fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Dóttir okkar er farin að segja TAKK - enda kurteis og vel uppalin stúlka. Við náðum þessu tvisvar á video en annað varð of dökkt því við gleymdum að kveikja meira ljós...greinilega enn amatörar í þessu...

Hérna heyrist þetta þó nokkuð skýrt tvisvar...

miðvikudagur, nóvember 28, 2007


Nú er Ára litla í fyrsta skipti með hundleiðinlegan hósta...


...barkahósta


Hún svaf samt ágætlega í nótt eftir að við vorum búin að fara með hana á læknavaktina því hún hljómaði eins og hún væri að kafna.


Ég var oft með svona barkahósta þegar ég var lítil og þá eyddum við mamma ófáum skiptunum inni á baði sem var búið að breyta í gufu með því að láta sjóðandi vatn renna í baðið. Þarna sátum við og spiluðum oft og notuðum óhreinatauið sem borð. Svona var nú mamma mín góð við mig þegar ég var lítil og veik og svakalega hefur hún verið þolinmóð því ég var frekar oft veik.


Ég vona að ég geti verið jafngóð við áru litlu en við prófuðum einmitt að setjast inn í gufu um miðnættið og henni leið miklu betur.


Í dag er hún hitalaus og öllu hressari, við skulum vona að þetta hverfi síðan bara jafnsskjótt og þetta bar að.


Set eina af henni hérna þar sem hún er að prófa nýju sturtuna í Geislanum en Geislahjúin eru loksins komin með sturtu eftir áralanga bið:)


Síðan eru komnar nýjar myndir á síðuna hennar Áru kláru...

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

ég er búin að vera dáldið mikið á þönum...

frekar mikið að gera í vinnunni, semja próf, leggja fyrir próf, fara yfir próf, tala við foreldra, siða nemendur til, fara á námskeið, skipleggja, flokka, raða, líma og já skipuleggja...

síðan eru það blessuð jólakortin...þau hlaupa á hundraði þetta árið takk fyrir! Er samt komin með afar góða lausn með aðstoð góðrar manneskju;) Þannig að jólakortin eru komin á hreint og mikið er það nú gott fyrir svona skipulagsfrík eins og mig. Nú er bara að hefjast handa!

Vikan þeytist áfram og áður en við vitum af verðum við sest niður í Geislanum með hamborgarahrygg í annarri og jólapakka í hinni. Já við fjölskyldan verður sumsé í Geislanum á aðfangadag þetta árið og verður afar skrýtið að fyrir litlu Lindu að vera að heiman á jólunum sem hefur barasta aldrei áður komið fyrir en svo skiptum við bara á næsta ári eða já höldum okkar eigin sem ég tel reyndar afar ólíklegt, maður tekur ekki sénsinn á að klikka á jólasteikinni...ekki strax allaveganna

laugardagur, nóvember 24, 2007

Ég lagði loksins leið mína í Toy´s R us...

til þess að kanna hvort þeir seldu hefðbundna bolta en viti menn í öllu úrvalinu hjá þeim var ekki til einn venjulegur bolti. Ég keypti samt 100 leikbolta eins og voru alltaf í boltalandi, plús hristur og eina barbí körfu. Allt of sumt og borgaði rétt um 2000 kallinn fyrir þetta.

Síðan skoðaði ég aðeins nýju búðina the Pier og þangað þarf ég að fara aftur án barns, margt og mikið fallegt að skoða, einkum og sér í lagi ef maður væri að innrétta nýtt heimili...

Núna eru laugardagsþrifum lokið og leið okkar liggur í læri í Geislann.

tjúrílú

föstudagur, nóvember 23, 2007

og það er bara komin helgi...

gott að fá helgi, við systur, dóttir og afo vorum að borða föstudagspizzuna og erum í rólegheitunum, með djúpur, súkkulaði og kók. AFO reyndar að skreppa á körfuboltaæfingu því hann er að fara að keppa á lau...

um helgina er tilvalið að byrja að skrifa jólakort og jólaskreyta jafnvel pínkupons

Góða helgi

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Verður maður ekki að grobba sig...

af barninu sem fór í 8 mánaða skoðun í dag og er orðin tæplega átta og hálft kg og 70, 7 cm og er því næstum hálfnuð í móður sína.

Hjúkkan okkar hafði á orði að það væri eiginlega of ótrúlegt hvað barnið héldi sig flott á kúrfunni en ég hef aldrei skilið mikið í þessum kúrfum enda aldrei nokkurn tímann fylgt þeim en já gott að okkar barn er svona mikið kúrfubarn...síðan sýndi hún líka nokkur góð trikk sem við vorum búin að æfa vel;) Jæja eru ekki allir komnir með æluna upp í kok af stoltu mömmunni??

Sem ætti líka að vera farin að sofa fyrir langa löngu...

mánudagur, nóvember 19, 2007

Það sem gerist ekki á meðan ég er í vinnunni...

í gær las ég bloggið hjá góðvinkonu minni henni Hörpu og komst að því að dóttir hennar hafði sofið til ellefu já til ellefu, rúmlega eins og hálfs árs barn til klukkan ellefu takk fyrir! Ég krossa mig nú að mitt barn sofi til sjö, átta og þá er ég glöð.

Í nótt var Ára síðan aðeins að trufla mömmu sína, fyrst um fjögur, síðan hálf fimm og svo loks hálf sex...þá sagði ég hingað og ekki lengra og sendi pabbann á hana og sagði honum bara að gefa henni að drekka eða eitthvað því ég yrði að fá að sofa til fimm mínútur í sjö og þá biðu mín foreldrar í lange bane....

