föstudagur, október 31, 2008

Við mæðgur áttum saman góðan kósýdag heima vegna starfsdags í leikskólanum...

Við höfðum það afar huggó saman og gerðum margt skemmtilegt, Ára bjó til marga kaffibolla fyrir mömmu sína þrátt fyrir að hún drekki harla sjaldan kaffi en hún veit ekkert skemmtilegra en að standa við kaffikönnuna okkar og "búa" til kaffi og "setja" í litlu bollana. Hofðum líka á Sveppa sem er vinsælasta sjónvarpsefnið þessa dagana.

Síðan fórum við í dótabúð en það er algjört uppáhalds þó svo að ekkert sé keypt, bara að hlaupa um og leika með flotta eldhúsið sem er til og skoða allt dótið. Við keyptum líka lítið borð og stóla í herbergið hennar þannig að hún geti setið og dundað sér.

Í hádeginu var borinn fiskur á borð og síðan lögðum við okkur á annan klukkutíma, heimsóttum Báru okkar og Týslu og náðum svo í pabbaling í vinnuna og fengum okkur vöfflu og kakó á Mokka. Enduðum síðan daginn á mat í Geisla. Svona daga elskar Áran, sér í lagi eftir að hún byrjaði á leikskólanum - því á svona dögum fær hún að hafa dudduna, fær appelsínusafa að drekka og óskipta athygli einnar manneskju:)

Og núna er bara heil helgi af þannig knúsi og huggulegheitum en planið er ekkert sem er stundum gott nema reyndar kjötsúpuboð hjá afa á sun og danssýning með Möggu og Síu...

Smá svona hvað að gera blogg en þau blogg eru alveg ágæt svona endrum og eins.

miðvikudagur, október 29, 2008

Ég er búin að vera með nagandi samviskubit síðan í gær...

við ákváðum að prófa að láta Áru litlu vera til fimm á leikskólanum þannig að Andri gæti kippt henni með um leið og hann fer heim. Guð minn góður hvað þetta voru stór mistök! Hún var ein eftir og með ekka takk fyrir þegar hann kom að sækja hana, hélt örugglega að við værum búin að skilja alveg við hana! Hér eftir verður barnið ekki sótt mínútu seinna en fjögur - hvaða ráðum sem þarf að beita til þess...(erum bara á einum bíl og barnið vestur í bæ og ég hér í hverfinu og þau mæta hálf níu níu og ég átta, smá púsl en með góðri hjálp og þremur bílstólum mun það bjargast!)

einhvern tímann átti það að vera vandamál að vera á Polo og með barn (sem reyndist síðan argasta þvæla), nú er það vandmál að vera bara á einum Polo en ef að strætókerfið hérna væri ögn skárra myndi það einfalda mikið en ég get auðvitað tekið strætó til að ná í hana en það tekur bara svo helvíti langan tíma...

ég veit að þetta er lúxusvandamál miðað við margt sem aðrir kljást við en það er ágætt að vera bara með lúxusvandamál eins og staðan í þjóðfélaginu er núna

framundan eru smá hard core tímar í vinnunni, námsmat og allt sem því fylgir, fyrirlögn prófa og yfirferð og leiðarbókaskoðun og möppur og meira og meira og meira

svei mér þá ef ég er ekki bara aðeins farin að hlakka til jólanna og ég hvet ykkur til að vera frumleg í gjöfum - ég er t.d. í allskyns tilraunastarfsemi!

mánudagur, október 27, 2008

Komin heim...

Eftir vel lukkaða ferð til Kóngsins Köben þar sem við eyddum góðum stundum með frábærum vinum. Það var líka ákaflega þægilegt að þurfa ekki að "stressa" sig á því að vera í búðunum. Við fórum á Salonen, fengum okkur Kebeb, út að borða, elduðum heima og Sóley og Kobbi buðu okkur í dýrindis mat.

Núna erum við líka endurnærð og nauðsynlegt að lyfta sér upp í vetrarfríinu. Áran okkar var líka ofsalega ánægð að sjá okkur og okkur finnst hún hafa bætt við sig þónokkuð mörgum orðum á aðeins 4 dögum!

