föstudagur, júní 29, 2012

Ritarinn hefur ákveðið að taka sér tak í skrifum í vefdagbókinni á myndasíðunni okkar www.123.is/agustarut og áætlar nú að lágmarki að skrifa mánaðarlega pistla þar. Hvað varðar skyndilinduna verður bara að koma í ljós hverju hún kemur í verk en hún er til alls vís þegar hún tekur sig til!

sunnudagur, apríl 29, 2012

Mamma 50 ára og Magdalena 4 mánaða!


Ansi stór dagur í dag þegar hún móðir mín náði þeim merka áfanga að verða 50 ára. Hún og pabbi eyddu honum í Prag í bongó blíðu þar sem mamma æfði sig á nýja ipadinn sinn:) Mamma er náttúrulega alveg ótrúleg kona, með eindæmum fórnfús, hógvær og yndisleg. Ég er enn að hringja í hana daglega verðandi þrítug á árinu,  stundum bara til að láta hana vita hvað ég er að gera en oftar en ekki til að ráðfæra mig við hana og þá á hún alltaf einhver góð ráð í pokahorninu. Þessu kem ég til með að halda áfram um ókomna tíð. Mamma er svo hjálpsöm, skilningsrík og góð alltaf hreint að það er eiginlega ótrúlegt - hún er mín fyrirmynd þegar kemur að móðurhlutverkinu - til hamingju með daginn elsku besta mamma mín:)


Kannski örlítið minni áfangi en þó stór í augum okkar foreldranna, að verða 4 mánaða. Magdalena hefur heldur betur náð stórum áföngum á þessum fyrstu 4 mánuðum lífs síns og tók sig til í tilefni dagsins og velti sér af baki yfir á maga í fyrsta skipti en hefur farið þónokkrum sinnum hina leiðina. Henni tókst líka að ryðja upp tveimur tönnum og er búin að ferðast til Kaupmannahafnar. Hún er yfirleitt nokkuð meðfærileg en skapstór að sögn föður hennar. Ef hún reiðist verður hún reið og þarf tíma til að ná sér niður áður en hægt er að tjónka við hana. Er yfirleitt að sofna um níuleytið á kvöldin og kann vel við að fara inn í herbergi í kósý milli átta og níu, drekka vel og mikið og hlusta síðan á umhverfishljóðin sín áður en hún sofnar. Síðan er hún að drekka að meðaltali 2-3 sinnum yfir nóttina, yfirleitt aldrei fyrr en tvö í fyrsta lagi, stundum seinna og svo undir morgun. Er búin að vera frekar kvefuð eftir ferðalagið, stífluð og með lekandi augu og hósta en virðist ætla að hrista þetta af sér. Hún er farin að veita umhverfi sínu mikla athygli, búin að þjálfast í að halda á hlutum og grípa í. Finnst stóra systir langskemmtilegust og fylgist með öllu sem hún gerir. Yfir daginn tekur hún þrjá lúra. Fyrsta um tveimur tímum eftir að hún vaknar og hann er yfirleitt lengstur, síðan annan styttri og loks einn powernap seinnipartinn. Vakir síðan í svona þrjá tíma fyrir nóttina. Er dugleg að súpa og verður spennandi að sjá hvernig hún bregst við graut og fleiru þegar þar að kemur - vonandi fetar hún í fótspor systur sinnar sem sagði ummummm við hverrri skeið sem rataði í munninn.

Á myndasíðunni eru síðan brakandi ferskar apríl myndir - gott ef þær hlaupa ekki á tveimur hundruðum!

