þriðjudagur, desember 21, 2010


Nýjar myndir í nóvember og desember albúmum á www.123.is/agustarut
Jólajóla á Laugarnesvegi...

miðvikudagur, nóvember 17, 2010

Nýir áfangar í lífi Áru litlu

Um helgina upplifði Ágústa Rut sína fyrstu alvöru sorg og sorgmædd var hún elsku litla kellingin. Þannig var mál með vexti að Lotta annar gullfiskanna okkar hefur verið heldur slöpp upp á síðkastið, hún hefur alla tíð verið sólgin í mat og kemur iðulega upp á yfirborðið þegar maður kemur að búrinu, líklegast hefur hún étið yfir sig eða fengið einhverjar meltingartruflanir en þessi dýr hafa víst enga þarma. Lotta var farin að synda á hvolfi og við töldum að sundmaginn hefði sprungið. Um helgina var Emil hinn fiskurinn farinn að synda ítrekað í kringum hana sem endaði með því að hann hékk alveg utan í henni en þá tók ég eftir því að hún var alveg farin frá okkur. Ég ákvað að taka hana strax upp úr búrinu og setti í lítinn poka því ég vildi ekki að Ára sæi hana liggja þarna. Síðan kom stóra spurningin, hvernig átti ég að tilkynna barninu um þetta fráfall og útskýra hvers vegna Lotta væri ekki hjá okkur lengur. Eftir smá umhugsunartíma ákvað ég bara að taka þetta alla leið, segja henni eins og var og sýna henni Lottu. Í fyrstu hugsaði ég með mér hvaða endemis vitleysa þetta hefði verið í mér, barnið gjörsamlega brotnaði saman og var með ekka yfir þessu öllu saman og gat ekki skilið af hverju Lotta væri dáin en samt með opin augu og spurningar eins og hvert hún færi og af hverju hún hefði verið veik voru erfiðar tilsvara. Ég reyndi að útskýra að hún myndi fara til afa Egga en hún hefur talað um að hann sé dáinn en þá kom auðvitað sú pæling að Lotta kæmist ekkert til hans og hún óskaði sérstaklega eftir því að við færum aftur með hana í búðina, ég hafði alltaf heyrt að maður sturtaði þeim bara í klósettið en AFO stakk upp á því að grafa hana í jörðu og kveikja á reykelsi! Þetta endaði nú samt sem áður allt saman vel og barnið sættist á það að kaupa nýjan vinafisk fyrir Emil svo hann yrði nú ekki einmana og hefur sá fiskur fengið nafnið Björgvin Frans:)

...sem var síðan skemmtilegt í ljósi þess að við fórum á bókakynningu á sunnudeginum á nýrri bók eftir sjálfan Björgvin Frans og Gunna Helga þar sem Ágústa Rut fékk að tala við og fá eiginhandaáritun hjá sjálfu goðinu, hún gat líka sagt honum að hún ætti fisk sem héti Björgvin og það vakti mikla lukku. Ekki skemmdi síðan fyrir mynd af henni í Mogganum í dag þar sem hún fylgist dolfallin með þeim leiklesa upp úr bókinni.

Og enn hellast áföllin yfir litla þriggja og hálfs árs stúlku en í gær var hún svo skelfilega óheppin að detta virkilega illa á steina á leikskólanum og lítur nú út eins og atvinnuboxari sem sjá má á myndum hér fyrir neðan. Hún var ótrúlega brött og kláraði bara daginn á leikskólanum og kældi bólguna samviskusamlega sem er núna byrjuð að leka skemmtilega yfir allt augað og mynda hina ýmsu liti. Við þökkum fyrir að ekki fór verr en hún hefði hæglega getað nefbrotnað, rotast, misst tennur og þar fram eftir götunum svo fall er fararheill eins og það stendur. Hún vaknaði hins vegar upp í nótt og þurfti að tala stanslaust um slysið í tæpar tvær klukkustundir við okkur og lýsa nákvæmlega aðdraganda þess og eftirmála:) En við erum fegin að hún fór yfir þessi mál enda sjálfsagt mikið sjokk að lenda í þessu og sjá sig í spegli svona útlítandi.

Í dag átti að pakka henni í bómull í leikskólanum og leyfa henni að vera smá súkkulaði í ljósi aðstæðna gærdagsins. Hún hélt nú ekki, að vera inni var ekki möguleiki hjá henni, hún ætlaði sko út en bara ekki í steinana í þetta skiptið:) Hún er hörkutól eins og mamma sín;) Og guði sé lof fyrir það að við erum búin að fara í jólamyndatökuna!

Í kvöld eyddum við síðan dágóðum tíma í skólaleik en barnið þekkir orðið nánast hvern einasta bókstaf og veit hverjir eiga hvaða staf. Þetta er algjörlega sjálfsprottið þrátt fyrir að flestir viti um æfingabúðirnar sem ég er alltaf með í gangi hverju sinni! En að öllu gamni slepptu þá finnst mér ekkert að því að virkja þennan áhuga ef hann er til staðar. Hún kallar mig kennara og biður mig að gera stafi á krítartöfluna, búa til dæmi og segja sögur. Allar dúkkurnar eru líka þátttakendur í þessu og hún lætur mig iðulega vita ef einhver er ekki að gera eins og á að gera! Áðan skrifaði hún t.d Rut og Harpa eftir minni forskrift og skráði dæmið 1+1= 2 í "skólabókina" sína. Spurði mig síðan hvort það væri ekki hvíld í skóla og bað um mandarínur:) Mér finnst þetta auðvitað alveg magnað enda veit ég ekkert skemmtilegra en að vera í skólaleik allan daginn! Þannig að núna veit hún alveg hvað hún þarf að gera til að fá mömmu sína til að leika.

En jæja þetta er ágætis skrásetning á afrekum heimasætunnar og sólargeislans á Laugarnesveginum. Hinir tveir meðlimirnar eru líka bara kátir. AFO dottinn í eitthvað Wheetos cravings og úðar í sig hverri skálinni á fætur annarri eins og hann sé orðinn 18 ára á ný. Ég var með 20 foreldraviðtöl í dag eftir þriggja tíma svefn og sé í hyllingum bústaðaferðina með Lokastígsgenginu um helgina þar sem lestur góðra bóka, svefn, vellystir í mat og drykk en umfram allt mun skemmtun í góðra vini hópi vera allsráðandi.

Fyrsta kvöld boxarans - bólgan byrjuð að koma fram
Annað kvöldið - ýmsir litir farnir að gera vart við sig

Þetta var "allt" of sumt gott fólk:)

þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Litli sushi snillinn!

19. febrúar 2010 - þarf enn aðstoð pabba síns við að koma bita í munn

7. nóvember 2010 - mundar prjónana eins og hún hafi aldrei gert neitt annað!


Gott að hún þarf ekki að éta allt ofan í sig líkt og foreldrar hennar hvað varðar sushi át:)


mánudagur, nóvember 08, 2010

Þá er ég loksins búin að hlaða inn októbermyndum og nokkrum nóvember:)

Þetta tekur sinn tíma þegar er mikið að gera og myndainnsetning einhvern veginn ekki það fyrsta sem maður hugsar um þegar kemur loks breik!

En október er búinn að vera skemmtilegur - afmæli húsfreyjunnar, afmæli Elds, afmæli Don Ruth, brunch hér og þar og mikill dans og mikil vinna:)

Nóvember byrjar vel með tveimur frábærum tónleikum, GRM á fimmtudaginn voru frábærir og Palli og sinfó þeir allra allra bestu sem ég hef farið á, hvaðan fær maðurinn alla þessa orku og jákvæðni! Síðan tókum við Álfur á móti jólabjórnum á föstudagskvöldið ásamt Hjalla, Búgga, Nínu og Loga og skemmtum okkur konunglega:) Vorum með rosaplön um vatnsglös á milli og síðasta strætó heim um miðnætti - það datt einhvern veginn allt upp fyrir!

Núna er svona mesta álagið í dansinum búið fyrir jól, einhverjar sýningar eftir en alls ekki eins mikið og er búið að vera.

Framundan er kósý bústaðaferð og jólahlaðborð með öllu tilheyrandi og hér á bæ er komin þvílík tilhlökkun fyrir jólunum og ekki seinna vænna en að fara að henda gjöfunum upp í Excel og ákveða smákökusortir og jólakortamyndir.

mánudagur, október 25, 2010

Einn dyggasti aðdáandi þessarar forlátu bloggsíðu, eiginmaðurinn sjálfur, kvartaði sáran undan þessu bloggleysi, honum finnst greinilega gaman að lesa fréttir af okkar innihaldsmikla lífi!

