fimmtudagur, júlí 31, 2008

Hvar skal nú byrja...

...nóg búið að gerast síðan ég hripaði eitthvað niður síðast.

Dvöl Kötu hjá okkur lauk síðasta föstudag með pompi og prakt þar sem Kata gaf Ágústu Rut flotta tösku og við skelltum okkur í sund. Tvær skemmtlegar vikur með henni frænku okkar og tveggjabarnamóðurreynsla fyrir mig og svona fyrir mína parta er Ára bara meira en nóg í bili.

Einnig lauk 6 morgnum í bili eða kannski bara forever því já ég var ærlega minnt á það hversu hryllilegt er að vakna alltaf svona snemma og ég held að ónæmiskerfið í mér þoli illa slíkar vaknanir því ég endaði síðan með streptakokkasýkingu um síðustu helgi og rétt náði að klára sushi og hvítvínsboðið sem við vorum með hérna á Laugarnesveginum en þegar gestirnir fóru að verða hálf tvö þá grét ég af verkjum og við sem vorum með næturpössun...alveg týpískt.

Ágústu var haldið víðs fjarri móður sinni þannig að hún fengi ekki sýkinguna og barnið var ekkert alveg að höndla það nógu vel - litli naglinn hún Ára er bara ekkert svo mikill nagli þegar allt kemur til alls og er búin að vera óhóflega mömmusjúk síðustu dagana en ég fór síðan upp í bústað til mömmu og pabba á mánudeginum en þau höfðu stolið henni með sér á sunnudeginum þannig að ég næði að hvíla mig meðan pensilínið var að kikka inn. Greyið litla hélt örugglega allan tímann að hún yrði síðan skilin eftir í bústaðnum. Reyndar er hún líka að fá svona ca. alla restina af tönnunum þannig að ekki skánar skapið við það!

Í dag finnst mér hún vera að ná jafnvægi og pensilínið búið að drepa mína bakteríu þannig að nú er okkur ekkert að vandbúnaði en að skella okkur á Klofa 2008. Ég er svona að byrja að pakka en það er nú ekkert lítið dót sem fylgir manni - þvílíkur haugur en ég geri þetta skipulega, finnst svo miklu miklu betra að pakka skipulega eins og þið væntanlega vitið...

Ég er með hrúgu af myndum sem ég þarf að setja inn en núna ætla ég að taka mér langþráða kríu meðan barnið lúrir.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Meira fjör á Laugarnesveginum...ein frænkan enn bættist í hópinn:)

Ágústa Rut (of upptekin af kubbunum), Bjarney Kata og Bríet Edel

Ég sofnaði rúmlega níu í gær - bara einn morgun eftir í vöknun!

miðvikudagur, júlí 16, 2008


Það er eitthvað svo fáránlega mikill hressleiki í gangi þessa dagana...


ekki nóg með að ég sé alltaf komin á blússandi swing klukkan sex á morgnana (meðan hin tvö sofa á sínu græna) heldur er líka standandi prógram og hittingar alla daga og því mikið tekið af myndum. Ég var því að bæta inn á myndasíðuna, örugglega í þriðja skiptið á ansi stuttum tíma þannig að núna heimta ég kvitt frá lesendum.


Á morgun erum við að fara í grill og gómsætt hjá A og B og síðan afmæli á fös og Eldsmiðjuna um kvöldið með S og K...


Um helgina ætlum við síðan að slappa af í Klofa og tjékka á aðstæðum fyrir Bölvaðan KLOFASKAP 2008 og þeir sem ætla mæta á hátíðina mættu endilega melda sig hér en eins og venjulega er engum boðið en allir velkomnir.


Læt fylgja með hópmyndina síðan í fyrra. Og já ótrúlegt en satt rósin mín er byrjuð að blómstra - þessu hefði ég aldrei trúað að ég gæti haldið lífi í blómi!

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Líf og fjör á Laugarnesvegi...

Frænkurnar komnar á Brúðubílinn
Góðar að dunda sér í dótinu
og búa til listaverk úr boltum
Kata bjó til Húsdýragarð
Draugaleikur...
Ég er ekki frá því að það sé bara minna mál að vera með tvö - allaveganna tæplega eins og hálfs árs og rúmlega fjögurra ára! Aðeins meira action samt í sundi og svona og græja í pollagallana...
Tími 2 í rpm að renna upp - later spater

mánudagur, júlí 14, 2008

Ljómandi helgi að baki með afmælum, matarboðum og fleiri hittingum...

