föstudagur, febrúar 29, 2008


Ég gerðist svo dugleg að setja inn hátt í 40 nýjar myndir hjá henni litlu Ágústu Rut. En amma hennar hún Rut hefur verið iðin við myndatökurnar á daginn þegar foreldrar vinna af sér rassgatið! Njótið vel:)

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Á lífi...

eftir eina mestu törn sem um getur!

Ótrúlegt að þann 3. janúar fórum við og skoðuðum íbúðina, féllum gjörsamlega fyrir henni en tilboðinu okkar var hafnað því seljandinn ætlaði að fá uppsett verð fyrir hana! Síðan biðum við þolinmóð og allt vann með okkur og þann 21. janúar fengum við samþykkt tilboð:) Fórum til London í spennufalli og komum síðan heim og fengum afhent 5. febrúar. Núna tæpum þremur vikum síðar erum við búin að mála allt, græja og laga nokkra hluti, gista í 5 nætur, skrúfa allskyns dótarí saman, fá netið og heimasímann og koma okkur bara þokkalega vel fyrir á mettíma.

Þetta hefði að sjálfsögðu aldrei tekist nema með frábærri aðstoð foreldra okkar, vina og vandamanna. Pabbi og afi (gamlir trésmiðir) stóðu sveittir vaktina við að skrúfa saman ýmsa hluti, Hjalti og Eva keyrðu allt áfram í flutningum og burði og Haffi og Karítas bættust síðan við seinna um daginn og hjálpuðu til að við að koma ýmsu fyrir og bera það þyngsta. Ömmurnar sáu síðan um að passa en litla skinnið þurfti nú aðeins að átta sig á svona nýju heimili en er öll að koma til að veit alveg hvar herbergið hennar er. Mappalingurinn og heimalingurinn okkar er síðan búin að græja ýmislegt rafmagnstengt og kíkir við í kaffi annað slagið. Voða gott að vita af honum hérna í kjallaranum:)

Það er hins vegar ýmislegt eftir eins og gengur og gerist en það kemur bara með tíð og tíma. Næst á dagskrá er að skipuleggja 1 árs afmæli heimasætunnar en það er akkúrat eftir viku:)

Það eru svo auðvitað allir velkomnir í kaffi og með því í Laugarnesið þar sem er best að búa:)

föstudagur, febrúar 15, 2008

Ég veit fátt eitt betra...

en að sitja með handklæði á hausnum í sloppnum, nýbúin að fara í bað og slappa af eftir langa vinnuviku...

Okkur áskotnaðist ísskápur í vikunni í svokölluðum "pay it forward" leik sem Arna og Bjarni eru að spila. Með því spöruðust þónokkrir þúsundkallar sem veitir ekki af þegar maður er að kaupa íbúð. Ótrúlegustu hlutir sem þarf að kaupa eins og sturtuhengi, stöng, gardínur, mottur, rúm og fleira og fleira sem týnist til. Við reynum að vera mjög hagsýn og látum nauðsynlegustu hlutina ganga fyrir en auðvitað slæðast einhverjar ónauðsynjar með eins og gengur og gerist. Ég meina það er alveg bráðnauðsynlegt að eiga sittlítið af hverju í Marimekko er það ekki???

Pabbalabbarnir okkar eru alveg hreint ótrúlega duglegir að hjálpa og mommsurnar að passa en það gerir alveg gæfumuninn. Áðan eyddi pabbi til dæmis dágóðum tíma í að ganga frá rafmagnsdósum í herbergjunum og undirbúa allt fyrir málningardaginn mikla á morgun en hann vann einmitt sama verk um síðustu helgi og alveg bráðnauðsynlegt að undirbúa vel fyrir málningavinnu þannig að allt sé vel gert enda ekki að spyrja að því þegar Heiðar millímetri mætir á svæðið. Lottó mætti síðan með sendibílinn til að við gætum flutt ísskápinn og síðan mætti hann um síðustu helgi og málaði heila umferð yfir svefnherbergið í kakíbuxum og skyrtu og það slettist ekki dropi niður, hvorki á hann né gólfið. Hann stefnir á sama "múv" á morgun!

Síðan er ég með listann góða hérna hjá mér þar sem ég flokkaði og skipulagði hvert einasta herbergi, það er ágætt og ekkert skemmtilegra en að gera "tjékk" við það sem er búið.

Annars er ég bara alveg klikkaðslega spennt að fara að raða í eldhúsið mitt og já bara raða og flokka allt saman;) Ég fæ seint leið á skipulagningu!
Þið haldið kannski að ég sé hætt með síðuna...

ó nei sei sei, bara mikið að gera eins og oft áður. Laugarnesvegurinn og allur undirbúningur og niðurpökkun sem honum fylgir og síðan það sem allir kennarar elska - NÁMSMAT. Sem þýðir kvöldvinna og mæting á ókristilegum tíma á morgnana. Tók til að mynda strætó 7:16 í morgun!

Er svo gott sem búin að gefa öllum mínum 115 nemendum einkunnir og fara yfir möppur og allar bækur. Frekar mikil vinna en hefst alltaf að lokum.

