föstudagur, nóvember 21, 2008

Litla skottið að telja upp á tíu:)


Hæ og hó - ég setti inn nokkrar myndir, ekki ýkja margar en einhverjar af myndarskapnum í sjálfi mér (með aðstoð tveggja yndislegra vinkvenna sem virðast nenna að aðstoða mig við allan skapaðan hlut og ég vona að ég aðstoði þær líka einhvern tímann!!!), síðan eru nokkrar af litlu myndlistakonunni og Andra yfirgrænmetiskokki...

Njótið þess að eiga góða helgi kæru vinir:)

laugardagur, nóvember 15, 2008


Einum pensilín skammti, smá magapílum og eyrnabólgu síðar...


erum við bara að verða nokkuð hress. Allir fjölskyldu-meðlimir þó með kvef og sumir hósta en svona gengur þetta bara. Í næstu viku verða líklega teknar einhverjar myndir af nebbanum mínum sem vill endilega stíflast aftur og aftur upp í enni með tilheyrandi hausverk og leiðindum. Ára er síðan bara að pikka upp leikskólapestir og fékk eyrnabólgu í annað eyrað. Andri er líka þrælstíflaður en við skelltum okkur þó á Mokka í dag aðeins til að viðra liðið og gæða okkur á ljúffengu súkkulaði og vöfflu með rjóma sem Áran eeeelskar og sagði meiji vöfflu meiji vöfflu.

Í gær höfðum við það bara huggulegt og horfðum á Lottu með popp eftir að Andri hafði eldað Pakistanskan grænmetispottrétt en núna stendur hann sveittur og gerir Misosúpu. Ég hef því algjörlega fríað mig frá allri matargerð á meðan á þessu stendur!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Ég sé að kommentakerfið hefur tekið kipp við birtingu dagbókarskrifanna...

kannski öllu skemmtilegri skrif þarna þegar ég var 14 ára;)

Ég ætla því að afhjúpa fleiri þó svo að ég fái aumingjahroll við innslátt hverrar setningar!

Dæmi 3 - svo ég haldi nú áfram með fiskafélagið...

22. janúar 1996

Ég er að fara að sofa og ég hlakka svo til að sjá hann Andra á morgun.
Í dag í skólanum var hann svo sætur og skemmtilegur og ekki eins feiminn við mig eins og venjulega. Hann var að segja okkur að við ættum að gefa pýrenafiskunum sem við ætlum kannski að kaupa, þurrkaðar rækjur og hann var svo mikil dúlla (dúlla undirstrikað 14 sinnum!)

framhald 22. janúar 1996:

En nú er aðalatriðið, í dag var ég að spjalla við hann og þá sagði Samía: "Þið yrðuð sætt par" og ég svona hló ha ha ha og þá sagði hún að hún héldi að hann væri hrifinn af mér og ég hló aftur. En hún sagði að einhver hefði sagt henni það og þá fór ég að hafa meiri áhuga á að spjalla um þetta við hana en hún vildi ekki segja mér hver sagði henni það og núna vildi ég óska þess að þetta væri satt en það er það örugglega ekki.

*aumingjahrollur og smá hlátur*

vona lesendur góðir að þið séuð ekkert farin að efast um heilbrigði mitt...

föstudagur, nóvember 07, 2008

Ég þurfti aðeins að skottast niður í geymslu áðan...

og fann ýmislegt skemmtilegt, rauðan kjól sem ég og Álfrún keyptum þegar við fórum til Barcelona 2001 að mig minnir og mér til mikillar gleði þá kemst ég í hann, jólakjóllinn í ár bókað, skella smá fatalit í hann og hann er eins og nýr. Rándýr á sínum tíma og seldur í pesetum en þá var nú efnahagsástandið annað en í dag. Einnig var ég skemmtilegan gleymérei pott frá Möggu sem ég eftir að setja fræ í...

síðast en ekki síst fann ég THE DIARY frá árinu 1996 eða bókina um Andra sem ég ritaði í um hálfs árs skeið þegar ég var í 8. bekk.

