fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Nytsemi uppþvottavélarinnar eða uppvöskunarvélarinnar eins og amma segir...

Þegar ungt og athafnasamt fólk er búið að venjast þægindum þess að hafa uppþvottavél er erfitt að snúa til baka í uppvaskið, sem var btw ekki svo alslæmt fyrir fyrstu kynni af uppþvottavél. Við töldum okkur nefnilega ekki þurfa á þessari vél að halda þegar við fluttum inn!

Í fyrsta lagi venur fólk sem á uppþvottavél sig á að nota eins mörg glös og það mögulega getur yfir daginn, það skiptir hvort sem er ekki máli, því þau fara öll í þvott þegar kvölda tekur.

Í öðru lagi finnst eigendum uppþvottavéla lítið mál að setja alls kyns góðgæti á fullt af diskum og í skálar og guð má vita hvað eigendum uppþvottavéla dettur í hug...

Fyrir rúmri viku ákvað okkar yndislega vél sem er svipuð og sú á myndinni fyrir ofan (afar hentug fyrir búskap tveggja) að hætta að taka inn á sig vatn, hún vildi bara freyða sápu út um allt og lét illum látum.

AFO fór síðan á síðasta þriðjudag með vélina í viðgerð og það gæti tekið sinn tíma því svona elskur virðast bila trekk í trekk enda í sífelldri notkun.

Húsráðendur á Kambsveginum eru orðnir svo þreyttir á að skiptast á þessu uppvaski og geta ómögulega vanið sig á að nota sama glasið yfir daginn (og það á við um báða einstaklingana) þannig að fyrr í dag var brugðið á það ráð að nota eingöngu plastglös og pappadiska þar til ástkæra vélin kemur aftur:)

Og núna er líka alltof mikið borðpláss þar sem vélin góða stóð...



En hún var einmitt á svipuðum stað og vélin í þessu eldhúsi enda nánast eins eldhús og á Kambó:)

Passið upp á þessar elskur...

-Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur-

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Fyrsta kennslustundin mín sem stærðfræðikennari hefst eftir rúman klukkutíma...

og ég er ekki frá því að það fari smá fiðringur um mig, fyrsta viðfangsefnið er hringir og hyrningar og mikil vinna með hringfara. Hvaða unglingur hefur ekki gaman af nákvæmnisvinnu með hringfara?? Nei maður spyr sig...

Einhver góð tips svona rétt fyrir mót?

later speiter..

mánudagur, ágúst 28, 2006

Ég fór í innflutningspartý með þessum tveimur í gær...

og svo auðvitað miðbæjarmýslunni...
"hún" var gjegje hress að vanda
fyrr um daginn heimsótti ég þessa litlu snót
hún var sko agalega ánægð að hitta skáfrænku sína eftir langan tíma:)
fékk sér meira að segja vöfflu í tilefni dagsins!
og fór létt með að bræða mann upp úr skónum:)
Vona að móðirin sætti sig við nokkrar myndir á netinu! Stóðst bara ekki mátið að monta mig aðeins af uppáhalds skáfrænku minni...
Þetta var góð helgi og nú hefst vinnuvika með mánudagsnáttúrufræði. Sú hugmynd kom upp að ég yrði alltaf í hvítum tilraunaslopp á mánudögum því þá kenni ég bara náttúrufræði, ekki svo afleit hugmynd verð ég að segja!
Góða nótt litlu lömb!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ég var að vinna í dag...

á sunnudegi, það vantar ekki drifkraftinn og metnaðinn sei sei sei, gott að byrja þetta af krafti á meðan maður nennir.

Ég þreif allt hátt og lágt á Kambsveginum í gær og það var svo sannarlega kominn tími á það obbbobbbobb

Núna er ég hjá ömmu gömlu að kenna henni á Skype, haldið að það sé dugnaður í henni?

Jæja smá innskot...