fimmtudagur, apríl 26, 2012

Skyndilindan back to business... Eftir afar viðburðaríka og skemmtilega daga í Köben er ég komin heim og strax farin að þvo fjöll af þvotti, skipuleggja og gera og græja ýmislegt. Klónin mín tóku vel á móti hinum klónunum og öllum fannst gott að vera sameinuð á ný. Magdalena komin með tvær vinnukonur í munninn og tekur smá agression köst í tilefni af því. Var frekar mikið þotuþreytt í gærkvöldi og grét mikið sáran þar til hún loks lognaðist út af. Var síðan með kvebba og smá kommur í nótt, svona ferðalag tekur á þegar maður er bara tæplega 4 mánaða! Það var því mikill kósýdagur hérna heima í dag. Myndavélin var auðvitað á lofti alla ferðina og nú fer maður að stimpla sig inn í 25% vinnu í myndvinnslu til að ná að dekka allan apríl mánuð en hann hefur verið mjög viðburðaríkur. Síðan hefur breyst eins og sjá má og því miður lítur út fyrir að öll gömul komment hafi glatast nema þau leynist einhvers staðar í kerfinu en ég þarf að læra betur á þetta. Nú er allaveganna hægt að kommenta og væri gaman að einhverjir af þeim 72 sem stoppuðu við í dag myndu gefa lítið kvitt þó svo að síðan sé að mestu tilkomin fyrir mig sjálfa. Þessi færsla er sú fyrsta sem ég skrifa á ipadinn okkar en því hefði ég aldrei nennt nema fyrir tilstilli lyklaborðsins sem ég hef núna fyrir framan mig. Þannig að þið eruð löglega afsökuð sem eruð með ipad og nennið ekki að skrifa, þið hin hafið enga afsökun! Gestabloggurunum þremur fyrir ég kærlega þakka fyrir velunnin störf en sá fjórði fékk því miður aldrei lykilorðið sent sem skrifast á mig en ég lofa að hann fær að komast að von bráðar!

þriðjudagur, apríl 24, 2012


Gestabloggari nr. 3
Eftir listilega takta fyrri gestabloggara og hnyttni í hverju orði fékk gestabloggari nr. 3 smá sviðsskrekk og varð svo lítill í sér að það tók hann þrjú kvöld að peppa sig upp í blogg.
Eftir æðislegar stelpustundir var komið að því að kveðja seinni íþróttasleggjuna. Rexið kom reyndar með litlumömmunum í ungbarnasund á sunnudagsmorgninum en lét það vera að bæta sér í "Hjólin á strætó"-kórinn og tók bara ME time með powersturtu og túrbógufu á meðan hinar tvær  hoppuðu og híuðu yfir "afrekum" sundkappanna. Eftir sundið varð Skyndilindan að fylla á hittingakvótann enda bara algjört lágmark að hafa fimm plön á dag, svo að þær mæðgur skunduðu út í Tårnby að hitta Helgu og Per.
Um kvöldið eldaði Kobbi fyrir konurnar sínar tvær og var svo stefnan sett á rauðvín, súkkulaði og góða bíómynd. Möllumúsinni fannst það vera svona heldur mikið splæs og ákvað að ryðja upp tönn númer tvö, með tilheyrandi pirringi og óværð. Eftir nokkra færeyska hringdansa og aðrar redderingar komst hún loksins í ró og tilraun tvö á vídjókvöld hófst. Passlega fimm mínútum eftir að myndinni var hleypt í gang vaknaði Mammoni-inn á heimilinu og krafðist þess að fá túttu ekki seinna en strax, þannig að Sóley stimplaði sig inn á næturvakt. Aðrir heimilismenn fylgdu í kjölfarið.
Á mánudeginum skveruðu mömmurnar sér í bæinn og voru ekki lengi að sjoppa það sem hugurinn girntist, þrátt fyrir að vera með tvö undir eins árs á kantinum. Þau eru nú algjör ljós þetta litla par.
Þrátt fyrir bæjarferðina voru Zero-dagar virtir og bara ítrustu nauðsynjar keyptar.
Um kvöldið voru börnin samvinnuþýðari svo að þrenningin gat tekið maraþonspjall um lífið, tilveruna, innanhúshönnun, barnauppeldi og fleira.
Þriðjudagurinn var kósýdagur, veðrið var yndislegt og mömmurnar héldu sig bara á Amager. Óli tók smá gestalæti fyrir Lindu, var alltaf mættur á kantinn að sníkja mat hjá henni en fussaði og frussaði þegar Sóley bauð honum eitthvað. Hann tók svo bara puttadansinn og rassadillið þess á milli með svo miklum tilþrifum að Linda var farin að gráta úr hlátri. Lena hin síkáta kunni líka að meta fíflalætin og hló og hló.
Eftir hádegi ákvað Skyndilindan að krydda aðeins tilveruna og maxaði sig í stórum Latté á Riccos. Seinnipartinn var svo aftur hóað í góðan kvennahóp og það var aldeilis kátt í höllinni þegar fimm konur og fjögur börn voru saman komin í 20 fm stofunni.
Þetta er búin að vera frábær ferð - Magdalena algjört fyrirmyndarbarn og ekki mikið fyrir henni haft. Þrátt fyrir það er kominn smá heimferðarsperringur í þær mæðgur og þær sakna óneitanlega klónanna sinna á klakanum.