Ég er búin að setja inn myndir á 123 og muna að kvitta í gestabókina!

laugardagur, október 25, 2008

Brjálað stuð í Köben!
Kryppur í kreppu;)
Regína var tekin út á gólf í magadans!
Og var follow up eftir AFO

Sem dansaði út um öll gólf

Eldur litla englabarn og ofurátvagl;)

Andri með langþráðan Kebeb frá Kebabistan...


Sem sagt stanslaust stuð hjá okkur:)



miðvikudagur, október 22, 2008

Ég er algjörlega búin á því!


Langur og erfiður dagur í vinnunni - þemavikan í hámarki og krakkarnir alveg dýrvitlausir í að máta föt úr Gyllta kettinum sem ég fékk lánuð. Á morgun er síðan tískusýning litlu hippanna minna og að því loknu hefst yndislegt vetrarleyfi.


Ég gekk bankanna á milli í dag til að redda gjaldeyri og það var nú hægara sagt en gert. Glitnir Kirkjusandi átti ekkert fyrir mig, Byr Borgartúni neitaði að afgreiða mig þar sem ég er ekki með viðskipti í bankanum en að lokum eftir að mamma var búin að ná í mig og keyra með mig út um allan bæ fékk ég fyrir tæp 50.000 í Glitni Lækjargötu - þetta er nú meira ástandið en ég vona nú samt að við verðum ekki eins og kona sem ég hitti í dag sem hafði farið til Kóreu árið 1977 og var með svo lítinn gjaldeyri því hún hafði tekið út einhvern kvóta fyrr á árinu. Hún átti aðeins eina kavíartúpu síðustu dagana og nærðist með því að sprauta kavíar upp í sig og súpa vatn með!

Við parið ætlum að byrja ferðina í Laugum annað kvöld. Ára þarf að gista hjá ömmu sinni og afa því flugið okkar er svo snemma um morguninn og þess vegna ætlum við að nýta gjafakort sem við eigum í baðstofuna og dekra aðeins við okkur í gufuböðunum - huggulegt ha...síðan leggjum við af stað upp á völl upp úr fjögur um nóttina og verðum lent í Köben ef allt gengur að óskum um hádegi á föstudaginn...sweeeeeet

Núna er það hins vegar algjör leti, Grey´s og kannski smá pizza

þriðjudagur, október 21, 2008

Við skelltum okkur í sund fjölskyldan...

í Sundhöllina, það er svo fínt því þá getur maður fengið klefa sem er skápur og maður getur lokað barnið inni og kemur því í veg fyrir að það hlaupi út um allt.

síðan fengum við okkur pulsu og ís alveg eins og það væri laugardagur því við verðum jú í Köben á laugardaginn og urðum að gera þetta fyrir Áru eða já...(þið getið svo sem giskað hver átti hugmyndina að þessu)

um helgina gerðum við margt skemmtilegt - fórum í leikhús og komum heim úr bíói því við mættum klukkutíma of seint í leikhúsið en við sáum stórkostlega fyndna mynd sem heitir happy go lucky og síðan fórum við í brunch til Hörpu og Hauks og hittum marga skemmtilega og Ára elskaði dótið hennar "kistínu majíu"

ég fór líka í leikhús á laugardagskvöldið og kom líka heim úr leikhúsi og í þetta sinnið var það Ástin er diskó, lífið er pönk, mjög hressandi bara.

á sunnudaginn hitti ég orlofsgrúbbuna mína, sumar á leið aftur í orlof en Jóa er duglegust af okkur að unga út.

núna er hippaþemavika hjá 7. og 8. bekk, það er gaman og ég mæti í nýju dressi daglega með hárband um hausinn, reykjum jónur á göngunum og svona, nje ekki alveg - meira forvarnir um eiturlyf.

ég er líka búin að vera dáldið dugleg í wc - mætti til að mynda í spinning í morgun kl. 6:45 með Síu litlu - við vorum duglegar

á morgun þarf ég að fara að kría út einhvern gjaldeyri - krossa putta að það leynist einhverjar danskar krónur í Nýja Glitni!