Vinirnir Úlfar Jökull og Ágústa Rut
Auður og familía í mat
Vinkonurnar með frumburðina
Róbert afmælisstrákur
Ára smart í afmæli hjá Úlfi
-Fleiri myndir á myndasíðunni-
kv. tveggja barna móðirin þessa vikuna!

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Í gær var skitið á hausinn á mér...

heldur lítilfjörleg reynsla það - en ég hlýt bara að hafa verið fyrir blessuðum fuglinum

góður dagur, helgin að detta inn og harðsperrurnar á undanhaldi

ætla að rölta í bæinn á eftir og hitta Auði og Úlfar Jökul eða úje eins og mér finnst gaman að kalla hann:)

njótið veðurblíðunnar

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Hér er ég...

útjöskuð af harðsperrum og það á þriðjudagskvöldi og vikuskammturinn bara hálfnaður en þetta hlýtur að rjátlast af manni þegar fer að líða á vikuna. Ég meina alveg fínt að kenna tvo til þrjá tíma á viku en svissa svo skyndilega í átta getur tekið á, sér í lagi þegar maður er búin að vera í áralöngu fæðingarorlofi og kannski bara ekki alveg eins mikill Tolli tryllingur eins og áður:)

en að öðrum málum sem snúa að heilsu og útliti - þessa dagana er ég með margumrædda ljótu og það að sumri til. Á einni nóttu fæddist bólugarður á vinstri hlið andlitsins sem lítur vægast sagt illa út, er búin að fá álit nokkurra úr fjölskyldunni á þessu og menn hörfa frá og benda mér á Clearasil eða aðrar bólumeðferðir:) Ég bið ykkur því að vera hægra megin við mig þegar þið talið við mig en þá ber aðeins minna á þessu!

annars bara hressleiki á heimilinu, erum svona að reyna að vera samtaka í því að fara að sofa um ellefu (við=ég og andri, ára löngu sofnuð þá) en það gengur bara akkúrat ekki neitt þannig að núna erum við búin að sætta okkur við það að við erum ekkert svona "snemmaíháttinnfólk" þannig að núna er planið að standa upp á morgnana án þess að hugsa þreyta eða annað slíkt og láta sig bara hafa það umhugsunarlaust. Gott plan?

las greinina um konuna sem tók á móti sínu eigin barni, hversu langt á þetta að ganga, ekki nóg með heimafæðingarnar heldur er þetta líka málið, fussumsvei segi ég nú bara enda brennd af minni fæðingarreynslu og vil bara hafa pottþétt fólk í kringum mig og hananú...

ætla að skella inn nokkrum myndum

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Ég fór að kenna rpm í morgun...

stillti klukkuna á sex því tíminn byrjar hálf sjö. Þetta var ekki svo ýkja erfitt enda fór ég upp í rúm fyrir ellefu en var náttúrulega ekkert sofnuð ellefu heldur meira svona dáldið rúmlega. Ég var óvenju lítið þreytt fannst mér en ég get lofað ykkur að svona upp úr hádegi verð ég orðin þreyttari. Ég er líka búin að setja í tvær vélar og skipta á rúmunum. Þannig að þessir 17 ókristilegu morgnar sem eftir eru verða kannski bara pís of keik eða já spyrjið svona um miðja næstu viku...

Ef ég myndi síðan vera alveg hrikalega dugleg í hollustunni og svona þá verð ég kannski bara komin í þrusuform í ágúst og hleyp 10 km eins og ekkert sé;)

Annars er ég að fara á tapas barinn í kvöld með tveimur góðum vinkonum. Þar ætlum við að rifja upp gamlar minningar úr LA þegar þær stríddu mér og kölluðu mig Lindu bleiku:)

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Þá er ég búin að svala kaupþörfinni á einkadótturina...

fór á útsölur í Polarn og Pyret og Englabörnum og gerði kostakaup - að eigin sögn í það minnsta;)

Ég meina þurfa ekki allar 16 mánaða telpur að eiga svo gott sem eitt stykki Oilily gallabuxur fyrir veturinn - jú ég hélt það einmitt;)

Maður er líka að græða svo svakalega á þessu út af kreppunni og svona...

Fór samt í endurvinnsluna með skrilljón dósir áður en ég fór af stað í leiðangurinn - bara svona aðeins til að friða samviskuna...