laugardagur, apríl 21, 2012

Gestabloggari nr.2
Dagurinn í dag byrjaði snemma.... Skyndilinda og skyndilena vöknuðu kl.7 og fengu sér að drekka, á meðan að aðrir gestir Ungarnsgade stungu töppum í eyrun og snéru sér við í sófanum.. Mæðgurnar voru massa sáttar að geta sofnað aðeins aftur eftir drykkinn, eða til kl.9.. þá vöknuðu allir (nema Sóley fékk að lúlla lengur).. Góður breggi sem samanstóð af Frooshi og maltbrauði var tekinn og síðan fengu skvísurnar fjórar sér göngutúr (Linda, Magdalena, Sóley og Ragna). Það hellirigndi í göngunni, en sólin byrjaði að skína um leið og við stigum inn... Þá ákváðu "Litla" og "Stóra" að gera vel við sig og fá sér eins og einn "Latte" og meððí sem endaði í tvöfaldri gulrótarköku og massífu spjalli.. Eftir stutt stopp á Ungarnsgade fór Sóley með í kaffiferð nr.2 því lille og störe fengu ekki nóg eftir fyrsta bolla.. Þetta endaði í því að koffíneinkenni komu fram hjá Skyndilindu, sem var farin að tala í formi fyrirlesturs, með handapati út um allt og ófyrirséðum hlátursköstum og miklu stuði..
Magdalena fékk stuðið frá múttu, en hún er enn vakandi og í miklum ham.

Dagur er að kvöldi kominn og nú eru sex skvísur að spjalla og hafa það gott í kóngsins köbenhávn.

xxx



föstudagur, apríl 20, 2012

Gestablogg nr. 1

Gestablogg nr. 1

Ég er ekki frá því að það sé komið meira vor á Íslandi en hér í köben. Annars er allt gott að frétta héðan. Óli steinsefur á bringunni á Kobba. Hann er greinilega mjög sáttur að vera kominn heim til pabba síns. Malla er aðeins "Jetlagged" eftir fyrstu flugferðina sína en virðist kunna nokkuð vel við sig í nýju landi. Vindsængin er komin fram í stofu enda aldrei verið jafn margir næturgestir hér á Ungarnsgade síðan Kobbi og Sóley fluttu inn.

fimmtudagur, apríl 19, 2012

Kóngsins Köben...

Á morgun höldum við Magdalena til Köben í þeim tilgangi að "fylgja" Sóley og Óla heim:) Og auðvitað líka til þess að eiga yndislegar stundir með góðum vinkonum en Rexin mín tvö Ragna og Regína verða líka á svæðinu svo næstu fimm dagar lofa mjög góðu. Tvö ungabörn með ólíkar þarfir kalla líka á að það verður ekkert mikið um plön - ekkert excel skjal eins og var sælla minninga þegar við Sóley fórum saman til NY 2005 heldur munum við væntanlega bara halda áfram í mömmó-leiknum sem við byrjuðum í fyrir rúmum 20 árum!

Þetta verður góð tilbreyting frá því að taka til og þvo þvott alla daga. Sem verður efni í færslur eftir að ég kem heim, er bókstaflega að drukkna í fötum!

Ég vona að ég fái að lauma mér í tölvu þarna úti svo ég geti reynt að fylgja markmiðinu eftir, hef aðeins klikkað en stefni á að ná þessu að mestu leyti. 

þriðjudagur, apríl 17, 2012

Í fæðingarorlofi gefst svo mikill tími til að hugsa að ég er hálfpartinn komin í tilvistarkreppu. Litla diplómatíska, íhaldsama og óákveðna vogin má ekki ekki hafa of mikið pláss í kollinum á sér því þá fer hann á flug! Það er svo ótalmargt sem við langar að gera en ég hef ekki hugmynd um í hvaða röð er best að framkvæma það. Og þegar stórt er spurt verður oft afar fátt um svör. Held ég þurfi að panta mér starfsþróunarsamtal:)

sunnudagur, apríl 15, 2012

Fjórar dömur og þrír litlir Mammoniar í bústað...

