fimmtudagur, október 29, 2009

McDonalds!

Sem mikill aðdáandi og jafnvel fyrir ostborgarans sakir varð nafnið skyndilinda til þá kemur mér á óvart hvað ég græt það lítið að keðjan sé að hætta, maður heyrir af fólki sem ætlar að taka kveðjumáltíð og fréttir af röðum eftir öllu bílastæðinu. Ætli maður verði ekki að skella sér allaveganna á einn ostborgara og flurry á morgun.

miðvikudagur, október 28, 2009

Í Laugarnesinu er bezt að búa!

Ég fer fótgangandi í vinnuna og Ágústa Rut er í leikskóla í 2 mín göngufæri við mig. Eftir vinnu í dag gat ég svo rölt í fiskbúðina og keypt góðan fisk, komið við í Frú Laugu og keypt nýuppteknar íslenskar afurðir og frosið hakk fyrir morgundaginn, svo ég tali nú ekki um að koma við í bakarí-inu og kaupa kúmenbrauð á tilboði.

Nú ef ég hefði verið í stuði hefði ég líka getað kippt einu rósabúnti úr blómabúðinni sem er við hliðina á bakaríinu og látið klippa á mig topp í leiðinni á hárgreiðslustofunni.

Á morgun skokka ég síðan út í sundlaug og fær frítt inn sem starfsmaður Reykjavíkurborgar og hleyp frítt um fallega Laugardalinn.

Allt þetta án þess að nota bílinn! Og ég spyr: er hægt að biðja um það betra?

Lifi LA

Væri auðvitað bezt bezt bezt ef við myndum losna við %$&$%&% 10-11 búðina við Laugalæk og fá einhvern góðan kaupmann á horninu en það kemur!

þriðjudagur, október 27, 2009

Matur í vetrarleyfi...

Föstudagur: Sláturveisla í Jónsgeisla með sviðasultu og öllu saman

Laugardagur: Kjötsúpa með Álfi og co.

Sunnudagur: Kjötsúpa með STÓRFamilinski

Mánudagur: Sviðakjammaveisla á Grunninum

Þriðjudagur: Eldsmiðjutilboð

Þjóðlegt en í senn nútímalegt - þannig á það að vera:)

...og nú byrja ég að telja niður í jólafrí
Hlaup

Síðan 8. september höfum við nokkur í vinnunni hlaupið tvisvar í viku, við hittumst 6:45 við Laugardalslaug og leggjum af stað saman og síðan fer bara hver og einn á sínum hraða. Við hlaupum alltaf tæplega 6 km en lengra náum við ekki nema við færum að mæta fyrr. Þetta er ótrúlega hvetjandi kerfi, bæði upp á að mæta á staðinn, maður veit af hinum sem mæta og rífur sig þá frekar upp og síðan er gott að hafa fleiri í kringum sig að hlaupa upp á keppni og hraða eða það svínvirkar í það minnsta fyrir keppnismanneskju eins og mig! Skólastjórinn hefur staðið sig best mætingalega séð hingað til og ekki misst úr skipti.

Það sem mig bráðvantar núna er hins vegar púlsmælir með innbyggðu GPS en slíka græju ætlar hann Atli frændi minn að redda mér að utan á spottprís. Í dag t.d ákváðum við að hlaupa í 60 mín eins langt og við gætum. Með græjunni hefði þetta verið snilld, ég hefði getað sett upp prógram um það hvernig ég myndi vilja hlaupa þetta og hversu langt og svo myndi ég bara fylgjast með en í staðinn var ég með úrið mitt og bara ca. þetta út - ekki eins spennnandi en virkaði ágætlega.

Ég hlakka til að fá græjuna í hendur

mánudagur, október 26, 2009

Nú er aðeins einn dagur eftir af vetrarleyfinu...

og to do listinn sem ég var búin að búa til í huganum hefur ekkert minnkað. Kannski setur maður sér alltaf of há markmið fyrir svona vetrarleyfi, ég sá t.d. fyrir mér að ég myndi bera fullt af bókum niður í geymslu og breyta og betrumbæta aðeins í skenknum í stofunni, eins sá ég fyrir mér að taka fataskápinn okkar Andra í nefið, skrúbba veggi í eldhúsinu og sótthreinsa íbúðina. Einnig ætlaði ég að fara yfir próf og verkefni til að eiga það ekki eftir eftir vetrarleyfi en ég er búin með einn bekk og það hefur lítið sést af þessum sótthreinsunum!

