þriðjudagur, desember 29, 2009



Jólajól....

Jólin hafa verið dásamleg í alla staði og við LA-fam þökkum öllum kærlega fyrir okkur. Gjafir heimasætunnar hlupu á nokkrum tugum og spenningurinn eftir því. Hún er búin að átta sig á því út á hvað þetta gengur og opnaði gjafir eins og enginn væri morgundagurinn!


Rut, Ottó og Malla borðuðu með okkur og Grunnararnir komu svo í ísinn. Ég, Andri, Harpa og Svava fórum síðan í miðnæturmessuna í Fríkirkjunni sem er algjörlega ómissandi á kvöldi sem þessu.

Jóladagur og annar í jólum fóru í afslappelsi og skemmtileg jólaboð og hitting okkar LA stúlkna.


Myndir eru í óðaönn að hlaðast inn á myndasíðuna:)

Árámótaannállinn verður á sínum stað enda afar viðburðaríkt ár með fermingu, útskrift og brúðkaupi hjá okkur systrum. Verður erfitt að toppa 2009, að minnsta kosti hvað varðar veisluhöld.

miðvikudagur, desember 23, 2009

Þorlákur...

Ansi viðburðaríkur dagur hjá okkur mæðgum, hófst með heimsókn til langalöngu Ágústu, ferð upp í dansskóla til að horfa á paso tíma, viðkoma á Þjóðminjasafninu til að berja Ketkrók augum, hádegisstopp hjá Auði og drengjunum dýrlegu og svo að sækja AFO í vinnuna.

Þegar heim var komið bjó eiginmaðurinn til heitt súkkulaði og við gæddum okkur á flatkökum og hangikjöti, tókum smá tiltekt, settum jóladúkinn á borðið og tókum af rúmum. Ég og Ára fórum út í garð og tíndum allt ruslið og frusum næstum í hel á meðan, þökk sé nýju úlpunni minni að ég varð ekki úti!

Enduðum síðan á árlegum sið - Hamborgarabúllunni með Gumma frænda og Haffa frænda þar sem við gúffuðum í okkur góðum borgurum - skata hvað?


Núna er einkadóttirin sofnuð, bóndinn í bænum að redda síðustu gjöfinni *blikk blikk*, ég búin að kveikja á kertum, bara eftir að setja hreint á rúmið og síðan mun ég leggjast upp í og halda áfram með Larsoninn - tæpar 400 síður komnar og ég rétt rúmlega hálfnum!


Búllustemning
Áran hress með sinn burger


sunnudagur, desember 20, 2009

Nýjar myndir www.123.is/agustarut í desember

Meðal annars frá herrakvöldi AFO, piparkökubakstri, sörubakstri, jólaballi, piparkökuskreytingum og fleiru - þigg kvitt í gestabók:)

Annars jólastemningin í hávegum höfð hérna á Laugarnesveginum, við þrjú komin á ról, búin að skreyta jólatréð og búið að bóna dúkinn. Ekkert sérstakt sem á eftir að gera næstu daga nema kaupa aðeins inn í matinn, annars bara afslöppun og notalegheit.

:)

fimmtudagur, desember 17, 2009

Hún er búin að fatta þetta!

Það tók ekki nema þrjá daga fyrir Áru að átta sig á því að það kæmi gjöf í skóinn á hverjum degi og núna þurfum við ekkert að minna hana á þetta eins og fyrstu dagana, núna er bara rise and shine 6:30 (jú var betra þegar hún fattaði ekki og svaf lengur:)) og tjékkað í skóinn.

