föstudagur, mars 31, 2006

Hún á afmæli í dag...hún á afmæli í dag...

Sjáiði hvað hún er lítil hérna...


Núna er hún orðin 11 ára, sem þýðir að ég er orðin svaka gömul:)

Litla litla systir mín hún Svava á afmæli í dag og ég ætla knúsa hana í kvöld.
Svava er yndisleg systir, hún er ótrúlega orkumikil og vill helst fara í handahlaup, spila á klarínettið og hlaupa 10 km á sömu mínútunni!

Hafðu það gott í dag SS;)

 Posted by Picasa

fimmtudagur, mars 30, 2006

Eru fleiri sem fá aumingjahroll yfir dansatriðunum í ungfrú Reykjavík...

Þetta eru nú meiri rassaköstin

Ég er í hlussugallanum með hlaup og með því og hlæ að þessu:)
Ég var með samviskubit yfir áti og þambi í Köben og plataði AFO með mér út að hlaupa...

Gott ef ég var ekki rauðari en lambhúshettan þegar við komum til baka...



Ég er að setja Köben myndir inn á Flickr en tíminn líður og svefninn er víst mikilvægur.

Ég býð því góða nótt.

 Posted by Picasa

miðvikudagur, mars 29, 2006

Okkur langar að þakka ykkur fyrir yndislega ferð...

Ef við reynum að tákngera þetta (setja í orð) þá drepum við hina yndislegu upplifun (The letter kills-Lacan)

Andri fékk að koma með þetta innlegg...

En þessi yndislegi tími lifir í hjörtum okkar:)

Smá preview...




 Posted by Picasa

sunnudagur, mars 26, 2006

Eins og það var nú mikið búið að ræða það að sumartíminn myndi detta inn í nótt á slaginu 2...

...Þá mætti nú "parið" niður í morgunmat í morgun upp úr hálf ellefu og það var búið að loka. Enginn skildi neitt í neinu og hótelinu var bölvað í sand og ösku fyrir að segja að maturinn væri til ellefu um helgar!

Fattaðist ekki fyrr en um tvöleytið að við höfðum alveg fallið á eigin bragði..
vorum nefnilega búin að tala svo mikið um hvað þetta gæti orsakað mikinn misskilning.

Annars er enn alveg frábært hjá okkur og Köbengengið var að koma úr bíó og indverskum dinner.

Við erum að spá í að klára önnina bara í fjarnámi hérna úti:)

föstudagur, mars 24, 2006

Radison SAS, Köben og allt mugligt...

22. hæð með tilheyrandi útsýni yfir alla borgina
herbergi með japanskt þema
þráðlaust net
morgunmatur með öllu tilheyrandi
rauðvín, pörusteik og meðlæti á danska vísu
rölt á Strikinu
H&M (verð að viðurkenna að ég er ósköp róleg þar miðað við oft áður)
skemmtilegar samræður með bestu vinum manns (hvað er betra?)
heimspekilegar pælingar
kúr með kæró
kúrbað
spiseloppen
afslöppun
notalegheit
kaffihúsarölt
og endalaust margt fleira sem gleður hjartað:)

Hvað segiði er eitthvað stress út af lokaverkefninu;)

Kveðja frá kærustuparinu í Köben!

miðvikudagur, mars 22, 2006

Ástarbollan mín hann Andri Fannar á afmæli í dag...

Hann er 24 ára. Töttögu og fjögurra...Vá!

Ég óska honum auðvitað innilega til hamingju með daginn og dagurinn verður að sjálfsögðu skemmtilegur:) Hann hófst með gjafaflóði eða að vísu hófst hann rétt fyrir sex í morgun þegar ónefndur vinur okkar ákvað að vera fyrstur til að senda afmæliskveðju, hann var frekar óheppinn því afmælisbarnið var með símann stilltan þannig að hann heldur áfram að pípa þar til einhver kíkir á skilaboðin. Þeir sem þekkja Andra vita að hann vaknar ekki við síma. Þess vegna þurfti moi að klifra niður stigann og kíkja á þetta. Hann þakkar innilega góðar kveðjur, ég hins vegar mun slökkva hér eftir á símanum hans um nætur...:)

Annars vinur minn á líka afmæli í dag.. Til hamingju Siggi Hrannar:)

Farin í bili
Lil

þriðjudagur, mars 21, 2006

Dagurinn fór vaxandi...

Eftir lítinn nætursvefn sökum lærdóms og verkefnayfirferðar hélt ég fyrirlestur um hvernig notkun orðanna hommi og lesbía hefur breyst gegnum tíðina. Fyrirlesturinn vakti mikla lukku og kátínu enda áhugavert umræðuefni og fyrirlesararnir tveir, me and Selma ekki af verri endanum...Þarmaþræll var að mínu mati skemmtilegasta orðið sem kom upp...

