mánudagur, desember 19, 2011

Nokkrar myndir síðan um helgina...


Ekki nema 12 dagar í litla skott


Ára spennt yfir þessu og ofurdugleg að hjálpa til að raða öllum fötunum í fínu kommóðurnar


Ferlíkið í allri sinni mynd!


Allt að smella í Búddhaherberginu


Kommóðuverk AFO hreint út sagt glæsilegt eftir nokkurra kvölda vinnu í grunn, lökkun og samsetningu:)

Og eins og draumurinn var er nú búið að græja þetta herbergi, skrifa öll 77 jólakortin og pakka öllu inn - þannig að það er bara hægt að fara nokkuð slakur inn í vikuna fyrir jól:)

-Jólakúlan-

föstudagur, desember 16, 2011

 Og ég stóðst flakkið í dag enda bíllaus!

Set hérna nokkrar myndir af klónunum mínum að grunna og lakka. Ára er náttúrulega fædd vinnukona og elskar að hjálpa til við nánast hvað sem er. Hún hamaðist alveg við grunninn og var orðin rauð í kinnum þegar við sögðum henni að nú yrði hún að fara að sofa:) AFO eyddi síðan næstu tveimur kvöldum í að lakka endalaust margar einingar eins og IKEA einum er lagið.

Ég hlýddi eiginmanninum í morgun og lagði mig aftur og það var engin smá lagning, vaknaði 13:15! Tók síðan bara rólegan dag heima, tók allt til og gekk frá þvotti og svona almennt stúss en allt í RÓLEGHEITUNUM. Held mér hafi ekki veitt af því enda eru þessir verkir sem voru byrjaðir eiginlega bara alveg hættir sem betur fer.

AFO fór á jólahlaðborð í kvöld í vinnunni sinni og ég bauð Áru og Fransisku með mér í pítsu á Ítalíu og síðan smá jólabæjarrölt sem þeim fannst nú ekki leiðinlegt. Núna taka við smá jólakortaskrif, leggja lokahönd á þann pakka og á morgun er brunch á Vox með Álfi og co. Nammi namm...


Nærfata - grunn - partý


Ára gaf sig alla í verkið


AFO orðinn svona pínu þreyttur á þessu verki:) Enda hefði ég gert þetta undir venjulegum kringum stæðum á meðan hann hefði eldað eitthvað gott fyrir mig á meðan!


Sætar vinkonur á Ítalíu

-Ég er ánægð að kommentakerfið virðist virka, var farin að efast um það en ég ætla að vera dugleg að skrifa hérna í fæðingarorlofinu:)
Klára, klára...

Ég veit að það er töluvert gáfulegra að vera í núinu og ekki að stressa sig á hlutunum en þegar jólin eru annars vegar og barn 5 mín eftir það hugsar maður aðeins lengra fram í tímann, það er bara þannig!

Ég hlakka alveg svakalega til svona ca. á sunnudagskvöldið þegar ég mun sitja á tungunni í sófanum okkar, jafnvel þiggja fótanudd frá eiginmanninum, horfa á allar innpökkuðu gjafirnar og handskrifuðu jólakortin - líta svo inn í Búddaherbergi og tjékka á vel lökkuðu kommóðunum eftir handbragð eiginmannsins vitandi að þær eru fullar af nýþvegnum ungbarnafötum...


Ég er soldið í to do listum þessa dagana, meira svona þeir eru alls staðar en samt þarf ég að slaka á og hvíla mig inn á milli en er ekki nógu dugleg að gera það enda búin að vera með alltof mikla fyrirvaraverki og samdrætti sem mega aðeins fara að slaka á þannig að ég geti haldið jólin áður en daman kemur:)

Besta ráðið hans Andra er að fara á bílnum á morgnana og skilja mig eftir heima í stofufangelsi því annars fer ég á eitthvað flakk - þið þekkið mig, svona er ég bara gerð! Á morgun er því stefnan sett á stofufangelsi og klára að skrifa restina af jólakortunum og pakka inn tveimur síðustu gjöfunum. Don Ruth henti í mig spítalatösku með sjampói, hárnæringu, kremum, tannbursta og tannkremi, vitandi það að þrátt fyrir að vera skipulagða Linda var ekki búið að græja þessa tösku síðast þegar allt fór af stað:)

Ég lagði mig samt alveg tvisvar í dag fyrir og eftir hádegi svo ég er skynsöm þess á milli sem ég ákveð að keyra út jólakort og bruna í Eymundsson rétt fyrir lokun til að græja eina bók!

En þetta eru mjög spennandi tímar hérna í LA og heppilegt að Andri á eitt stykki "bökunardag" inni í næstu viku og hann verður vel nýttur í einhverjar útréttingar og samsetningu á eldhúsborði svo eitthvað sé nefnt:)

laugardagur, desember 10, 2011

Fyrsta óvinnufæra vikan liðin og ég hef svo sem ekki setið auðum höndum eins og við var að búast en rosalegur lúxus að þurfa ekki að rífa sig upp sjö á morgnana og mæta til vinnu klukkan átta.

Heilsan er mjög fín og ljósan mín spáir stærri stelpu en Ágústa Rut var en hún var algjör títla 49 cm og tæplega 13 merkur. Mér finnst ég voða mikið eins bara og þá en þetta verður spennandi því er ekki að neita!

Fékk að heyra það í vikunni að það væri gott að byrja að þvo hvað á hverju svo ég henti í nokkrar vélar og það er af nógu að taka! Mér finnst ég líka megasjóuð í barnafötum þó ég segi sjálf frá enda ekki lítil áhugamanneskja um barnafatnað í öllum stærðum, litum og gerðum:) Núna veit ég alveg upp á hár hvaða samfellur mér finnst gott að nota og sokkabuxur og leggings og svona dótarí. Ég hata það heldur ekkert að flokka og raða og skipuleggja. Nú þarf Andri bara að lakka tvær kommóður svo ég geti farið að koma þessu dóti einhvers staðar fyrir.

Hér er kominn langur to do listi fyrir vikuna því stefnan er sett á megarólega viku fyrir jól þar sem ég get helst bara legið með tærnar upp í l0ft!

