þriðjudagur, maí 26, 2009

Hérna er hægt að fá einhverjar hugmyndir að gjöfum...

síðan veit ég að Andri er spenntur fyrir Bodum pressukaffikönnu svo eitthvað sé nefnt.

Finnst hálfskrýtið að vera að þessu en...

tjúrílú

mánudagur, maí 25, 2009

Hún Harpa yndislega systir mín útskrifaðist úr MH um helgina með glæsibrag og glæsileg var hún eins og þið sjáið:)

Innilega til hamingju aftur elsku Harpa okkar!

Við Andri vorum ekki alveg búin að gera okkur grein fyrir því að brúðkaupi fylgdu gjafir...

eða jú auðvitað vissum við það en í skipulagsflóðinu undanfarna daga hefur verið lítill tími til að velta því fyrir sér. Við fórum því aðeins að skoða í kringum okkur og kíktum til að mynda í hina ágætu búð Kokku á Laugaveginum sem selur allskyns varning sem manni hefur hingað til nægt að láta sig dreyma um. Eftir á komumst við síðan að því að hægt er að gera óskalista á netinu þannig maður þarf ekki einu sinni að fara í búðina - afar hentugt myndi ég segja. Ætli við gerum þá ekki bara smá lista þar þrátt fyrir að ég hafi fengið nóg af brúðarlistum þegar ég vann í Tékk-Kristal um árið;)

Í dag er ég búin að vera með Áru heima sem var rosa veik í morgun og endaði með því að við fengum sjúkrabíl hingað þar sem við mæðgurnar vorum báðar grátandi, önnur sökum vanlíðan og hin út af móðursýkiskasti við það að sjá barnið sitt svona illa haldið. Andri hefur hins vegar fullvissað mig að þetta sé örugglega ekki óalgengt en ég skammaðist bara svona pínu mikið eftir á! Barnið er hins vegar búið að fara í allsherjartjékk og er að öllum líkindum bara með flensu.

Ég er síðan örugglega komin með vogris í annað augað og bið hann vinsamlegast að láta sig alveg hverfa fyrir stóra daginn!

laugardagur, maí 23, 2009

Bætti aðeins í maíalbúmið hérna og ég krefst þess að fá kvitt í gestabókina:)

Þarna eru meðal annars myndir af heimsætunni í fyrstu sveitaferðinni sinni en rétt fyrir ferð áttum við mæðgur ágætis samtal:

(Ég sat í tröppunum og las blaðið meðan við biðum eftir AFO)

Ára: "Ekki lesa blaðið mamma!"
Ég: "Jú jú ég er aðeins að skoða blaðið"
Ára: (Rífur af mér blaðið) og segir: "Það er ekki í boði að lesa blaðið!"
Einmitt!

Annars gengur undirbúningur brúðkaups vel og nú er hægt að segja:
 • hringar tjékk (men hvað ég get ekki beðið eftir að setja þá upp)
 • breyting á kjól tjékk (búið að þrengja og kaupa efni í undirpils og annað) - spennandi!

Í dag útskrifast síðan hún Harpa yndislega systir mín sem stúdent og á morgun fær Hjaltadóttirin nafn - uh spenningur: JÁ!

fimmtudagur, maí 21, 2009

Nú hlustar maður bara á þetta og skipuleggur og skipuleggur og skipuleggur og já var ég búin að segja skipuleggur....

annars held ég að það endi með því að brúðurinn þurfi að halda þakkaræðu og þakka öllu þessu frábærlega góða fólki sem er búið að bregðast við með fáránlega stuttum fyrirvara, allir boðnir og búnir að gera allt sem ég hef beðið um - tónlistarfólk, hárgreiðslukona, snyrtifræðingur, veislustjóri, dama í eldhúsið, salurinn, fá lánað ýmislegt hér og þar! Ótrúlegt alveg hvað þetta hefur gengið vel - skil ekkert í fólki að vera að taka lengri tíma í þetta haha....

en mikið var ég nú fegin að vera í fríi í dag, búin að hringja milljón símtöl í vikunni og gera og græja og síðan er ég líka að fara yfir 90 próf og möppur og bækur og gefa öllum krakkaskaranum einkunnir, svo ég tali nú ekki um vorferðina í vinnunni sem við í skemmtinefndinni erum að ákveða (ég verð samt frekar óvirk núna), síðan er hreinsunardagur í blokkinni, er að sjálfsögðu komin í hússtjórn þar;) Og síðan er Harpa að útskrifast á laugardaginn og skírn hjá Hjaltadóttur á sunnudaginn - það er allaveganna engin lognmolla hér á bæ!

