sunnudagur, ágúst 30, 2009


Ágústa Rut Andradóttir

Snillingurinn okkar hún Ára er byrjuð á Laugaborg og er alveg hæstánægð - við vorum alltaf ánægð með Ægisborgina en hún er einhvern veginn bara í skýjunum að vera komin í hverfið sitt og við hliðina á vinnunni minni. Á hverjum degi hleypur hún á móti manni og segir að það hafi verið rosa gaman á leikskólanum. Það sem hjálpar henni líka mikið er að Fransiska nágranninn okkar hérna á 3. hæðinni var líka að byrja en hún er 4 ára og þær leika mikið saman í útivistinni og eru sko beztu vinkonur. Fransiska sagði mömmu sinni um daginn að hún og Ágústa ætluðu sko að giftast!

Þessa dagana eru miklar pælingar í gangi í tengslum við stelpur og stráka. Hún segir ósjaldan að strákar séu með typpi en stelpur "bullu" (við vitum ekki hvaðan nafnið bulla kemur en leyfum henni bara að kalla þetta bullu) Um daginn sagði hún síðan við pabba sinn: "Þegar þú varst lítill pabbi þá varstu bara með pííííínulítið typpi" jahá gott að vera með það á hreinu. Í hvert skipti sem við förum í sund segir hún mér líka alltaf að pabbi sé með typpi en við tvær með bullu. Síðan heyrist alltaf þegar við erum tvær einhvers staðar: "Bara við tvær stelpurnar" og það þykir soldið sport:) Hún virðist líka halda að maður verði strákur með aldrinum því hún segir stundum við Andra að þegar hún verði stór þá muni hún kunna að vera með typpi!

Bleyjuleysið gengur súpervel og mér hafði ekki órað fyrir að þetta gæti gengið svona vel. Ekkert slys á leikskólanum og rosa dugleg að segja til. Komu að vísu nokkrir dagar þar sem hún neitaði að gera nr. 2 og hljóp um allt og herpti rasskinnarnar á sér saman en síðan kom þetta allt saman þegar amma Rut stakk upp á því að láta hana blása í blöðru á klósettinu og stundum fær hún blöðru þegar illa gengur;)

Við erum bara svo ofsalega stolt af þessari litlu veru sem lyftir lífinu á hærra plan með hverjum deginum sem líður.

ps. massavís af myndum á myndasíðunni og muna að kvitta fyrir innlit - það gleður ennþá

laugardagur, ágúst 29, 2009

Reykjavíkurmaraþonið 2009

Í ár var ég staðráðin í að hlaupa 10 km og á góðum tíma. Í vor þegar ég byrjaði að huga að þessu hugsaði ég með mér að nú væri alveg málið að æfa þrusuvel fyrir þetta og ná góðum tíma. Síðan líður bara alltaf sumarið og maður rétt dettur 2-3 í hlaup og svo er alltaf bara komið að þessu.

Hins vegar var ég búin að kenna aðeins í Hreyfingu í ágúst og taka nokkra hjólatíma og pump sem hjálpar alltaf til. Andri hafði lofað að hlaupa með mér til að ég næði betri tíma en svo var hann auðvitað með þessa fáránlegu afsökun að hann væri í gifsi;) Það sem bjargaði síðan öllu voru hérarnir sem hlupu með blöðrur merktar 40-45-50 o.s.frv. Ég stefndi á 50 mín en fannst alls ekki raunhæft að ég næði þessu undir 53. Kvöldið áður útbjó ég trylltan playlista sem spilaði stórt hlutverk og síðan fylgdi ég 50 blöðrunni og hún kom mér í gegnum síðustu 3 km þannig ég næði þessu undir 50 og var lokaniðurstaðan 49:21, miðað við flöguna. Þrusuánægð með þetta og líka að ég var loksins fyrsta systirin eftir nokkurra ára pásu;) Hinar tvær stóðu sig ekki síður vel og voru rétt á eftir mér. Mamma sló síðan öll met þegar hún hljóp 3 km undir 15 min en mamma byrjaði bara að hlaupa í sumar - algjör snillingur og hún kom svo hratt í mark að við náðum henni ekki einu sinni á mynd!


þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Jæja kæru vinir...

það er mikið að maður lætur sjá sig hérna á síðunni! Ég hef bara verið einstaklega upptekin og ekkert gefið mér mikinn tíma í tölvuhangs sem skýrir almennt mynda- og bloggleysi. Haustið er að byrja og það er minn tími, skólinn kominn af stað, Hreyfing að komast í gang en ég hef verið að leysa aðeins af undanfarnar þrjá vikur og alveg ljómandi skemmtilegt að fara að kenna aftur.

Í vetur verð ég síðan með freestyle fyrir 8-10 og 10-13 ára í Dansskóla Ragnars og hvet ykkur auðvitað til að skrá börn sem eru á þessum aldri og á ykkar snærum;) Og auðvitað ef þið viljið loksins láta drauminn rætast þá eru frábærir byrjendahópar í samkvæmisdönsum fyrir fullorðna líka!

Að lokum er ég búin að skrá mig í blessaða Reykjavíkurmaraþonið - 10 km verða það í ár og nú hvet ég ykkur öll kæru vinir og fjölskylda til að heita á mig til styrktar Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna en þið hafið jú flest öll fylgst með litlu hetjunni okkar honum Úlfari Jökli sem gekk í gegnum erfiða lyfjameðferð síðast liðinn vetur, aðeins nokkurra mánaða gamall.

Það geta allir séð af einum 500 eða 1000 kalli í gott málefni ekki satt? Hér er hægt að skrá áheit.

og svona ykkur að segja þá væri ég til í að hlaupa á 50 mínútum en látum það samt alveg liggja á milli hluta!

Jæja komið gott af áróðursbloggi og ég lofa myndum í vikunni:)

sunnudagur, ágúst 02, 2009

Hjalti K. K fyrir Klofi - eini úr hópnum sem hefur mætt öll árin! Ómissandi hlekkur.

Gin og Klofaveikin 2005
Geðklofi 2006
Klofinn í herðar niður 2007

Bölvaður klofaskapur 2008
Klofi Annan 2009

-Að sjálfsögðu að öllum öðrum ólöstuðum sem hafa gert þessa hátíð að því sem hún er-