Fullt af nýjum myndum á myndasíðunni og kvitt gleður:)

þriðjudagur, desember 06, 2011

"Óvinnufær með öllu"
Stendur á vottorðinu mínu fyrir Laugalæk:) Kannski ekki beint lýsingin sem á við um mig en þetta er víst staðlað ef maður ætlar að hætta að vinna áður en fæðingarorlof hefst formlega. Mér finnst samt nákvæmlega réttti tímapunkturinn núna til þess að verða svona "óvinnufær". Mjög mikilvægt að fá smá hvíld og góða aðventu eftir nokkuð annasamt haust. Ég er reyndar aðeins að kenna smá einkatíma í dansi og stærðfræði en það er bara hressandi í litlu magni.

Ég var að lesa bloggið mitt síðan á sama tíma á síðustu meðgöngu og þá höfðum við akkúrat skellt okkur í bústað og ég hafði verið með einhverja kvefdrullu og hálsbólgu og Andri síðan tekið við. Þetta er svona beisiklí eins og hefur verið undanfarna daga enda meðgöngurnar búnar að vera óskaplega líkar. Fórum í yndislega bústaðaferð með Álfrúnu, Agli og Eldi um helgina og slógum líklega heimsmet í afslöppun og megabrunchum. Þessi tvö börn smella líka alltaf saman eins og flís við rass og sváfu meira að segja saman í rúmi báðar næturnar:) Þarf að setja inn slatta af myndum sem fyrst.

Nú styttist líka heldur betur í næstu dömu en við erum búin að fara upp á Skaga og hitta frábæran lækni sem heitir Konráð og mun sjá um að skera mig og græja. Að öllu óbreyttu verðum mér trillað inn að kvöldi 28. des og skorin þann 29. des. Gummi frændi fær þá litla Gummalínu í afmælisgjöf því hann á einmitt afmæli þarna 29. des. Þetta er bara gott plan annars getur auðvitað alltaf eitthvað gerst áður en ég er voða róleg yfir því, daman búin að skorða sig fyrir langalöngu síðan og alltaf gott að vita af því að þurfa ekki fleygja sér í gólfið einhvers staðar á förnum vegi!

Ára er síðan búin að vera sérlega tillitssöm við móður sína sem er ekki jafn snör í snúingum og gengur og gerist og hjálpar ítrekað við að klæða úr skóm, sækja hluti og hjálpa til við ýmis verk. Vonandi heldur þessi velvilji áfram...
Annars er jólaandinn ríkjandi hér á Laugarnesveginum og gjafainnpökkun og jólakortagerð í fullu gangi:)

mánudagur, nóvember 07, 2011

Alls konar nýtt og skemmtilegt á www.123.is/agustarut

Rutlurnar saman:)
Afmælisvöfflustrætóferð með þessum hressu stúlkum:)

...og margt margt fleira, kjötsúpuboð, brunchar, afmælisveislur og fleira og fleira!
32 vikur að nálgast og fáránlega stutt í des en þá kemur inn nýr kennari fyrir mig í Laugalæk og aðventan verður tekin í rólegheitum:)

Tók mega-danstörn um helgina á 12 klukkustundakeppni þar sem pörin okkar stóðu sig með mikilli prýði - Norður-Evrópu mótið báða dagana um næstu helgi svo það er nóg að gera. Allar helgar eftir það eru síðan orðnar nokkuð bókaðar alveg fram á jólum og þá verður líka bara komið að því að stúlka nr. 2 líti dagsins ljós.

Ég fór í mæðraskoðun í síðustu viku og allt í toppstandi - ljósmóðir mín vildi endilega taka það fram í skýrslunni að ég myndi dans enn! Þetta er minn tími svona frá 15. viku og fram að fæðingu - gott að maður á einhvern "sinn" tíma í þessu ferli annars væri þetta alveg megaleiðinlegt:)

Annars er þessi meðganga svo fáránlega lík og Áru að það er eiginlega alveg furðulegt - finnst ég vera að upplifa alla sömu hluti aftur!

Nokkrir nýir vinir búnir að bætast í hópinn á síðustu viku - Rakel frænka eignaðist strák þann 26. okt., Helga Dögg Wiium strák þann 1. nóv. og Hjalli og Eva María hana Agnesi Ísabellu 3. nóv. Við á L92 óskum auðvitað öllum innilega til hamingju. Framundan er síðan nóg af börnum en barnasprengjan í vinahópnum er að ná hæstu hæðum um þessar mundir - man bara ekki eftir öðrum eins tíma.

Kíkið nú á myndir og kvittið fyrir innlit - það er alltaf gaman.

sunnudagur, október 30, 2011

Jesús er að koma sterkur inn hérna á heimilinu eftir tíðar ferðir Áru í sunnudagaskólann með Brynju vinkonu sinni. Síðast skrifaði ég um hvernig hún bjargaði mér fyrir horn með því að útskýra fyrir vinkonu sinni að Jesús hefði auðvitað sett þessa stelpu í magann á mér - ég meina hver annar!;)

Nýjasta afrek Jesú er síðan að ákveða að strákar þurfa ekki að þurrka sér eftir að þeir pissa. Þetta sagði hún við Andra eftir að hafa spurt hann af hverju strákar þyrftu ekki að þurrka sér þegar þeir væru búnir að pissa og Andri var eitthvað að reyna að útskýra það en hún greip inn í og kom með þessa fínu útskýringu: "æj Jesús hefur örugglega bara ákveðið að það ætti að vera þannig":) Og þá var það frágengið!