 ...er dásamleg skemmtun og endurnærandi, ég er ekki frá því að ég hlakki bara til að fara að þrífa baðherbergið hérna í fyrramálið! Krakkarnir til fyrirmyndar, vissum ekki af eldri tveimur sem sváfu saman í koju báðar næturnar og léku sér endalaust. Magdalena fílaði bústaðinn vel og kunni vel við sig í afslöppuninni í sveitinni. Borðuðum fáránlega góðan mat og dekruðum við okkur með góðu víni og eldri Mammoniarnir tveir voru duglegir að tríta sig með Hendrix. Við erum strax farin að skipuleggja næstu ferð og það skemmtilega við hana er að þá munu stóru Mammoniarnir sjá um allt, innkaup og niðurpökkun - það verður vægast sagt fróðlegt en við Álfrún toppuðum okkur í þessari ferð og höfum aldrei verið með svona fullkomlega passleg innkaup:)

Ætli þetta verði ekki fastur liður svona fjórum sinnum á ári, einu sinni á hverri árstíð. Það verður líka stemning eftir svona tíu ár þegar við verðum komin með öll átta börnin okkar saman!


föstudagur, apríl 13, 2012

Það held ég nú!

Malla mús er bara komin með tönn! Og rétt náði því að verða þriggja og hálfs mánaða í gær. Mamma var búin að spá þessu, að hún yrði á svipuðum tíma og ég en mér skilst að ég hafi fengið mína fyrstu tönn fyrir 4 mánaða aldurinn. Hún fer því í sína fyrstu bústaðaferð um helgina heilli tönn ríkari:)
Obbobbbobb...skyndilinda að gleyma sér og klukkan orðin meira en tólf! En þessi dagur er ekki alveg á enda hjá mér svo þetta sleppur. Skaust í Víði að versla með Álfinum mínum, við erum nefnilega á leið í sumarbústað um helgina og við erum sko engir amatörar þegar kemur að því að versla fyrir svona ferðir. Mætum korter í lokun og klárum þetta á núll einni. Höldum okkur alltaf við sama "budgetið" og útbúum eðal matseðil fyrir heila helgi á Flúðum. Þessar ferðir okkar eru alltaf dásamlegar og ég get hreinlega ekki beðið eftir því að leggja af stað. Fyrsta skiptið í bústað með tvö börn, það held ég nú að Andri verði hress með farangurinn:)

Annars voru Flórída-amman og afinn að koma heim og þá eru alltaf jólin taka tvö hjá litlu ofdekruðu fjölskyldunni á L92. Ýmislegt fallegt sem rataði ofan í tösku hjá Don Ruth eins og alltaf og við erum ævinlega þakklát fyrir þetta allt saman. M.a. var ipad sem við AFO fáum í þrítugsgjöf og ég er komin með langan lista af spurningum varðandi þessa græju - á nefnilega margt ólært þeger kemur að eplinu.

miðvikudagur, apríl 11, 2012

Í dag fór ég og kenndi dans í þrjá klukkutíma. Það var mjög hressandi en líka erfitt. Maður er nefnilega ekkert í  vinnuformi þegar fæðingarorlof er annars vegar og þá er ég ekki að tala um að orlofið sé svona mikið frí heldur er það bara allt öðruvísi vinnuálag. Ég var allaveganna alveg dauð og nánast sofnuð með henni Magdalenu um hálf níu en reif mig á lappir og ætla að detta í góða ræmu með bóndanum - gef mér það samt að ég verði sofnuð  innan fimm mínútna en gefum þessu séns, gefum þessu séns.

Mér finnst mjög gaman þegar lesendur kvitta fyrir innlit, ég sé nefnilega alveg á teljaranum að hann tikkar svo einhverjir eru að lesa svo mikið er víst. Það er nefnilega alveg nóg eftir af þessu markmiði mínu en ágætt að apríl er bara 30 dagar!

þriðjudagur, apríl 10, 2012

Fallegasta krútt í heiminum (eins og Ára segir um systur sína)


Lena var plötuð í smá myndatöku seinnipartinn í gær hjá Grétari nágranna
Komin með þokkalega "gamlakallaklippingu" með smá hanakambsívafi


Fyndinn svipur!

Báðar systurnar fóru á sundæfingu í dag og eru miklir kafarar. Lenu dýft átta sinnum í kaf en fyrir þennan tíma hafði hún aðeins prófað það einu sinni. Var líka gjörsamlega búin á því eftir á! Ára syndir yfir alla laugina eins og ekkert sé og dýfir sér í kaf.

mánudagur, apríl 09, 2012

Pabbi snillingur!