Í morgun rauk hún fram og kallaði "Ég er búin að fá!" Við svöruðum mjög svo svefndrukkin hvort hún vildi ekki koma til okkar og sýna en það stóð ekki á svörunum: "Neibb ekki þarna inni í dimmunni!" Ætlaði sko að ná foreldrum sínum fram! Síðan lét hún nú eftir og kom og kveikti ljósið og sýndi okkur en þolinmæði um að fá pabba sinn fram var nú ekki meiri en svo að hún sagði: "hey pabbi komdu, ég nenni þessu sko ekki!" Við vitum bæði upp á okkur sökina að þetta er eittthvað sem við segjum bæði þegar hún hlýðir okkur ekki:)

þriðjudagur, desember 15, 2009

Ég á það til að vera óttalegur hrakfallabálkur...

eins og í morgun, þegar ég fór í þriðjudagshlaupið 6:45. Ég var í virkilega góðum gír þrátt fyrir aðeins fimm og hálfs tíma svefn því ég er komin í svo mikið jólajóla og vaki lengi. En til að gera langt hlaup stutt þá var ég komin á Laugarásveginn og búin með rúma fimm km og því aðeins tæpur km til stefnu, ég var í fíling með unglingapopp í eyrunum og á góðri ferð. Þá sé ég konu í fjarska með stóran svartan hund sér við hlið, eins og flestir vita er mér illa við dýr og sérlega við ókunna hunda svo ég hugsa með mér að það sé nú best að fara rétt út á götuna þegar ég mæti þeim.

Sú snilldarhugmynd mín endar nú ekki betur en svo að ég ligg í götunni eftir að hafa flækst í svörtu járni sem einhver hafði hent á götuna og ég festi báða fætur í og lendi illa á olnboganum og mjöðminni ásamt því fá blæðandi sár á báðum hnjám! Já ég veit snillingur! Ég stend upp og harka þetta af mér en með ansi ljótt sár á mjöðminni og frekar illt í hendinni. Ég sé skólastjórann nálgast mig úr fjarska og hugsa hvað það sé mikil synd að þurfa að labba tilbaka en síðan kom keppnisskapið yfir mig og ég hugsaði með mér að ég færi nú ekki að láta hann fara á undan mér svo ég klára hlaupið samferða honum í heldur miklu adrenalínkasti!

Hefði nú kannski betur sleppt því, því þegar heim var komið leit þetta illa út, peysan mín hafði líka rifnað og AFO átti ekki orð yfir þessu, heimilið átti enga plástra nema Dora Explorer svo ég hélt til vinnu með Dóru á hnjám, mjöðm og olnboga. Sem betur fer var Lilja hjúkrunarfræðingur við svo ég fékk góða meðhöndlun og er nú vel grisjum á fjórum stöðum. Verkurinn í hendinni fór síðan versnandi með deginum en Sía bjargaði því með íbúfeni því við máttum ekki láta deigan síga vegna Sörubakstur sem við höfðum planað.

Ég var smá súkkulaði til að byrja með enda með fulla örorku en Sía kepptist við að blanda kremið og þeyta eggjahvítur og rauður og þá hófst eiginlega vinnudagur nr. tvö því við kepptumst við í Sörubakstri frá fimm til að ganga ellefu og enduðum að ég held með yfir 200 sörur! Ég á tvöföldum íbúfen á fjögurra tíma fresti og Sía í kaffinu en þetta gekk vel og við erum nú þegar búnar að skipuleggja bakstur fyrir næstu jól:) Takk fyrir frábært kvöld Sía og þó þú haldir annað þá kann ég alveg að baka:)

Það er samt nokkuð ljóst eftir daginn að ég er hvorki að fara að bera fótleggi mína né handleggi þessi jólin og þarf klárlega að finna mér eitthvað nýtt dress sem hylur mig alla!

Myndir af bakstri og fleiru koma inn á morgun.

mánudagur, desember 14, 2009

Fyrsta lifandi tréð okkar er komið út á svalir...

Völdum okkur ljómandi fínt tré í gær og núna klæjar mig í fingurna að fara að setja það upp en þarf að bíða fram á næsta sunnudag en þá verður búið að bóna dúkinn okkar og svona, haldiði að það verði huggulegt á Laugarnesveginum, nýbónað gólf og lifandi stórt tré:)

Niðurtalning í jólafrí er sko hafin og núna eru ekki nema fjórir vinnudagar eftir, fjórir easy vinnudagar, kaffihúsaferð, félagsvist og litlu jól. Það held ég nú!

