stödd í Hrútafirðinum....

tannburstalaus!
Hvað gera bændur þá? Jú gott að hafa litlu systur með og hef ég notið góðs af hennar tannbursta hingað til. Ég veit ekki hversu ánægð hún er með það...

Ég sakna klónanna gífurlega en skemmti mér bara nokkuð vel enda vandfundinn skemmtilegri félagsskapur en 12-13 ára "gelgjuspólandi börn"

Í morgun synti ég 30 ferðir í 25 metra lauginni, skellti mér svo í pott og gufu. Enginn Laugardalslaug en sleppur alveg hreint vel.

Síðan hef ég komist að því hvað ég elska góðan mat og öll sætindi. Finnst afar óheppilegt að vita aldrei hvað er í matinn og geta aldrei fengið mér eitthvað sætt á kvöldin en ég hef gott af þessu!

Bið að heilsa eftir Inga T.

sunnudagur, apríl 13, 2008


Ég setti inn slatta af myndum áðan...


allt auðvitað í vitlausri röð og enginn texti undir myndum því ég nennti ekki að setja hann inn þegar kerfið er enn svona í rugli en þið hljótið að geta látið myndirnar tala sínu máli...


Reykir á morgun - þar er sundlaug og stefnan er að synda km á dag, einnig verður þetta sælgætislaus vika - erfitt fyrir grísinn en það hlýtur að bjargast!


Ein mynd af litlu fröken krambúleruð sem datt á róló en er mun mun skárri núna. Hún verður góðu yfirlæti hjá pabba sínum og ömmu á meðan en mikið verður nú gott að knúsa hana þegar ég kem til baka.

Síðan erum við loksins komin með "black out" gardínur en pabbi bjargaði því í dag. Núna þarf maður ekki að vakna við ofbirtu alla morgna. Annars passar þetta víst ekki við "Zen" prógrammið sem Andri er í en það er önnur ella;)

fimmtudagur, apríl 10, 2008


Ég var að koma af árshátíð hjá 7. bekk...


þar dansaði ég við final countdown, hey hey hey we say ho ho ho og fleiri góða smelli. Venjulega finnst mér ég svona frekar töff á dansgólfinu en þegar ég dansa með 13 ára þá er ég ekkert voðalega töff, meira svona eins og gömul kelling enda eiga kennarar ekkert að vera töff þegar þeir dansa...síðan er ég að fara með þeim í skólabúðir í næstu viku. Mun dvelja í 5 daga í Hrútafirði með hátt í hundrað 13 ára börnum. Klónin mín tvö hljóta að spjara sig án mín í nokkra daga:)Í skólabúðunum er ekki leyfilegt að vera með sælgæti eða síma. Það mun reynast nammi- og símakynslóðinni afar erfitt því þau "þurfa" jú að hringja svo mikið! Við erum líka búin að segja þeim aðeins frá nammihundunum sem verða á staðnum og munu þefa upp sælgætið, nokkrir spurðu hvort að lögreglan yrði líka - litlu skinnin;)


Best að koma sér í bæli - held að AFO sé veikur, hann er kominn upp í rúm og var sofnaður á sófanum þegar ég kom heim!


Set eina hérna með af okkur Sóley á balli í Laugalæk - þarna vorum við sko alveg að meika það;)

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Við Andri erum að fara að gæða okkur á einum mafíósa eins og við köllum þær, Godfellas pizzurnar - bezti kreppumatur í heimi! Mæli með þeim - 359 kall í Bonna og hefur ekki enn hækkað...

Annars erum við bara búin að vera að týna gjafir frá Geislafólkinu upp úr töskum og það er nokkuð ljóst að Ágústa Rut getur verið í nýju dressi upp á dag fram að næstu jólum. Og smekkleg er hún amman kaupóða því allt er þetta alveg dásamlega falleg og flott föt. Ekki amalegt að fá svona sendingu og örugglega ekki erfitt að missa sig í barnafatakaupum í henni Ameríku.