Samstarfskona Andra tók síðan þessa mynd af honum og þar sem Andri hefur aldrei bætt á sig aukagrammi finnst mér gaman að sjá hvernig hann mun líta út þegar kemur að því að ég þurfi að fara að kasta út einhverjum björgunarhringjum:)

Október myndir eru á leiðinni á myndasíðuna helst ekki seinna en á morgun!


sunnudagur, október 16, 2011

Skondnar draumfarir...
Ég veit ekki hvað fékk mig til að dreyma að ég hefði sótt um sumarstarf sem strætóbílstjóri hjá strætisvögnum Reykjavíkur en ég eyddi í það minnsta heilli nótt í aka áttunni um allan bæ! Byrjaði þannig að mig vantaði sárlega starf og fyrsta sem ég sá laust var strætóbílstjórastarf, ég sótti um og fékk starfið samdægurs. Eitthvað gekk mér nú illa að keyra þennan vagn enda flennistór og ég alveg sami stubbur og venjulega, þó alveg í strætóbílstjóra búningnum með hatt og allar græjur. Átti reyndar ansi erfitt með að opna fyrir farþegum og enn erfiðara með að loka aftur því ég fann ekki takkann til þess og keyrði því bara með opið, farþegum til mikillar mæðu og heyrðist alltaf kallað fram í: "það er opið að aftan"! Mér gekk erfiðlega að rata leiðinlega sem áttan átti að fara og var alltaf að villast og komin langt á eftir áætlun, komst þó á leiðarenda og fékk smá kaffipásu þar sem ég bað um ullarsokka því mér var svo kalt á tánum, fékk svo afhenta nýlegri týpu af vagni og kveið því mikið að leggja af stað aftur!

Orgasmic birth!

Þessi mynd var mikið rædd í jóganu í síðustu viku og ég ætla svo sem ekkert að fara út í þá sálma hvað mér finnst um það en ég var segja Andra frá þessu og sýna honum trailerinn og honum þótti þetta sérstakt og nefni það við mig að hann hefði aldrei heyrt slíkt áður, eina sem hann myndi eftir var þegar við vorum á foreldranámskeiðinu síðast og fengum að horfa á fæðingu og eins og hann orðaði það: "konan sofnaði á milli hægða" hahahaha, ég var fljót að átta mig á mismælinu og hló eins og vitleysingur og hann alveg "æj hvað heitir þetta aftur" og ég botnaði fyrir hann "þú meinar milli hríða" hahaha, hann afsakaði sig með því að það kæmi náttúrulega alveg fyrir að konur myndu kúka í fæðingu! Ég vona samt að engin lendi í því að kúka svo mikið að hún sofni á milli hægða;)

Hver kom nú með þessa stelpu í magann minn?

Ég beið eftir að þessi spurning kæmi frá dóttur minni en vinkona hennar var fyrri til og spurði hvort ég hefði verið með tvær stelpur í maganum þegar Ára var þar. Ég sagði að svo hefði nú ekki verið og þá furðaði hún sig á því hvernig þessi nýja hefði nú komist þangað - demit komið að þessu mómenti hugsaði ég en þá kom yndisleg dóttir mín mér til bjargar og sagði: "Sko Sofia, Jesús sett hana þangað!" Ég hugsaði með mér what, hvaðan hefur hún það eiginlega og spurði hver hefði verið að segja henni það og svaraði um hæl: "nú pabbi." Ég bara trúði því ekki að búddískur faðir hennar hafi ákveðið að sleppa svo léttilega frá þessari útskýringu og klína þessu á Jesús greyið:) Svo virðist heldur ekki vera því hann þvertekur fyrir þetta, einhvers staðar annars staðar frá koma því upplýsingarnar!

sunnudagur, október 09, 2011

þriðjudagur, október 04, 2011

Samanburður...
23-24 ára gömul ólétt kona...
Vann á siglinganámkeiði fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar en kom sér merkilega vel frá ógleðinni þrátt fyrir að vera með hana stöðuga frá morgni til kvölds með tilheyrandi gusum!
Byrjaði í nýrri vinnu um haustið í Laugalækjarskóla og fann alveg vel fyrir því að vera á fyrsta ári í kennslu, var í fullu starfi og eyddi heljarinnar tíma í skipulagningu. Átti að vísu ekki barn og gat því komið heim og lagt sig í stundum þrjá klukkutíma. Var merkilega skynsöm og hélt sig við eitt starf og vann því ekkert aukalega um helgar né aðra virka daga. Stjanaði mikið við sjálfa sig með ýmsu dekri, nuddi, jóga, spa meðferðum og fleiru góðu. Vann nánast fram á síðasta dag eða 38 og hálfa viku. Lét taka óléttumyndir vikulega frá 17. viku og las nánast yfir sig af efni varðandi meðgöngu, fæðingu og ungabörn. Var mjög spennt fyrir þessu öllu saman en samt líka kvíðin enda vissi hún ekkert út í hvað hún var að fara.

28-29 ára gömul ólétt kona...
Tók maí mánuð með trompi hvað varðar ógleði og ældi nánast upp á dag áður en haldið var í vinnu í Laugalæk og var að ljúka sínum fimmta vetri þar. Var alveg fram í júlí að kljást við ógleði og losnaði ekki við hana fyrr en um ca. 14 vikur og gott betur. Byrjaði svo að vinna aftur komin um 20 vikur og aldrei hressari, orðin sjóuð á vinnustaðnum og þurfti ekki að eyða eins miklum tíma í undirbúning og skipulag og gat því kennt töluvert meira á viku eða um 31 stund. Er orðin meðeigandi í dansskóla sem kallar á aukavinnu um helgar og suma virka daga og við bætast nokkrar klukkustundir í rúmlega 100% vinnuvikuna! Á barn fyrir og því fer lítið fyrir lagningu seinnipart dags líkt og á fyrri meðgöngu sem þýðir að hún fer stundum að sofa klukkan tíu á kvöldin sem er mjög ólíkt hennar karakter. Lætur samt dekra við sig með jógatímum og ómissandi nuddi frá eiginmanninum sem sleppir varla úr degi hvað það varðar. Er þrátt fyrir að vera upptekin, skynsöm og þykist kunna að lesa í aðstæður þar sem hún er orðin of þreytt en gerir það klárlega ekki nógu oft. Ætlar alls ekki að vinna lengur en þangað til í byrjun desember sem þýðir kannski rétt um átta vikur í viðbót. Er þó búin að fá hótun frá ljósmóðurinni um að hún geti skikkað hana til að hætta fyrr ef henni sýnist svo! Hefur bara látið taka eina óléttumynd og þó komin 27 vikur á leið og á í fullu fangi með að halda tölu á vikufjöldanum, hvað þá að lesa um hvað er að gerast á hverri viku! Er bara alveg ótrúlega spennt fyrir tímunum framundan og finnst hún ef eitthvað er töluvert meira tilbúin í þetta heldur en fyrir fimm árum.
-Lindoss-

fimmtudagur, september 15, 2011

Styður kenninguna mína um að 2011 sé frekar málið, ef það verður á annað borð hægt að velja ár;)

Mér finnst líka flott að halda mig við frumtölurnar ef út í það er farið - þó að þetta skipti svo sem engu máli þegar upp er staðið en gaman að spá og spögulera í þessu!