Ára leikskóladama er dugleg að syngja þessa dagana, allt í einu kann hún mörg lög eins og allur matur á að fara, gulur, rauður, grænn og blár og meira að segja brúnn bleikur banani - barnið er örugglega með límheila hún er svo klár - já maður er ansi ánægður með þetta litla eintak:)

þangað til næst - hafið það gott og já ég fæ að vita tvö kyn á morgun og er rosa spennt - spái tveimur drengjum í þetta skiptið!

fimmtudagur, október 16, 2008

Sesshin í Skálholti...

eins og þið munið kannski þá fór Andri í fimm daga setuprógram um síðustu helgi og kom alveg heill heim og gott betur:)

Ég fór og náði í hann og tók þátt í vígsluathöfn og hitti meistara Roshi sem var sko ekki leiðinlegt enda smekkmaður mikill..
Roshi að skvetta blönduðu vatni úr Ganges ánni í Indlandi og íslensku jöklavatni!
Heilagara verður það ekki...

Andri einbeittur í Zazen enda búinn að sitja svona meira og minna alla helgina
Ég og meistari Roshi
Og síðan við þrjú að lokum - smá hreyfð en það skiptir ekki svo miklu máli vegna þess að eins og við segjum í Zen félaginu - everything is ok!

Ég þarf síðan að fara að setja inn einhverjar myndir af aðalleikskólastelpunni sem tók nú að vísu smá bakslag í vikunni og segir ekki leikskóla - annan leikskóla - ekki Ingu - ekki krakkana og fleira í þeim dúr en stendur sig samt bara furðuvel, sefur vel og borðar ágætlega. Síðan er hún búin að taka ástfóstri við Ingu leikskólakennara og kallar á hana: Inga mín og hleypur alltaf til hennar þegar hún mætir á morgnana þrátt fyrir að vera með tárin í augunum að gefa pabba sínum fingurkoss og segja bless pabbi minn! Smá dramadrottning enda ekkert þekkt fyrir annað;)

Ég sé það síðan að ég þarf að vera duglegri að skrifa - er búin að liggja yfir gömlum skrifum, Kennó-árin, Ítalíuförin, útskriftin, óléttudramað, fæðingarorlofið og svo mætti lengi telja, svo ég tali nú ekki um allar myndirnar sem ég hef sett inn - glansmyndir sem og nýjar. Já maður má ekki slaka á í þessu það er alveg ljóst.

Helgin mun einkennast af leikhúsferðum - á föstudaginn er það Fólkið í blokkinni með leikhúsvinum okkar og síðan Ástin er diskó, lífið er pönk á laugardaginn en þá ætlum við kvenpeningurinn í fjölskyldunni að skella okkur saman.

Í næstu viku skellum við hjúin okkur síðan í afslöppunarferð til Köben - að sjálfsögðu með nesti og nýja skó í farteskinu;)

Oh hvað ég hlakka til að hitta Regínu, Rico, Sóley, Kobba, Álfinn, Egil og Eld litla sem mun líklega bræða öll hjörtu...


sunnudagur, október 12, 2008

Oh hvað ég hlakka til að fá Andrann minn aftur...

ég er alveg vængbrotin svona án betri helmingsins. Hef hangið inni síðan klukkan þrjú á fimmtudaginn en Ára er búin að vera með hita síðan, reyndar hef ég skroppið út í skóla og opnað fyrir Skrekkskrökkunum og mamma, Harpa og Svava hafa skipts á að sitja hjá heimsætunni. Maður fær alveg flashback í gömlu Skrekksæfingarnar hérna í denn...

Grasekkjan og heimasætan eru hins vegar búnar að bralla ýmislegt í veikindunum: horfðum sjö sinnum á Lotta flytur að heiman, alltaf heyrðist meija Lotta eða þangað til ég neyddist til að skila myndinni aftur, síðan taldi litla duglega stelpan frá fjórum og upp í níu, náðist því miður ekki alveg allt á video en hluti, við erum búnar að lesa gömlu Tuma og Emmu bækurnar mínar spjaldanna á milli og púsla og kubba og ryksuga og skúra og setja í margar þvottavélar og enduðum síðan kvöldið á að elda kjötsúpu og dróum Mappann út úr þynnkuherberginu sínu og gáfum honum súpu og frostpinna. Ég og Mappinn eyddum síðan kvöldinu saman, gláptum á imbann og vorum að hangsa í tölvunni - enduðum síðan kvöldið á einu Mega-Mappa og mega-Lindu mómenti og ein surprise mætti í hús...