Ég hef sjaldan verið í jafnmiklum jólaspenning og hlakka ótrúlega mikið til að vera fyrstu jólin heima hjá okkur.

föstudagur, desember 11, 2009

Ég held að dóttir okkar sé ekki alveg að fatta "conceptið" jólasveinn...

í dag sagðist hún vilja flatköku í skóinn og rétt í þessu vildi hún kartöflu. Núna er búið að stilla gamla skónum sem ungfrú móðir bjó til á leikskóla fyrir ca. 25 árum úti í stofuglugga. Ára vill nefnilega ekki hafa hann inni hjá sér:)

Verður spennandi að sjá þegar hún sér Snuðru og Tuðru bókina frá Stekkjastaur í fyrramálið!

fimmtudagur, desember 10, 2009


Það voru nú heldur betur stoltir foreldrar...(varist að lesa ef þið eruð viðkvæm fyrir grobbi)


sem gengu út úr Heilsugæslunni í Glæsibæ í dag. Einkadóttir þeirra hafði nýlokið við tveggja og hálfs árs skoðun og kom svona líka glimrandi vel út og skoraði fullt hún stiga. Við vissum auðvitað að hún væri klár stelpuskottan en ekki snillingur! DJÓK


En að öllu gamni slepptu þá stóð hún sig alveg ferlega vel og undirrituð fékk tár í augun þegar kjaftaði af henni hver tuskan við hjúkkuna þegar hún var að teikna mynd af sér að róla og hún var í rólunni og mamma og pabbi voru fyrir aftan að ýta og svo bætti hún við rigningu og prinsessurúminu, sænginni og lakinu sínu. Gerði síðan frekar bjagaðan tölustaf nr. 2 og sagði að hún væri tveggja ára:)


Þekkti alla litina og gat bara gert allt sem hún var beðin um:) Fyndnast fannst mér þegar hún átti að segja eins og hjúkkan: "Við drekkum mjólk" Áran mín enginn mjólkuþambari og svaraði um hæl: "Ég drekk djús!"


Ég leyfi mér að taka eitt svona montkast í þetta sinnið enda yfir mig ánægð með litlu skottuna mína...

mánudagur, desember 07, 2009

Að vera búin með allt...

Ég ákvað að vera heima í dag til að gulltryggja mig að streptó vinir mínir yrðu endanlega farnir á morgun. Ég held að það hafi verið nokkuð skynsamleg ákvörðun hjá mér, ég að tala stanslaust frá 8-14:30 hefði verið frekar óskynsamlegt, breytir því samt ekki að samviskubitið hleðst upp hjá manni en svoleiðis er það nú bara einu sinni. Nú vona ég bara að dóttir og bóndi hafi ekki smitast af mér enda óendanlega leiðinlegir þessir streptókokkar. Pensilínátið gengur vonum framar og gerlarnir A og B fá að fljóta með hverri pillu.

En að jólaundirbúningi, ég held að hver einasta kona þekki þá tilfinningu að vilja vera búin með allt og þá helst í gær. Ég er alltaf að reyna að venja mig af þessu að vilja klára allt til að eiga ekkert eftir, held ég hafi erft þetta frá tengdamóður minni sem er snillingur í að KLÁRA! Núna er hún t.d. búin að pakka öllu inn og skreyta jólatréð, geri aðrir betur. Ég byrjaði að pakka inn nokkrum gjöfum áðan, bara svona til að byrja og þá kom þessi tilfinning yfir mig að ég yrði bara að klára að pakka öllu inn sem ég er búin að kaupa en sem betur fer var límbandið búið og þess vegna gat ég ekki klárað. Ég verð að venja mig á að njóta "mómentanna" meira. Það verður áramótaheitið í ár.

