miðvikudagur, mars 28, 2012

Fyrstu bréfin í pósti!


Magda með sitt fyrsta brét frá Íslandsbanka - alveg grunlaus um ástand hagkerfisins enda bara tæplega þriggja mánaða


Systir hennar tæpum fimm árum áður með sitt fyrsta bréf frá Glitni, rúmlega fjögurra mánaða, aðeins klárari og hrunið framundan!

Þjónustufulltrúinn í Íslandsbanka var ekki að fíla brandarana mína þegar ég var að stofna framtíðarreikning fyrir M. Ég sló á létta strengi og sagði að það væri nú heldur mikill munur að fæðast 2007 eða 2011, bankarnir hreinlega slógust um að gefa 5000 kalla inn á framtíðarreikning 2007, núna kom ekki svo mikið sem bréf til að minna á að stofna slíkan reikning hvað þá að hún fengi peningagjöf - Georg baukur og bolur var það heillin:) En stúlkurnar munu fá það sama frá foreldrum sínum um hver mánaðamót 1500 á haus!

þriðjudagur, mars 20, 2012

Góð nýting á flíkum og hlutum!
ÞrítugsAndri


Styttist alla verulega í tugina þrjá hjá bóndanum og magnað að það séu komin 20 ár síðan við hittumst fyrst, ég með hliðartagl í fjólubláu dressi og hann í Fylkis apaskinns gallanum sínum!
Og í tilefni þess að hann er að verða þrítugur og ég síðan seinna á árinu voru keyptir svokallaðir Saladmaster heilsupottar! Fórum á kynningu hjá Elínu og Sóla vinum okkar en þessir pottar kosta mjög mjög mikið - svo mikið að það er eiginlega ekki nethæft:) Andri talaði látlaust um þá í viku eftir kynninguna og taldi fjármálastjóranum trú um að þetta væri ein besta fjárfesting sem hægt væri að gera - fjármálastjórinn gat tekið undir það að heilsan væri eitt það besta sem hægt væri að fjárfesta í og því voru þeir keyptir! Hér er því bara eldað í áðurnefndum pottum og á miðhita, þetta eru nefnilega ekki bara heilsusamlegir pottar heldur spara líka rafmagn og næringin helst betur í matnum svo maturinn nýtist töluvert betur svo ég tali nú ekki um hvað er auðvelt að elda í þessu fyrir amatöra eins og mig þegar kemur að eldhúsmennsku!


Hentar líka vel í ZeroMars...


Af bílamálum er lítið að frétta, hann er bara enn í viðgerð en við höfum verið heppin að hafa sendarann til að sendast en síðan er ég líka dugleg að nota strætókortið mitt en mér finnst bara ótrúlega huggulegt að rölta niður í bæ, kíkja í gluggana, koma við í Bónus og taka svo vagninn heim á meðan Magdalena sefur vært í vaginum.


Mars mánuður gefur öðrum mánuðum ekkert eftir hvað varðar myndatökur og fara nú óðum nýjar myndir að koma inn á myndasíðuna!

fimmtudagur, mars 15, 2012

Prins Polo í kröggum!

Bíllinn okkar yndislegi prins polo er bilaður - smávægilegar lagfæringar, plana heddið upp á nýtt, skipta um þéttingar og tappa og svo er einn fjaðurgormur og balancestangargúmmí farið - ekki nema takk fyrir pent. Kostar fúlgu en Lottó er að lotta eitthvað fyrir okkur svo vonandi fer kostnaður lækkandi. Á meðan keyrir Andri um á sendiferðabíl og vekur athygli hvert sem hann fer. Við getum sem sagt ekki farið neitt saman á bíl fjölskyldan eins og staðan er núna, verandi fjögur og bara á þriggja sæta sendiferðabíl. Það er rétt sem pabbi sagði við mig, maður þarf hálfgerða áfallahjálp þegar maður lendir í þessu svona á síðustu og verstu;) Ég finn reyndar voða lítið fyrir þessu virka daga, er aldrei á bíl og keypti mér strætókort fyrir þónokkru síðan. Mér finnst nefnilega bara fínt að taka strætó í bæinn, versla aðeins inn í Bónus og fara svo tilbaka. Það er ekki eins og tímaskortur sé vandamál þegar maður er í fæðingarorlofi!

Andri er svo glaður að eiga nýja þrítugspotta að hann vill bara leggja bílnum tímabundið - það er svo sem alveg möguleiki út af fyrir sig en við sjáum hvað setur. Don Ruth og Lottó eru á leið til Flórída eftir tæpar tvær vikur og þá getum við verið á þeirra bíl svo þetta bjargast nú allt saman. Gott að taka Pollýönnu á þetta, margt töluvert verra sem gæti hent mann en smá bílavandræði. Hefði samt alveg í hinum fullkomna heimi kosið að þetta myndi frekar gerast þegar allir væru á fullum launum, það kæmi sér bara töluvert betur! En það þýðir ekki að gráta Björn bónda eins og það stendur....

