sunnudagur, október 30, 2011

Jesús er að koma sterkur inn hérna á heimilinu eftir tíðar ferðir Áru í sunnudagaskólann með Brynju vinkonu sinni. Síðast skrifaði ég um hvernig hún bjargaði mér fyrir horn með því að útskýra fyrir vinkonu sinni að Jesús hefði auðvitað sett þessa stelpu í magann á mér - ég meina hver annar!;)

Nýjasta afrek Jesú er síðan að ákveða að strákar þurfa ekki að þurrka sér eftir að þeir pissa. Þetta sagði hún við Andra eftir að hafa spurt hann af hverju strákar þyrftu ekki að þurrka sér þegar þeir væru búnir að pissa og Andri var eitthvað að reyna að útskýra það en hún greip inn í og kom með þessa fínu útskýringu: "æj Jesús hefur örugglega bara ákveðið að það ætti að vera þannig":) Og þá var það frágengið!

Samstarfskona Andra tók síðan þessa mynd af honum og þar sem Andri hefur aldrei bætt á sig aukagrammi finnst mér gaman að sjá hvernig hann mun líta út þegar kemur að því að ég þurfi að fara að kasta út einhverjum björgunarhringjum:)

Október myndir eru á leiðinni á myndasíðuna helst ekki seinna en á morgun!


sunnudagur, október 16, 2011

Skondnar draumfarir...
Ég veit ekki hvað fékk mig til að dreyma að ég hefði sótt um sumarstarf sem strætóbílstjóri hjá strætisvögnum Reykjavíkur en ég eyddi í það minnsta heilli nótt í aka áttunni um allan bæ! Byrjaði þannig að mig vantaði sárlega starf og fyrsta sem ég sá laust var strætóbílstjórastarf, ég sótti um og fékk starfið samdægurs. Eitthvað gekk mér nú illa að keyra þennan vagn enda flennistór og ég alveg sami stubbur og venjulega, þó alveg í strætóbílstjóra búningnum með hatt og allar græjur. Átti reyndar ansi erfitt með að opna fyrir farþegum og enn erfiðara með að loka aftur því ég fann ekki takkann til þess og keyrði því bara með opið, farþegum til mikillar mæðu og heyrðist alltaf kallað fram í: "það er opið að aftan"! Mér gekk erfiðlega að rata leiðinlega sem áttan átti að fara og var alltaf að villast og komin langt á eftir áætlun, komst þó á leiðarenda og fékk smá kaffipásu þar sem ég bað um ullarsokka því mér var svo kalt á tánum, fékk svo afhenta nýlegri týpu af vagni og kveið því mikið að leggja af stað aftur!

Orgasmic birth!

Þessi mynd var mikið rædd í jóganu í síðustu viku og ég ætla svo sem ekkert að fara út í þá sálma hvað mér finnst um það en ég var segja Andra frá þessu og sýna honum trailerinn og honum þótti þetta sérstakt og nefni það við mig að hann hefði aldrei heyrt slíkt áður, eina sem hann myndi eftir var þegar við vorum á foreldranámskeiðinu síðast og fengum að horfa á fæðingu og eins og hann orðaði það: "konan sofnaði á milli hægða" hahahaha, ég var fljót að átta mig á mismælinu og hló eins og vitleysingur og hann alveg "æj hvað heitir þetta aftur" og ég botnaði fyrir hann "þú meinar milli hríða" hahaha, hann afsakaði sig með því að það kæmi náttúrulega alveg fyrir að konur myndu kúka í fæðingu! Ég vona samt að engin lendi í því að kúka svo mikið að hún sofni á milli hægða;)

Hver kom nú með þessa stelpu í magann minn?