Annars er ekkert stress á þessu heimili fyrir jólin, allar gjafir úthugsaðar og ekkert stress með það. Jólamaturinn er klár og ég get ekki beðið eftir að halda fyrstu jólin okkar hérna á Laugarnesveginum, með lifandi tré og öllu sem því fylgir. Jólakortin eru komin úr prentun en fjöldinn slær öll met í ár, sökum brúðkaupsins að sjálfsögðu. Aldrei þessu vant er húsbóndinn með langan jólagjafalista svo hann verður ekki vandamál þetta árið.

Vikan er þéttskipuð enda lítið sem komst í verk um helgina. Á morgun ætlar Álfurinn og Eldur að koma og baka piparkökur með okkur Áru og það verður eflaust brjáluð stemning ef ég þekki okkur rétt.

Fyrir streptó hafði ég hugsað mér að fara í Powerade hlaupið á fimmtudagskvöldið en ég er svona enn að melta það, þetta eru 10 km og ég myndi vilja vera betur æfð en ég læt þetta ráðast.

AFO fór á Jiu Jitsu æfingu og ætlaði síðan að koma færandi hendi með ís og detta beint í So You Think You Can Dance með mér:)

Æj hvað mér finnst bloggið mitt alltaf notalegt.

sunnudagur, desember 06, 2009


Og viti menn, við eigum hálfs árs brúðkaupsafmæli í dag - til hamingju við:)

Alltaf hægt að finna tilefni til að fagna.

Gullkorn litlu konunnar...

Við erum alltof ódugleg að skrá niður gullkornin sem vella upp úr dóttur okkar þessa dagana. Hún kemur sífellt með einhverjar skemmtilegar pælingar og mjög oft ansi fyndnar.

Þessi helgi fór í strepókokka hjá mér en núna er pensilínið að byrja að kikka inn og verkirnir aðeins að mýkjast. Andri var því með dömuna í fullu prógrammi í gær sem endaði á sundferð þar sem Ára spurði pabba sinn í klefanum hvort hann hefði verið að kúka með typpinu sínu! Hún spurði það hátt að næsti maður snéri sér við og sagði að þetta væri ansi góð pæling hjá henni!

Síðan skreið hún upp í til okkar í morgun til að kúra aðeins, ég stökk aðeins fram og á meðan hvíslaði hún að pabba sínum: "Pabbi, þú ert góður kall!" Krúttið sem hún er þessi elska.

föstudagur, desember 04, 2009

Mig langar í þrennt í jólagjöf...

  • Púlsmæli með GPS
  • 66 norður úlpu
  • Nýja myndavél

Alveg verst hvað þetta eru helvíti dýrir hlutir. Þarf greinilega að hugsa gjafalistann upp á nýtt!

Annars var ég heima í dag, eitthvað slen í mér og ég fattaði að ég hef verið að sleppa C-vítamíninu undanfarið, þar kemur skýringin á hálsbólgunni.

Vona að ég hristi þetta af mér fyrir morgundaginn, langar eitthvað svo óskaplega mikið að gera eitthvað afslappandi og skemmtilegt um helgina. Jafnvel klára jólagjafainnkaup fyrir systur mínar.

sunnudagur, nóvember 29, 2009

"Fyrsti í aðventu"

Við eyddum helginni með þessu dásamlega fólki í bústað á Flúðum. Þar gerðu konur, menn og dætur vel við sig í mat og drykk, ásamt því að slaka vel á og nýta hverja mínútu til hvíldar og svefns! Ferðin bar þess þó merki að með í för voru tvær orkumiklar stúlkur og þar af leiðandi fóru allir snemma að sofa og síðan að sjálfsögðu snemma á fætur. Á meðfylgjandi mynd er verið að nýta síðustu afganga af öllu matarkyns sem var m.a síld í sinnepssópu, roast beaf salat, nautalund með soyasósu, wasabi og engifer, ostar, vínber og jólaöl. Þetta er lífið krakkar mínir:)


