fimmtudagur, apríl 30, 2009

Íþróttaskóli...

Nú þegar dansnámskeiðinu hjá Ragga er lokið ætlum við að prófa að fara með Ágústu Rut í íþróttaskólann hjá Hönnu og Söru. Ég hlakka mjög til og fyrsti tíminn er á laugardaginn.

...síðan fór ég allt í einu að hugsa að þegar ég skoða myndir annarra barna á öðrum myndasíðum eru öll börn sem hafa farið í íþróttaskóla (sem eru ansi mörg) í liðsbúningum og sum hver eiga marga marga búninga!

Hvað gera bændur þá? Ára litla á ekki liðsbúning en ætli það sé nokkuð skylda! Hún á hins vegar afar flottan Puerto Rico bol frá Hjalla guðpabba og Evu, ætli hann verði ekki bara fyrir valinu á laugardaginn:)

Ég veit heldur ekki hvaða lið ætti að vera fyrir valinu ef maður færi út í það að fjárfesta í búning!

miðvikudagur, apríl 29, 2009


Elskuleg móðir mín á afmæli í dag...


hún er 20 árum eldri ég en lítur ekki út fyrir að vera nema rétt nokkrum árum eldri. Mamma er yndisleg kona, hún er ótrúlega tillitsöm, umhyggjusöm og hugsar alltaf fyrst um aðra áður en hún hugsar um sjálfa sig. Við systurnar erum einstaklega heppnar að eiga hana fyrir móður og ég hef alltaf litið upp til hennar enda erum við sérstaklega góðar vinkonur líka. Hún er frábær fyrirmynd hún mamma mín.


Til hamingju með daginn elsku mamma mín:)


Þú ert bezt í heimi.

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Að öllu léttara hjali...

Einkadóttirin er að ganga í gegnum frábært tímabil núna. Einhvern veginn kemur alltaf nýtt tímabil hjá þessum litlu manneskjum sem manni finnst skemmtilegra en það sem var á undan þó maður hefði haldið að það væri ekki hægt að toppa tímabilið á undan. Núna fljúga svoleiðis gullmolarnir upp úr henni sem minnir mig á það að ég þarf að fara að skrá þetta einhvers staðar niður!

Fyrir nokkrum dögum ákváðum við að taka á duddumálum. Farið var eftir leið Láru kláru stórvinkonu minnar sem er með uppeldið alveg á hreinu. Leiðin fólst í því að einungis er leyfilegt að vera með dudduna í rúminu því jú þar sefur hún og þá má vera með duddu. Og þar sem Áran okkar hefur alltaf verið frekar mikill "bíldólgur" (sem er þó á undanhaldi) ákváðum við að það væri líka leyfilegt að fá dudduna í bílnum þ.e.a.s þegar hún biður um hana. Það skal tekið fram að Áran elskar duddurnar sínar næstmest á eftir foreldrunum.

Allaveganna fyrsta skiptið sem ég kynnti regluna fyrir henni grét hún aðeins, eðlilega enda vön því að heima ráði hún ferðinni alltof mikið með duddurnar, á leikskólanum hins vegar eru skýrar reglur enda er þetta ekki "issue" þar. Nú 4-5 dögum síðar er þetta ekki lengur vandamál og meira að segja þegar hún vaknaði í morgun labbaði hún fram með dudduna í munninum og ég kallaði svefndrukkin úr mínu bæli að hún ætti að fara með hana í rúmið sitt. Og viti menn barnið bara snéri við og skilaði henni í rúmið! Auðvitað koma móment sérstaklega eftir kvöldmat sem hún biður um hana og að sjálfsögðu er henni velkomið að vera í rúminu sínu og "dudda" aðeins og þá skoðar hún stundum bara bækur og svona í leiðinni og kallar svo á mig og lætur mig vita að hún ætli að koma og segir mér meira að segja að hún skilji dudduna eftir. Þannig að þrjú þúsund þakkir Lára fyrir gott ráð sem svínvirkar:)

Síðan var fyrsta nemendasýningin hennar um síðustu helgi í Danskóla Ragnars. Barnið hefur nú ekki verið þekkt fyrir að vera stilltasta barnið á svæðinu en alveg ágæt þó. En á sýningunni sjálfi þegar pabbinn var mættur til að horfa á dansaði hún allan tímann og tók ekki feilspor! Við vorum að sjálfsögðu afar stolt en bölvuðum því að vera ekki með videocameru en af þessu náðust þó nokkrar myndir sem koma von bráðar inn á myndasíðuna.