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Og ég sem hélt að ég væri að fara að varpa einhverri kjarnorkusprengju...

kom á daginn að þetta var ekki einu sinni handsprengja, sprengjulíkingin var því afleit hjá mér!

Síðan fékk ég svo skemmtilegt bréf í dag, af hverju sendum við ekki meiri löturpóst, það er svo gaman að fá góð bréf. Sérstaklega þegar þau koma hvaðan af úr heiminum.

Það er alveg skelfileg tilfinning að fimm vinkonur manns verði kannski staddar erlendis í vetur:

Álfrún, Regína og Sóley í Köben, Magga í Berlín og svo kannski Auður Agla í Austurríki. Stelpur við bara verðum að vera duglegar að vera í sambandi, ég talaði t.d. við Álfrúnu í klukkutíma á skype í gær, það gerir sko alveg gæfumuninn. Ég talaði reyndar við Ingibjörgu í klukkutíma líka, Sóley í svona 15 mín., Sigríði í 20 mín. og mommsuna mína nokkrum sinnum yfir daginn...í hefðbundinn síma.

Já ég tala kannski frekar mikið í símann humm..

Jæja ég er farin í heilsubótargöngu og sundferð með Sóley og síðan ætlum við að snæða eitthvað uppbyggilegt.

Bestu,
Bellan

-Illu er best aflokið-

miðvikudagur, ágúst 23, 2006


Jæja maurarnir mættu vel í dag og mér leist bara vel á þá...

tók síðan minn alkunna nafnatrylling og lærði nöfnin á nó tæm enda með límheila með meiru!

Ég mun síðan taka alla bekkina í hópefli og verð því örugglega orðin ansi hópefld í lok viku. Maturinn í vinnunni er guðdómlegur og Skúli kokkur Hansen ber fram hvern meistararéttinn á fætur öðrum, ég veit ekki hvernig ég enda eiginlega í lok vetrar. Var að skrá mig í mat í dag og ég hakaði við hvern daginn á eftir öðrum enda alltaf eitthvað nýtt og gómsætt í boði.

Tók síðan meðvitundarleysið á þetta það sem eftir lifði dags en er aðeins að koma mér aftur í skipulagsgírinn núna enda þýðir ekkert að slaka á svona þegar allt er að komast í gang.

Ég set líklega seríu 3 í glansmyndunum inn á morgun en eins og glöggir lesendur hafa væntanlega tekið þá er Álfrún búin að rústa þessari keppni:)

Þar til síðar kæru vinir

-Blindur er bóklaus maður-

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Taka 2 í glansmyndunum...





Og getið nú...
-Að kveldi skal dag lofa-

mánudagur, ágúst 21, 2006

Eitthvað þykja mér dræmar undirtektir í getrauninni góðu...

Glansmyndir fortíðarinnar standa þó algjörlega fyrir sínu, næstu fjórar myndir koma inn á morgun!

En á morgun er að ég held einn stærsti dagur lífs míns, það bókstaflega raðast allt á daginn á morgun og stendur og fellur allt með deginum á morgun...fjúff barasta.

Ég ætla einmitt að bregða mér snemma í bælið til að vera viðbúin öllu saman, tilbúin í átökin.

-Vinna gerir væran svefn-

sunnudagur, ágúst 20, 2006

1
Fyrsta serían í "glansmyndum fortíðarinnar"...





Þessar myndir fundust í geymslu á nýja vinnustaðnum mínum og nú reynir á ykkur góðir lesendur...hver getur nefnt nöfn allra?
Vegleg verðlaun í boði:)

föstudagur, ágúst 18, 2006

Áðan söng ég Working in a coma í stað girlfriend in a coma (Morrisey)...Andri spurði líka hvort það væri svona ógeðslega gaman í vinnunni...

Er að fara í mat til Hjalla, hlakka til, það er svo gaman í matarboðum:)

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Ég elska nýja starfið mitt, algjör draumur...

