laugardagur, mars 27, 2010

Páskafrí og bústaðaferð!

Langþráð páskafrí er runnið upp og við stefnum í bústað á gossvæðinu nánar tiltekið á Strandavöllum. Fröken Ára var eitthvað slöpp í gærkvöldi eftir ansi ærslamikla sundferð og kvartaði um í eyranu, barnið sem fær alltaf í lungun en aldrei í eyrun en fínn læknir kannaði málið og smá bólga sást en ekki þannig að stöðva þyrfti bústaðaferðina sem betur fer, alveg hefði það verið týpískt fyrir okkur að komast ekki. Við erum búin að vera hrikalega upptekin bæði undanfarið, vinnulega og ekki síður félagslega, árshátíðir, partý, leikhús og fleira fyllir upp í stundatöfluna okkar sem er auðvitað bráðskemmtilegt en síðan er ekki síður skemmtilegt að komast út fyrir borgarmörkin í rólegheit og afslappelsi:)

Ég var að setja inn MarsMyndir og myndir sem við fengum frá leikskólanum.

Við Andri eigum síðan pantað flug til Stokkhólms þann 8. júlí, nánast sami dagur og við fórum í fyrrasumar nema núna verður þetta eðal paraferð með Helga og Gunnu - Ára verður í góðu yfirlæti á Íslandi hjá ömmum, öfum og frænkum í heila viku, dáldið langur tími en fargjaldið var það sama fyrir þrjá daga og viku og þá er þetta eiginlega ekki spurning!

Vinsælt sport - þvottkörfuleikurinn

mánudagur, mars 22, 2010


Ég á afmælisAndra í dag og óska honum alveg innilega til hamingju með 28 árin:)

Það þarf varla að taka fram hve yndislegur og dásamlegur hann því þeir sem þekkja hann vita að fallegri og betri mann er ekki hægt að finna á jarðríki! Smá kvót í gömlu dagbókina mína sem segir allan sannleikann!

Njóttu dagsins minn allra kærasti eiginmaður!

mánudagur, mars 15, 2010

Vor í lofti?
Það væri alveg dásamlegt ef vorið væri bara komið og allur snjór og kuldi farinn þangað til kannski bara í janúar á næsta ári:) Bjartsýn, já ég held það bara. Með vorinu hefjast útihlaup aftur, við gátum hlaupið ótrúlega lengi fram á veturinn eða nánast alveg fram til jóla. Síðan hafa janúar og febrúar mánuður varla boðið upp á útihlaup en nú eru þú formlega hafin aftur sem þýðir að ég þarf að fara að setja mér markmið fyrir sumarið. Stefnan er að hlaupa þrisvar í viku og auka það síðan þegar líður á sumarið og taka kannski þátt í aðeins fleiri hlaupum en bara maraþoninu í ágúst.

Undanfarin tvö skipti sem ég hef sett mér markmið í þessum hlaupamálum hef ég náð þeim sem er alltaf ánægjulegt en núna finn ég að mig langar að setja mér óraunhæf markmið þannig ég ætla íhuga málið vel áður en ég pósta þeim:)

Ég er búin að vera með kennaranema hjá mér í vinnunni undanfarnar þrjár vikur sem er notalegt, þá er ég meira á kantinum að fylgjast með. Mjög svo fullorðinslegt allt saman.

Og meira fullorðinslegt, ég er líka að fara að taka þátt í rannsóknarstofu um menntastjórnun, nýsköpun og mati á skólastarfi! Einhvers staðar verður maður að byrja og þetta er fínn grundvöllur enda stefni ég á einhvers konar stjórnun í framtíðinni í hvaða formi sem hún verður nú!

Já maður er ekki að yngjast neitt það er nokkuð ljóst, er ekki frá því að ég sé að fá smá svona poka yfir augun og nú lýg ég ekki, finn hvernig augnlokin á mér eru farin að þyngjast enda er þetta ákveðið ættarmerki að vera eiginlega ekki með nein augnlok og þessa vegna hef ég aldrei getað verið með eyeliner eða neitt slíkt, klessist alltaf saman!