Þegar heim kom tók við afar "óaðventulegt heimili" og engin brjálæðisleg stemning til að fara að græja það eftir að búið var að ganga frá öllu ferðadótinu en með sameiginlegu átaki okkar hjóna (og mömmu með því að gefa seríuna) og auðvitað splunkunýrri verkfæratösku sem hefur að geyma allt sem þarf til að festa upp meðfylgjandi seríu er heimilið okkar orðið afar jólalegt og búið að kveikja á fyrsta kerti aðventunnar. Að loknu verki skáluðum við í einum jólatuborg - minna má það nú varla vera. Fleiri bústaðamyndir á morgun! Aðíós.




sunnudagur, nóvember 15, 2009



Er ekki kominn tími á myndir! Það held ég nú, restin af október komin inn og fleiri nóvember bíða. Nokkrar af skötuhjúunum hér til hliðar en þau eru nú meiri krúttin.

Allir hressir hér á bæ og heilmikil tilhlökkun komin fyrir jólunum og öllu því stússi sem þeim fylgir. Við ætlum að halda fyrstu jólin okkar hérna á Laugarnesveginum sem verður yndislegt. Don Ruth og Lottó borða með okkur og svo kíkja Grunnararnir örugglega seinna um kvöldið.

Svínaflensusprauta á alla familíuna á miðvikudaginn svo það sé nú komið fyrir hátíðirnar.

Annars bara notaleg heit á góðum sunnudegi með Cocoa Puffs og góða bók.

Aðíós

fimmtudagur, október 29, 2009

McDonalds!

Sem mikill aðdáandi og jafnvel fyrir ostborgarans sakir varð nafnið skyndilinda til þá kemur mér á óvart hvað ég græt það lítið að keðjan sé að hætta, maður heyrir af fólki sem ætlar að taka kveðjumáltíð og fréttir af röðum eftir öllu bílastæðinu. Ætli maður verði ekki að skella sér allaveganna á einn ostborgara og flurry á morgun.

miðvikudagur, október 28, 2009

Í Laugarnesinu er bezt að búa!

Ég fer fótgangandi í vinnuna og Ágústa Rut er í leikskóla í 2 mín göngufæri við mig. Eftir vinnu í dag gat ég svo rölt í fiskbúðina og keypt góðan fisk, komið við í Frú Laugu og keypt nýuppteknar íslenskar afurðir og frosið hakk fyrir morgundaginn, svo ég tali nú ekki um að koma við í bakarí-inu og kaupa kúmenbrauð á tilboði.

Nú ef ég hefði verið í stuði hefði ég líka getað kippt einu rósabúnti úr blómabúðinni sem er við hliðina á bakaríinu og látið klippa á mig topp í leiðinni á hárgreiðslustofunni.

Á morgun skokka ég síðan út í sundlaug og fær frítt inn sem starfsmaður Reykjavíkurborgar og hleyp frítt um fallega Laugardalinn.

Allt þetta án þess að nota bílinn! Og ég spyr: er hægt að biðja um það betra?

Lifi LA

Væri auðvitað bezt bezt bezt ef við myndum losna við %$&$%&% 10-11 búðina við Laugalæk og fá einhvern góðan kaupmann á horninu en það kemur!

þriðjudagur, október 27, 2009

Matur í vetrarleyfi...

Föstudagur: Sláturveisla í Jónsgeisla með sviðasultu og öllu saman

Laugardagur: Kjötsúpa með Álfi og co.

Sunnudagur: Kjötsúpa með STÓRFamilinski

Mánudagur: Sviðakjammaveisla á Grunninum

Þriðjudagur: Eldsmiðjutilboð

Þjóðlegt en í senn nútímalegt - þannig á það að vera:)

...og nú byrja ég að telja niður í jólafrí
Hlaup

Síðan 8. september höfum við nokkur í vinnunni hlaupið tvisvar í viku, við hittumst 6:45 við Laugardalslaug og leggjum af stað saman og síðan fer bara hver og einn á sínum hraða. Við hlaupum alltaf tæplega 6 km en lengra náum við ekki nema við færum að mæta fyrr. Þetta er ótrúlega hvetjandi kerfi, bæði upp á að mæta á staðinn, maður veit af hinum sem mæta og rífur sig þá frekar upp og síðan er gott að hafa fleiri í kringum sig að hlaupa upp á keppni og hraða eða það svínvirkar í það minnsta fyrir keppnismanneskju eins og mig! Skólastjórinn hefur staðið sig best mætingalega séð hingað til og ekki misst úr skipti.