Boðskortin eru farin í póst...

sunnudagur, maí 17, 2009

Jæja gott fólk það hlaut að koma að því...

ég fékk loksins bónorð! Þetta gat hann kallinn;)

Núna er því allt komið á fullt að skipuleggja brúðkaup sem verður þann 6. júní!

Frá því að ég vissi þetta sem er nú ekki nema rétt vika síðan er ansi margt búið að gerast:

 • Salurinn er klár en þar verður athöfnin og veislan og Óskar Daian Ingólfsson mun gefa okkur saman
 • Boðskortin fara í prentun í byrjun vikunnar og væntanlega í póst í kjölfarið af því (þökk sé Sóleyju og Kobba)
 • Er svo gott sem komin með dress - þarf aðeins að þrengja og pæla en ekkert stórmál enda engin rjómaterta á ferð
 • Matur og vín er allt á réttri leið
 • Veislustjóri er ráðinn
 • Tónlistaratriði eru að verða klár
 • Búin að tala við hárgreiðslukonuna mína hana Ingigerði
 • Komin með manneskju til að vinna við veitingarnar og annað slíkt
 • Setti tvær góðar vinkonur í playlistagerð
 • Brúðarvalsinn hefur verið æfður og munu þrotlausar æfingar vera næstu þrjár vikur;)
 • Hef átt óteljandi samtöl við Sóleyju "Wedding planner" með meiru og hún komið með góð ráð
 • Don Ruth er búin að hringja mörg símtöl enda með sambönd út um allan bæ
 • og fleira og fleira og fleira og....

Andri vissi greinilega að það þyrfti ekkert meiri fyrirvara með skiplagsmaskínuna á heimilinu!

Versta er auðvitað að 15 góðir vinir okkar eru erlendis og geta því væntanlega ekki mætt með svona stuttum fyrirvara:(

Þannig að núna getið þið kæra fjölskylda og vinir farið að bíða spennt eftir boðskortinu;)

Og já þetta er ekki djók...

laugardagur, maí 16, 2009

Nýjar myndir komnar í maí-albúm á www.123.is/agustarut

Muna að kvitta fyrir komuna;)

föstudagur, maí 15, 2009


Leikhúsvinirnir...


Við Andri höfum stundað það í alllangan tíma að fara með góðu vinafólki okkar þeim Láru og Benna í leikhús en leikhúsferðirnar hófust á köldum haustmánuðum árið 2005. Nú tæpum fjórum árum síðar höfum við farið á margar sýningar og í vetur fórum við á fjórar sýningar í Borgarleikhúsinu. Við getum nú seint talist snillingar í leikhúsferðum því yfirleitt náum við að klúðra einhverju í hverri ferð, hvort sem það er að mæta á vitlausum degi (og þurfa þá bara að fara í bíó) eða mæta í hléi og þurfa að fá nýja sýningu. Hins vegar er alltaf gaman hjá okkur og þau hjúin eðalfélagsskapur og vona ég að leikhúsfélagsskapur okkar sem og annar félagsskapur haldist um ókomna tíð.


Mig langaði aðeins að tæpa á þessum sýningum sem við höfum séð í vetur.


1. Fýsn var fyrsta sýningin sem við fórum á í þessari atrenu. Yfirskriftin er: Getur ástin fyrirgefið allt? Lífið virðist dans á rósum hjá ungum hjónum en síðan fara ýmis ógnvekjandi leyndarmál að koma upp á yfirborðið. Verkið fjallar um svartnætti mannlegs eðlis, örvæntingu, lygar og þrár. Þetta var frekar óspennandi verk og held ég að við félagarnir getum verið sammála um að þessi sýning var lélegust þennan veturinn. Kannski of drungalegt og leiðinlegt viðfangsefni á dimmum vetrarkvöldum...