Á þessum tæpa mánuði sem hefur liðið milli blogga hafa nýjar atvinnuhugmyndir litið dagsins ljós hjá minnstu konunni, hún ætlar nefnilega að verða leikskólakennari - ekki dóttir foreldra sinna fyrir ekki neitt;) Hún ætlar að vinna á Laugaborg, fer auðvitað ekki úr LA.

Hún er líka búin að prófa ýmislegt og tók þá sjálfstæðu ákvörðun að hætta bara í dansi í bili, þetta var ekkert fyrir hana að vera að dansa við aðra að hennar sögn. Hún ætlaði nefnilega að byrja í fótbolta og að sjálfsögðu tókum við bara vel í það og ég bókaði hana á æfingu með 8. flokki Þróttar. Einn laugardagsmorguninn mættum við mægður síðan á æfingu hjá Þrótti en þarna áttu að vera samankomin börn á aldrinum 2005-2007 en vildi ekki betur til en svo að þær voru þrjár stúlkurnar ásamt 23 drengjum:) Áran okkar og Anna Karólína vinkona hennar og síðan ein önnur stelpa sem gafst fljótlega upp á þessu. Þær voru sem sagt tvær vinkonurnar með mörgum 5 ára drengjum og ég sem er nú ekkert sérlega viðkvæm fékk nú alveg sting í hjartað þegar vestum í þremur mismunandi litum var hent í þau og nú átti sko að spila fótbolta og þær vinkonurnar í rauða liðinu, þær léku aðeins með en gáfust fljótt upp því miður. Hins vegar fundu þær sig vel í boðhlaupi sem þriðja liðið fékk að vera í og æfingum með boltann og sprettum o.s.frv. Ára klára kláraði æfinguna með stæl og ég tók ansi skemmtilega mynd af henni í strákahafinu í "stórt skip, lítið skip" í lokin. Hún sagði mér samt á leiðinni heim að hún ætlaði ekkert að fara aftur þarna á fótboltaæfingu, nú myndi hún bara fara í ballet og fimleika:) Og mikið skil ég hana vel og vildi óska þess að það væri til fótbolti sem er bara fyrir stelpur á þessum aldri.

Þessa dagana er ákaflega vinsælt að teikna og hún er farin að teikna okkur öll með haus og fætur og hendur út frá honum, mjög svo skemmtilegar myndir og gaman að fylgjast með þróuninni í þessu en hún lærir örugglega mjög mikið af 4 ára krökkunum á deildinni. Síðan finnst henni líka alveg frábært að perla og gerir ótrúlega flott mynstur að mínu mati en hverjum finnst nú sinn fugl fagur eins og það stendur.

Í dag fór hún síðan í fyrsta skipti til tannlæknis, ég hafði heyrt gott orð af Heiðdísi nokkurri í Turninum í Kópavogi og hún var frábær, gerði tannlæknaheimsóknina að einhvers konar ævintýraferð sem gerði það að verkum að Ára vildi ekkert fara heim og fékk fínan hring í verðlaun.

Önnur læknaheimsókn á morgun út af grun um blöðrubólgu hjá dömunni sem er þó búið að kanna í þremur þvagprufum og einni blóðprufu en það er saga í annað blogg þegar hún var stungin milljón sinnum af mjög svo ófaglegum meinatækni svo ekki sé meira sagt. Meira um það síðar...

Við hjónin höfum síðan verið að halda ansi mörgum boltum á lofti það sem af er hausti en stefnum á rólegan desember, er það ekki bara málið að hella sér inn í aðventuna alveg bara í 1. gír - það held ég nú! En svona er þetta nú bara stundum, maður hellir sér út í allskyns hluti sem voru einhvern veginn ekki á teikniborðinu en virðast teikna sig þar sjálfir:)

Vetrarleyfið senn á enda sem og rauðvínsbeljan sem við Álfur byrjuðum á síðastliðið fimmtudagskvöld. Ég lofa síðan myndum fljótlega - þarf klárlega að bæta úr myndaleysi september mánaðar.

Aðíós.

mánudagur, september 27, 2010

Dóttir mín hefur lengi vel haldið því fram að hún ætli að verða hárgreiðslukona þegar hún verður stór. Síðustu daga hefur hún hins vegar verið að breyta um skoðun, núna ætlar hún nefnilega að verða búðarkona. Ég spurði hana auðvitað hvað hún ætlaði að selja í búðinni sinni og svarið var einfalt: "mat!" og í kjölfarið kom: "Ég ætla að vinna í Bónus" og síðan bætti hún við að auðvitað þyrftum við samt að keyra hana þangað út af því að hún vissi ekkert hvar Bónus væri:)

Við munum auðvitað styðja hana í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur!

miðvikudagur, september 22, 2010

Ég lenti í hressandi atviki í kennslu nú á dögunum og er ekki frá því að þetta hafi verið eitt það vandræðalegasta á mínum ferli. Svo vandræðalegt að ég mun ekki rita það á netið en hef gaman að því segja frá munnlega. Þetta kennir manni eitt, ferðir á bókamarkað geta leikið mann grátt:)

Það rann upp fyrir mér að ég á afmæli eftir litlar tvær vikur - fáir gleyma þessum degi, 6. október enda dagurinn sem Guð þurfti að blessa Ísland.

28 ára - maður er ekkert að yngjast, það er nokkuð ljóst!

laugardagur, september 18, 2010

Föstudagstrítment...og laugardagseyðsla!

Sushi - lit og plokk - heilun - aukatími í stærðfræði - æfing hjá keppnishópnum í Ártúnsskóla! Kom síðan heim og þá var "ráðskonan" okkar búin að taka heimilið í gegn - já þið lásuð rétt við erum komin með "ráðskonu" til að taka alþrif tvisvar í mánuði svo við getum farið beint inn í helgina í frí án þess að eyða helmingnum í tiltekt og ég er yfir mig ánægð eftir þessa ákvörðun okkar:)

heimsætastan byrjaði síðan í samkvæmisdansinum í dag með 4-5 ára, stóð sig eins og hetja þó mamma hennar þyrfti að vera að kenna í tímanum, rosa margir krakkar hjá okkur eða um 25 stykki! Sem er auðvitað frábært. Ég kenndi síðan þremur hópum og það gekk vel, duglegir að dansa þessir ungu krakkar og 5-7 voru heimsins mestu dúllur í waltz og cha cha cha:)

Fórum síðan með Álfrúnu, Agli og Eldi á sushi lestina til að leyfa börnunum að gæða sér á gúrkubitum en þau elska sushi þessi litlu krútt:) Eldur að vísu heldur æstur í wasabi og þurfti næstum að hringja á 112 en það bjargaðist fyrir horn;)

Dóttirin búin að eignast nýtt par af Ecco skóm, svarta með glimmeri og dressuð upp af Janus fyrir veturinn - alveg hreint nauðsynlegt fyrir litlu lungun í þessum kulda.

Núna er bóndinn og litla konan að elda kjötsúpu, frúin er búin að opna rautt og framundan er kósýföstudagskvöld og kærkominn frídagur á morgun.

fimmtudagur, september 16, 2010

Góðar minningar...

Mér þykir alveg óendanlega vænt um þetta blogg mitt og skemmti mér oft konunglega við það eitt að lesa gamlar færslur, komment og rifja upp gamlar minningar. Stundum fæ ég alveg fáránlega mikinn kjánahroll og stundum skellihlæ ég. Það sem er samt einhvern veginn alltaf best er að ég er eiginlega aldrei að skrifa um neitt sem skiptir einhverju rosalegu máli, sjaldan að taka reiðiköst út í eitthvað, gagnrýna, pirrast eða koma með einhverja málefnalega punkta. Það skiptir líka engu máli því þegar upp er staðið eru þetta ómetanlegar minningar síðustu sjö ára sem ylja mér um hjartarætur.

...það sem mér finnst líka svo frábært er að þegar ég skoða t.d. september 2004 þá sé ég að ég hef bara ekkert breyst neitt svakalega mikið, er bara enn alveg að horfa á sex and the city, taka hlátursköst með Álfrúnu og partýprumpa:) Það er góðs viti held ég.

miðvikudagur, september 15, 2010

Halló halló...

í kollinum á mér leynist sjálfsagt heill haugur af bloggfærslum og heldur betur lélegt af mér að hafa ekki skrifað boffs hérna í alltof langan tíma!