Við stefnum á að klára alla málningarvinnu um helgina sem hefst að vísu bara með því að nánustu hjálpi að passa og svona og engin fá "nýja" flensu. Ótrúlegt hvað allir eru almennilegir að hjálpa - við erum svakalega heppin að eiga svona góða að:)

Ég vona að þið eigið góða helgi!

miðvikudagur, febrúar 06, 2008





















Ég varð nú að setja inn myndir af litlu 11 mánaða dísinni - ein svona alvarleg til tilbreytingar og ein sprell en eins og flestir vita er daman yfirleitt síglöð og síbrosandi:)


Móðirin er hins vegar alls ekki hin hressasta og tók við ælunni af barninu. Byrjaði fimm í nótt og hef verið að síðan, upp og niður til skiptis! Alveg með eindæmum hressandi. Það lítur út fyrir að veikinda - seasonið sé byrjar því ef ég skoða bloggið mitt á sama tíma í fyrra þá lágum við AFO bæði með ógeðspest en hann er sjálfur núna með leiðinglegan hósta og kvef.



Ég vona að ég hafi orku í kvöld til að setja inn eitthvað nýtt á síðuna hennar Ágústu Rutar og skrifa jafnvel eilítið um hennar helstu afrek sem eru nú ekki lítil þessa dagana:)



En nóg í bili - orkan búin!

laugardagur, febrúar 02, 2008

Afhending frestaðist...
fram yfir helgi því seljandinn býr á Egilsstöðum og gat ekki komið í bæinn fyrir helgi. Það er svo sem í allt í lagi okkar vegna - eykur bara á spennuna! Við erum svona í huganum búin að ákveða ýmislegt sem við ætlum að gera eins og lakka skápa og mála inn í eldhúsinnréttinguna og svo er ég auðvitað aðeins búin að spekúlera í herberginu hjá Skagadísinni, hvítt verður það og barbapabbaþemað fær að halda sér. Einhverra hluta vegna hef ég það ekki í mér að mála herbergi bleikt;) Kannski eftir að ýmsir uppnefndu mig Lindu bleiku hér á yngri árum!

Síðan er ég komin með ágætis hugmynd ásamt Don Ruth um að lappa upp á baðherbergið á sem ódýrastan hátt, verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Svo er ég auðvitað búin að fara margoft yfir það í huganum hvernig ætti að raða í stofuna og þar fram eftir götunum. Það verður að segjast að það er ólíkt skemmtilegra að innrétta svona þegar maður "á" íbúðina.

Við þurfum síðan að fjárfesta í ísskáp og rúmi en sófa keyptum við á útsölu í húsgagnahöllinni um daginn og hann er með tungu eins og mig hefur dreymt um í laaaaaaangan tíma. Ég er líka algjörlega búin að hertaka tunguna, hún er nefnilega svo handhæg sem skrifborð líka þegar maður er svona stuttur í annan endann, hægt að hafa tölvuna fyrir framan sig og fara yfir verkefni og próf - ásamt því auðvitað að kíkja á sjónvarpið annað slagið.

Við erum auðvitað alveg í skýjunum með þetta allt saman og að þetta sé barasta allt að fara að smella saman. Þetta hefði þó aldrei gengið upp nema með dyggum stuðningi foreldra okkar sem eru búnir að standa eins og klettar á bakvið okkur í þessu og leiðbeina okkur hvernig er best að fara að. Það kom nefnilega á daginn að "bremsan" og "bensíngjöfinni" vinna bara ansi vel saman:) Það er ómetanlegt að eiga svona góða foreldra að.

Síðan er ég að öllum líkindum komin með dagmömmu fyrir næsta haust í næstu blokk svona ef planið mitt um að koma Áru litlu inn á Laugaborg gengur ekki upp. Það er auðvitað mikill léttir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því en núna er hún byrjuð að vera hjá ömmu sinni og verður þangað til í byrjun júní.

Það er síðan löngu orðið deginum ljósara að ég þarf að fara að koma mér í almennilegt form ef ég ætla einhvern tímann að fara að kenna leikfimi aftur. Mér var því að detta það snjallræði í hug að kaupa mér 3 mánaða kort í Laugum þegar við flytjum (maður fær nefnilega svo heppilegan styrk þegar maður er kennari) og fara 3 morgna áður en ég fer í vinnuna, ég verð nefnilega alltaf bíllaus þannig að þá get ég bara rölt þetta á milli. Þetta er kannski alveg glórulaust hjá mér því ég er ekkert alltof mikið fyrir að vakna svona snemma en gerði þetta nú í þrjú ár þegar ég var að kenna þannig að þetta hlýtur að blessast. Og þá verð ég kennski komin í ágætis form þegar líður að vori og get farið að kenna sjálf og fá borgað fyrir það!

Geri mér grein fyrir að þetta er orðið alltof langt en svona meira gert fyrir Afa Wonder sem er að spóka sig á Kanarí!

Og þið hin sem nenntuð að lesa ef þið þekkið einhvern sem er að selja ísskáp - bendið endilega á mig!

Góða helgi