Það sem mig bráðvantar núna er hins vegar púlsmælir með innbyggðu GPS en slíka græju ætlar hann Atli frændi minn að redda mér að utan á spottprís. Í dag t.d ákváðum við að hlaupa í 60 mín eins langt og við gætum. Með græjunni hefði þetta verið snilld, ég hefði getað sett upp prógram um það hvernig ég myndi vilja hlaupa þetta og hversu langt og svo myndi ég bara fylgjast með en í staðinn var ég með úrið mitt og bara ca. þetta út - ekki eins spennnandi en virkaði ágætlega.

Ég hlakka til að fá græjuna í hendur

mánudagur, október 26, 2009

Nú er aðeins einn dagur eftir af vetrarleyfinu...

og to do listinn sem ég var búin að búa til í huganum hefur ekkert minnkað. Kannski setur maður sér alltaf of há markmið fyrir svona vetrarleyfi, ég sá t.d. fyrir mér að ég myndi bera fullt af bókum niður í geymslu og breyta og betrumbæta aðeins í skenknum í stofunni, eins sá ég fyrir mér að taka fataskápinn okkar Andra í nefið, skrúbba veggi í eldhúsinu og sótthreinsa íbúðina. Einnig ætlaði ég að fara yfir próf og verkefni til að eiga það ekki eftir eftir vetrarleyfi en ég er búin með einn bekk og það hefur lítið sést af þessum sótthreinsunum!

Í staðinn er ég samt búin að gera ótrúlega margt skemmtilegt eins og að hitta góða vini, slappa af og sofa ótrúlega mikið og vel. Og versla barnaföt, það virðist vera einhver árátta þessa dagana en nú segi ég stopp, barnið á feikinóg af fötum sem sannaðist best í vor þegar ég þvoði lítið sem ekkert í þrjár vikur (út af undirbúning v/brúðkaupsins) og alltaf átti hún spjör til að fara í.

Síðan er Áran okkar orðin svo mikil kúrurófa, allaveganna þessa helgina, kemur til okkar á morgnana og vill kúra lengi og við vonum auðvitað að þetta sé eitthvað sem koma skal.

Í kvöld er hins vegar kjammaveisla á Grunninum og ég er komin með vatn í munninn - namminamm

föstudagur, október 23, 2009

Mögnuð gjöf var að berast okkur LA-búum...

30 hluta verkfærakassi en hérna á heimilinu hefur ekki verið til svo mikið sem eitt skrúfjárn! Þannig að alltaf þegar eitthvað er að er hringt í pabba eða Lottó og þeir koma með "kittin" sín og græja hlutina. Afar hentugt að fá alltaf handlagna menn í málið en nauðsynlegt að geta græjað þetta stundum án aðstoðar en það var að sjálfsögðu hann faðir minn sem færði okkur kóssið og á miklar þakkir skilið:) Andri er hæstánægður með þetta og er að prófa að setja allskyns skrúfur og dót saman.

Aldeilis góð byrjun á vetrarleyfi!

Þrammaði í nokkrar búðir með henni tengdamóður minni í dag, við saman erum hættulegt combó þegar kemur að verslun og mikið er ég fegin að Kammakarlo búðin er lengst í burtu, annars væri buddan ansi mikið léttari og létt er hún.
Vetrarleyfi...

eru afar kærkomin og ég dýrka þau. Kannski ekki jafnhentug fyrir alla en frábær fyrir kennara eins og mig. Fimm dagar (með helginni) til að hlaða batteríin og gíra sig upp fyrir seinni helminginn fram að jólum. Það eru samt engin sérstök plön fyrir dagana enda Andri ekki í fríi en samt sem áður er margt á döfinni eins og nudd, litun og plokkun, kjötsúpuboð, matarboð og fleira skemmtilegt.