En við á Laugarnesveginum erum bara nokkuð bjartsýn og jákvæð og erum búin að plana matseðil fyrir vikuna sem er alltaf gott svona í ljósi umræðna sem ég hef átt við ýmsa um það að undanförnu:)
Í kvöld var t.d. grilluð bleikja með rosa góðri jógúrtsósu ala AFO - á morgun er ég reyndar að fara á Ítalíu en það er önnur saga....

kvitt eru alltaf vel þegin!

sunnudagur, mars 07, 2010

3 Ára afmælismyndir eru komnar á myndasíðuna:)


Þessi yndisfríða stúlka er sko ekki dóttir móður sinnar fyrir ekki neitt og elskaði að eiga afmæli og var ekki alveg að átta sig á því að í dag væri þetta búið og hún ætti ekki lengur afmæli:)

Við þökkum öllum fyrir komuna og dömuna sem áttu leið hjá um helgina - samkvæmt mínum útreikningum voru þetta um 75 manns. Mikið erum við nú heppin að eiga svona marga góða vini og fjölskyldu, alveg hreint ómetanlegt. Þeir sem lögðu síðan hönd á plóg með veitingar eiga þúsund þakkir skildar því maður hristir nú ekki svona fermingarveislu fram úr hendinni eins síns liðs, að minnst kosti ekki ég:)

laugardagur, mars 06, 2010

3 Ára:)

Dásamlega stúlkan okkar sem dýrkaði að vera í sviðsljósinu í fjölskylduafmælinu í gær. Kærar þakkir fyrir dömuna allir saman!

Og snemma í morgun að opna frá ma og pa - alveg með aldurinn á hreinu!

BINGÓ spil og stærðfræði sett:) Stærðfræðikennarinn fékk að ráða hluta af gjöfinni!


Til hamingju með daginn elsku besta Áran okkar sem hefur fært okkur óendanlega mikla gleði og hamingju.




miðvikudagur, mars 03, 2010

Febrúarmánuður er í óðaönn að hlaðast inn á myndasíðuna:)

Undirbúningur fyrir the BIG 3 stendur í hámarki, DORU þemað kom frá Ameríku í gær og mér skilst að daman fái Doru kjól í afmælisgjöf sem mun vekja mjög svo mikla lukku.

Ég, Sía og Ára bökuðum tæplega 100 mini cup cakes á föstudaginn og í kvöld er það Rice Crispies og eplakökurnar á morgun ásamt fleiru og fleiru. Síðan er ég svo heppin að hafa heilan haug af fólki í kringum mig sem er til í að gera ýmislegt fyrir mig:)

Þessi unga dama elskar ekkert meira en að "snyrta sig" með mömmu sinni og setur þá á sig ýmis krem og gloss og meira að segja svitalyktaeyði:)

Hún á síðan alveg golden moment inn á milli eins og t.d. þetta þegar hún var að horfa á Stundina okkar:

Ára: Mamma, er stærðfræði nokkuð leiðinleg?
Ég stærðfræðikennarinn sjálfur svara: Nei auðvitað ekki, hún er mjög skemmtileg, hver er að segja að stærðfræði sé leiðinleg? (furða mig á því hver sé að innræta barnið slíkri endemis viltleysu)
Ára: Björgvin Franz er að segja að stærðfræði sé leiðinlegt!

Annars er þetta mynd mánaðarins af dásamlega skemmtilegri og jákvæðri fjölskyldu sem kom í kjötsúpu á dögunum og Úlfar Jökull fékk lánuð prinsessunáttföt og bleika duddu og var að fíla sig vel:) Óli "Calm" var eins og ljós og sat í fanginu á pabba sínum í hátt í klukkutíma án þess að segja múkk! Ótrúlegur drengur:)

Kommentakerfið hefur breyst eilítið en er langt því frá að vera hætt að taka við kommentum þannig að endilega kvitta fyrir komu og kíkja á febrúarmyndir

aðíós