Í staðinn er ég samt búin að gera ótrúlega margt skemmtilegt eins og að hitta góða vini, slappa af og sofa ótrúlega mikið og vel. Og versla barnaföt, það virðist vera einhver árátta þessa dagana en nú segi ég stopp, barnið á feikinóg af fötum sem sannaðist best í vor þegar ég þvoði lítið sem ekkert í þrjár vikur (út af undirbúning v/brúðkaupsins) og alltaf átti hún spjör til að fara í.

Síðan er Áran okkar orðin svo mikil kúrurófa, allaveganna þessa helgina, kemur til okkar á morgnana og vill kúra lengi og við vonum auðvitað að þetta sé eitthvað sem koma skal.

Í kvöld er hins vegar kjammaveisla á Grunninum og ég er komin með vatn í munninn - namminamm

föstudagur, október 23, 2009

Mögnuð gjöf var að berast okkur LA-búum...

30 hluta verkfærakassi en hérna á heimilinu hefur ekki verið til svo mikið sem eitt skrúfjárn! Þannig að alltaf þegar eitthvað er að er hringt í pabba eða Lottó og þeir koma með "kittin" sín og græja hlutina. Afar hentugt að fá alltaf handlagna menn í málið en nauðsynlegt að geta græjað þetta stundum án aðstoðar en það var að sjálfsögðu hann faðir minn sem færði okkur kóssið og á miklar þakkir skilið:) Andri er hæstánægður með þetta og er að prófa að setja allskyns skrúfur og dót saman.

Aldeilis góð byrjun á vetrarleyfi!

Þrammaði í nokkrar búðir með henni tengdamóður minni í dag, við saman erum hættulegt combó þegar kemur að verslun og mikið er ég fegin að Kammakarlo búðin er lengst í burtu, annars væri buddan ansi mikið léttari og létt er hún.
Vetrarleyfi...

eru afar kærkomin og ég dýrka þau. Kannski ekki jafnhentug fyrir alla en frábær fyrir kennara eins og mig. Fimm dagar (með helginni) til að hlaða batteríin og gíra sig upp fyrir seinni helminginn fram að jólum. Það eru samt engin sérstök plön fyrir dagana enda Andri ekki í fríi en samt sem áður er margt á döfinni eins og nudd, litun og plokkun, kjötsúpuboð, matarboð og fleira skemmtilegt.

Verst að ég þjáist af afar mikilli ljótu þessa dagana, búin að vera spurð oftar en einu sinni að því hvort ég sé eitthvað veik, svo föl í framan og síðan hvort ég sé með einhvern vítamínskort því hárlosið þekur bakið mitt (ég veit Sóley hvað þú hugsar) en það er samt ekkert að mér, bara skammdegisljóta sem verður hresst upp á í dag með nuddi og lit og plokk. Hélt að ég myndi brjálast úr gleði í gærkvöldi yfir fríinu en ég gerði það einhvern veginn ekki, fór bara fáránlega snemma að sofa enda einhver uppsöfnuð þreyta í mér. Síðustu 9 vikur hafa nefnilega einkennst af aukavinnu hverja einustu viku, alltaf eitthvað auka sem ætti öllu jafna ekki að vera þannig að þessi vika var sú fyrsta síðan 17. ágúst með eðlilegu vikuprógrammi og þá verður maður oft bara fjandi þreyttur. En úr því verður bætt með góðum svefni og afslöppun um helgina.

Mér finnst svo leiðinlegt að vanrækja bloggið, hef í rauninni mun meira gaman að því en facebook, elska að lesa gamlar færslur og skoða hvernig maður breytist í gegnum skrifin. Ég tími bara ekki að sleppa hendinni af því.

Fleiri myndir hafa síðan bæst í október albúm á síðunni hennar Áru kláru. Muna eftir gestabókinni!

Góða helgi!

föstudagur, október 09, 2009

Ég ætla að eyða helginni með eiginmanninum í Skálholti...

þegja og tæma hugann, mikið held ég að það verði notalegt, enginn sími, ekkert net, engin vinna, enginn þvottur, engin eldamennska og ekkert bögg heila helgi! Nauðsynlegt hverjum manni.

Þegar heim verður komið LOFA ég bloggfréttum og myndum fyrir myndaþyrsta aðdáendur.

Hafið það gott um helgina.