En nú er kominn háttatími og gott betur, bið ekki um meira en að barnið sofi vel, kannski örlítið lengur en til korter í sex en þá vorum við mættar fram í morgun! Ég ætla síðan að sækja prinsinn í Skálholt og taka þátt í lokaathöfninni.

ha det..
-L-

miðvikudagur, október 08, 2008

Þá er AFO farinn í Skálholt...

og ég mun ekkert heyra í honum fyrr en ég fer að sækja hann á sunnudaginn því gsm símar og samskipti við umheiminn trufla það sem í gangi er.

hann gat náttúrulega ekki valið betri tíma heldur en núna þegar allar fréttir snúast um alveg hundleiðinlega hluti og ekkert annað en volæði einkennir samfélagið.

ég hlakka dáldið mikið til að hitta hann á sunnudaginn og sjá hvernig hann verður orðinn - það hlýtur eitthvað að gerast í líkamanum ef maður þegir í 5 daga og situr og íhugar...

ég var einmitt að uppgötva það að ég hef barasta ekki sofið ein hérna á Laugarnesveginum og væri nú alveg freistandi að hafa litla dýrið hjá sér en mér dettur það ekki í hug - ætla nefnilega ekki að koma einhverjum óskunda af stað!!!

nýjasta af leikskólanum er að dóttirin svaf bara eins og steinn með öllum hinum krökkunum - vildi að vísu tjatta aðeins fyrst og hélt vöku fyrir svefnfélaga sínum sem var alveg að lognast út af. Ég náttúrulega býð eftir smá bakslagi því maður trúir því ekki að þetta geti gengið svona vel! Hún var samt alveg örmagna eftir daginn og lognaðist hreinlega út um leið og ég lagði hana á koddann. Fyrir áhugasama eru myndir hérna veljið skólaárið 2008-2009 og síðan Kotið og loks október 2008. En þarna má sjá myndir af barninu sofnandi svona til staðfestingar og einnig nokkrar úr útiverunni.

Við erum því alveg hæstánægð með leikskólann og starfsfólkið sem vinnur þar:)

þriðjudagur, október 07, 2008

Jæja ég lét til leiðast...

og er komin með kort í risaræktinni hérna í hverfinu og fór áðan með Rögnu og litla og stóra endurvöktu litluogstórusyndromið. Við lyftum tvíhöfða og bak og tókum síðan kvið - Ragna með brjálað prógram og núna ætla ég að einbeita mér að því að æfa sjálf og kenna þá aðeins minna.

Þarna æfa samt alveg skelfilega margir - held ég hafi samt bara nikkað svona þrjá og heilsað einum en þetta verður örugglega alveg fínt.

Hörmungar undanfarinna daga falla alveg í skuggann á hræðilegum fréttum sem ég fékk um helgina en með trú og styrk mun allt fara vel - því ætla ég að trúa. En svona nokkuð kennir manni að peningar eru sko langt frá því að vera það sem skiptir öllu máli. Heilsan, fjölskyldan, nánustu vinir og ættingjar er það sem við eigum að þakka fyrir og verður aldrei metið til fjár.

Áran okkar er síðan dugnaðarforkur á leikskólanum og so far gengur alveg ljómandi vel - hún borðaði meðal annars þrjá diska af fiski í dag! Vonum að þetta sé bara það sem koma skal.

En nú býð ég góða nótt og farið vel með ykkur

mánudagur, október 06, 2008

Ég veit að hörmungar steðja að...

en ég á afmæli og ætla að njóta dagsins í nýja kjólnum mínum:) sem ég fékk frá AFO - smekkmaður á ferðinni!

Við skötuhjúin ætlum síðan út að borða og í bíó í síðasta sinn!!!

Farið vel með ykkur...og takk fyrir allar kveðjurnar!
Tuttuguogsexý!