föstudagur, apríl 30, 2010

Hinar mjög svo árlegu Flórída-ferðir!

Tengdaforeldrar mínir komu frá Flórída í gær, Don Ruth og Lottó, alveg hreint klifjuð af ýmsu skemmtilegu dóti:) Ég var með nokkra hluti á lista fyrir mig, eins og t.d. Garmin hlaupaúr, MAC púður og maskara, PUMA skó og hina áðurnefndu brjóstahaldara. Don Ruth sér sko um sína því allt þetta kom upp úr töskunum ásamt ýmsum öðrum hlutum sem ég kann nú varla við að telja upp, já við erum nú ansi ofdekruð Laugarnesfamilían og þau rausnarleg með meiru, því er ekki neita!

Einkadóttirin hefur eignast fallegasta 17. júní dress sem um getur og nokkur skópör í viðbót ásamt ýmsum fínum sumardressum sem hún getur spókað sig um í sumar á nýja reiðhjólinu sínu en við AFO ákváðum að gefa henni tvíhjól með hjálpardekkjum fyrir sumarið og ég hef sjaldan séð jafn ósvikna hamingju og þegar hún var að prófa hjólið í Markinu.

Og þegar einhver kemur úr svona sólar-verlsunarferð þá fer maður að láta sig dreyma um sól og sumaryl í Svíþjóð með smá viðkomu í H&M:)

Ég er nefnilega að safna seðlum í sérLEYNIveski...þannig ég geti keypt mér eitthvað fallegt eins og t.d. þennan!

Góða danshelgi - mín verður í Laugardalshöll á Íslandsmeistaramótinu í samkvæmisdönsum og ég veit ekki af hverju en við það að vera á búningaæfingunni í kvöld þá fékk ég svona flashback þegar ég var alltaf að keppa og ég skellti bara á mig einni umferð af brúnkukremi áðan, bara svona for the fun of it - engin skinka samt eins og ungarnir mínir segja:) Svo það sé nú alveg hreinu!

mánudagur, apríl 26, 2010

Sumarfrí!

Fyrstu sjö samvistarárin okkar AFO einkenndust af litlu sem engu sumarfríi, við vorum auðvitað alltaf í sumarvinnu til að drýgja tekjurnar fyrir skólaveturinn og síðan var hann auðvitað í boltanum og komst hvorki lönd né strönd. Við vorum heppin ef við náðum sólarhring í bústað en þá var alltaf komið seint að kveldi eftir æfingu og farið fyrir æfingu næsta dag.

Núna hefur þetta heldur betur breyst, ég með mitt "kennarafrí" eins og einhverjir vilja kalla það og Andri með sínar fimm vikur. Þannig að við erum að sjálfsögðu byrjuð að skipuleggja. Fyrstu drög líta svona út:
  1. Fyrstu þrjár og hálfa vikuna verð ég svo gott sem ein í fríi, AFO enn að vinna og ÁRA á leikskólanum - þá ætla ég sko heldur betur að slaka á, mæta á hlaup- og bjöllu-æfingar, endurskipuleggja skápa og taka heimilið alveg í nefið. Verð samt örugglega með einhverjar sumardansæfingar inni á milli.

  2. Daginn eftir að AFO byrjar í fríi eða þann 8. júlí höldum við hjónakornin í paraferð til Stokkhólms þar sem við munum dvelja í góðu yfirlæti hjá Helga og Gunnu, borða góðan mat, drekka góð vín, flatmaga á klettunum og ef buddan leyfir kíkja bara ogguponsulítið í búðir.

  3. Að lokinni Stokkhólsferð ætlum við að fara með Auði Öglu stórvinkonu og hennar þremur piltum í sumarbústað í nokkra daga.

  4. Andri B. sem vinnur með AFO er búinn að bjóða okkur að koma á Mærudaga á Húsavík síðustu helgina í júlí og það verður svona óvæntasta í sumar, ég hef aldrei komið þangað og eiginlega bara varla stigið fæti á Norðurlandið og á þó ættir að rekja á þessar slóðir. Algjör óvissa í gangi þar en mikil spenna og ekki síður að sjá hvernig litli bíldólgurinn okkar fílar langferðina.

  5. Toppurinn á sumrinu verður síðan Klofi Tómasar frænda en eins og flestir vita er Klofahátíðin um verslunarmannahelgina.

It's summertime....fyrir utan allt annað sem er alveg óplanað þá lofar þetta mjög góðu!

sunnudagur, apríl 18, 2010

Af nógu að taka...

Kettlebells - Nýtt æði?