Pabbi er ótrúlegur þegar kemur að tréverki, skil stundum ekki hvað hann er að gera þarna í bankanum (þó ég viti að hann er snillingur á þeim vígstöðvum líka) enda afbragðs trésmiður:) Þennan fallega skáp, hillu og símabekk smíðaði hann þegar hann var í Vogaskóla, já Vogaskóla! Man ekki betur en að ég hafi bara verið í því að brjóta blöðin í Laugarnesskóla þegar ég átti að saga eitthvað út!

Svava amma mín var alltaf með þetta heima hjá sér þegar hún lifði en við höfum haft bekkinn síðan við fluttum inn á Laugarnesveginn. Ég rak síðan augun í þennan skáp í geymslunni hjá pabba og fannst ómögulegt að hann væri ekki í notkun. Honum var því húrrað hérna upp í dag og það sem ég er glöð með þetta. Ekki bara af því að þetta er glæsilegt verk eftir hann pabba heldur líka því þetta minnir mig á yndislega góðar stundir sem ég átti heima hjá henni Svövu ömmu.

Nú get ég ekki beðið eftir að taka allar skúffur og skápa í gegn í öllum skenkum og ég sé fyrir mér að þessi skápur eigi eftir að nýtast vel til að geyma allskyns dót sem maður vill síður hafa uppi á borðum.

Farin að gera lista yfir það í hvaða röð allt verður tekið í gegn;)


sunnudagur, apríl 08, 2012

laugardagur, apríl 07, 2012

Góðir vinir


LA vinirnir flottir með stelpuskarann sinn - Alma, Magdalena, Ágústa og Agnes

Við fengum heldur betur góða gesti í dag, alla leið frá Uppsala. Og áttum með þeim fullkominn brunch, yngstu dömurnar tvær sváfu báðar í þrjá klukkutíma og þær eldri léku sér allan tímann inni í herbergi, komu svo aðeins fram og tóku nokkur vel valin dansspor við sænsk og íslensk Eurovision lög. Á meðan borðuðu foreldrarnir á sig gat og spjölluðu um heima og geima og þó það sé ansi langt síðan við hittumst öll saman var tilfinningin sú að þau hefðu bara verið hjá okkur síðast í fyrradag!


föstudagur, apríl 06, 2012

Föstudagurinn langi - í orðsins fyllstu!

Ára er búin að velta þessum föstudegi langa mikið fyrir sér og sagði nokkrum sinnum í dag að henni þætti þetta eitthvað svo skrýtinn dagur! Hún startaði honum náttúrulega á miðnætti með nokkrum tilheyrandi gusum og var meira og minna vakandi í nótt svo það er ekki skrýtið að henni hafi þótt þetta ansi langur dagur. Hún var samt svo fáránlega jákvæð og dugleg með þetta allt saman, sagði til að  mynda að það væri nú aldeilis gott að hún væri í fríi þegar hún fengi þessa gubbupest. Foreldrar hennar voru kannski ekki alveg jafn sammála með það en kunnu að meta þessa Pollýönnu sem hjálpar til í veikindum.

Kári Kaldal kom síðan með skemmtilegt komment í gær þegar við vorum að ræða þessa daga alla sama, hann vissi alveg hvað gerðist á föstudaginn langa og síðan sagði ég að dagurinn í dag héti skírdagur og það stóð ekki á svörunum: "Já einmitt, þá skírði Jesús alla vini sína". Ég tala alltaf um daginn sem Jesús borðaði síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum en Kári Kaldal er ekki svo vitlaus sbr. upplýsingar af vísindavefnum:

"Fimmtudagur fyrir páska nefnist skírdagur. Orðið 'skír' merkir 'hreinn, óblandaður; skær, bjartur; saklaus' og vísar nafnið þannig til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sögnin skíra merkir að hreinsa og hin upphaflega merking þess að barn sé skírt er þess vegna hreinsun."


Hún yndislega Svava amma hefði orðið 102 ára í dag hefði hún lifað. Blessuð sé minning hennar.