Verst að ég þjáist af afar mikilli ljótu þessa dagana, búin að vera spurð oftar en einu sinni að því hvort ég sé eitthvað veik, svo föl í framan og síðan hvort ég sé með einhvern vítamínskort því hárlosið þekur bakið mitt (ég veit Sóley hvað þú hugsar) en það er samt ekkert að mér, bara skammdegisljóta sem verður hresst upp á í dag með nuddi og lit og plokk. Hélt að ég myndi brjálast úr gleði í gærkvöldi yfir fríinu en ég gerði það einhvern veginn ekki, fór bara fáránlega snemma að sofa enda einhver uppsöfnuð þreyta í mér. Síðustu 9 vikur hafa nefnilega einkennst af aukavinnu hverja einustu viku, alltaf eitthvað auka sem ætti öllu jafna ekki að vera þannig að þessi vika var sú fyrsta síðan 17. ágúst með eðlilegu vikuprógrammi og þá verður maður oft bara fjandi þreyttur. En úr því verður bætt með góðum svefni og afslöppun um helgina.

Mér finnst svo leiðinlegt að vanrækja bloggið, hef í rauninni mun meira gaman að því en facebook, elska að lesa gamlar færslur og skoða hvernig maður breytist í gegnum skrifin. Ég tími bara ekki að sleppa hendinni af því.

Fleiri myndir hafa síðan bæst í október albúm á síðunni hennar Áru kláru. Muna eftir gestabókinni!

Góða helgi!

föstudagur, október 09, 2009

Ég ætla að eyða helginni með eiginmanninum í Skálholti...

þegja og tæma hugann, mikið held ég að það verði notalegt, enginn sími, ekkert net, engin vinna, enginn þvottur, engin eldamennska og ekkert bögg heila helgi! Nauðsynlegt hverjum manni.

Þegar heim verður komið LOFA ég bloggfréttum og myndum fyrir myndaþyrsta aðdáendur.

Hafið það gott um helgina.

þriðjudagur, september 22, 2009

Markvert og ekki svo markvert...

Undanfarin þrjú kvöld höfum við AFO eldað þrjá góða rétti úr bókinni "Eldað í dagsins önn" -fljótlegir og hollir heimilisréttir. Fyrst ber að nefna Indverskan grænmetis- og lambakjötsrétt að viðbættum "smá" cayanne pipar frá AFO sem gerði hann ansi sterkan og góðan fyrir hverskyns kvefdrullu. Tengdaforeldar mínir komu í mat og kunnu vel að meta.

Í gær var það síðan kjúklingabaunaréttur, dásamlegur og hollur og það er mjög sjaldgæft að ég beikon-bomban kunni að meta slíka rétti.

Í kvöld var það spergilkálssúpa og kartöflur í ofni með hvítlauk og engiferrót. Hollt og gott og nauðsynlegt að fá sér góða súpu þegar kólnar í veðri.

Á morgun ætla ég að demba mér í "Fljúgandi Jakob" en í honum eru 5 beikon sneiðar og fæ ég þá þeirri þörf aðeins svalað;)

Mæli með bókinni, ég er ekki frá því að það verði bara skemmtilegt að elda með þessar uppskriftir, í það minnsta fyrir svona húsmæður eins og mig sem eru með 10 þumalfingur þegar kemur að eldamennsku!

Flensan í síðustu viku var heldur leiðinleg verð ég að segja, fékk hita í 6 daga og þurfti svo alveg góðan tíma til að jafna mig en er stálslegin í dag. Hef fengið ca. 5000 fyrirspurnir um hvort að þetta hafi verið svínaflensan en ég er lítið í að sjúkdómsgreina sjálfa mig og get því engu svarað - líkur á því samt tiltölulega háar.