Annars var ég alveg "sprungt" eftir afmælistörnina - hef verið að taka vikuna í svona "recover" en er öll að koma til og kerrupúlaða mig í gang í morgun. Framundan er the BIG 30 hjá eiginmanninum en einkasonurinn fær smá afmælis í Geislanum í næstu viku en síðan verðum við hjónin með leðurpartýið okkar í sumar! Ég er síðan komin í einhvern framkvæmdagír hérna á heimilinu og ætla fá Heiðar millimeter með mér í það, rakst á skáp nokkurn í geymslunni hjá honum og er svona í huganum að finna honum góðan stað hérna á heimilinu!

Bestu bílakveðjur....þriðjudagur, mars 06, 2012

Áran orðin 5 ára!

Ég veit að þetta er klisja en hrikalega flýgur tíminn! Þá hlýtur að vera fjör hjá manni, það er bara þannig. Og það sem að þessi 5 ára gleðigjafi hefur haldið uppi stuðinu síðast liðin fimm ár, það held ég nú! Komin með stríðnisglampa í augun strax 2 mánaða eins og amma Malla benti réttilega á þegar hún sá myndina hér að neðan. Og hún hefur alltaf vitað hvað hún vill og lætur sko ekki snúa sér;) Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af afmælisferlinu!


Broskallaþemað undirbúið með því að kaupa broskalladiska, glös og dúk, hvað annað;)


Sæta músin í prjónuðu dressi frá nöfnu sinni, ömmu Gústu


Og ein af hinni músinni:)


Broskall "in making" Hvar væri ég án Síu minnar, allir ættu að hafa aðgang að einni "Síu frænku", það myndi auðvelda líf margra:)


06:25, pakkaopnun, búið að halda sumum í rúminu frá rúmlega fimm! Smá spenna í gangi:)


06:43, legokubbagerð með móðurinni!


Listaverk dótturinnar!


Strollan á leið í afmælið - allt samkvæmt ÍTR reglum:)
Áran stjórnaði síðan með harðri hendi þegar heim kom og eitthvað kannaðist ég við þessa stjórnunartakta. Heyrðist t.d frá henni: "Ok stelpur, bara allar hérna inn í stofu, heyrðu eru allir búnir að láta mig fá pakka, ok setjist bara hérna, neinei þarft ekkert að halda í pakkann, bíddu heyrðu vantar einhverja pakka"! hahaha


Sía að kynna reglurnar, hefði verið slæmt ef tveir grunnskólakennarar og einn verkefnisstjóri á frístundaheimili hefðu klúðrað afmæli!

Smá Bíó og Buggles í lokin:)

Áran fór megasátt í háttinn - 1 afmælið búið, 2 eftir og samkvæmt reglum um væntingastjórnun verður reynt að tala sem minnst um afmælishelgina út vikuna svona til þess að það verði sofið eitthvað á nóttinni!

laugardagur, mars 03, 2012

Missandi eða ómissandi!

Þegar ég eignaðist Ágústu Rut man ég hvað mér fannst fáránlega skrýtið að fara út ein fyrstu skiptin. Mér leið hreinlega eins og ég væri með stóran límmiða á enninu á mér þar sem stóð: "ÉG VAR AÐ EIGNAST BARN!" og mér fannst eins og allir væru að horfa á mig. Núna var þessi tilfinning einhvern veginn ekki til staðar. Ég var líka komin heim tveimur sólarhringum eftir að Magdalena fæddist og "hélt" hálfgert gamlársboð sama kvöld:) Ég held líka að þetta sé allt öðruvísi með annað barn, fleiri skyldur sem maður þarf bara að sinna fljótlega eftir burð hvort sem manni líkar betur eða verr. Þess vegna fór ég tiltölulega fljótt á ról núna og skaust hitt og þetta fyrstu tvær vikurnar sem Andri var heima. Hann gaf M pela með mömmumjólk enda þaulvanur og hún drakk eins og hún hefði aldrei gert annað. Ég kann ótrúlega vel við það að þessar dætur mínar taki pela, það hentar fiðrildinu í mér svo vel því ég þarf svona smá Me Time inn á milli:)