það er alveg frábært að lesa þessa bók - grafalvarleg skrif hjá mér og hugleiðingar 14 ára ástfanginnar stúlku;)

Sem dæmi:

"Ég er í svokölluðu fiskafélagi í skólanum sem sér um að kaupa fiska fyrir skólann. Andra langar held ég svo rosalega að vera í því en þorir ekki því Helga finnst það eitthvað ansnalegt. Það væri alveg frábært ef hann vildi vera með því þá gæti ég séð hann oftar".
Já það hefði nú aldeilis létt mér lífið á þessum árum ef Andri hefði verið með í fiskafélaginu...haha

Annað dæmi:

"Ég er alltaf glápandi á hann því hann er svo sætur (sætur er meira að segja undirstrikað) og í dag vorum við að spila og stelpurnar þurftu alveg að öskra LINDA þú átt að spyrja og ég var alveg með stjörnur í augunum eftir að hafa verið að glápa á hann og sagði rugluð númer hvað og spurningarnar hafa ekki nein númer. Það er nú ekki gott að vera ruglaður af ást!
Ónei það er sko ekki gott að vera ruglaður af ást en að vera ruglaður og skrifa svona bók, það er sko í lagi 12 árum síðar;)

Mikið er ég búin að skemmta mér við þennan lestur!

Góða nótt

fimmtudagur, nóvember 06, 2008


Ástand mitt var greinilega ekkert bara bundið við daginn í gær því ég fór heim úr vinnunni áðan vegna þess að það var eins og einhver væri að hamra í hausinn á mér! Ég vona að sé ekki að fá einhverja pest - ég sem fór í flensusprautu í síðustu viku.

Ég er bara hundslöpp og ligg eins og skata, vona að þetta rjátlist af mér í dag og geti farið spræk inn í helgina.

Ég setti nokkrar myndir inn til að stytta mér og ykkur stundir - Áran er náttúrulega alltaf sama krúttið - vaknaði syngjandi í morgun, við heyrðum bara í henni inni í herbergi hjá sér að syngja: sofu unga atin min, uti egnið gætur...og afi minn og amma min út á bakka búa!

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

úff þetta er svona one of those days...

þar sem maður er bara gjörsamlega búin á því á sál og líkama og allt gengur einhvern veginn á afturfótunum, sulla niður sósu, helli úr jógurt, erfiðir fundir, álag í vinnunni etc...

já þetta eru ekki stórvægileg vandamál en ofsalega vorkennir maður stundum sjálfum sér þegar þreytan er svakaleg og maður á bara svooo bágt eitthvað

svona er ég núna en ætla í sturtu og leggjast undir sæng og hugsa með mér að dagurinn á morgun verður betri wrrrupm!

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Í gær var ég búin að elda þvílíkan kreppurétt...

skar niður allskyns grænmeti úr ísskápnum, saxaði hvítlauk og hellti olíu yfir og ákvað síðan að smella kartöflubátum sem ég átti forsoðna inni í ísskáp. Þeir voru búnir að vera til ansi lengi en ekki komnir á dag. Þessu smellti ég síðan inn í ofn og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ekki leið að löngu þangað til gráðostamygluógeðslykt lagði um allan íbúðina. Kartöflurnar voru þá algjörlega óætar og ég átti svo erfitt með að sætta mig við það og reyndi hvað ég gat að koma niður einhverjum bitum...

þessi réttur fór því beinustu leið í tunnuna og ég benti Andra pent á það að hann og Ára gætu kannski bara fengið sér pylsu á leiðinni heim úr Zeninu en fyrst fór hann í Zen, síðan ég!

þau fengu sér pulsu og böðuðu sig síðan þegar heim var komið og þá benti áran á typpið á pabba sínum og sagði pulsa! eða punsa á hennar máli (hún þekkir náttúrulega ekki bjúga-nei segi svona!)

ég þurfti síðan að borða dáldið annað...