Við hjónin kræktum okkur í kvefpest þessa vikuna, AFO er að komast upp úr sinni og þá tók ég við, alltaf hressandi þessar kvefpestir:) Þætti mjög vænt um að ÁRA myndi sleppa við þetta.

Við eigum síðan bústað á Flúðum helgina 23.-25. sept. með Álfi og co. Ég veit að það verður svo hrikalega næs og gaman að ég get hreinlega ekki beðið, góður matur og drykkur, spilamennska, lestur bóka, útsof, afslappelsi og notalegheit mmmmm....

mánudagur, september 12, 2011

Hitt og þetta...
Ára 4 ára: "Síðan fer litla systir bara út í vagn og við verðum bara tvær"

Þrátt fyrir spenning eru greinilega miklar pælingar um breytingar við komu þessarar nýju manneskju:)

Ára gisti síðan í fyrsta skipti hjá vinkonu sinni um helgina. Maður vanmetur þetta barn stundum alltof mikið, átti alveg von á símtali um að þetta væri ekki að ganga en gekk eins og í sögu sem betur fer:)

Ég ákvað síðan eftir miklar pælingar að skrá mig á jóganámskeið hérna í Borgartúninu, sama stað og ég fór með Áru þrátt fyrir að finnast þetta heldur væmið fyrir svona vélmenni eins og mig. Æfingarnar eru bara svo hrikalega góðar svo ég tali ekki um slökunina í lokin þar sem maður má sofna í 15-20 min ef ég man rétt. Fékk samt mátulegt refresh um væmnina þegar ég fékk póstinn um að ég mætti byrja: "Sæl og blessuð kæra Linda barnshafandi gyðja":) En gaman að því...barnshafandi gyðja - það er ég í hnotskurn!

Áran ætlar að prófa sundnámskeið en það er næsta stoppistöð í prógramminu "prófa sem flestar íþróttagreinar", nú þegar hefur dansinn, fótboltinn og fimleikar fengið falleinkunn um leið karlmaður birtist sem þjálfari, þessi elska erfði karlahræðsluna frá móður sinni en Sóley vinkona man nú vel eftir því þegar Gunna systir hennar þurfti alltaf að halda í höndina á mér fyrst þegar ég var heima hjá henni því ég var svo hrædd við bræður hennar og föður:)

En að sundinu sem er bara hérna uppi á Hrafnistu á sama stað og hjá sama kennara og við vorum í ungbarnasundi, frábært að geta labbað á staðinn og við mæðgur eigum örugglega eftir að eiga "kvolití tæm" í lauginni á þriðjudags-eftirmiðdögum.

Þessi vetur rúllar bara ljúflega af stað eins og þeir gera nú flestir nema hvað þessi er uppfullur af tilhlökkun og spenningi yfir desember mánuði og því sem framundan er.

laugardagur, september 03, 2011

Þegar maður eignast almennilega myndavél verður svo þúsund sinnum skemmtilegra að taka myndir og þess vegna eru á annað hundrað myndir frá ágúst- mánuði inni á myndasíðunni:)

www.123.is/agustarut

Nú er formleg barnafataflokkun hafin á heimilinu sem excel skjalinu leiðist nú ekki, er að verða komin upp í stærð 92 og enn af nógu að taka - þó svo að meira en nóg sé til mun ég sem sérleg barnafataáhugamanneskja leyfa kaup á nokkrum flíkum í minnstu stærðum og einmitt þessa helgina er 50% afsláttur af öllu á Carter´s og við svo heppin að vera með allar þessar flugfreyjuvinkonur í kringum okkur sem ætla að ferja heim:) Ég meina hver sleppir jólakjól á 20 dollara?

Áran er spennt yfir komandi fjölgun og vildi hringja í leikskólann daginn sem hún fékk fréttirnar til að láta vita:) Næsta sem við vissum var að hún hafði sagt öllum að hún ætti von á systur og einnig að hún ætti að heita María! Þar vorum við nú ekki með í ráðum en hún sagði okkur þetta síðan seinna um daginn og bætti um betur með því að segja eins og ekkert væri sjálfsagðara að hún ætti að heita María Rut. Þá var tekið smá spjall um að foreldrarnir sæju nú yfirleitt um svona nafngift enda erum við með annað nafn í huga þó svo að María Rut sé mjög fallegt:)

Ég var líka að viðra það við hana hvort það gæti ekki verið að gaman að búa í útlöndum einhvern tímann og jújú hún var alveg til í það en sagði samt að þá þyrfti hún að giftast einhverjum enskum;) haha, róaðist samt strax aftur þegar ég sagði henni að hún gæti alveg gifts Eldi sínum. Hún spurði mig líka hvort að ég þyrfti að gifta mig aftur þegar ég eignaðist annað barn!

Vetrarrútínan er komin vel af stað og ég er svo mikið haustbarn að ég elska haustið og þegar byrjar að dimma og maður getur kveikt á kertum. Verður nóg að gera svo sem eins og alltaf en ég er samt ákveðin í því að vinna ekki lengur en til 9. des þó svo að ég verði ennþá alveg úberhress - taka skynsemina á þetta, maður er svo skynsamur alltaf hreint - right!

Við erum líka búin að hitta fæðingarlækni sem var klárlega waste of time en alveg efni í aðra færslu, aðalatriðið er þó að ég mun alltaf ráða hvað ég geri og því er stefnan sett á keisara milli jóla og nýárs - það er einhvern veginn meiri rómantík í kringum það heldur en 2. janúar sem er líka heldur nálægt settum tíma sem er jú þarna alveg í blábyrjun árs. Þetta kemur samt bara allt í ljós þegar nær dregur enda ekkert hægt að plana þegar kemur að þessum barnamálum - þau koma víst þegar þau eiga að koma eins mikil klisja og það er. Einhver góður maður líkti barneignum við gjafir - maður veit ekkert endilega hvenær maður fær gjöf og heldur ekkert hvernig hún verður - þannig er það nú bara.