Þið sem þekkið mig vel vitið örugglega hvað mér finnst gaman að sitja í stofunni minni, við kennaraborðið mitt og skipuleggja og plana og gera áætlanir og skipuleggja meira og skrá niður og ljósrita og búa til verkefni og raða í litlu skúffurnar á kennaraborðinu...that´s me!

Í dag gleymdi ég mér alveg við tölvuna og fattaði allt í einu að ég var orðin ein í byggingunni og klukkan langt gengin í fimm og allir farnir...reynsluboltarnir eru náttúrulega ekki alveg að sitja svona við en allaveganna þá verð ég umsjónarkennari í 8. bekk og kenni þeim íslensku og stærðfræði og síðast en ekki síst verð ég að sjá um náttúrufræðikennslu í 7. bekk ójá ég verð mætt í tilraunastofuna að malla eitthvað saman...frumeindir hvað!

Jæja meira um þetta síðar...

En Magga ég gleymdi að segja þér að ég fór að þínum ráðum og hlustaði á Gangsta´s Paradise þegar ég labbaði í vinnuna í gær enda rifjuðust upp góð trikk frá Michelle Pfeiffer:)

Litla kennarastelpan

mánudagur, ágúst 14, 2006

Klofahátíðin fór vel fram í ár eins og við mátti búast...

Þetta árið gekk hún undir nafninu GEÐKLOFI 2006 og hér á eftir fylgja nokkrar myndir sem sýna glögglega geðklofann sem var í gangi:)

Menn voru svona mishressir í fótboltanum...ælt og skorað!

Bankastarfsmaðurinn stóð sig með ágætum í markinu þrátt fyrir rifinn liðþófa og þónokkrar hrákur nóttina á undan!


Þrjár úr Tungunum

Ógeðslega flott innkast...

Gulir og glaðir

Má ekki bjóða þér einn chilliborgara?




Þeir ólíku einstaklingar sem mynduðu hina geðklofnu heild:)

Erfitt hefur verið að útnefna hver hlaut Gin og Klofaveikina þetta árið en menn eins og Logo, Hlérkan og Tulli koma sterklega til greina...Lottó var einkar slakur þessa helgina enda kominn í stöðuna 2-1 gegn Mappanum sem lét ekki sjá sig:)

Ýmsar hugmyndir hafa borist varðandi yfirskrift hátíðarinnar árið 2007 en þar má nefna Klofinn í tvennt og Klofinn í herðar niður. Aðrar æskilegar hugmyndir eru vel þegnar...

Takk fyrir frábæra helgi...


fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Sjaldséðir hvítir...

Jæja góðir hálsar fer ekki að verða kominn tími á að endurvekja þessa blessuðu síðu svona í tilefni þess að ég er búin að sækja um leyfisbréf til þess að geta hafið störf sem grunnskólakennari næstkomandi þriðjudag þann 15. ágúst...

Annars fékk ég svo svakalega martröð í fyrrinótt um að ég væri byrjuð að kenna og ég fékk svo hryllilega erfiðan umsjónarbekk og var orðin svo sveitt strax á fyrsta deginum að það lak af mér svitinn og ég þurfti að þerra efri vörina með jöfnu millibili, úff ég vona að þetta sé bara fyrir góðu:)

Hvernig er það annars eru enn einhverjir sem detta hérna inn? Nenni nefnilega ekki að byrja aftur á þessari vitleysu nema ég hafi dygga lesendur:)

Ég er í augnablikinu að kenna sextugri ömmu minni á nýju tölvuna hennar. En hún ákvað svona á "gamalsaldri" að fá sér tölvu og í kvöld er ég með hana í einkakennslu í að senda tölvupóst. Hún stendur sig alveg ótrúlega vel konan:)

Þannig að það er komin þokkaleg samkeppni við Afa Wonder, spurning hvort að amma verði farin að blogga eins og brjálæðingur í lok ársins...hver veit?

Later..