miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Maður má greinilega ekki "jinxa" hlutina með því að segja "eftir að veikindin tóku sér pásu..." sbr. síðustu færslu því núna er ég heima með Áru því hún var komin með hita á mánudaginn og var heima í gær og dag, reyndar hitalaus núna en með einhvern hósta og því þarf að halda áfram að pústa hana. Okkur til smá mæðu því aukaverkanir geta verið að börn vakni á mjög svo ókristilegum tíma eins og t.d. 4:50 og séu í stuði í kannski tvo tíma og leggi sig svo aftur en þá er klukkan orðin sjö og tími fyrir alla til að fara á fætur!

Þannig ekki láta ykkur bregða ef við erum farin mjööög snemma að sofa meðan þetta púst gengur yfir!

Annars sagði mamma einnar stelpu í leikskólanum að góður læknir hefði sagt henni að það væri eðlilegt að börn á þessum aldri væru veik 15 sinnum á ári! Takk fyrir pent, við eigum þá ekki nema um 10 skipti eftir;) Stuð...
Það má hins vegar gera sér ýmislegt til dundurs í veikindum...

Laga stólinn með krana (var að lesa bókina Emma gerir við og hóf í kjölfarið miklar viðgerðir á ýmsum hlutum)
Raða smekkjunum á ofninn eftir þvott!

Og nú er málið að hella sér í skipulagningu á tveggja ára afmæli sem verður eftir rúma viku.



sunnudagur, febrúar 22, 2009

Við erum ekkert alveg dauð úr öllum æðum...

höfum bara haft nóg að gera í brunchum, lunchum, barnahittingum, bolluhittingum, afmælum, matarboðum og öðru slíku eftir að veikindin tóku sér pásu.

ég setti inn einhverjar 50 myndir í febrúar albúm hérna sem segja allt sem segja þarf!

finnst líklegt að ég verði andvaka í kvöld þar sem ég svaf til hálf ellefu og lagði mig frá hálf tvö til hálf fjögur...

og síðan býð ég enn eftir konudagsvendinum - hef reyndar gert það í mörg ár en VONAST enn eftir að fá hann:)

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Nýr ísskápur!

Við tókum ákvörðun í gær um að kaupa nýjan ísskáp - ástæðan: stór klaki sem myndaðist um leið og sá sem var á undan var fjarlægður og húsfreyjan orðin þreytt á því að afþýða á þriggja vikna fresti. Festum kaup á svipaðri stærð en auðvitað glænýjum og því töluverður munur þar á. Við erum þó endalaust þakklát fyrir Pay it forward leikinn sem Arna og Bjarni störtuðu fyrir ári síðan og höfum eins og hefð er fyrir haldið leiknum áfram og næsti viðkomustaður "Candy" er í Klofanum.

Varðandi heilsu þá segi ég sem minnst - þori ekki sökum hræðslu um að eitthvað nýtt mæti á svæðið...þannig no comment í þeim málum!

Ég tók mig til á föstudaginn og skipti um stofu í vinnunni, hefði átt að vera löngu búin að þessu en hef verið í 15 um þriggja ára skeið og maður er svo helv.. vanafastur. Á föstudaginn tók ég hins vegar þessa ákvörðun um að færa mig í 17 og sé sko ekki eftir því. Í fyrsta lagi er stofan töluvert stærri en mín og dreifir unglingunum um og lætin verða minni, í öðru lagi snúa gluggarnir í hentugri átt hvað varðar sól og nú með hækkandi sól vita allir að það fer að verða ansi mollulegt í stofum þar sem sólin skín yfir háannatíma. Í þriðja lagi sé ég yfir á Laugaborg en þar mun barnið að öllum líkindum vera á næsta skólaári og í fjórða lagi veit ég ekkert skemmtilegra en að raða og flokka og skipuleggja í nýju stofunni minni - þannig win win fyrir alla, mig og nemendur sem una breytingunni vel:)

Heimasætan er dáldið lítil í sér í leikskólanum og hálfgerð aðlögun í gangi eftir veikindin enda hefur hún varla verið heila viku á nýju ári. Á morgun er síðan skipulagsdagur en hún verður örugglega fegin að fá að vera heima hjá ömmu sinni. Hérna eru þrjár góðar af henni en þessa dagana er ýmislegt brallað og mörg gullkorn farin að fljúga upp úr henni:

"Afi er mesta dúllan"

"Amma er besta kellingin"

"Þetta gengur nú ekki ussusussususs"

"Búna kúka og hleypur og nær í bleyju"

Þannig að núna er næsta mál á dagskrá að koma henni á koppinn áður en stykkið er komið í bleyjuna og æfingar eru byrjaðar - við sitjum góða stund og skoðum bókina um Möggu sem er einmitt að verða tveggja ára og var að fá kopp og er að æfa sig að pissa í hann.

Komum að henni þar sem hún var búin að "dekoreita" stól!
Síðan er þetta eitthvað sport að fá naglalakk:)
Fékk svoleiðis áðan af því það er frí á leikskólanum og mín kona sat eins og myndastytta á meðan lakkinu var komið á!

Kannski óþarfi að hún mæti með naglalakk og Powerate í leikskólann en Powerate sagan er alveg efni í aðra færslu...
-Góðar stundir-



föstudagur, febrúar 06, 2009

"Eign þvottahúss spítalanna!"
Fröken fix ældi yfir allan Barnaspítala Hringsins!
Og fékk þennan glæsilega búning í kaupbæti!