Annars er bara mikil gleði á heimilinu yfir þessu öllu saman og álfurinn í maganum farinn að sparka duglega og láta finna fyrir sér. Ég er alveg súperhress og vona bara að það endist sem allra lengst:)

Har det brav....og nú mun þessi bloggsíða taka kipp fyrir alla þá sem búa úti og vilja fylgjast með gangi mála!

fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Við tókum upp viðbrögð Áru við því að hún væri að fara að eignast litla systur, þau voru mjög svo einlæg og skemmtileg:)

Sjá hérna

Ég ætla síðan að setja smá kraft í þessa bloggsíðu með haustinu!

laugardagur, júní 18, 2011

Tókum 17. júní alla leið - með góðri byrjun á brunch með Álfi og Eldi, Brúðubíllinn, Ballið á bessastöðum ásamt öðrum atriðum, gasblaðra, snudda, andlitsmálning, 1 árs afmæli, grillveisla í Geislanum og punkturinn settur yfir i-ið þegar við rúntuðum í bæinn aftur að verða tíu um kvöldið og Ára fékk Candy flos og nammiúr:)

Við hýsum síðan eitt stykki ungling hérna á heimilinu - Svansý býr hjá okkur í nokkra daga og sefur í Buddha herberginu:) Það þarf ekki að hafa mikið fyrir þessum unglingum, leyfa þeim að sofa, þvo fötin þeirra og gefa þeim kvöldmat:) Ég tók síðan 17. júní vaktina og náði í hana í bæinn að verða eitt, alveg til fyrirmyndar hún Svava mín:)

Fullt af nýjum myndum á myndasíðunni undir maí/júní 2011!

Sæta 17. júní stelpan okkar

Flestir vita að AFO er búinn að vera á Paleo mataræði í rúma þrjá mánuði - hér má sjá hann ferskan í brunch:)

miðvikudagur, júní 15, 2011

Ég er ekki í lagi...

var að skoða gömul blogg frá mér og sé þá komment frá Selmu um að hún bíði svo bara eftir 29 ára afmælinu mínu og þá rifjast upp fyrir mér að ég hef tvisvar haldið "merkisafmæli" án þess að það sé merkisafmæli! Fyrst þegar ég var 19 ára á Hjallaveginum og síðan 24 ára afmæli á Kambsveginum, báðar veislurnar nokkuð stórar og mikil gleði og gaman. En um leið og ég las þetta komment frá Selmu fannst mér eins og ég hefði klikkað á 29 ára afmælinu og ég þurfti að taka mér alveg góðan tíma í að hugsa hvað ég væri eiginlega orðin gömul, greinilega gömul því það rann síðan upp fyrir mér að ég verð 29 ára í október á þessu ári - ég held það sé nú barasta ekki í lagi með mig! Fannst í augnablik að ég væri orðin 29 ára:)

En ég klikka ekki á partý-inu - lofa því:)

föstudagur, júní 10, 2011

Það hefur verið nefnt áður að Ára erfði textagenið frá mér, sælla minninga þegar hún söng "djobbelífs" (Don´t believe) með John Lennon:)

Í morgun var hún alveg megahress á leið leikskólanum - nýbúin að horfa á kirkjuþættina "Daginn í dag" sem eru vinsælir þessa dagna á "vodinu". Nema hvað að við heyrum hana syngja hástöfum: "Daginn í dag, daginn í dag gerði drottningin, gerði drottningin, gleðjast ég vil, gleðjast ég vil og vakna þennan dag og vakna þennan dag"

Greyið barnið þarf að lifa með þessu líkt og ég:)

Sumarfrí frá Laugalæk og skemmtileg vorferð í gær þar við Svavar frumsýndum starfsmannamyndband sem við erum búin að vera að grúska í ásamt nokkrum góðum aðstoðarmönnum og kom skemmtilega á óvart - set það kannski hérna inn við tækifæri.

Núna er Harpa í Exeter og verður í allt sumar, Svansý rokin til Spánar í fótboltaferð og mamma og pabbi á leið í Hólminn á mánudaginn, ég held að þetta hafi bara aldrei gerst áður að við séum svona öll á sitthvorum staðnum, verður örugglega mjög skrýtið!

Annars er ég mjög svo fegin að eiga Frakkland inni í júlí þar sem sumarið virðist ætla að koma ansi seint og um síðir hérna á Fróni en það kemur ég er viss um það.

Góðar stundir.

mánudagur, júní 06, 2011

2 ár liðin síðan þessi ógleymanlegi dagur átti sér stað, ótrúlegt hvað tíminn flýgur! Þetta þýðir bómullarbrúðkaupsafmæli og því var fagnað með góðum late night dinner á Horninu. Mér finnst reyndar að ég mætti kaupa mér eina bómullarflík líka:)

Annars get ég ekki hætt að hlæja að mismælum skólastjórans á útskrift 10. bekkjar fyrr í kvöld - ætlaði að segja "en þar ræður ríkjum" en mismælti sig og tók mestu mismæli allra tíma: "en þar ríður rækjum" - og þeir sem þekkja mig vita að ég ELSKA mismæli og það sem ég hló, maður minn, þurfti næstum að yfirgefa salinn!

Svansý formlega búin að ljúka Laugalæk og Laugó-mafían því einum liðsmanni færri. Hún stóð sig með glæsibrag og fékk himinháar einkunnir:)

Sóley snillingur fór létt með að unga út "litlum" 4 kg dreng en hann er yndislega fallegur og mikil værð yfir honum. Ég hugsa til þeirra svona ca. 10 sinnum á dag, mér finnst svo leiðinlegt að vera ekki nær þeim á þessum miklu tímamótum.

Sía mín búin að fá íbúðina sína á Laugarnesveginum og nú getum við farið að samnýta Bónusferðir og elda saman og rölta yfir í kvöldrauðvínsglas eftir erfiða vinnudaga:) Ég tók eldhúsið hennar í nefið í gær og kom skipulagi á hlutina - you know me, hata ekki að endurskipuleggja eldhús!