Ég beið eftir að þessi spurning kæmi frá dóttur minni en vinkona hennar var fyrri til og spurði hvort ég hefði verið með tvær stelpur í maganum þegar Ára var þar. Ég sagði að svo hefði nú ekki verið og þá furðaði hún sig á því hvernig þessi nýja hefði nú komist þangað - demit komið að þessu mómenti hugsaði ég en þá kom yndisleg dóttir mín mér til bjargar og sagði: "Sko Sofia, Jesús sett hana þangað!" Ég hugsaði með mér what, hvaðan hefur hún það eiginlega og spurði hver hefði verið að segja henni það og svaraði um hæl: "nú pabbi." Ég bara trúði því ekki að búddískur faðir hennar hafi ákveðið að sleppa svo léttilega frá þessari útskýringu og klína þessu á Jesús greyið:) Svo virðist heldur ekki vera því hann þvertekur fyrir þetta, einhvers staðar annars staðar frá koma því upplýsingarnar!

sunnudagur, október 09, 2011

þriðjudagur, október 04, 2011

Samanburður...
23-24 ára gömul ólétt kona...
Vann á siglinganámkeiði fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar en kom sér merkilega vel frá ógleðinni þrátt fyrir að vera með hana stöðuga frá morgni til kvölds með tilheyrandi gusum!
Byrjaði í nýrri vinnu um haustið í Laugalækjarskóla og fann alveg vel fyrir því að vera á fyrsta ári í kennslu, var í fullu starfi og eyddi heljarinnar tíma í skipulagningu. Átti að vísu ekki barn og gat því komið heim og lagt sig í stundum þrjá klukkutíma. Var merkilega skynsöm og hélt sig við eitt starf og vann því ekkert aukalega um helgar né aðra virka daga. Stjanaði mikið við sjálfa sig með ýmsu dekri, nuddi, jóga, spa meðferðum og fleiru góðu. Vann nánast fram á síðasta dag eða 38 og hálfa viku. Lét taka óléttumyndir vikulega frá 17. viku og las nánast yfir sig af efni varðandi meðgöngu, fæðingu og ungabörn. Var mjög spennt fyrir þessu öllu saman en samt líka kvíðin enda vissi hún ekkert út í hvað hún var að fara.

28-29 ára gömul ólétt kona...
Tók maí mánuð með trompi hvað varðar ógleði og ældi nánast upp á dag áður en haldið var í vinnu í Laugalæk og var að ljúka sínum fimmta vetri þar. Var alveg fram í júlí að kljást við ógleði og losnaði ekki við hana fyrr en um ca. 14 vikur og gott betur. Byrjaði svo að vinna aftur komin um 20 vikur og aldrei hressari, orðin sjóuð á vinnustaðnum og þurfti ekki að eyða eins miklum tíma í undirbúning og skipulag og gat því kennt töluvert meira á viku eða um 31 stund. Er orðin meðeigandi í dansskóla sem kallar á aukavinnu um helgar og suma virka daga og við bætast nokkrar klukkustundir í rúmlega 100% vinnuvikuna! Á barn fyrir og því fer lítið fyrir lagningu seinnipart dags líkt og á fyrri meðgöngu sem þýðir að hún fer stundum að sofa klukkan tíu á kvöldin sem er mjög ólíkt hennar karakter. Lætur samt dekra við sig með jógatímum og ómissandi nuddi frá eiginmanninum sem sleppir varla úr degi hvað það varðar. Er þrátt fyrir að vera upptekin, skynsöm og þykist kunna að lesa í aðstæður þar sem hún er orðin of þreytt en gerir það klárlega ekki nógu oft. Ætlar alls ekki að vinna lengur en þangað til í byrjun desember sem þýðir kannski rétt um átta vikur í viðbót. Er þó búin að fá hótun frá ljósmóðurinni um að hún geti skikkað hana til að hætta fyrr ef henni sýnist svo! Hefur bara látið taka eina óléttumynd og þó komin 27 vikur á leið og á í fullu fangi með að halda tölu á vikufjöldanum, hvað þá að lesa um hvað er að gerast á hverri viku! Er bara alveg ótrúlega spennt fyrir tímunum framundan og finnst hún ef eitthvað er töluvert meira tilbúin í þetta heldur en fyrir fimm árum.
-Lindoss-