Það var ekki fleira í bili...

mánudagur, apríl 27, 2009

Vangaveltur líðandi stundar...

Nú þegar kosningum er lokið fer maður ósjálfrátt að velta framtíðinni fyrir sér. Hvernig verður þetta á næstu mánuðum? Munu Samfylkingin og Vinstri grænir ná saman? Förum við í ESB? Mun krónan styrkjast? Hvar sem er og hvert sem maður fer er verið að ræða ástandið, kosningarnar, atvinnuleysi, hækkanir, uppsagnir o.s.frv.

Það er ljóst að við Andri erum bæði með vinnu áfram enda bæði fastráðin og Reykjavíkurborg hefur gefið það út að vernda eigi störf fastráðinna. Það liggur samt alveg ljóst fyrir að lítil sem engin föst yfirvinna verður í boði og því verður tekjutapið eitthvað. Við erum mjög lukkuleg með þessa fastráðningu enda ekki allir svo heppnir. Rétt í þessu ræddi ég við vinkonu mína, frábær kennari sem hefur gefið sig alla í starfið sitt undanfarin tvö ár og unnið frábært starf í þágu stéttarinnar. Þessi vinkona mín fær ekki áframhaldandi starf næsta haust því hún var ekki fastráðin. Hrikalega súrt fyrir kennarastéttina að missa slíkan starfskraft.

Hún er heldur ekki sú eina í kringum okkur sem er ekki með vinnu, því miður get ég talið á fleiri fingrum en annarrar handar þá vini okkar sem eru atvinnulausir eða ekki öryggir með atvinnu næsta haust. Sú tilhugsun hryllir mig skelfilega. Fyrir utan þá vini okkar sem eru í námi erlendis og ná varla endum saman því íslensku námslánin duga skammt.

Mig langar alveg svakalega að vera jákvæð og bjartsýn fyrir hönd okkar allra enda er ég þannig að eðlisfari en stundum þegar maður fær svona endalaust leiðinlegar fréttir er það erfitt.

Í augnablikinu hef ég ekki áhyggjur af okkur hérna á Laugarnesveginum enda erum við með vinnu og á tímum sem þessum skiptir það öllu máli. Við getum enn borgað af íbúðinni okkar og höfum svo sem ekkert sérstaklega þurft að halda að okkur höndum, ekkert meira en venjulega í það minnsta. En við þurfum að vera mjög passasöm á næstunni og velta krónunum aðeins betur fyrir okkur.

Í fyrrasumar vann ég aukavinnu í sumarfríinu mínu til að vega upp á móti þeirri yfirvinnu sem ég fæ á veturna. Fyrr í vetur var ég löngu búin að ákveða að slíkt myndi ég ekki gera í sumar enda fáránlegt að fá aldrei almennilegt frí. Ég hef alltaf unnið mjög mikið og verið nösk við að krækja mér í aukakrónur sem hefur oft komið sér vel. Þrátt fyrir ástandið núna ætla ég að halda mig við fyrri plön, ég ætla bara að vera í mínu sumarfríi eins og allir aðrir! Ég mun þá bara finna mér aukavinnu næsta haust...

Ég hafði nú ekki hugsað mér að vera neikvæð en satt bezt að segja hef ég miklar áhyggjur af mörgum góðum vinum mínum.

Vonandi verður þetta hrun okkur öllum einhvern tímann til góðs og gömul og góð gildi fái aftur að líta dagsins ljós en eins og staðan er núna upplifi ég reiði og kvíða í kringum mig.

Ég ætla samt að sjá fyrir mér okkur vinkonurnar sitja saman, hlæja og gleðjast og rifja upp þennan tíma sem mun þá hafa falið í sér einhvern ný tækifæri...

föstudagur, apríl 24, 2009

Þá er sumarfríð klappað og klárt...

Erum búin að bóka flug til Stokkhólms þann 11. júlí en þar munum við dvelja í góðu yfirlæti hjá Helga og Gunnu í sjö nætur en þá liggur leið okkur til elsku Ítalíunnar - nánar tiltekið Milanó, til Haffa og Karí en við munum gista hjá þeim í sex nætur eða fram til 24. júlí - þá liggur leiðin aftur yfir til Stokkhólms og við ráðumst inn á hjúin þar í eina nótt eða þar til við fljúgum aftur heim á leið.