Annars eru þrír litlir vinnudagar eftir í Laugalæk og síðan tekur við smá danskennsla fram að Lu France sem verður geggjað - ég bara veit það.

*pís át*


föstudagur, maí 27, 2011

Lyf til að lifa?


Ára snillingur er búin að vera með einhvern ljótan hósta í vikunni en sagði sjálf í nótt að hún væri samt mjög hraust:) og hún má nú alveg eiga það því síðustu tvo vetur hefur hún verið stálhraust eftir að hafa tekið einn brjálaðan veikindavetur. Í nótt var hún samt alveg með hita og illt í eyrunum sínum líka, mér fannst þetta byrja um leið og loftið varð verra út af gosinu en maður veit svo sem ekki.

Í morgun þurfti ég að tala hana inn á það að vera heima því henni finnst svo ótrúlega gaman í leikskólanum að hún vill alls ekki missa dag úr og reyndi hvað hún gat til þess að fá að fara, það var ekki fyrr en ég sýndi henni útbrotin í andlitinu (sem ég hugsa að hafi komið út af áreynslu við að hósta) að hún sættist á það að vera heima með mér. Núna situr hún og horfir á Fíusól uppáhaldið sitt og fræðir mig um ýmislegt skemmtilegt. Rétt áðan sagði hún t.d að hún hefði einu sinni tekið meðal en svo hefði hún verið rosalega veik og þá hefði hún fengið lyf og svo bætti hún við: "En hvað er eiginlega lyf, er það til þess að lifa":) hahaha!

Vonandi nær hún sér í dag því á morgun er fótboltamót! Og hún og Brynja vinkona hennar ætla mæta galvaskar, ég á nú alveg að sjá þær keppa!

laugardagur, maí 21, 2011

Skammarlegt!
Ég er farin að skammast mín allsvakalega fyrir myndaleysi og bloggleysi og heiti því hér með að úr þessu verði bætt ekki seinna en strax í dag! Var að fara yfir myndatökur síðustu mánaða og eftir afmælið hjá Áru í mars voru ekki teknar nema 20 myndir sem er skammarlegt og í apríl að Blackpool undanskildu, 16 myndir! Ég henti þessu þó samviskusamlega inn á myndasíðuna ásamt Blackpool albúmi sem getur bara verið svo gaman að skoða:)

Af okkur fjöllunni er bara allt fínt að frétta, Andri að vísu handarbrotinn eftir glímuátök og búinn að vera í gipsi á þriðju viku og stefnir í 10 daga í viðbót ef ekki meira. Og þetta er á hægri svo hann þarf aðstoð við ýmislegt eins og gefur að skilja! En við hjálpumst að eins og okkur einum er lagið svo þetta bjargast ágætlega.

Heimasætan er sykusæt sem endranær og rúllaði 4 ára skoðun upp á dögunum. Rétt fyrir skoðun var ég að útskýra fyrir henni að hún þyrfti örugglega að telja og skoða myndir og segja litina og fleira og þá spurði hún mig þessi elska hvort hún ætti að telja á ensku eða íslensku:) Hún fór síðan í skoðunina og stóð sig sérlega vel að mati okkar foreldranna en á svona tímamótum má maður monta sig og vera ofurstoltur en hún tók sjónpróf eins og sex ára og þuldi alla stafina upp eins og ekkert væri, sýndi fram á góðan talnaskilning (annað væri nú fáránlegt;)) og var til fyrirmyndar í alla staði og þá er maður glaður, þannig er það nú bara. Og þá er mont ársins búið!
Einkadóttirin glæsileg á öskudaginn
Í sumar ætlum við síðan heldur betur að söðla um og munum eyða júlí-mánuði í Frakklandi nánar tiltekið í litlu þorpi sem heitir Férel og er á Brittany skaga. Ég bara veit að þetta verður geggjað, bara við þrjú familian í slökun og dekri í fallega Frakklandi og að sjálfsögðu er öllum velkomið að droppa við sem eru á ferðinni á meginlandinu. Við fljúgum til Parísar þann 7. júlí og komum tilbaka þann 28. júlí. Við verðum í húsi í eigu franskrar fjölskyldu en þau verða í okkar íbúð á meðan, ásamt því að skipta á bílum, algjör snilld og hagstætt í kreppuástandi. Þeir sem hafa áhuga geta kynnt sér málið hér

Eftir 9 daga á síðan Sóley elsta æskuvinkona mín von á sínu fyrsta barni, mér finnst svo leiðinlegt að vera ekki stödd í sama landi og hún en ég veit að hún leyfir mér að fylgjast með þessari miklu upplifun en ég er ekki í nokkrum vafa um að hún og Kobbi rúlla þessum nýju hlutverkum upp:)

Í dag er stefnan sett á fótboltaæfingu hjá Þrótti, það er heimasætan sem er að byrja að æfa ásamt vinkonum sínum. Hún vill endilega eignast fótboltaskó en við ætlum nú fyrst að sjá hvað hún endist margar æfingar!

fimmtudagur, mars 24, 2011


Langamma 98 ára!
Í dag fagnaði hún Ágústa langamma mín 98 árum. Ótrúlegur aldur og hún svo spræk að halda veislu fyrir fólkið á deildinni hennar ásamt okkur fjölskyldunni. Allir sungu afmælissönginn fyrir hana og hrópuðu húrra!
Mér fannst samt best þegar hún sagði að þetta væri nú engin veisla, hún væri bara að gera þetta að gamni sínu fyrir gamla fólkið! Hún er aldursforsetinn á deildinni:)

þriðjudagur, mars 22, 2011


Afmælis-Andri í dag!

Síðasta töttögu og eitthvað obbobbobb...

Hér í sumarfíling til að lyfta upp þessum endalausa vetri!

sunnudagur, mars 06, 2011

4 ára Ára!

Litla kraftaverkastelpuskottið okkar er bara ekki svo lítil lengur:)

Nývöknuð og úfin að opna gjöfina frá okkur
Dúkkuhús sem var búið að óska sérstaklega eftir
Sofia Lára vinkona fékk að koma aftur í dag í fjölskylduafmælið en hún kom líka í gær í barnaafmæli þar sem 12 krakkar skemmtu sér konunglega og voru til fyrirmyndar, án gríns þá mátti heyra saumnál detta við matarborðið þau voru svo stillt án foreldra:)!