Það sem toppar síðan allt er að ég fékk stöðuna sem ég óskaði eftir...fer í fyrramálið og skrifa undir. Já elskurnar mínar, vinkona ykkar verður kennari næsta haust:)

Á morgun á AFO afmæli og ef mér bregst ekki bogalistin verður afmælisdagurinn ógleymanlegur að vanda.

Á fimmtudaginn höldum við síðan til Köben og dveljum í góðu yfirlæti á Radison SAS...við eigum það skilið!

Svona er nú lífið skrýtið börnin góð, þegar eitthvað leiðinlegt gerist og allt virðist vera að klikka gerast alltaf einhverjir góðir hlutir og eithvað nýtt og spennandi býðst manni, síðan kemur allt hitt þegar það á að gerast. Það er greinilegt að maður ræður alveg óskaplega litlu í þessu blessaða lífi:)

Linda litli kennarinn í L..........skóla
Ég var aftur að baka franskar sufflé kökur í kvöld...
...fíkill?
Já ég myndi segja að það stefni allt í það!

Sufflébollan

mánudagur, mars 20, 2006

Skattaskrattinn...

Ég sagði við Andra í gær að hann þyrfti svo endilega að setjast með mér einhvern tímann yfir skattframtalið og ég gæti sýnt honum hvernig þetta virkaði...

Hann leit á mig hissa og spurði: "Af hverju?"

Greinlegt hver er bankastjórinn og endurskoðandinn á þessu heimili;)

Annars er þetta ekki svo mikið mál, bara pirrandi þegar eru dagpeningar, ökutækjastykur, ýmsir aðrir styrkir eins og bókakaupastyrkur, fræðslustyrkur, námskeiðastyrkur...

Þoli samt ekki þegar skatturinn hirðir peninga af þeim sem eru rosa duglegir að vinna mikið með skólanum en þá minnti faðir minn mig á það hverjir borga kennurum laun svo humm tja...

Ótrúlegt hvað er stutt síðan að ég var að vesenast í þessu öllu saman...eins og það hafi verið fyrir tveimur vikum.

Annars vorum við að fá eina af okkar frábæru hugmyndum...

Þar til síðar
ciao...

laugardagur, mars 18, 2006

Það er laugardagskvöld og ég var að enda við að baka franskar sufflé kökur...

og vá hvað þær voru góðar þó ég segi sjálf frá. Heimilisfræðikennarinn minn kallar þær samt Litlu syndina ljúfu (sem á kannski alveg vel við) en ég kann betur við sufflé nafnið enda er ég með Brel á sem Siggaligga lánaði okkur og ímynda mér að ég og Andri séum komin til París...

ég verð samt að þakka tengdamömmu smá aðstoð með kökurnar og ég held svei mér þá að ég geri það bara á frönsku...Un grand merci pour ton aide já já ég er að læra

Ef þið viljið uppskrift...

...og sorry Bjössi að ég tók smá forskot á sæluna, ég get samt alveg gert kökurnar aftur þegar við tökum næsta eldamennskusection...

Ta ta
Lilly

föstudagur, mars 17, 2006

Vá hvað eru pirrandi svona dagar þar sem maður er alltaf á síðustu stundu og alltaf aðeins of seinn...

Ég var of sein í jóga vegna þess að (orsakatenging) ég var of sein að fara í bankann og tafðist í bankanum því (orsakatenging) það var svo ótrúlega mikið að gera og það er svo ótrúlega flókið að vera í Gullvild sjáiði til;) Síðan var ég of sein í myndatöku af því að ég var aðeins lengur í jóganu...og í þokkamót (ákvað að hafa þetta svona því ég skrifaði þetta fyrst svona) varð síminn minn batteríslaus á meðan á öllu þessu stóð sem er ekki gott...því þá er ekki hægt að láta neinn vita að maður sé seinn!

Ég náði samt alveg að afreka eitthvað í dag, ég og Selmulíus skipulögðum einn fyrirlestur og núna er ég á fullu að klára verkefni fyrir Íslenskuskólann, ég er meira að segja búin að koma Megasi inn í eitt verkefni, bjó til svona eyðufyllingu sem heitir Morgunsöngurinn og hann er enginn annar er Nú er ég klæddur með meistaranum sjálfum. Krakkar úti í heimi verða örugglega ánægðir með það, um að gera fyrir þau að kynnast Megasi sem fyrst og ég lét fylgja með mynd af kappanum:)

Síðan er ég með skattaskýrslurnar opnar en er ekki alveg nógu dugleg að vinna í þeim. Að vísu ekki flókið fyrir fólk sem á ekkert að fylla þetta út en það eru samt svona verktakalaun, styrkir og annað dótarí sem þarf að setja inn og auðvitað Prince Polo sem er samt sjálfkrafa inni. Ég sótti því um frest og hvað er málið með það að ég fæ frest til 29. mars en Andri til 31. mars...við komum nefnilega heim þann 28. og ég nenni ekki að þurf að demba mér í þetta þá. Þetta er samt svoooo lítið mál, ég bara nenni þessu ekki...