Við verðum ekki bara þrjú í ferðinni heldur fjögur því hún Svava litla ætlar að fá að koma með okkur og vera okkur innan handar sem aupair;)

Þessir kæru vinir okkar eiga auðvitað miklar þakkir skildar fyrir að vilja taka á móti okkur öllum!!!

Og já ég held þetta verði alveg fáránlega skemmtilegt:) Sænska krónan hagstæð og svona....einmitt að maður verði að versla eitthvað en það má láta sig dreyma!

sunnudagur, apríl 19, 2009

föstudagur, apríl 17, 2009


Barnasprengja...

Ég var ekki fyrr búin að sleppa orðinu um að næsta got yrði þann 22. apríl þegar ég fékk sms um að sá drengur væri bara mættur í heiminn! Og ég sem hafði spjallað heillengi við Ingibjörgu í hádeginu sama dag. Hamingjuóskir fara því til Ings og Adda sem eignuðust prins númer tvö á annan í páskum.

Sama dag og LA-gengið tryggði sér þennan bikar sem ég fékk að handleika síðar um kvöldið. Sannkallaður hamingjudagur á annan í páskum en fyrr um daginn fórum við líka í skírn hjá litlum frænda, Guðmundi Oliver.

Ég er búin að hitta þrjú af þessum nýjustu börnum og þau eru hvert öðru yndislegra. Ég á auðvitað myndir af mér með öllum og þær fara fljótlega inn á Árusíðu.

Það leit út fyrir að það yrði lítið um plön þessa helgina en eins og staðan er núna er ýmislegt byrja að hrúgast inn:

Huggulegheit á Laugarnesveginum í kvöld
Stelpustuð með Sóley og fleirum
Barnaafmæli og ýmislegt fleira.

Eigið góða helgi kæru vinir:)

mánudagur, apríl 13, 2009

Við Andri vorum þeirrar lukku aðnjótandi að fá sendar nokkrar myndir af fallegu Hjaltadóttur í gærkvöldi og eins og von var vísa er hún yndislega falleg. Það er eitthvað sérstakt og einstaklega skemmtilegt að fylgjast með öllum þessum góðu vinum okkar eignast börn en þau hrúgast niður þessa dagana. Næsta got er áætlað 22. apríl og við fylgjumst auðvitað spennt með.

Andri segir að öll þessi börn sem eru að fæðast hafi einhver sérstök áhrif á mig:) Annars er bara eitthvað svo mikil hamingja í loftinu - sumarið að koma með öllu því skemmtilega sem það hefur að bera og lífið einhvern veginn leikur við okkur. Það er svo yndislegt að vakna á morgnana í birtunni og sólinni og fara í sund eða róló eða bara hangsa eitthvað saman. Við nennum eiginlega bara ekkert að mæta til vinnu aftur! Ég vissi ekki að veðrið gæti haft svona mikil áhrif á mig en ég hlýt bara að vera að eldast!

Ágústa Rut er líka orðin svo stór eitthvað og mikill krakki og getur bjargað sér mikið sjálf. Mér finnst svooo stutt síðan hún var ogguponsulítil...

Hún er búin að vera frekar fyndin í páskafríinu og gerir sér orðið alveg grein fyrir því að við skiptumst greinilega á því að sofa lengur á morgnana - þó svo að móðirin sé auðvitað mun meira fyrir þá iðju;) Allaveganna í fyrradag átti Andri vaktina og fór inn til hennar því hún var að kalla, klukkan var þá að ganga átta. Hann bankar létt á hurðina og segir: "Er einhver heima?" Þá heyrist í henni: "Já ég var bara hérna að lúlla í rúminu mínu og kalla á pabba";) Síðan spyr hún Andra um sloppinn hans því hún veit að það er eitthvað sem gerist á morgnana, Andri fer í sloppinn. Loks kemur hún inn til mín og ég ákvað að vera megahress og reisti mig upp og sagði: "Hæ Ágústa Rut!" Þá bendir hún á mig ákveðin og segir: "Þú lúlla." hahaha...