Fullt af myndum bíða þess að fara inn á myndasíðuna sem ég nenni þó ekki í kvöld en von bráðar!

Einnig bráðskemmtilegt myndband af öllum krökkunum að dansa hókí pókí og waka waka!


þriðjudagur, febrúar 15, 2011


Paraferðin part II - Winter Edition...


Brottför eftir þrjá daga, spenningur MIKILL!


Væri til í að eiga örlítið meira budget fyrir búðirnar en maður á Blackpool inni;)
Held að þessi ferð muni lyfta köldum vetri og dimmum dögum upp á hærra plan!

sunnudagur, febrúar 06, 2011

Föstudagurinn 4. febrúar var tileinkaður degi stærðfræðinnar. Þemað í ár var stærðfræði og spil og því fengu nemendur mínir að spila ýmis "misskemmtileg" stærðfræðispil að þeirra mati:)

Mæli til dæmis með þessari síðu fyrir þá sem hafa gaman af Set Game, bara velja daily puzzle og þá hefst keppnin!

Í tilefni dagsins ætla ég að birta þraut sem ég sá hjá kollega mínum, vegleg verðlaun í boði fyrir þann sem verður fyrstur að leysa! Ég vil að sjálfsögðu fá að leið að svarinu meðfylgjandi.

Hvaða jákvæða heiltala N uppfyllir eftirfarandi fimm skilyrði:

1. N er slétt.
2. Þegar deilt er í N með 5 fæst afgangurinn 1.
3. N er margfeldi af 7.
4. N er minni en 1000.
5. Summa tölustafa N (þegar N er skrifað miðað við venjulegt tugakerfi) er 23.

Koma svo, kveikja á stærðfræðiheilanum!

föstudagur, febrúar 04, 2011

Barnabætur smarnabætur...

Við gerðum ansi vel við okkur í kvöld, nýttum 2000 kallinn minn sem ég fékk í barnabætur til þess að kaupa lambalundir í matinn - kannski verður pöntuð pizza fyrir Andra 2000 kall á morgun;)

En án gríns þetta er til skammar, 2200 kr. á mann! Þetta var nú lítið fyrir en við erum greinilega svona mikið hátekjufólk. Mér finnst lágmark að miða þetta eingöngu við dagvinnu eða 100% vinnu, ekki refsa fólki sem vinnur mikið.

þriðjudagur, febrúar 01, 2011

Reglubundið eftirlit hjá Leitarstöðinni...

Ég skellti mér í dag enda stuðningsmaður þess að fylgja þessu eftir á tveggja ára fresti. Þetta er aldrei það skemmtilegasta sem kona fer í en alltaf mikill léttir þegar þessu er aflokið. Eftir gott spjall og ýmis ráð frá henni Möggu marghugu minni í gær varð ég reynslunni ríkari en ég hef aldrei farið beint niður á Leitarstöð heldur alltaf til míns læknis. Hún benti mér til að mynda á að það væri einn læknir sem væri sérlega harðhentur og því skyldi ég annað hvort biðja um annan lækni eða panta annan tíma. Ég var því ekki lengi að athuga hverjir væru á vakt dagsins til þess að fullvissa mig um að þessi læknir væri ekki á vakt. Svo var ekki.

Galvösk gekk ég svo inn á minn bás en eins og Magga lýsti réttilega er þetta eins og vera í fjósi, færð þinn bás og slopp og situr svo ber að neðan meðal annarra kvenna í sama leiðangri. Ég fór úr sokkunum, fannst það passa betur við sloppinn á meðan margar aðrar voru í sínum, allaveganna, ég er kölluð inn og spurð hvort mér sé sama að læknanemi sé viðstaddur, jújú ég er til í það, þekkjandi nokkra læknanema og vitandi að þetta er þeim nauðsynlegt. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir að læknanemar dagsins í dag eru ungir, ég er ung en þeir eru jafnvel enn yngri! Á móti mér tók því að mér fannst óttalega og jafnvel fullungur piltur sem ætlaði sér að vera viðstaddur þessa yndislegu athöfn. Og ekki varð það betra þegar læknirinn spurði hvort það væri í lagi mín vegna að unglambið fengi að taka sýnið undir hennar handleiðslu! Hvað getur maður sagt, ekki nei á þessu mómenti og sem betur fer þekkti ég ekki nemann! Þetta gekk samt vel hjá honum og hann alveg með þetta. Lærdómur dagsins framvegis er þó að afþakka læknanema nema fá að ganga úr skugga um að þekkja þá alls ekki. Mig langar ekkert sérstaklega að láta gamla nemendur mína vera að krukka eitthvað í kjallaranum mínum:)

fimmtudagur, janúar 27, 2011

Merkilega hreinskilið

Á leiðinni úr vinnunni í dag hitti ég eldri konu sem ég kannast við hérna í hverfinu, hún spjallar alltaf aðeins við mig þegar við hittumst enda opin og nokkuð hreinskilin.

Spjallið í dag var á þessa leið:

Konan: Nei hæ!
Ég: Hæ!
Konan: Flottar gammósíur sem þú ert í eða eru þetta sokkabuxur?
Ég: Já svona leggings bara...
Konan: Ertu ekki fegin alltaf á vorin þegar kennslu lýkur?
Ég: Jú jú, ég hef samt mjög gaman að þessu starfi en auðvitað alltaf gott að fara í sumarfrí
Konan: Ertu að fá einhverjar bólur þarna? (Og bendir fyrir neðan munninn á mér)
Ég: (Nokkuð góð bara í húðinni þessa stundina) Uh..ég veit það ekki...
Konan: Ég fékk nú bólur alveg fram til sextugs...
Ég: Já, ég hef nú heyrt um einhverja svoleiðis
Konan: Já, já eða kannski er þetta bara þetta mánaðarlega...
Ég: haha já getur verið en við sjáumst!
Konan: Já við sjáumst!

Alveg merkilegt hvað fólk telur sig geta verið hreinskilið við mig:)

þriðjudagur, janúar 18, 2011

Ertu kassi inni í kassanum?