Eftir sumarfrí var ekki laust við að við LA-búar hlökkuðum bara til haustsins og skammdegisins sem fylgir því í kjölfarið. Sumrin eru auðvitað alltaf æðisleg og forréttindi að fá gott og endalaust skemmtilegt sumarfrí eins og myndir myndasíðunnar gefa til kynna. En síðan verður maður bara pínu þreyttur á því að vera á stöðugu flakki, endalausum boðum, hittingum, afmælum, skírnum, brúðkaupum og þar fram eftir götunum, allar helgar smekkfullar. Ekki misskilja mig, þetta er ÆÐI! En svo er bara svo gott að eiga líka svona helgar þar sem maður er bara heima með fullt af kertum að kúrast uppi í sófa og gera akkúrat ekki neitt:)

Það er nú samt sem áður sjaldan þannig hjá mér, því ég er auðvitað snillingur í að taka að mér allskyns verkefni af öllum stærðum og gerðum. Veturinn fer vel af stað í Lauglæk og ég vil meina að ég sé í skemmtilegasta og mest gefandi starfi sem um getur, tekur stundum á en með mínum frábæru vinnufélögum verður þetta leikur einn. Andri heldur áfram að "verkefnasstjórast" á frístundaheimilinu en samhliða því er hann líka í kennsluréttindanámi í HÍ og auðvitað í Zen-inu og Jiu Jitsu. Hann verður síðan í vettvangsnámi í Laugalæk einn dag í viku þannig að við verðum samstarfsmenn:) Litlu krúttlegu kennarahjónin!

Ég er síðan orðinn formlegur meðeigandi í dansskólanum og verð með þrjá hópa í vetur og einu sinni í viku á æfingum með keppniskrakkana, ég veit dáldið mikið auka fyrir utan vinnuna en svo gat ég ekki sleppt því að vera með þrek einu sinni í viku í Skylmingafélaginu og tek líka einn menntaskólastrák heim í stærðfræðiaðstoð. Þetta hljómar kannski frekar yfirþyrmandi og krafðist þess alveg að ég myndi búa til sér stundatöflu fyrir allt sem við AFO gerum fyrir utan eðlilegan vinnutíma:) En ég er svona tarnakelling, mér finnst gaman að taka góða vinnutörn í 3 mánuði og tríta mig svo vel að því loknu, þannig er það nú bara. Við Álfur vorum síðan alveg hrikalega duglegar í bjöllunum í sumar og búum vel að því í vetur og ætlum að halda áfram að æfa þar, ég kemst því miður aðeins sjaldnar en ég vildi en Álfurinn er á útopnu og náði 313 endurtekningum í Fight Gone Bad nú á dögunum með réttum þyngdum - þeir skilja sem skilja:) Snillingur hún Álfrún.

Síðast en ekki síst er heimasætan hún Ágústa Rut orðin alveg svakalega fullorðinsleg. Hún tók stórt skref um miðjan ágúst þegar hún hoppaði yfir eina deild á leikskólanum ásamt þremur vinkonum sínum og er núna á Fagralæk með 2006 fæddum börnum. Og að sjálfsögðu nýttum við tækifærið og stungum upp á því að hætta með duddu um leið og hún myndi byrja á stóru deildinni og það samþykkti hún en með því skilyrði að Alma Júlía fengi að eiga duddurnar hennar þrjár sem eftir voru. Þann örlagaríka morgun 16. ágúst setti hún síðan duddurnar í box og Andri tók með sér í vinnuna til að afhenda Hjalta. Ég bjóst við einhverju hrikalegu enda búin að heyra sögur af börnum sem voru að vakna á nóttinni og vaka í fleiri fleiri tíma. Þótt ótrúlegt sé og miðað við duddusjúklinginn sem hún var þá var þetta EKKERT mál, grét í svona ca. tíu mínútur þegar hún kom úr leikskólanum og áttaði sig á því að þetta væri orðið að veruleika en svo bara ekki söguna meir, sofnaði bara um kvöldið og hefur ekki stungið snuði upp í sig síðan! Ég var nú bara dáldið stolt af henni að standa sig svona vel í þessu. Hún er síðan að fara að byrja í 4-5 ára hópnum í dansskólanum á laugardaginn og ég krossa putta að henni eigi eftir að finnast þetta jafngaman og móður hennar fannst. Ég er meira að segja búin að fá ekta dansskó fyrir hana í stærð 25!

Hún stjórnar líka hægri vinstri á heimilinu og lætur sko ekki segja sér hvað sem er. Ég fæ t.d. oft að heyra það að hún segi pabba ef ég er að skamma hana og einnig að ég eigi að segja fyrirgefðu og nennir alveg að þræta um það endalaust að við eigum að segja fyrirgefðu við hana:) Hún elskar líka að knúsa okkur og segja "mamma er best" og "pabbi er bestur" en stundum heyrist líka "pabbi er bara vinur minn":)

Ég held ég segi þetta bara gott í bili, lofa sjálfri mér hér með að skrifa meira inn á þessa annars ágætu síðu sem ég hef haldið til haga nú á sjöunda ár!

Aðíós Róbó Linda

föstudagur, september 03, 2010

Ég trúi ekki að skyndilindan hafi ekkert skrifað í rúman mánuð, hún hlýtur að fara að taka sér tak!

Mun til að byrja með setja inn myndir á myndasíðuna!

þriðjudagur, júlí 27, 2010

Loksins er ég búin að setja inn á annað hundrað myndir úr paraferðinni góðu og munið að þarna eru bara tvö pör á ferð í allskyns sprelli og skemmtun og þess vegna eru bara myndir af þeim...eða svo gott sem:) Njótið vel...

Ég er síðan með annan eins skammt úr yndislegu sumarfríi okkar sem hefur verið dásamlegt það sem af er - bústaðaferð með góðum vinum og frábær skemmtun á Mærudögum á Húsavík þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í heimahúsi með fulla þjónustu, skoðuðum Hvali og kíktum í Ásbyrgi svo eitthvað sé nefnt:)

Klofi Tómasar frænda rétt handan við hornið og alltaf tilhlökkun fyrir þessa hátíð sem enginn veit þó hvernig verður hverju sinni!

þriðjudagur, júlí 06, 2010

Ef við erum ekki að gæsa eða steggja, í brúðkaupi, nafnaveislu eða skírn nú eða barnaafmæli þá telst það til undantekninga!

Magnús Þór Bjarnason fékk sitt fallega nafn eftir frábæra ræðu föður hans um aðdraganda fæðingu hans, nafnagift, getnað og fleira og þar var ekkert slegið af:)

Glæsilega "I´m blue dabadedadabadabadeeda Laufás Family" með þeim allra nýjasta Gunnari Andra Benediktssyni - Andri Fannar hélt því fram að skírnir hjá Láru væru þær allra skemmtilegustu en þar fær hann ávallt nafna;) Fyrir tæpum fjórum árum var það hann Bjarki Fannar og eigum við eitthvað að ræða hvað mér finnst fáránlega stutt síðan!

Mæðgur mjög svo glaðar að vera komnar í bústað í Öndverðarnesinu

Blómarósin bezta sem elskar sumarfríið sitt - sagði í bílnum á leiðinni í bústaðinn þegar við spurðum hvort hún væri ekki glöð að vera í sumarfríi: "Jú enginn að ýta mér, enginn að pota í mig, enginn að lemja mig, enginn að stríða mér!" Það tekur greinilega á að vera þriggja ára í leikskóla:)

Stokkhólmur handan við hornið og veðurspáin ljómandi!
laugardagur, júlí 03, 2010

Ég smellti inn restinni af júní myndum á www.123.is/agustarut, þetta eru m.a. myndir úr gæsunum, Árbæjarsafni og fleiru

Set hérna fyrir neðan tvær af bestu minni að baka hafraklatta fyrir síðasta daginn sinn í leikskólanum en frá og með deginum í dag er hún komin í fimm vikna sumarfrí líkt og karl faðir hennar - ekki leiðinlegt það skal ég segja ykkur:)

Ég er líka komin í mínar sex sem eftir eru...bara svona hafa það á hreinu!

Einbeitingin leynir sér ekki - við að sleikja kremið sem sagt!

Dáldið mikið sport að baka fyrir alla yndislegu kennarana á leikskólanum!


miðvikudagur, júní 30, 2010

"Epilator ævintýrið"


Hún Sóley vinkona hefur aldrei verið þekkt fyrir annað en að vera með ráð undir rifi hverju og ósjaldan bent mér á ýmislegt skynsamlegt. Nú síðast var það þessi græja - epilator eða hártætari! En þegar konur hyggja á viku para/treatment ferð til Stokkhólms er nauðsynlegt að vera með vel "skafaða" leggi.