Núna hafa ömmurnar báðar passað og gefið pela og Harpa passaði líka aðeins í dag en í kvöld ætlaði ég síðan í fyrsta skipti að skella mér í smá stelpuboð EIN. Samviskusamlega mjólkaði ég mig svo barnið yrði ekki vannært og síðan fórum við AFO svona yfir hvernig væri best að hafa þetta. Ég ætlaði að mæta aðeins of seint í boðið en í þeim tilgangi að það væri komið það langt inn á kvöldið að þessi peli væri eiginlega bara síðasta gjöf fyrir svefninn. Ára var að leika hinum megin og ég hafði einhverjar áhyggjur af því að það yrði of mikið mál að koma henni í háttinn líka en hugsaði svo með mér að það væri bara vitleysa í mér, ég gæti allt eins bara bent á trixin mín sbr. síðustu færslu...og Andri ætlaði líka bara að baða Magdalenu sem var slök í stólnum sínum þegar ég fór.

Mér finnst samt alltaf eitthvað svo undarleg tilfinning að fara frá einhverjum sem er svona óendanlega háður manni og það kom svona yfir mig "æjégættikannskibaraaðveraheima" en svo dreif ég mig af stað og ótrúlegt sem það er hressandi að fara í hærri hæla, setja á sig smá gloss og örlítinn roða í kinnarnar. Förinni var heitið út á Nes og ég var komin um níu, rúmum klukkutíma of seint en það var allt í lagi, maturinn var hitaður upp og ég fékk smá rauðvínsdreitil í glas, frábær félagsskapur og þegar ég fékk mér fyrsta sopann af rauðvíninu hugsaði ég með mér hvað þetta væri nú huggulegt að geta skroppið svona aðeins út úr húsi viðhengislaus en í sömu andrá hringir síminn minn. Eiginmaðurinn í bland við öskur sem ég kannaðist bara hreint ekki við  - "hún er trítilóð, þú verður að koma" heyrðist á hinni línunni. Oh hvað ég var samt svekkt og spurði en pelinn? En lætin voru svo mikil að ég heyrði ekki hvort hún hefði fengið pelann eða ekki viljað hann! Ekkert annað í stöðunni en að kveðja og rjúka aftur tilbaka hálftíma eftir að ég hafði komið á staðinn.

Það tekur alveg góðar 10-15 mín að keyra frá Nesinu og í Laugarnesið svo ég hringdi í bílnum á leiðinni til að tjékka hvort ég ætti að senda mömmu yfir, hugsaði með mér hvernig staðan væri á stórunni sem var eflaust orðin stjörf af þreytu. Þá komst ég að því að Magdalena hafði aldrei fengið pelann því pabbinn ætlaði að halda sig við planið - bað og svo pelinn því ekki vildi hann vera búinn með mjólkina eftir baðið. En á þessum tímapunkti var hann að græja pelann á meðan Ára hélt Magdalenu félagsskap. Ég heyrði síðan aðeins í mömmu á meðan ég var að keyra sem skellti nú eiginlega bara upp úr og fannst hún komin 30 ár aftur í tímann en ég stundaði þetta víst að senda foreldra mína út en láta kalla þá tilbaka örskotstundu seinna:) Þegar ég var næstum komin heim bjallaði ég aftur, veit ekki af hverju ég var að hringja svona mikið en mig langaði að fylgjast með haha...þá svaraði Ára og sagði að hún væri að drekka pelann og hætt að öskra. Ég nennti samt ekki að keyra alla leiðina tilbaka svo ég fór bara heim og gat ekki annað en hlegið þegar ég sá eiginmanninn örmagna með nr. 2 í fanginu svolgrandi í sig mjólkina. Hann sagði mér að á svona stundum færu menn í gegnum allan tilfinningaskalann  - hjálparvana - vonsvikinn - pirraður. Ég heyrði svo Áru segja í símann við ömmu sína að Magdalena hefði verið alveg brjáluð!


Það var samt svo notalegt að koma heim og sjá hvað Ágústa Rut tók sínu hlutverki mjög alvarlega og lýsti því alveg í smáatriðum hvernig hún hefði heyrt öskrin yfir til Fransisku og komið og farið á fullt að hjálpa pabba sínum sem stóð þarna hjálparvana með útgrátið ungabarn. Hann sagði reyndar sjálfur að hann hefði aldrei náð að græja þennan pela nema út af því að Ára var að hjálpa til en hún stóð víst við skiptiborðið og killaði á henni ennið og reyndi að gefa henni snudduna:)