Við brunuðum sumsé í þriðja skiptið á tveimur vikum niður á Barnaspítala Hringsins því daman var mjög svo ólík sjálfri sér, andaði skringilega og sofnaði aftur innan við klukkutíma eftir að hún vaknaði í morgun eftir að hafa sofið í 12 tíma í nótt!

Í þetta skiptið var þó ekkert alvarlegt á ferðinni - BARA komin með ælupest því rétt þegar við vorum komin í skoðunarherbergið ældi hún yfir allt. En gott að vera með varann á sér eftir streptakokkasýkingu, rs vírus og núna síðast lungnabólgu.

Hún fór því greinilega einungis í leikskólann á mánudaginn til að ná í þessa nýju pest - gaman að því.

Þetta getur nú varla farið annað en upp á við svona miðað við það sem á undan er gengið. Ætli hún verði ekki komin með hlaupabólu á mánudaginn eða eitthvað álíka!

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Tilvonandi körfuboltastjarna

Neitaði að fara í nokkru öðru á leikskólann en þessum bol frá Puerto Rico sem Hjalti og Eva gáfu henni

Litlar snúllur sem eru búnar að þurfa að vera inni 14 daga það sem af er árinu sökum leikskólapesta bjarga sér oft sjálfar og ná sér í jakka og húfu og segjast vera að fara út. BURTU LEIKSKÓLAPESTIR! BURTU!

Í gærmorgun ældi hún síðan yfir mig alla og út um allt en síðan var eins og ekkert hefði í skorist - við töldum þá eftir samráð við lækni að þetta gæti verið út af pensilíninu hvað veit maður?

Hún fór samt í leikskólann í dag og var smá lítil í sér enda orðin dauðþreytt á þessum janúarveikindum.

Vonandi vonandi fer þetta að hætta!




þriðjudagur, febrúar 03, 2009


Jæja mikið er ég fegin að þessi blessaði janúarmánuðurinn er búinn...


og með hækkandi sól og hita verður heilsa heimilisfólksins vonandi betri.


Ára er búin með ágætisveikindapakka það sem af er árinu og var komin með bakteríu í lungun á föstudaginn sem var meðhöndluð með sýklalyfjum, hún fór samt í leikskólann í gær og var hin hressasta og borðaði yfir sig af steiktum fiski og kartöflum. Við fengum líka útskýringu á því af hverju hún er yfirleitt lystarlaus á kvöldin en samkvæmt deildarstjóranum borðar hún yfirleitt fjórar brauðsneiðar í kaffinu - meira en nokkurt annað barn á deildinni!


Í morgun var hún samt með nokkrar kommur og sökum nístingskuldans úti og undanfarinna veikinda þorðum við ekki að láta hana fara í leikskólann og því bjargaði amma Rut okkur enn og aftur fyrir horn og var heima hjá dísinni. Hún var síðan hitalaus í dag og klæddi sig nokkrum sinnum í skó og peysu og sagðist vera að fara út enda orðin hundleið á þessu innihangsi endalaust. Ég var að telja það saman að hún er búin að vera samtals 13 daga inni á nýju ári!


Við getum samt alls ekki kvartað - barnið búið að vera heilsuhraust fyrsta eina og hálfa árið og fyrst núna sem reynir aðeins á svona veikindadæmi og það verður frekar leiðinlegt til lengdar verð ég að segja.

Vikan er þéttskipuð verkefnum sem endranær - námsmat að nálgast í skólanum og fyrir liggja próf og einkunnagjafir, ég er samt búin að vera frekar skipulögð þessa önnina og sé fram á að vera búin að öllu vel tímalega.


Á morgun er skylmingaæfing og á fimmtudaginn ætlum við Laugó skvísur að gera milljónustu tilraunina til að hittast með börnin.

Föstudagur verður vonandi til fjár og á laugardaginn kenni ég smá dans í Dansskóla Ragnars og einnig stendur til að hafa FRAM feðradag en við foreldrarnir náðum að hittast síðasta föstudagskvöld í góðu glensi.

Hér á heimilingu ríkir einnig mikil sjálfstæðisbarátta sem fylgir því að verða tveggja ára í næsta mánuði. Undanfarna daga hefur litla konan sett blátt bann við því að fara í bað og það var ekki fyrr en í kvöld sem við náðum að plata hana ofan í. Hún hefur alltaf elskað baðið og skiljum við ekki hvaðan þessir stælar eru komnir. Einnig segir hún EKKI í annarri hverri setningu og Ágústa á þetta í hinni ásamt því að hafa sérstaklega sterkar skoðanir á því hverju hún skal klæðast. Til að mynda sendi faðir hennar hana í nátttreyjunni í leikskólann í gær því hann nennti ekki barningnum!

Þetta er nú meiri langlokan hjá mér en annars er ég komin upp í því við hjúin litum á hvort annað í morgun þegar risið var úr rekkju rúmlega sex og sögðum samtaka: "snemma upp í í kvöld og horfa á despó" haha ok ég kannski að horfa á despó en allaveganna hér verður ekki vakað til eitt eins og ég á alltof oft til:)

Hafið það nú gott því bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og sæta langa veikindalausa daga:)