Manneskja sem hefur aldrei gerst svo stórtæk að leggja það á sig að fara í vax ætlar sér þó heldur mikið um of þegar hún fær lánaða slíka græju og byrjar að tæta - DJÖFULL ER ÞETTA VONT! Ég var rétt komin langleiðina með hægri þegar ég játaði mig sigraða, hringdi í Sóleyju og spurði hvort þetta ætti í alvörunni að vera svona sjúklega vont, Sóley greyið hafði þá ekki alveg gert sér grein fyrir hversu mikill amatör ég væri í þessum málum og benti mér á að það væri kannski gott að láta klára þetta mál með vaxi og taka svo næsta skipti með græjunni. Og sú var lendingin, ég sendi snyrtikonunni minni örvæntingarfullt sms klukkan tíu í gærkvöldi og spurði vinsamlega hvort hún gæti vaxað á mér vinstri legginn og útskýrði vandmálið fyrir henni. Fékk tilbaka hahahaha já Linda beauty is pain! og á núna tíma kl 11:30 til að klára þetta. Ég mun hins vegar ekki gefast upp á hinu og ætla fjárfesta í helv... tækinu, ég sé nefnilega hversu fínt þetta verður og alveg sársaukans virði:)

Andri spurði einmitt í gærkvöldi hvort þetta yrði ekki eins með þessa græju og álfabikarinn sem títtnefnd Sóley benti mér líka á fyrir rúmu ári síðan. Fyrst þegar ég heyrði um þennan bikar sem ætti að troða upp í leggöngin varð mér allri lokið og fullyrti að þetta væri sko ekki fyrir mig. Nú rúmu ári seinna hef ég étið það allt ofan í mig og ELSKA bikarinn minn og gæti aldrei í lífinu án hans verið og hika ekki við að dásama hann mánaðarlega:)

Ég spái sama árangri með hártætarann!

...to be continued

mánudagur, júní 28, 2010

Blæs ekki út nös...right!
Þarna eru ca. 9 búnir og vá hvað sá síðasti tók á...

Frábær helgi að baki, Elín Anna var gæsuð á laugardaginn og var standandi prógram frá 7 um morguninn og fram á kvöld en ég svissaði yfir í þrítugsafmæli Fíu og Stínu eftir að hafa endurræst mig í Laugum Spa og við tók stanslaust stuð til að vera fimm um nóttina - þá sjaldan sem maður lyftir sér upp. Hressleikinn var samt bara þó nokkur í gær en alveg ljómandi fínt að vera í sumarfríi og get tekið svona eins og eina kríu hér og þar:)

9 dagar í "Stokkhólms-trítmentið" og niðurtalning formlega hafin

fimmtudagur, júní 24, 2010

Miðnæturhlaup á Jónsmessu

Flottur hópur úr fjölskyldunni skellti sér í hlaupið og árangurinn ekkert af verri endanum. Bjarki frændi á 52:52 sem er helvíti gott fyrir mann á hans aldri:) Ekki mitt persónulega besta en 48:56 var tíminn samkvæmt klukkunni en ég geri ráð fyrir að flagan gefi mér 5-10 sek betri tíma. Fyrri hringurinn gekk mjög vel og ég var í góðum gír, sá seinni var heldur erfiðari og eiginlega bara óbærilegur á tímabili en svona vill það verða þegar maður hleypur ekki nógu oft en bjöllurnar hafa algjörlega verið í forgangi undanfarið. Markmiðið var samt bara að ná undir 50 en nú fer markmiðið að verða að ná undir 48.

Þegar ég skoða gömul úrslit úr þessu hlaupi en ég var ansi virk árin ´96, ´97 og ´98, þá átti ég best 47:08 en þetta er á aldrinum 14-16 ára og kannski ekki alveg sambærilegt en ágætis viðmið. Núna VERÐ ég bara að æfa markvisst og komast einhvern tímann undir 45, það væri draumur:)

Takk fyrir skemmtilegt hlaup, mamma, Svava, Bjarki og Jóel!

þriðjudagur, júní 22, 2010

Ára litla sushibarn

Þessi mynd var tekin í febrúar síðast liðnum en þá byrjuðum við að venja heimasætuna á sushi át svo hún þyrfti ekki að éta ofan í sig allt slæmt umtal um sushi líkt og við foreldrarnir þurftum að gera á sínum tíma. Núna fjórum mánuðum síðar elskar hún að fara á Sushi lestina eins og hún kallar hana sjálf og um helgina fór hún með pabba sínum og borðaði hvorki meira né minn en 9 bita! Tók samt skýrt fram að henni þættu gúrkubitarnir bara góðir:)

Dásamlegt þetta barn það verður ekki af henni tekið ef við horfum á þetta hlutlausum augum!

Þessa dagana þýðir ekkert annað en að vera í kjól eða pilsi og í morgun gekk hún meira að segja svo langt að fara í kjól og pilsi í leikskólann! Núna er líka mjög vinsælt að segja okkur að "mamma sé best" eða "pabbi sé bestur" og núna rétt fyrir svefninn tók hún utan um okkur og sagði: "mamma er best, pabbi er bestur og ég er best, við öll þrjú erum best" Krúttleg með meiru...

Sumarfríið rúllar vel af stað hvað varðar bjölluæfingar, hlaup og hádegishittinga en það fer eitthvað minna fyrir tiltekt og öðru sem átti að framkvæma en þetta er nú bara rétt að byrja þannig ég hef engar áhyggjur af því að ég verði ekki búin að litaraða í fataskápinn og flokka í eldhússkápana að fríi loknu.

Þessa vikuna og næstu verð ég að kenna uppi í dansskóla milli 16-20 á daginn, ekki besti vinnutíminn í heimi þegar maður er með barn en gengur upp þegar pabbinn er kominn heim. Reyndar erum við með megapúsluspil til að allt gangi upp og í dag hjólaði AFO í vinnuna á hjólinu með barnastólnum, ég náði í Áru rúmlega þrjú og skutlaði henni vestur í bæ til pabba síns svo hún gæti klárað vinnudaginn með honum og þau síðan hjólað saman heim og ég farið á bílnum upp á Bíldshöfða - gott plan og virkaði vel þannig ég geri ráð fyrir að það verði notað aftur:)

Lofa nýjum myndum af ferð okkar á Árbæjarsafnið um helgina - eyddum ekki nema tæpum þremur tímum þar!

fimmtudagur, júní 17, 2010

Nýjar myndir í lok maí og júní albúmi - www.123.is/agustarut

Eurovisonkvöld
Ævintýraskógurinn
Brúðkaup
Sushi og hvítvín
17. júní

It´s sommertime....

Ára hefur erft eitt gott gen frá mér...

hið víðfræga textagen:) Við Andri skildum hvorki upp né niður um daginn þegar hún bað um "djobbelífs" og spurðum endalausra spurninga um hvað þetta væri nú eiginlega eða þar til dóttir okkar var við það að fara að væla. Þá áttaði Andri sig skyndilega á því að hún væri að biðja um lagið God þar sem John Lennon syngur I don´t believe í viðlaginu! Hún er með góðan tónlistarsmekk stúlkan en greyið situr uppi með textagenið - ég meina hver man ekki eftir hommideis?

Annars sá ég það í dag að ég læt stundum alltof mikið eftir henni, þurftum að þeysast í gegnum Bónus og áður en ég vissi af var þessi meters manneskja búin að "láta" mig kaupa kleinur, kók, Sollu ís og tvo hlauporma í poka. Ég þarf klárlega að taka mig aðeins á í uppeldinu:)

Í fyrra fékk hún Spiderman blöðru á 17. júní, núna segist hún vilja Latabæjarblöðru - ekki alveg nógu góð þróun en sjáumst til hvernig þetta endar:)

Að lokum - hamingjuóskir til Örnu og Bjarna sem eignuðust son í nótt og við á Laugarnesveginum hlökkum mikið til að sjá þennan litla mann sem er án efa dásamlegur líkt og foreldrarnir.

fimmtudagur, júní 10, 2010


Íslensku menntaverðlauninÁ þriðjudaginn síðast liðinn hlaut ég þann heiður að fá Íslensku menntaverðlaunin í flokki ungra kennara sem hafa sýnt hæfileika og lagt alúð við störf sín.

Að mínu mati er það einstakur heiður að hljóta þessi verðlaun og jákvætt þegar tekið er eftir störfum kennara ásamt því að vera mikil hvatning í áframhaldandi starfi.