Þó ég hafi verið komin í ansi góðan spjallfíling í dömuboðinu græt ég þetta ekkert, það verður sko alveg nægur tími sem ég verð alveg "missandi" og ég ætla bara að njóta þess að vera svona hrikalega ómissandi. Magdalena vaknaði síðan eftir peladrykkjuna og horfði á okkur með stóru saklausu augunum sínum eins og hún væri að segja "hvað voruð þið eiginlega að pæla?" Lagðist síðan inn í rúm með óróann eins og planið hafði verið og steinrotaðist! Þessar dömur láta ekki bjóða sér hvað sem er;) 

föstudagur, mars 02, 2012

Kvöldið í kvöld er týpískt kvöld sem fær mig til að hugsa hvað í fjáranum ég var eiginlega að gera áður en ég fór út í barneignir og uppeldi. En annan hvern fimmtudag er Andri alltaf með vinnufundi til sjö og er því að detta í hús töluvert seinna en venjulega. Ég er góðu vön hérna heima og kann því best að hafa hann með mér milli sex og átta eða á þeim tíma sem þarf að fæða, baða, bursta, lesa og syngja, já þið megið segja skammskamm en Ára fer ekki enn ein inn í rúm og leggst og við förum bara út heldur syngjum við alltaf eftir að við erum búin að lesa fyrir hana - þetta tekur svona max 20 mín með lestri og ég hef ekkert séð eftir þessum tíma hingað til en með aðra á arminum verður þetta stundum töluvert flóknara. Sér í lagi þar sem maður getur ekki pantað að hún sé akkúrat sofandi á sama tíma og eldri fer að sofa og fyrir utan það þá er þetta svona sá tími dags sem hún er mest pirruð. Ára er hlýðin stúlka en hún er líka stríðin og elskar að espa mig upp þegar ég má síst við því eins og í kvöld þegar hún gerði allt flóknara en það þurfti að vera:) Lagðist þó loks upp í rúm og vildi lesa klukkubókina.
Magdalena ekki í besta skapinu sínu og Ára tók skýrt fram að hún vildi ekki að hún væri að gráta á meðan á lestri stæði - Magdalena er meðfærileg en þó ekki alveg svona meðfærileg:) Ég stakk því upp á því að ég myndi sitja á jógaboltanum þannig að M væri góð og Ára héldi á bókinni svo ég gæti lesið (fegin er ég að vera ekki orðin fjarsýnari en ég er). Það þurfti svo auðvitað að stilla klukkuna hárnákvæmt á hverri síðu en þetta gekk og Ára þreytt og sofnaði í öðru lagi sem er algengt.

Þá var hægt að sinna Magdalenu almennilega sem var eitthvað pirraðri en venjulega og þurfti fulla athygli. Pabbinn kom heim að verða níu (eftir brjálað strætóævintýri sem er efni í aðra færslu) og fór í það að græja sér eitthvað að borða á meðan ég tilkynnti honum að ég hefði nánast farið á núllinu í gegnum daginn - hluti af zero days prógrammi sem margir þekkja (en ef ekki þá efni í enn aðra færslu). Hann sagði mér að slíkt hið sama hefði verið upp á teningnum hjá honum, túnfiskur og banani úr Bónus! Því næst gekk hann frá öllu á sínu svæði - eldhúsinu og bauðst til að laga handa mér Latte (hefur séð þreytumerki á mér) á meðan ég horfði á Desperate með Magdalenu í smá færeyskum hringdansi eða þar til hún róaðist.

Eftir það settumst við aðeins niður og ég sagði honum í díteils frá mínum "viðburðaríka degi", svo vel að ég nánast lék samtölin hjá Áru og vinkonu hennar sem voru að leika hérna í dag. Á þessum tímapunkti var M alveg out en þarna var klukkan um hálf ellefu og ég þurfti að rjúka út að prenta út boðskort fyrir afmæli Áru, skutlaði M í fangið á AFO og brunaði á Grunninn. Prentaði vísareikninginn út í leiðinni, hugsaði með mér að það væri gott fyrir okkur að lesa hann yfir saman fyrir ZeroMars. Kom heim og þá var AFO lagstur upp í rúm, búinn að setja M í sitt svo ég skutlaði reikningnum í hann og sagði að það væri kannski gott að lesa yfir þetta. Því næst fór ég að klippa út boðskort og hanga í tölvunni. Áður en ég vissi af var hann steinsofnaður og það rann upp fyrir mér að ég vissi ekki neitt hvernig dagurinn hans var, eina sem ég vissi var að hann fékk sér túnfisk og banana í hádeginu og var í einn og hálfan tíma í strætó á leiðinni heim!

Eitt er víst að ég fæ ekki eiginkonuverðlaunin fyrir þessa frammistöðu - stefni ekkert nema upp á við á morgun!

Hins vegar setti ég inn fullt af myndum - svona er þetta, maður er dauðfegin að allir séu sofnaðir eftir langan dag en þá sest maður niður og fer að skoða og flokka myndir af fjölskyldumeðlimum:)