Lánastúss á morgun, tannlæknir og fleira leiðindastúss. Hlakka mikið til helgarinnar.
Í dag er síðasti dagurinn í svokallaðri púslpössun...

Ég er heima núna því ég er í gati, Andri mætti seinna í morgun, Ragna kemur um eitt (Lára var líka alveg til í að koma), mamma kemur upp úr þrjú...öll púsluspilin passa saman og þetta gengur upp. Takk takk allir reddarar:) Ótrúlegt hvað barnið tekur þessu vel enda á heimavelli, það skiptir náttúrulega alveg höfuðmáli.

Amma Flóró ásamt eiginmanninum lenti í morgun og við ætlum að kíkja í Geislann seinnipartinn í dag. Ég veit að þar leynast ýmsar gjafir fyrir Áru litlu en ef ég þekki ömmuna rétt hefur hún ekkert slakað á í búðunum:) Við hlökkum mjög mikið til að sjá þau enda þrjár vikur alveg rosa langur tími.

Plön mín varðandi leikskólann gengu ekki upp, maður þarf að vinna lengur en tvo mánuði til að barnið komist inn - því miður. Ekki það að við erum komin með dagmömmu fyrir haustið en það er bara svo skrambi dýrt miðað við leikskólann, getur munað hátt í 30.000 kr. á mánuði og það er alveg slatti á krepputímum sem þessum.

Núna sefur barnið og ég ætla að slappa af áður en ég fer að leggja fyrir eitt stykki próf klukkan eittt.

ps. Ekki vera pirruð þó að myndirnar séu ekki í réttir röð á síðunni hennar áru og enginn texti undir - enn er einhver uppfærsla í gangi en ég lofa að halda áfram að dæla inn myndum af blómarósinni og foreldrum hennar:)

mánudagur, apríl 07, 2008

Nokkrar myndir úr afmælinu hans Franklíns
Ára fékk sér smá snarl áður enda mikið matargat

Franklín og Ágústa Rut góð að leika
Klára elskaði leikherbergið hans Franklíns
Afmælisbarnið og mamman's
Kristín María litla monsa að spekúlera í næsta höggi en hún passaði mjög vel upp á Ágústu Rut vinkonu sína:)

laugardagur, apríl 05, 2008

Dáldið vesen sko...

vorum að fá nýja svakalega flotta myndavél þannig að núna getum við farið að taka almennilegar myndir en þá er verið að uppfæra kerfið á síðunni hennar áru þannig að ég kem engu inn - er illa við að setja mikið á svona opna síðu þannig að ég verð bara að bíða róleg - smelli kannski einhverju inn um helgina.

Annars var ég að eigin mati að fá snilldarhugmynd varðandi leikskólamálin - er svona að melta þetta og getur bara vel verið að ég láti til skarar skríða!

Vorum að koma af Baðstofunni með leikhúsfélögunum okkar og enduðum síðan af hefð á Eldsmiðjunni. Smá spes leikrit en ágætis afþreying eða gjörningur jafnvel...

Á morgun er afmælisboð og almenn slökun eins og helgar eiga að fela í sér og þá sérstaklega sunnudagurinn en þá langar mig mest að gera bara ekki neitt nema hangsa með klónunum mínum tveimur....

góða helgi

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Aprílgabbið...

Nemandi: Linda þú veist kannski ekki að ég er búinn að gabba þig!
Ég: Ha, hvernig þá?
Nemandi: Nú með að láta þig halda að ég sé búinn að gabba þig!

Einmitt - þetta var gabb dagsins (Einn úr þinni familíu Marghuga)

Annars er ég að gefast upp á sælgætissýkinni í sjálfri mér. Af hverju getur ekki komið sælgætiskreppa og allt nammi gufar upp...

...þá þyrfti ég ekki að eyða öllum kvöldum í berja á fingur mér og reyna eftir að fremsta megni að fá mér ekki sætindi - tekst svo gott sem aldrei!