Slíka viðurkenningu hlýtur þó enginn upp á eigin spýtur. Ég var ákaflega heppin þegar ég fékk kennarastöðu við Laugalækjarskóla fyrir 4 árum síðan, yndislega samstarfsfólkið mitt þar hefur gert mér kleift að viða að mér ómetanlegri þekkingu og reynslu úr þeirra brunni svo ég tali nú ekki um skólastjórana þá Björn og Jón Pál sem hafa sýnt starfsfólki sínu einstakt traust og svigrúm til þess að taka aukna forystu í starfi.

Hérna má lesa greinargerð dómnefndar í heild sinni!

Ég vona síðan að ég eigi eftir að líta jafnvel út hún Ragnheiður Hermannsdóttir sem hefur verið við kennslu í 39 ár.

Ástarþakkir fyrir allar góðu kveðjurnar kæru vinir.

Virðing - Eldmóður - Gleði

sunnudagur, júní 06, 2010

1 ár = pappír


...og það verður að sjálfsögðu haldið upp á það með því að fara á Holtið:)

laugardagur, júní 05, 2010

Kíktum með Ágústu í ævintýraskóginn en þangað fer hún alltaf með leikskólanum á mánudögum. Ævintýraskógurinn er lítill "skógur" efst í skíðabrekkunni við Dalbraut og þar læra börnin ýmislegt um náttúruna, fuglalífið og fleira. Ára elskar þennan skóg og lék á alls oddi:)

Uppstillt í myndatöku

Blása á fífil

Mæðgurnar

og feðginin

Dásamleg helgi framundan sem byrjar á bjölluæfingu með Álfinum mínum, við erum að tala um fáránlega mikla tilhlökkun að mæta, við skemmtum okkur nefnilega svo vel á þessum æfingum, lágmark eitt hláturskast á hverri æfingu!


5 vinnudagar og síðan 9 vikur í frí
Góða helgi!
mánudagur, maí 31, 2010

Sushi, hvítvín, brúðkaup og karokí!

Síðastliðið föstudagskvöld gerðum við Álfrún og Regína okkur ansi glatt kvöld:) Við Regína byrjuðum á því að gæða okkur á dýrindis Sushi og hvítu og þegar leið á kvöldið fannst okkur ekkert sniðugara en að við myndum horfa á brúðkaupið mitt aftur því hún og Álfur voru því miður ekki á landinu þegar þessi stóri dagur átti sér stað fyrir tæpu ári síðan.

Eins og góðum brúðkaupum sæmir var drukkið vín og að þessu sinni ekki nema "litlar" þrjár flöskur. Gestirnir tveir skemmtu sér vel og brúðurinn fékk tár í augun yfir sumum atriðunum. Gamanið stóð sem hæst þegar AFO kom heim úr vinnuhitting upp úr miðnætti en að hans sögn vorum við þá farnar að syngja í flösku og taka eurovision atriði, klárlega smá sinnep á þeirri frásögn en breytir því ekki að þegar gleðin stóð sem hæst fannst okkur alltof langt síðan við hefðum farið í karokí og skelltum okkur því á hverfispöbbinn Ölver. Þar var Regína að sjálfsögðu drottningin enda höfum við Álfur lítið í hana þegar kemur að söng. Ég lét mig samt hafa það að taka lokalag kvöldsins "The Winner Takes It All" sem segir allt sem segja þarf. Það voru ansi hressar stúlkur sem röltu í gegnum dalinn sinn undir morgun og þökkuðu fyrir að engin myndavél hafði verið í fórum þeirra þetta kvöldið:)

Takk fyrir dásamlegt kvöld yndislegustu og beztu vinkonur mínar!

mánudagur, maí 24, 2010

Svona eiga góðar langar helgar að vera...

Sætu mín og beztu tvö
Stórvinirnar Matthías og Ágústa
Kaupa fínt:)
Taka góða Fight gone Bad æfingu - tjékkið á AFO
okkur Álfi til mikillar mæðu var myndavél á staðnum og búið að setja á netið nokkrum tímum seinna!
Amerískar, egg, beikon og baunir nammi namm!


Þessi helgi er búin að vera eins og heil vika, við gerðum nefnilega svo mikið, kaffihús og grill með Álfi, Eld og Agli ásamt trampólín hoppi og rauðvíni, grill með Sóla, Elínu og Matthíasi, sund og allt sem því fylgir, sól og pulsa, lambalæri á grillið, ömmuGústudagur hjá Áru á meðan foreldrarnir tóku góða æfingu, sund og síðbúinn lunch...
og svo skemmir ekki fyrir að eiga nýja flík:)
svona eiga allar helgar að vera og hvernig væri nú að hafa bara 4 daga vinnuviku ALLTAF
Ég á eftir 14 vinnudaga og síðan er ég komin í 9 vikna FRÍ
set fleiri myndir á myndasíðuna undir MAÍ
-tjúrílú-


miðvikudagur, maí 19, 2010

Ég setti inn nokkrar myndir í maí - albúm og eiginlega ekki bara nokkrar heldur heilar 50!

Aldrei þessu vant verður bara family time um helgina og ekkert prógram - það verður dásamlegt!

xxx

þriðjudagur, maí 04, 2010

Viðburðarík helgi en ansi örmagna vika eftir á!

Litlu snúllurnar mínar þær Rebekka og Clara urðu Íslandsmeistarar í sínum flokki - (Rebekka er svona laundóttir mín-hef verið spurð nokkrum sinnum hvort ég eigi hana!)

Áran mín fékk sér hjólreiðatúr og kíkti á mömmu gömlu á danskeppninni:)

Og síðan en þó ekki síst, allra nýjasti vinur minn, 3. Láru og Bennson fæddist á sunnudaginn var, heldur mikið að flýta sér í heiminn þessi ungi maður en algjör hetja og ekki annað að sjá en hann sé bara vel tjillaður og sáttur með lífið og tilveruna, hvað er annað hægt með yndislega foreldra og tvo dásamlega bræður.

Ég var svo heppin að fá að knúsa hann í dag og jesús hvað þessi börn eru lítil þegar þau fæðast, talandi um að vera fljótur að gleyma - Ágústa Rut var nefnilega bara eiginlega nákvæmlega jafnstór honum þegar hún fæddist!

Núna er eiginlega búið að vera alltof mikið að gera hjá mér og ég verð að slaka stundum á - gekk örlítið fram af sjálfri mér en það er nú erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, eins og það stendur!föstudagur, apríl 30, 2010

Hinar mjög svo árlegu Flórída-ferðir!

Tengdaforeldrar mínir komu frá Flórída í gær, Don Ruth og Lottó, alveg hreint klifjuð af ýmsu skemmtilegu dóti:) Ég var með nokkra hluti á lista fyrir mig, eins og t.d. Garmin hlaupaúr, MAC púður og maskara, PUMA skó og hina áðurnefndu brjóstahaldara. Don Ruth sér sko um sína því allt þetta kom upp úr töskunum ásamt ýmsum öðrum hlutum sem ég kann nú varla við að telja upp, já við erum nú ansi ofdekruð Laugarnesfamilían og þau rausnarleg með meiru, því er ekki neita!

Einkadóttirin hefur eignast fallegasta 17. júní dress sem um getur og nokkur skópör í viðbót ásamt ýmsum fínum sumardressum sem hún getur spókað sig um í sumar á nýja reiðhjólinu sínu en við AFO ákváðum að gefa henni tvíhjól með hjálpardekkjum fyrir sumarið og ég hef sjaldan séð jafn ósvikna hamingju og þegar hún var að prófa hjólið í Markinu.

Og þegar einhver kemur úr svona sólar-verlsunarferð þá fer maður að láta sig dreyma um sól og sumaryl í Svíþjóð með smá viðkomu í H&M:)

Ég er nefnilega að safna seðlum í sérLEYNIveski...þannig ég geti keypt mér eitthvað fallegt eins og t.d. þennan!

Góða danshelgi - mín verður í Laugardalshöll á Íslandsmeistaramótinu í samkvæmisdönsum og ég veit ekki af hverju en við það að vera á búningaæfingunni í kvöld þá fékk ég svona flashback þegar ég var alltaf að keppa og ég skellti bara á mig einni umferð af brúnkukremi áðan, bara svona for the fun of it - engin skinka samt eins og ungarnir mínir segja:) Svo það sé nú alveg hreinu!

mánudagur, apríl 26, 2010

Sumarfrí!

Fyrstu sjö samvistarárin okkar AFO einkenndust af litlu sem engu sumarfríi, við vorum auðvitað alltaf í sumarvinnu til að drýgja tekjurnar fyrir skólaveturinn og síðan var hann auðvitað í boltanum og komst hvorki lönd né strönd. Við vorum heppin ef við náðum sólarhring í bústað en þá var alltaf komið seint að kveldi eftir æfingu og farið fyrir æfingu næsta dag.