Gubba og gefa

Nú klikkaði markmiðið heldur betur því rétt fyrir miðnætti þegar ég ætlaði að drita inn færslu dagsins á síðustu stundu byrjaði Ágústa Rut að gubba. Hún byrjaði að kvarta aðeins í maganum og ég hefði auðvitað átt að ná í skál strax en ekki hlaupa af stað þegar hún sagðist þurfa að gubba! Ég rauk á ljóshraða inn í eldhús og ætlaði að grípa stærstu plastskálina okkar og tók bara neðstu skálina, þegar ég kom inn í herbergi sá ég að ég var með pastasigtið okkar sem heldur náttúrulega engu gubbi! Og því fór sem fór, gubb út um allt bókstaflega, þurftum að taka rúmið í sundur því það fór í allar raufar. Hún stóð sig eins og hetja í alla nótt og gubbaði á klukkutíma fresti, við skiptumst á að hella úr skálum og setja kaldan þvottapoka á ennið á milli þess sem ég fór og gaf Magdalenu að drekka. Alveg megahressandi en við vonum að aðrir fjölskyldumeðlimir sleppi, efast samt um að gubbudrottningin ég sleppi en sjáum hvað setur.

Ég held bara að Ára hafi aldrei fengið gubbupest en ég var farin að hallast að því að hún væri eins og Gunna, gæti ómögulega gubbað;)

miðvikudagur, apríl 04, 2012

Forsetaframboð

Mér líst ákaflega vel á að hún Þóra ætli að bjóða sig fram til forseta. Það er eitthvað svo mikið varið í þessa konu. Ég á örugglega eftir að kjósa hana. Velti samt fyrir mér hvernig þessu verður háttað með litla barnið sem hún á að eignast, hvað bara í miðjum kosningum? Það gefur augaleið að verði hún kosin forseti getur hún ekkert bara byrjað í fæðingarorlofi og einhver leyst hana af;) Það hlýtur einhver annar að þurfa að sjá um barnið og þó að mér finnist ungbarnatímabilið langt því frá að vera skemmtilegasta tímabilið í lífi barns þá myndi ég aldrei fyrir mitt litla líf vilja sleppa því að vera þátttakandi hverja einustu mínútu.


Og síðan er hún með BA í heimspeki, þessir heimspekingar leyna nefnilega á sér;) Senda Andra bara í framboð eftir svona 10 ár, held ég sé alveg til í að prófa að vera forsetafrú!


Ég er með fullt af myndum á lager en af því að ég á það til að þjást af fullkomnunaráráttu og vil skrifa undir allar myndir um leið og ég set þær inn bíð ég aðeins með þetta en þær koma á næstu kvöldum.


þriðjudagur, apríl 03, 2012

Einn af þessum dögum...

...sem er best að enda á heitu og góðu baði. Byrjaði á fótapirring eldri dótturinnar upp úr fimm með tilheyrandi væli og pirring sem endaði þó á því að hún sofnaði aftur um sama leyti og hin gerði sig líklega til að vakna en var skúbbað á brjóst til að krækja í smá meiri svefn. Ég vil meina að Andri hafi kynnt þetta hugtak fótapirring fyrir ÁRU sem notar það óspart;) Ég náttúrulega þekki þetta ekki því ég óx aldrei neitt að ráði og fékk því aldrei neina vaxtaverki.

Síðan langar mig alveg að sjæna heimilið fyrir páskana og gera huggulegt en bara nenni því ómögulega og eyddi því deginum bara að heiman, alltaf gaman að hitta vinkonur mínar, spjalla og ekki skemmir fyrir þegar sushi og hvítvín er í boðinu. Verst að Lenublómið var ekki upp á sitt besta og sýndi allt annað en sparihliðina, kvartaði og laumaði mörgum framhjákúksprumpum sem örsökuðu í kjölfarið megaskitu í kvöld út um allt við mikinn fögnuð allra fjölskyldumeðlima:) Það getur bara ekki verið gott að vera með þetta inni í sér!


Andri vildi nú eigna sér heiðurinn af því að hafa bjargað þessu út hjá barninu með einhverju "cat walki" yfir magann eins og hann kallar það sem losaði síðan í kjölfarið risaprump eins og hann orðaði það. Ég þurfti nefnilega nauðsynlega að fara bara aðeins í búð og ná í þriðjudagstilboð á Dominos, þið afsakið en þó ég eigi svona góða potta þá var eldamennska ekki efst á To do listanum eftir þennan dag:)


En nú er það baðið sem kallar og vonanadi verður þetta spriklandi góða vor og veður áfram yfir páskana!