2. Fólkið í blokkinni var næst á dagskrá, þrælskemmtilegt leikrit sem tekur einhvern veginn á öllum þáttum, fjölskyldan ákveður að setja upp söngleik sem fjallar um líf þeirra. Þarna er tekist á við fötlun, ótímabæra þungun, drykkjuvandamál, fjárhagsvandamál og svona beisiklí bara flóruna af svona hlutum sem margir eru að takast á við. Ótrúlega hjartnæm saga og fatlaði strákurinn nær að bræða alla. Á ákveðnum tímapunkti fengum við Lára tár í augun en það var bara út af einhverju "tötsí" lagi;) Ég myndi segja að þetta verk standi upp úr hvað varðar skemmtanagildi (kannski ekki alveg að marka þar sem öll hin þrjú komu að einhverju leyti inn á kynferðislega áreitni).


3. Rústað kom þar á eftir og rústaði allaveganna Fýsn svo mikið er víst. Sýningin var bönnuð innan 16 ára og ekki fyrir viðkvæma. Við vorum því undirbúin að fara út í sjokki en höndluðum þetta bara nokkuð vel. Sýningin tók einhvern allt það versta sem til er í heiminum og setti það saman í einn pakka. Ein kona hélt fyrir andlitið á sér megnið af sýningunni. Ég hefði ekki viljað sleppa þessari sýningu enda áttu Ingvar og Kristín Þóra stórleik.


4. Í kvöld voru það síðan Ökutímar sem fjallar um svik, ást og fyrirgefningu og tekur á viðkvæmu máli á óvenjulegan hátt. Skemmtileg mynd er dregin upp af Bandaríkjunum á þeim tíma sem leikritið á að gerast eða 7. áratugnum. Virkilega gott stykki og Kristín Þóra átti aftur stórleik, ég var að vísu pínu upptekin að pæla í því hvernig búningahönnuðir unnu að því að fela að hún væri ólétt en kannski bara af því ég vissi það. Hins vegar veit ég ekki hvort það var út af því að við vorum búin að fara á tvö verk þar sem kynferðislegt áreitni kom fyrir eða hvað þá fór þetta verk ekki í fyrsta sæti en við náðum síðan að tala um einn leikarann beint fyrir framan nefið á honum og vonum bara að hann hafi tekið því sem uppbyggilegri gagnrýni! Hefði líka verið gaman að hafa Lay Low á sviðinu en Ragnheiður Gröndal lék á gítar í hennar stað.
Og þar hafiði það...
lofa myndum um helgina af heimsætunni og fleirum inn á 123...

fimmtudagur, maí 07, 2009

Pælingar 14 ára unglings....

"Af hverju eiga ekki bara allir bíl, þá væri lífið svo einfalt og allir myndu fæðast með vitrænan heila og nammi væri ókeypis"

en.."þá væri nammi örugglega ekkert gott, eins og vatn, manni finnst vatn ekkert gott eða fiskur oj"

já það hvílir margt á herðum unga fólksins!

mánudagur, maí 04, 2009

Gullkornahorn Áru...

Ég verð að fara að koma í gagnið einhvers konar skráningakerfi fyrir gullkornin sem fljúga upp úr dóttur okkar þessa dagana. Í kvöldmatnum áðan verður okkur Andra litið á hana þar sem hún situr með spenntar greipar og skyndilega hefst upptalning:

"Góði Guð: Takk fyrir mömmu, takk fyrir pabba og takk fyrir Sunnudagaskólann"

Það er ekkert verið að spara stóru orðin!

(ég man ekki eftir því að einhver hafi verið að þakka sérstaklega fyrir sunnudagaskólann í kirkjunni en það er greinilegt að barnið er þakklátt;))

sunnudagur, maí 03, 2009

Ég og mamma vorum á skemmtilegum tónleikum Léttsveitar Reykjavíkur áðan...

rétt áður en tónleikarnir hefjst hvíslar mamma í eyrað á mér hvort ég sjái alveg (greinilega með áhyggjur af því að langlágvaxnasta dóttirin sæi ekki yfir næsta mann). Ég jánka og segist sjá alveg prýðilega. Þá svarar mamma á móti: "já þú ert svona há í sæti eins og ég!"

alltaf lærir maður eitthvað nýtt, hef aldrei heyrt um það að vera há í sæti en mamma tjáði mér að hún myndi nota þetta óspart.

og þar hafiði það, þó ég sé ekki há í lofti er ég há í sæti:)

laugardagur, maí 02, 2009