Núna hefur þetta heldur betur breyst, ég með mitt "kennarafrí" eins og einhverjir vilja kalla það og Andri með sínar fimm vikur. Þannig að við erum að sjálfsögðu byrjuð að skipuleggja. Fyrstu drög líta svona út:
  1. Fyrstu þrjár og hálfa vikuna verð ég svo gott sem ein í fríi, AFO enn að vinna og ÁRA á leikskólanum - þá ætla ég sko heldur betur að slaka á, mæta á hlaup- og bjöllu-æfingar, endurskipuleggja skápa og taka heimilið alveg í nefið. Verð samt örugglega með einhverjar sumardansæfingar inni á milli.

  2. Daginn eftir að AFO byrjar í fríi eða þann 8. júlí höldum við hjónakornin í paraferð til Stokkhólms þar sem við munum dvelja í góðu yfirlæti hjá Helga og Gunnu, borða góðan mat, drekka góð vín, flatmaga á klettunum og ef buddan leyfir kíkja bara ogguponsulítið í búðir.

  3. Að lokinni Stokkhólsferð ætlum við að fara með Auði Öglu stórvinkonu og hennar þremur piltum í sumarbústað í nokkra daga.

  4. Andri B. sem vinnur með AFO er búinn að bjóða okkur að koma á Mærudaga á Húsavík síðustu helgina í júlí og það verður svona óvæntasta í sumar, ég hef aldrei komið þangað og eiginlega bara varla stigið fæti á Norðurlandið og á þó ættir að rekja á þessar slóðir. Algjör óvissa í gangi þar en mikil spenna og ekki síður að sjá hvernig litli bíldólgurinn okkar fílar langferðina.

  5. Toppurinn á sumrinu verður síðan Klofi Tómasar frænda en eins og flestir vita er Klofahátíðin um verslunarmannahelgina.

It's summertime....fyrir utan allt annað sem er alveg óplanað þá lofar þetta mjög góðu!

sunnudagur, apríl 18, 2010

Af nógu að taka...

Kettlebells - Nýtt æði?

Ég og Álfurinn minn skelltum okkur í byrjendatíma í Kettlebells síðast liðinn fimmtudag og vorum ekki sviknar - af harðsperrum:) AFO er búin að stunda þetta samhliða Jiu Jitsu-inu og líkar vel og mig hefur vantað eitthvað með hlaupunum til að styrkja mig. Þrusugóðir tímar og ekkert gefið eftir en samt getur hver og einn stjórnað þyngdinni sem hann er með eins og ég var alveg bara í léttustu bjöllunum enda langt síðan ég hef verið að styrkja mig að ráði. Síðan fannst mér alveg ljómandi skemmtilegt að leyfa einhverjum öðrum að þræla mér út og góð tilbreyting frá því að vera sjálf að píska fólki áfram. Við fórum síðan aftur í tíma í gær og áðan hnerraði ég og langaði að grenja út af harðsperrum! Núna eigum við sex mánaða kort og verðum með alveg asskoti flottar línur í sumar!

Meðeigandi í dansskóla

Það er verið að ganga frá samningi um hlutafé mitt (og AFO auðvitað) í dansskóla sem hljómar mjög svo fullorðinslegt en um leið ótrúlega spennandi. Meira um það síðar en það er nóg að gera í dansinum núna fyrir Íslandsmeistaramótið með grunnaðferð sem verður helgina 1. og 2. maí.

Tengdó á Flórída

Sem kemur kannski fáum á óvart enda árlegur viðburður á þeim bænum. Ég þykist vita að búðirnar verði sóttar heim og flatmagað við sundlaugarbakkann. Ég nefndi það við Don Ruth að ef hún sæi einhverja almennilega brjóstahaldara þarna úti fyrir tvo litla tepoka þá mætti hún endilega kaupa fyrir mig, hún tók þessu greinilega mjög alvarlega og er nú þegar búin að fjárfesta í einum þremur stykkjum, öllum með góðum fyllingum:)


Áran mín klára

Er alltaf sami fallegi gullmolinn og kemur okkur sífellt á óvart með húmor og dugnaði. Hún er orðin heldur betur stór og sjálfstæð stúlka og alveg svakalega dugleg. Í kvöld t.d var ég að ganga frá þvotti og þá spyr hún hvort hún eigi ekki að hjálpa mér og tekur alla sokkana og raðar þeim réttum saman á ofninn, ekki dóttir mömmu sinnar fyrir ekki neitt! Hún er alveg hætt að sofa á daginn og er alltaf að höndla það betur og betur (ekki eins mikið um þreytu/pirring seinnipartinn) og á það til að sofa bara fram eftir um helgar (með fram eftir á ég við að ganga hálf tíu). Hún er líka dugleg að kalla í okkur foreldrana og taka hópknús og það er ekkert betra en slíkt knús:) Um helgina fórum við á Skoppu og Skrítlu og það vakti þvílíka lukku og ekki skemmdi fyrir að fá að setjast hjá þeim og meira að segja Lúsí líka.


Fullt af nýjum myndum í apríl 2010 á www.123.is/agustarut

föstudagur, apríl 02, 2010

Lestur góðra bóka
Þegar ég var yngri las ég eins og vindurinn, ég spændi upp bókasafnið í Laugarnesskóla og taldi óeðlilegt ef ég var ekki með einhverja góða bók í farteskinu. Eftir því sem árin líða fer minna fyrir þessu, ég er þreyttari á kvöldin, gef mér minni tíma eða öllu heldur hef ekki tíma yfir daginn og þar frameftir götunum. Ég er nefnilega ekki eins og eiginmaðurinn sem virðist geta dottið í góða bók hvar sem er og hvenær sem er, ég þarf að setja mig í ákveðnar stellingar að nú sé ég að fara að lesa! Eftir að hafa klárað síðustu Stieg Larson bókina um jólin byrjaði ég á bókinni Þúsusnd bjartar sólir sem er átakanleg saga ungra kvenna í Afganistan, ég veit ekki hvort það er bara yfir höfuð erfitt að byrja á bók eftir Salander ævintýrið sem maður óskaði að engan enda tæki eða hvort þetta var bara grámyglan í janúar og febrúar sem gerði það að verkum að ég komst bara hálfa leið með bókina og var þar af leiðandi einhvern veginn búin að missa þráðinn þegar ég byrjaði að lesa aftur tæpum mánuði seinna. Í milli tíðinni byrjaði ég líka á bókinni Rán en komst einhvern veginn ekkert áleiðis.

Núna hins vegar sér ég fram á bjartari tíma í lestri góðra bóka. Eva María benti mér nefnilega á rithöfundinn Camillu Lackberg og fyrstu bók hennar Ísprinsessuna sem kom út árið 2003. Bókin so far lofar góðu og ég sé fram á gott vor og sumar vitandi að mín bíða fjórar aðrar bækur eftir sama höfund:) Spurning um að æfa sig í sænskunni svona áður en við förum í paraferðina í byrjun júlí!


Ég setti síðan restina af marsmyndum á myndasíðuna. Hér að neðan má sjá hluta af mjög svo eðlilegri fjölskyldu í bústað þar sem voru teknar ýmsar keppnisgreinar, þar á meðal 90 gráðu keppni en systurnar gáfust upp í öfugri aldursröð og AFO löngu fyrr:) Fleiri góðar keppnisgreinar má sjá á myndasíðunni. Njótið vel og gleðilega páska.


Eins og sjá má lagði frumburðurinn sig mjög mikið fram!

laugardagur, mars 27, 2010

Páskafrí og bústaðaferð!

Langþráð páskafrí er runnið upp og við stefnum í bústað á gossvæðinu nánar tiltekið á Strandavöllum. Fröken Ára var eitthvað slöpp í gærkvöldi eftir ansi ærslamikla sundferð og kvartaði um í eyranu, barnið sem fær alltaf í lungun en aldrei í eyrun en fínn læknir kannaði málið og smá bólga sást en ekki þannig að stöðva þyrfti bústaðaferðina sem betur fer, alveg hefði það verið týpískt fyrir okkur að komast ekki. Við erum búin að vera hrikalega upptekin bæði undanfarið, vinnulega og ekki síður félagslega, árshátíðir, partý, leikhús og fleira fyllir upp í stundatöfluna okkar sem er auðvitað bráðskemmtilegt en síðan er ekki síður skemmtilegt að komast út fyrir borgarmörkin í rólegheit og afslappelsi:)

Ég var að setja inn MarsMyndir og myndir sem við fengum frá leikskólanum.