Í morgun heyrði ég hana líka segja við Andra þegar hann var á leiðinni inn í herbergið okkar: "Ekki fara þarna inn, hún er sofandi!" Veit hvað mömmu sinni finnst gott að sooooofa;)

Njótið þess litla sem eftir er af páska fríinu - ég er farin að undirbúa mig fyrir skírn.

sunnudagur, apríl 12, 2009

Gleðilega páska!

Ég elska páskafrí - er ekki frá því að það jafnist alveg á við jólafrí ef ekki betra! Við fjölskyldan erum búin að hafa það yndislegt það sem af er og í morgun skriðum við mæðgur fram úr rúmlega sjö og opnuðum páskaegg. Á eftir er það sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum og síðan erum við með páskalambið hérna á Laugarnesveginum - smá pressa en ef ég þekki tengdamóður mína rétt verður hún okkur innan handar!

Á morgun er skírn hjá litlum frænda okkar og svo auðvitað leikur leikjanna. Við mætum að sjálfsögðu og viljum ekki sjá neitt annað en sigur.

Næsta mál á dagskrá er að panta miðana okkar til Stokkhólms og Mílanó en ég mun birta ferðaplan þegar nær dregur. Við munum verða svo heppin að hafa barnapíu með okkur en Svava ætlar að skella sér með í ferðina þannig að þetta verður 4 manna fjölskylda á semí-interraili...

Eftir páska eru að ég held ekki nema sjö kennsluvikur og aðeins þrjár þeirra eru heilar að mig minnir. Sumarfríið er bara rétt handan við hornið! Til tilbreytingar ætla ég ekki að vinna neitt í sumar heldur bara njóta þess að vera í fríi. Það krefst að sjálfsögðu smá aðhalds hvað varðar eyðslu en það getur nú varla verið svo erfitt.

Nýjar myndir á síðunni: www.123.is/agustarut

Og já eigum við eitthvað að ræða það hversu spennt ég er að sjá ungfrú Hjaltadóttur!

laugardagur, apríl 11, 2009

TIL HAMINGJU!

Hamingjuóskir dagsins fara til stórvina okkar þeirra Hjalta og Evu Maríu sem eignuðust stúlku í dag:) Stúlkan er greinilega stundvís líkt og faðir hennar en hún fæddist á settum degi eins og stóra vinkona hennar á Laugarnesveginum. Og þeir vinirnir halda sig við stelpurnar - 4. stelpan í þeim vinahóp er væntanleg þann 11. maí en það verður fröken Guðbrandsdóttir.

Mér finnst alveg fáránlega stutt síðan Áran okkar fæddist - tíminn bókstaflega flýgur áfram.

Spennan er síðan gífurleg því aðrir góðir vinir okkar ætla að skíra í dag. Monsa nr. 2 Hauksdóttir fær nafn um kl. 14:00 og ég mun bíða spennt eftir sms-inu:)

Hafið það gott í dag og alla páskana eins og við elsku vinir.

Að lokum Áfram BÍB á móti Grindvík! Hlífi pabba við nafninu á liðinu!

þriðjudagur, apríl 07, 2009

Tónleikar í boði Ágústu Rutar...

meðal laga eru helstu leikskólalögin ásamt nokkrum öðrum slögurum..

...mæli með því að hækka í botn og njóta, hún er litli skemmtilegi snillingurinn minn:)

Upp upp upp á fjall með danssporum

Sagan um fiskana tvo

Litlu andarungarnir

Kubbahús við byggjum brátt og kelling hitaði sér velling

Frost er úti fuglinn minn og Krummi svaf í klettagjá

Allir krakkar

Afi minn og amma mín

Hókí pókí

Gilligill

..og svo var hún náttúrulega alveg á fullu að þurrka af allan tímann - múltítasker;)

sunnudagur, apríl 05, 2009

Flottasta fermingarbarnið í kirkjunni!

Glæsileg hún systir mín það má hún eiga:)

Andri smellti einni af okkur fyrir utan kirkjuna

Og frænkurnar flottar saman


-Afi Wonder tók síðan að ég held yfir 150 myndir sem koma vonandi einhverjar inn á myndasíðuna-


Til hamingju með þetta allt saman elsku besta Svava!



laugardagur, apríl 04, 2009

Dansmyndir
Sæta dansskottan mín tilbúin í danstíma:)

Upp upp upp á fjall með Alice vinkonu sinni

Og litlu andarungarnir hreyfa lítil stél;)

Síðan er nemendasýning 25. apríl - allt að gerast í þessu!