Hafið það gott um helgina...mín verður quite busy til tilbreytingar en maður þarf víst að læra soldið til að útskrifast og vinna aðeins til að eignast penginga. Þannig er nú það.

Ég ætla líka að horfa á Idol en ég er mjög fúl að Ingó sé ekki lengur inni, hann var minn uppáhalds.

Ég held ég fari í eitthvað geim á laugardaginn hvar veit ég ekki og á sunnudaginn er stefnan sett á meiri lærdóm og jafnvel einhverjar heimsóknir.

Ég mun þó byrja þetta allt saman á því að fara á vorfagnað hjá FRAM
Fagna komu vorsins því vorboðinn boðar alltaf eitthvað gott:)

Ciao a tutti!
Lindsey

fimmtudagur, mars 16, 2006

Ég er náttúrulega að vaka alltof lengi en stundum er bara mun betra að vinna á nóttunni, tók mér smá tíma í flokka myndirnar okkar og ég get sko alveg sagt ykkur að þessi hérna er orðinn ótrúlega spenntur að fara til Köben. Hann er samt að læra á fullu til að hann þurfi ekki alltaf að vera með bók í hönd úti...ætla plata hann í bælið núna:)


"Hehehe"

miðvikudagur, mars 15, 2006

Hvaða tveimur manneskjum dettur í hug að elda sér þriggja rétta máltíð um miðjan dag á ósköp venjulegum miðvikudegi. Jú mér og Bjössa og ég át yfir mig! Auðvitað...við vorum samt að gera verkefni fyrir hátíðamatseldina, snilldarfag sem við erum í og nú í fjarnámi!

Við byrjuðum með humar í eplarjómasósu, í aðalrétt voru síðan lambalundir í applsínusósu (nammi namm) og í eftirrétt svona til að toppa þetta var súkkulaðimús með rjóma skreytt með kiwi og vínberjum...

Hvernig lýst ykkur á, ég get kannski eldað fyrir ykkur þegar ég kem til Köben...

Ég er hins vegar búin á því eftir þetta og var að vakna núna, það er gott að maður er með þriggja parta öndunina og sjávarhljóðin á hreinu eftir svona, bara upp á meltinguna skiljiði:)

And the matarblogg is back
Lu chef

þriðjudagur, mars 14, 2006

Ég fer í jógatímann minn í hádeginu á morgun og ég er strax farin að hlakka til að taka hamingjuöndunina:) Hún er bara eitthvað svo ótrúlega hressandi þessi öndun.

Ég er með tengdó a.k.a Ruth og Rögnurassgati í jóganu og mér heyrist að við séum að fylla næsta námskeið...fleiri sem hafa áhuga?

Jóginn
VINAKORN

Varðveittu hverja stund sem þú hefur og varðveittu hana enn betur því þú eyddir henni með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum í. Og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum.
Vinir eru mjög sjaldgæfir dýrgripir. Þeir láta þig brosa og hvetja þig áfram í lífinu. Þeir lána þér eyra, hrósa þér og vilja alltaf opna hjarta sitt fyrir þig. - sýndu því vinum þínum hvers virði þeir eru þér.
Bestu vinirnir eru þeir sem að þú getur setið með, án þess að segja orð, og svo gengið í burtu og fundist sem að þú hafir aldrei átt betri samræður.
Ég heyrði þetta lesið upp um daginn og fannst þetta eiga svo vel við. Ég veit ekki hvernig maður kæmist eiginlega af án allra góðu vinanna:) Þið eruð langbest!
Knús og kram og til hamingju með daginn Regína mín sem var eiginlega í gær en ég sendi þér smáskilaboð í dag:) Vona að þau hafi komist til skila.
Linda

sunnudagur, mars 12, 2006

Þegar maður snertir botninn þá hlýtur eiginlega leiðin að liggja upp á við eftir það...

Þá má alveg fara að búast við einhverjum jákvæðum og skemmtilegum skrifum á þetta blessaða blogg.

Fyrsta var þó að breyta útlitinu en hann Einar góðvinur minn sá um það. Takk Einar minn:)

Bestu kveðjur og takk fyrir allt elsku vinir.
Linda