Við Andri eigum síðan pantað flug til Stokkhólms þann 8. júlí, nánast sami dagur og við fórum í fyrrasumar nema núna verður þetta eðal paraferð með Helga og Gunnu - Ára verður í góðu yfirlæti á Íslandi hjá ömmum, öfum og frænkum í heila viku, dáldið langur tími en fargjaldið var það sama fyrir þrjá daga og viku og þá er þetta eiginlega ekki spurning!

Vinsælt sport - þvottkörfuleikurinn

mánudagur, mars 22, 2010


Ég á afmælisAndra í dag og óska honum alveg innilega til hamingju með 28 árin:)

Það þarf varla að taka fram hve yndislegur og dásamlegur hann því þeir sem þekkja hann vita að fallegri og betri mann er ekki hægt að finna á jarðríki! Smá kvót í gömlu dagbókina mína sem segir allan sannleikann!

Njóttu dagsins minn allra kærasti eiginmaður!

mánudagur, mars 15, 2010

Vor í lofti?
Það væri alveg dásamlegt ef vorið væri bara komið og allur snjór og kuldi farinn þangað til kannski bara í janúar á næsta ári:) Bjartsýn, já ég held það bara. Með vorinu hefjast útihlaup aftur, við gátum hlaupið ótrúlega lengi fram á veturinn eða nánast alveg fram til jóla. Síðan hafa janúar og febrúar mánuður varla boðið upp á útihlaup en nú eru þú formlega hafin aftur sem þýðir að ég þarf að fara að setja mér markmið fyrir sumarið. Stefnan er að hlaupa þrisvar í viku og auka það síðan þegar líður á sumarið og taka kannski þátt í aðeins fleiri hlaupum en bara maraþoninu í ágúst.

Undanfarin tvö skipti sem ég hef sett mér markmið í þessum hlaupamálum hef ég náð þeim sem er alltaf ánægjulegt en núna finn ég að mig langar að setja mér óraunhæf markmið þannig ég ætla íhuga málið vel áður en ég pósta þeim:)

Ég er búin að vera með kennaranema hjá mér í vinnunni undanfarnar þrjár vikur sem er notalegt, þá er ég meira á kantinum að fylgjast með. Mjög svo fullorðinslegt allt saman.

Og meira fullorðinslegt, ég er líka að fara að taka þátt í rannsóknarstofu um menntastjórnun, nýsköpun og mati á skólastarfi! Einhvers staðar verður maður að byrja og þetta er fínn grundvöllur enda stefni ég á einhvers konar stjórnun í framtíðinni í hvaða formi sem hún verður nú!

Já maður er ekki að yngjast neitt það er nokkuð ljóst, er ekki frá því að ég sé að fá smá svona poka yfir augun og nú lýg ég ekki, finn hvernig augnlokin á mér eru farin að þyngjast enda er þetta ákveðið ættarmerki að vera eiginlega ekki með nein augnlok og þessa vegna hef ég aldrei getað verið með eyeliner eða neitt slíkt, klessist alltaf saman!

En við á Laugarnesveginum erum bara nokkuð bjartsýn og jákvæð og erum búin að plana matseðil fyrir vikuna sem er alltaf gott svona í ljósi umræðna sem ég hef átt við ýmsa um það að undanförnu:)
Í kvöld var t.d. grilluð bleikja með rosa góðri jógúrtsósu ala AFO - á morgun er ég reyndar að fara á Ítalíu en það er önnur saga....

kvitt eru alltaf vel þegin!

sunnudagur, mars 07, 2010

3 Ára afmælismyndir eru komnar á myndasíðuna:)


Þessi yndisfríða stúlka er sko ekki dóttir móður sinnar fyrir ekki neitt og elskaði að eiga afmæli og var ekki alveg að átta sig á því að í dag væri þetta búið og hún ætti ekki lengur afmæli:)

Við þökkum öllum fyrir komuna og dömuna sem áttu leið hjá um helgina - samkvæmt mínum útreikningum voru þetta um 75 manns. Mikið erum við nú heppin að eiga svona marga góða vini og fjölskyldu, alveg hreint ómetanlegt. Þeir sem lögðu síðan hönd á plóg með veitingar eiga þúsund þakkir skildar því maður hristir nú ekki svona fermingarveislu fram úr hendinni eins síns liðs, að minnst kosti ekki ég:)

laugardagur, mars 06, 2010

3 Ára:)

Dásamlega stúlkan okkar sem dýrkaði að vera í sviðsljósinu í fjölskylduafmælinu í gær. Kærar þakkir fyrir dömuna allir saman!

Og snemma í morgun að opna frá ma og pa - alveg með aldurinn á hreinu!

BINGÓ spil og stærðfræði sett:) Stærðfræðikennarinn fékk að ráða hluta af gjöfinni!


Til hamingju með daginn elsku besta Áran okkar sem hefur fært okkur óendanlega mikla gleði og hamingju.
miðvikudagur, mars 03, 2010

Febrúarmánuður er í óðaönn að hlaðast inn á myndasíðuna:)

Undirbúningur fyrir the BIG 3 stendur í hámarki, DORU þemað kom frá Ameríku í gær og mér skilst að daman fái Doru kjól í afmælisgjöf sem mun vekja mjög svo mikla lukku.

Ég, Sía og Ára bökuðum tæplega 100 mini cup cakes á föstudaginn og í kvöld er það Rice Crispies og eplakökurnar á morgun ásamt fleiru og fleiru. Síðan er ég svo heppin að hafa heilan haug af fólki í kringum mig sem er til í að gera ýmislegt fyrir mig:)

Þessi unga dama elskar ekkert meira en að "snyrta sig" með mömmu sinni og setur þá á sig ýmis krem og gloss og meira að segja svitalyktaeyði:)

Hún á síðan alveg golden moment inn á milli eins og t.d. þetta þegar hún var að horfa á Stundina okkar:

Ára: Mamma, er stærðfræði nokkuð leiðinleg?
Ég stærðfræðikennarinn sjálfur svara: Nei auðvitað ekki, hún er mjög skemmtileg, hver er að segja að stærðfræði sé leiðinleg? (furða mig á því hver sé að innræta barnið slíkri endemis viltleysu)
Ára: Björgvin Franz er að segja að stærðfræði sé leiðinlegt!

Annars er þetta mynd mánaðarins af dásamlega skemmtilegri og jákvæðri fjölskyldu sem kom í kjötsúpu á dögunum og Úlfar Jökull fékk lánuð prinsessunáttföt og bleika duddu og var að fíla sig vel:) Óli "Calm" var eins og ljós og sat í fanginu á pabba sínum í hátt í klukkutíma án þess að segja múkk! Ótrúlegur drengur:)

Kommentakerfið hefur breyst eilítið en er langt því frá að vera hætt að taka við kommentum þannig að endilega kvitta fyrir komu og kíkja á febrúarmyndir

aðíós


fimmtudagur, febrúar 25, 2010


Ég veit ekki hvað þið eruð dugleg að kíkja inn á myndasíðuna en þar eru tvö nýleg albúm, Áramót og Janúar 2010. Febrúar bíður síðan glóðvolgur.

Set hérna eina af fallegu stelpunni okkar sem er bara alveg að verða þriggja ára:)

mánudagur, febrúar 15, 2010

Hér á bæ máta menn búninga í gríð og erg fyrir öskudaginn...

Heimasætan vill ólm vera Batman en heimtar grímu! (hún gerir sér náttúrulega ekki grein fyrir að flestar hinar stelpurnar verða prinsessur og því verður sá búningur með í poka;))
Eiginmaðurinn spilaði í fjölda ára sem fagurblár fótboltamaður en hefur nú skipt yfir í fagurbláa Jiu Jitsu hetju:)

Þið fáið tvær myndir núna því ég stóð ekki við loforðið með að setja á myndasíðuna, nota vetrarleyfið pottþétt til að flokka og raða í það dæmi!


föstudagur, febrúar 12, 2010

Aldurstakmark í "föstudagstrít"?

Ákvað í tilefni föstudags, námsmatsloka og fleira að panta mér eina litla 12 tommu núna í hádeginu, indælisstúlka svarar í símann og segir: "já, hvað ertu gamall?" Einmitt, ég er 27 ára sagði ég frekar pirruð á þessari fáránlegu spurningu, eina sem ég fékk tilbaka var að ég hefði hljómað einhvern veginn öðruvísi. Þetta aldursdæmi ætlar engan endi að taka hjá mér, það er nokkuð ljóst!