...jú jú barnið sofnaði þarna aftur rúmlega sex og Andri vaknaði síðan við hana að babla gi gi gi eins og hún gerir svo oft nema hvað að þegar hann tók hana fram og leit á klukkuna var hún fimm mínútur í ellefu! Ég endurtek fimm mínútur í ellefu, ég bara spyr af hverju gerðist þetta aaaaaldreiiiii þegar ég var í orlofi????? Plús það að barnið byrjaði líka að sýna hvað hún er stór sem ég er nota bene búin að vera að æfa markvisst með henni frá fæðingu....

Annað hvort er ég búin að leggja svona svakalega góðan grunn eða bara alls ekki nógu fær í uppeldinu;)

En núna er ég hins vegar rosa þreytt eftir daginn og viti menn á eftir að skipuleggja aðeins fyrir morgundaginn...

ciao a tutti

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Helgin...

Jólahlaðborð á Grand Hótel...rifjaði upp hvernig er að fá sér fleiri en 1-2 rauðvínsglös og já smakkaði hreindýr í fyrsta skipti!

NASA - tjékkaði á "bænum" eftir langa pásu, guð má vita hvenær ég fór síðast í bæinn en þar hafði lítið breyst nema að maður sá voða voða miklar lillur, ponsulitlar stelpur

Almennur hressleiki ekki ýkja mikill á laudardaginn en staulaðist í kaffboð til ömmu með áruna með mér til halds og trausts

Buðum Möggu með Róberti í kvöldmat áður en þau héldu í óperuna

Og lognaðist út af í sófanum

Svaf síðan til níu því dóttirin ákvað að vera almennileg

Tók helgarþrifin, borðaði bakkelsi með tengdó og fór í göngutúr með afo og áru í koló og keypti harðfisk

Endaði síðan daginn á hangikjeti á Grunninum sem var voða jólajól og ætlaði að byrja að skrifa jólakort í kvöld því þau verða ansi mörg þetta árið...

en er svo bara í letikasti
og er að hugsa um að fara að sofa því á morgun eru foreldraviðtöl - 24 talsins í einni bunu...

p.s skrifaði fyrst jólahlaðborð á Grand Rokk og hló auðvitað upphátt því ég elska mismæli og misskrif...

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Verð að deila með ykkur hvað litla stelpan mín er dugleg að standa upp...

Sýndi mér þetta þrisvar sinnum í dag og var sko ekki lítið montin með sig:)

mánudagur, nóvember 12, 2007

Ég var að frétta það rétt í þessu að í dag hefði dóttir mín gert sér lítið fyrir og skriðið að stól og staðið upp alveg sjálf!

Svona getur maður nú misst af miklu þegar maður er í vinnunni en engu að síður dugleg skottan:)

laugardagur, nóvember 10, 2007

Litla konan er búin að fara í fyrsta skipti í klippingu...


Ekki seinna vænna en að snyrta aðeins lokkana:)
Stóð sig alveg þrælvel!
Ein tekin rétt í þessu...glöð að hafa báða foreldrana heima og segir í sífellu mama, baba, mama, baba....
Og búin að krækja sé í Zizek!

Nýtt fyrirkomulag hjá okkur um helgar, ég sef út á laugardögum og AFO á sunnudögum:) Ástæðan fyrir því að hann valdi sunnudaga er að það er svo svakalega góð dagskrá á ruv á laugardagsmorgnun....:) Barnið svaf svo til að verða hálf níu og hefur sofið einstaklega vel eftir að móðirin fór út á vinnumarkaðinn - týpískt!

föstudagur, nóvember 09, 2007

Ég geri ráð fyrir að 100.000 lesandinn líti við í dag...

Ég ætla biðja hann að kvitta fyrir sig en teljarinn er neðst til hægri á síðunni;)

Vegleg fataúttekt í boði!

Góða helgi vinir.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Alltaf stuð í miðbænum...

...eins gott að við búum í steinhúsi!

Annars spilaði ég póker við tvo drengi í 7. bekk í dag og komst að því að ég er bara helvíti góð, sankaði að mér öllum millunum;)

Ég sló síðan um mig með góðum spilagaldri...alltaf stuð í vinnunni.

Fyrsta vinnuvikan að enda og var alveg þrælskemmtileg. Maður er svona að koma því inn hjá maurunum að stærðfræðin er í raun alveg þrælskemmtileg....

tjuss tjuss...

miðvikudagur, nóvember 07, 2007


Back to work...


...og það er barasta voða fínt. Skrýtið auðvitað að vera að heiman allan daginn en það venst auðvitað eins og allt annað. Dáldið þreytt eftir fyrsta daginn og sofnaði upp úr tíu í gærkvöldi! Aðeins að venjast því að geta ekki lagt mig á daginn eins og undanfarna 8 mánuði!


Unglingarnir voða voða hressir og skemmtilegir og ég ekkert búin að missa "tödsið" eins og ég gat alveg eins átt von á;)


Ég á samt von á því að ég byrji að drekka kaffi núna enda kannski ekki seinna vænna! Maður þarf eiginlega nauðsynlega að koffa sig upp fyrir 30 stærðfræðitíma á viku!


Ára litla líka orðin átta mánaða og ég er að fara að henda inn nýjum myndum og setti inn nýja færslu í vefdagbókina...nú er spurning hvort pabbinn haldi uppi "20 myndir á dag standarnum" í orlofinu:)


Þar til næst....

laugardagur, nóvember 03, 2007

Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að barnið væri eingetið!
(Næst verður það strákur, lítill, nettur og lágvaxinn og aaaaaalveg eins og mamma sín;))

En yfir í annað...ég er alveg svakalega södd eftir dýrindis brunch ala Heiða og Daði, held ég verði bara södd fram í miðja viku - þvílíkar kræsingar!