Ég og Álfurinn minn skelltum okkur í byrjendatíma í Kettlebells síðast liðinn fimmtudag og vorum ekki sviknar - af harðsperrum:) AFO er búin að stunda þetta samhliða Jiu Jitsu-inu og líkar vel og mig hefur vantað eitthvað með hlaupunum til að styrkja mig. Þrusugóðir tímar og ekkert gefið eftir en samt getur hver og einn stjórnað þyngdinni sem hann er með eins og ég var alveg bara í léttustu bjöllunum enda langt síðan ég hef verið að styrkja mig að ráði. Síðan fannst mér alveg ljómandi skemmtilegt að leyfa einhverjum öðrum að þræla mér út og góð tilbreyting frá því að vera sjálf að píska fólki áfram. Við fórum síðan aftur í tíma í gær og áðan hnerraði ég og langaði að grenja út af harðsperrum! Núna eigum við sex mánaða kort og verðum með alveg asskoti flottar línur í sumar!

Meðeigandi í dansskóla

Það er verið að ganga frá samningi um hlutafé mitt (og AFO auðvitað) í dansskóla sem hljómar mjög svo fullorðinslegt en um leið ótrúlega spennandi. Meira um það síðar en það er nóg að gera í dansinum núna fyrir Íslandsmeistaramótið með grunnaðferð sem verður helgina 1. og 2. maí.

Tengdó á Flórída

Sem kemur kannski fáum á óvart enda árlegur viðburður á þeim bænum. Ég þykist vita að búðirnar verði sóttar heim og flatmagað við sundlaugarbakkann. Ég nefndi það við Don Ruth að ef hún sæi einhverja almennilega brjóstahaldara þarna úti fyrir tvo litla tepoka þá mætti hún endilega kaupa fyrir mig, hún tók þessu greinilega mjög alvarlega og er nú þegar búin að fjárfesta í einum þremur stykkjum, öllum með góðum fyllingum:)


Áran mín klára

Er alltaf sami fallegi gullmolinn og kemur okkur sífellt á óvart með húmor og dugnaði. Hún er orðin heldur betur stór og sjálfstæð stúlka og alveg svakalega dugleg. Í kvöld t.d var ég að ganga frá þvotti og þá spyr hún hvort hún eigi ekki að hjálpa mér og tekur alla sokkana og raðar þeim réttum saman á ofninn, ekki dóttir mömmu sinnar fyrir ekki neitt! Hún er alveg hætt að sofa á daginn og er alltaf að höndla það betur og betur (ekki eins mikið um þreytu/pirring seinnipartinn) og á það til að sofa bara fram eftir um helgar (með fram eftir á ég við að ganga hálf tíu). Hún er líka dugleg að kalla í okkur foreldrana og taka hópknús og það er ekkert betra en slíkt knús:) Um helgina fórum við á Skoppu og Skrítlu og það vakti þvílíka lukku og ekki skemmdi fyrir að fá að setjast hjá þeim og meira að segja Lúsí líka.


Fullt af nýjum myndum í apríl 2010 á www.123.is/agustarut

föstudagur, apríl 02, 2010

Lestur góðra bóka
Þegar ég var yngri las ég eins og vindurinn, ég spændi upp bókasafnið í Laugarnesskóla og taldi óeðlilegt ef ég var ekki með einhverja góða bók í farteskinu. Eftir því sem árin líða fer minna fyrir þessu, ég er þreyttari á kvöldin, gef mér minni tíma eða öllu heldur hef ekki tíma yfir daginn og þar frameftir götunum. Ég er nefnilega ekki eins og eiginmaðurinn sem virðist geta dottið í góða bók hvar sem er og hvenær sem er, ég þarf að setja mig í ákveðnar stellingar að nú sé ég að fara að lesa! Eftir að hafa klárað síðustu Stieg Larson bókina um jólin byrjaði ég á bókinni Þúsusnd bjartar sólir sem er átakanleg saga ungra kvenna í Afganistan, ég veit ekki hvort það er bara yfir höfuð erfitt að byrja á bók eftir Salander ævintýrið sem maður óskaði að engan enda tæki eða hvort þetta var bara grámyglan í janúar og febrúar sem gerði það að verkum að ég komst bara hálfa leið með bókina og var þar af leiðandi einhvern veginn búin að missa þráðinn þegar ég byrjaði að lesa aftur tæpum mánuði seinna. Í milli tíðinni byrjaði ég líka á bókinni Rán en komst einhvern veginn ekkert áleiðis.

Núna hins vegar sér ég fram á bjartari tíma í lestri góðra bóka. Eva María benti mér nefnilega á rithöfundinn Camillu Lackberg og fyrstu bók hennar Ísprinsessuna sem kom út árið 2003. Bókin so far lofar góðu og ég sé fram á gott vor og sumar vitandi að mín bíða fjórar aðrar bækur eftir sama höfund:) Spurning um að æfa sig í sænskunni svona áður en við förum í paraferðina í byrjun júlí!


Ég setti síðan restina af marsmyndum á myndasíðuna. Hér að neðan má sjá hluta af mjög svo eðlilegri fjölskyldu í bústað þar sem voru teknar ýmsar keppnisgreinar, þar á meðal 90 gráðu keppni en systurnar gáfust upp í öfugri aldursröð og AFO löngu fyrr:) Fleiri góðar keppnisgreinar má sjá á myndasíðunni. Njótið vel og gleðilega páska.


Eins og sjá má lagði frumburðurinn sig mjög mikið fram!