Annars eru ekki nema 21 ár í dag síðan hún Harpa frábæra systir mín leit dagsins ljós í bandbrjáluðu veðri og rafmagnsleysi sem er eins langt frá því að lýsa hennar geðgóða skapi og mögulegt er. Innilega til hamingju með daginn elsku Harpa:)

Ég er síðan búin að hlaða slatta af myndum inn á tölvuna og á bara eftir að koma þeim á myndasíðuna, ný myndavél komin í hús svo nú ætti ekki að vera neitt lát á myndum. Setti nokkrar áramótamyndir um daginn en lofa að bæta hinu við um helgina, nú þegar námsmatinu er senn að ljúka og vetrarleyfi á næstu grösum. Þarf endilega að gera mér einhvern almennilegan do to lista fyrir það frí, ansi mikið sem hefur setið á hakanum í annríkinu síðustu misseri. Þannig að mín afsökun fyrir blogg og myndaleysi er "brjálað að gera afsökunin" sem er kannski orðin þreytt en það er bara stundum nóg að gera í 50 stunda vinnuviku, ein tæplega þriggja ára og heimilishald.

Hafið það annars gott um helgina:)

laugardagur, janúar 23, 2010

London...
Dásamleg ferð í alla staði, flottasta hótel í heimi, frábær ráðstefna og búðirnar teknar með trompi:) Þrjár flíkur hvað...

Fyrstu H&M pokarnir að detta í hús

Smart-board - gæfi handlegg fyrir eina slíka í stofu 17

Full English breakfast, ég veit ég er sveitt í framan, það var drulluheitt þarna og síðan hef ég verið ferskari en var alveg nývöknuð!

Komnar í okkar fínasta og leið á franskan veitingastað

Það þurfti mikið skipulag til að koma öllu dótinu heim og sumir "hummnefnienginnöfn" þurftu að fá sér aukatösku

Mojito á líbönskum stað og já það var þema hjá mér að vera sveitt á myndum:)

Snilldarferð í alla staði en erfitt að mæta beint í kennslu á mánudeginum og Áran búin að vera veik alla vikuna, komin með sýkingu í lungun, það er svona hefðbundið janúardæmi hjá okkur:) Hún er samt öll að hressast og stefnir ótrauð á leikskólann á mánudaginn.
mánudagur, janúar 11, 2010

London calling...

Það virðist vera orðinn "árlegur viðburður annað hvert ár" að skella sér til London í janúar. Fyrir tveimur árum skelltum við Andri okkur í kærustuparaferð í kjölfarið á nýsamþykktu kauptilboði okkar í Laugarnesveginn. Eyddum nú ekki miklum pening af hræðslu við þessa stóru ákvörðun okkar að kaupa íbúð en áttum í staðinn mjög svo huggulega ánbúðarápsferð (samt í pundinu 122 kr.ísl):)

Núna er eina von mín til að komast í ferð til London sjálfur Vonarsjóður Kennarasambands Íslands sem styrkir einstakling á tveggja ára fresti um 140.000 kr. í námferðir, nám og annað slíkt. Ferðinni er heitið á BETT sýninguna í samfloti við 12 aðra kennara úr mínum skóla og í ljósi þess að ég er nýkomin með skjávarpa í stofuna mína er ekki seinna vænna að kynna sér öll helstu trikkin í kennslu gegnum tæknina!

Það vildi svo til að Iceland express þurfti að fella niður flugið okkar og þar af leiðandi "neyddumst" við til að fara degi fyrr. Fyrstu nóttina verður við á þessu hóteli og næstu þrjár á þessu. Mér skilst að það sé kuldi í Bretlandi, ekki einungis í garð okkar Íslendinga heldur líka svona almennur kuldi og snjór og því verða hlýju fötin tekin með og flíssloppurinn minn svona ef maður dettur í Spa-ið á hótelinu;)

Annars ætla ég að eyða sem minnstu, Ára á feykinóg af fötum en óskar sjálf eftir Dóru sokkum, buxum og bol og vonandi get ég orðið við þeirri ósk. Kaupi líka örugglega nærföt og sokka á hana. Ætla leyfa mér þrjár flíkur á skikkanlegu verði (það hlýtur að vera hægt - pundið komið í 199 kr. ísl) en bara ef ég finn eitthvað sem ég verð að fá, tek tæknina okkar Sóleyjar á þetta.

Annars er þetta rugl með pundið, fór með 15.000 kall í bankann í dag og fékk skitin 75 pund fyrir!

En svona ferð lyftir svo sannarlega janúarmánuði upp um nokkrar hæðir - því er ekki hægt að neita.

miðvikudagur, janúar 06, 2010

Dagbækur...

Sem mikill aðdáandi dagbóka þarf ég alltaf að byrja árið á einni slíkri. Ég hef velt fyrir mér formi, stærðum, línum, gormum, kostum og göllum dagbóka síðan ég var ca. 12-13 ára en þá bjuggum við Auður Agla alltaf til okkar eigin bækur því við vorum svo smámunasamar um hvernig við vildum hafa þær. Ég á síðan bækur frá öllum þessum árum í kassa og hef það aldrei í mér að henda þeim.

Í fyrra komst ég í kynni við þá beztu sem ég hef fundið hingað til - dagbók Íslandsbanka eða Glitnis (man ekki hvort það var búið að breyta). Þessi dagbók er í A5 broti, jafnvel örlítið stærra, er búin til úr endurunnum pappír og prentuð á Ítalíu. Hún inniheldur hverja viku á einni opnu, auka línur fyrir neðan til að skrifa punkta, yfirlitsdagatal í upphafi, minnisblöð í lokin, er í kápu en samt með gormum. Sem sagt í einu orði - fullkomin!

Nú fyrir jólin fór ég að sjálfsögðu að huga að bókinni fyrir 2010, hringdi símtöl í bankann til að kanna hvort hún væri komin, gerði mér ferð milli jóla og nýárs til að ná í mitt eintak en allt kom fyrir ekki, bókin skilaði sér ekki fyrir áramót og mín gamla bara til 3. jan! Ó mæ god terror fyrir dagbókarfólk sem skrifar fram í tímann. Til allrar hamingju var hún komin í gær og þjónustufulltrúinn minn svo almennilegur að láta mig fá eitt eintak því eftir því sem ég bezt veit er legið á þessu eins og gulli enda eðalbækur og ekki ódýrar í framleiðslu. Þið getið því rétt ímyndað ykkur spenninginn og tilhlökkunina þegar ég byrjaði að krota inn í hana í gær, afmælisdaga, hittinga, London ferð og þar fram eftir götunum.

En hvað haldiði að hafi legið á borðinu þegar ég kom heim úr vinnunni - Splunkuný rauð dagbók með gull áletrun á þar sem stóð Andri Fannar Ottósson, ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum! Þá hafði hann fengið þetta frá vinnunni sinni takk fyrir, bókin hefur allt sem mín bók hefur að bera að undanskildum gormunum sem gera sko gæfumuninn því þá getur maður lagt hana frá sér í brotinu sem er ekki hægt með Andra bók en gulláletrunina gæfi ég nú mikið fyrir, segi nú ekki annað!

Lifi dagbókin!

laugardagur, janúar 02, 2010

ÁramótaannállGleðilegt nýtt ár kæru vinir! Við fögnum alltaf samvistarafmæli okkar á sama tíma og ár mætast og nú eru komin hvorki meira né minna en 10 ár, sem er vonandi bara dropi í hafið miðað við það sem koma skal:)

Á árinu 2009 stendur brúðkaupið okkar þann 6. júní að sjálfsögðu upp úr, ásamt fermingu og útskrift systra minna. Við fórum líka í frábæra ferð til Svíþjóðar og Ítalíu og eyddum rúmum tveimur vikum með yndislegum vinum okkar. Bústaðaferðir, leikhúsferðir, afmæli, Klofi Annan og fleira skemmtilegt stendur líka upp úr ásamt fæðingu nokkurra barna í vinahópnum. Dóttir okkar sem verður þriggja ára næstkomandi mars hélt líka áfram að bræða hjörtu marga og er alveg einstaklega dugleg og skemmtileg að okkar mati sem er að sjálfsögðu alveg hlutlaust mat:)
Svipleg fráföll afa Eggers og Óskars settu að sjálfsögðu sinn svip á árið en lífið gefið og lífið tekur, þannig er það nú bara.


Við erum ótrúlega þakklát fyrir að eiga yndislega og góða fjölskyldu og vini, vera heilsuhraust og hafa góða vinnu.

Hér að neðan má sjá árið í myndum sem segja auðvitað allt sem segja þarf og lesandi góður ef þú sérð þig jú eða þína á mynd, viltu vera svo vænn að kvitta fyrir í tjáðu þig. Það gleður:)

Janúar