Ég lenti í smá spjalli við einn nemanda minn um Stars Wars og ævintýramyndir og þætti yfir höfuð. Þetta byrjaði út frá því að ég sagði honum að ég væri ekki fyrir neitt ævintýra, hvorki bíómyndir, þætti eða annað slíkt. Hann vildi meina að maður yrði svo hugmyndaríkur með því að horfa á svona ævintýradótarí en ég þurfti í algjörri hreinskilni að segja honum að þetta hafi bara aldrei verið fyrir mig. Hann teiknaði þá svona kassa með fingrunum og spurði hvort ég væri bara inni í svona kassa, ég játti því og sagði honum að það kæmi alveg fyrir en þá bætti hann um betur teiknaði kassa inn í stóra kassann og spurði hvort ég væri kannski bara inni í kassa inni í kassa....!

Ég þarf að koma mér út úr þessum kassa stundum, það er alveg klárt mál. Ég get nefnilega hugsað út fyrir kassann en þarf að koma mér þaðan út hið snarasta!

fimmtudagur, janúar 13, 2011

Utanlandsferðir, danskeppnir og fleira skemmtilegt framundan!

Þegar ég hugsa tilbaka þessi 11 ár sem við Andri höfum verið saman telst mér svo til að ég hafi farið til útlanda að minnsta kosti einu sinni hvert eitt og einasta ár! Ég man að vísu ekki alveg hvort ég fór eitthvað árið 2002 og því miður var ég ekki byrjuð að blogga þá og get því ekki flett slíkum heimildum upp en eflaust á ég einhverja dagbók frá árinu þar sem ég hef skráð þetta hjá mér! Þetta eru náttúrulega alveg fáránleg forréttindi í ljósi þess að stóran hluta af þessum tíma var ég námsmaður og hinn hlutann kennari. Ástæðan fyrir þessum ferðum er auðvitað að stærstum hluta tilkomin vegna allra þeirra aukavinna sem mér hefur boðist að taka og það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að ég nenni því yfir höfuð, einungis í þeim tilgangi að komast að lágmarki einu sinni á ári út fyrir litlu eyjuna okkar.

Eftir hrunið hélt ég að nú yrði eitthvað lát á en síður en svo, strax nokkrum dögum eftir hrun áttum við bókað flug til Kaupmannahafnar með aðeins 2000 danskar í vasanum því meiri gjaldeyri var ekki að fá! Síðan var það Stokkhólmur og Ítalía 2009, árið 2010 hófst með ráðstefnunni BETT í London og paraferð um sumarið til Stokkhólms.

Og ég læt ekkert árið 2011 vera neinn eftirbáta hinna 11 á undan og eftir rúman mánuð er stefnan tekin á Paraferð part II Winter Edition þar sem við munum m.a. dvelja á þessu dásamlega Japanska Spa hóteli daglangt, sötra græn te, læra að gera sushi, fara í japönsk böð og iðka Zen hugleiðslu. Ótrúlega hvetjandi í annars drungalegum janúarmánuði að eiga þetta inni!

Í lok apríl tekur svo við önnur utanferð nánar tiltekið til Blackpool á danskeppni en dansskólinn fer að öllu líkindum með 9 pör á keppnina. Þetta verður langur tími frá fjölskyldunni á páskunum sjálfum en ég fer laugardaginn fyrir páska og kem ekkert aftur fyrr en laugardaginn 30. apríl! En stórskemmtilegt engu að síður og ótrúlega gaman að rifja skemmtilegar minningar síðan ég keppti sjálf í Blackpool á mínum yngri árum.

Nú þegar er verið að plana ömmu, systra og mæðgnaferð til Ameríku árið 2012 svo það lítur út fyrir að ekkert lát verði á þessum utanlandsferðum!

Það sem lítur hins vegar ekki vel út er fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og alveg ljóst að staðan fyrir næsta skólaár verður mjög erfið og því ekki úr vegi að nota kannski síðustu tækifærin í bili til utanferða!

Um helgina verð ég stödd hér ásamt flottu danspörunum okkar:)

Í kvöld er það Ofviðrið með leikhúsvinunum okkar þeim Láru og Benna - hlakka til!

laugardagur, janúar 08, 2011

Gleðilegt nýtt ár!
Við á Laugarnesveginum þökkum ykkur fyrir allt gamalt og gott og erum viss um það að 2011 verður gott ár:) Í ár verður enginn myndaannáll vegna þess að ég nenni því ekki og eitt af áramótaheitum 2011 er nefnilega leti og slökun, fækka excel skjölum og leggja sig þeim mun meira! Þið getið bara rúllað yfir myndirnar inni á myndasíðunni ef þið viljið rifja eitthvað upp:)

Við áttum dásamleg jól í faðmi vina og fjölskyldu og nutum þess að vera í fríi saman. Síðan er algjört janúarmöst hjá okkur að fá í það minnsta eina flensu og erum við mæðgurnar búnar að eyða síðast liðinni viku í slík skemmtilegheit - kvef, hósta og slen en ætlum að nota helgina til að hrista þetta af okkur.

Áran snéri sólarhringum alveg við í fríinu og var í ruglinu núna í vikunni þegar hún átti loks að mæta í leikskólann, vaknaði tvær nætur í röð um miðja nótt og vakti í þrjá tíma! Ekkert að henni, bara gat ekki sofið og var ekkert þreytt að eigin sögn. Frekar þreytandi fyrir foreldrana sem voru ekki að nenna þessu næturbrölti en gátu ekki annað en hlegið þegar hún spurði okkur hvort við vildum fimmu eða klesst´ann klukkan þrjú um nótt! Hressleikinn alveg í hámarki:)

Hún naut þess alveg að vera í fríi og slökun og sló svefnmet sitt á nýársdag þegar hún svaf til 13:00! Hún gat lesið á marga pakka og er farin að skrifa nöfnin á hennar nánasta fólki hjálparlaust enda dugleg að læra stafina, engin pressa samt þó ég viti að þið sjáið fyrir ykkur heræfingabúðir ala Linda:)

Inn á myndasíðunni má finna jóla og áramótamyndir, fimm ættliða myndir og nokkrar janúar myndir. Það er því algjör skylda að kvitta fyrir innlitið!