Í dag eignaðist ég svo nýjan "vinkonuson" hennar Auðar Öglu og hans Eyfa. Myndarpiltur, ekki nema 19,5 merkur og því engin smásmíði, fæðist bara 3 mánaða og gott betur. Nú hef ég ekki fætt barn gegnum fæðingaveginn en ég geti svona ímyndað mér að þetta hafi verið smá átök!

Bið ykkur svo bara að lifa heil og ég ætla ekki að láta þetta blogg mitt drabbast niður en svona er þetta bara stundum.

sunnudagur, ágúst 30, 2009


Ágústa Rut Andradóttir

Snillingurinn okkar hún Ára er byrjuð á Laugaborg og er alveg hæstánægð - við vorum alltaf ánægð með Ægisborgina en hún er einhvern veginn bara í skýjunum að vera komin í hverfið sitt og við hliðina á vinnunni minni. Á hverjum degi hleypur hún á móti manni og segir að það hafi verið rosa gaman á leikskólanum. Það sem hjálpar henni líka mikið er að Fransiska nágranninn okkar hérna á 3. hæðinni var líka að byrja en hún er 4 ára og þær leika mikið saman í útivistinni og eru sko beztu vinkonur. Fransiska sagði mömmu sinni um daginn að hún og Ágústa ætluðu sko að giftast!

Þessa dagana eru miklar pælingar í gangi í tengslum við stelpur og stráka. Hún segir ósjaldan að strákar séu með typpi en stelpur "bullu" (við vitum ekki hvaðan nafnið bulla kemur en leyfum henni bara að kalla þetta bullu) Um daginn sagði hún síðan við pabba sinn: "Þegar þú varst lítill pabbi þá varstu bara með pííííínulítið typpi" jahá gott að vera með það á hreinu. Í hvert skipti sem við förum í sund segir hún mér líka alltaf að pabbi sé með typpi en við tvær með bullu. Síðan heyrist alltaf þegar við erum tvær einhvers staðar: "Bara við tvær stelpurnar" og það þykir soldið sport:) Hún virðist líka halda að maður verði strákur með aldrinum því hún segir stundum við Andra að þegar hún verði stór þá muni hún kunna að vera með typpi!

Bleyjuleysið gengur súpervel og mér hafði ekki órað fyrir að þetta gæti gengið svona vel. Ekkert slys á leikskólanum og rosa dugleg að segja til. Komu að vísu nokkrir dagar þar sem hún neitaði að gera nr. 2 og hljóp um allt og herpti rasskinnarnar á sér saman en síðan kom þetta allt saman þegar amma Rut stakk upp á því að láta hana blása í blöðru á klósettinu og stundum fær hún blöðru þegar illa gengur;)

Við erum bara svo ofsalega stolt af þessari litlu veru sem lyftir lífinu á hærra plan með hverjum deginum sem líður.

ps. massavís af myndum á myndasíðunni og muna að kvitta fyrir innlit - það gleður ennþá

laugardagur, ágúst 29, 2009

Reykjavíkurmaraþonið 2009

Í ár var ég staðráðin í að hlaupa 10 km og á góðum tíma. Í vor þegar ég byrjaði að huga að þessu hugsaði ég með mér að nú væri alveg málið að æfa þrusuvel fyrir þetta og ná góðum tíma. Síðan líður bara alltaf sumarið og maður rétt dettur 2-3 í hlaup og svo er alltaf bara komið að þessu.

Hins vegar var ég búin að kenna aðeins í Hreyfingu í ágúst og taka nokkra hjólatíma og pump sem hjálpar alltaf til. Andri hafði lofað að hlaupa með mér til að ég næði betri tíma en svo var hann auðvitað með þessa fáránlegu afsökun að hann væri í gifsi;) Það sem bjargaði síðan öllu voru hérarnir sem hlupu með blöðrur merktar 40-45-50 o.s.frv. Ég stefndi á 50 mín en fannst alls ekki raunhæft að ég næði þessu undir 53. Kvöldið áður útbjó ég trylltan playlista sem spilaði stórt hlutverk og síðan fylgdi ég 50 blöðrunni og hún kom mér í gegnum síðustu 3 km þannig ég næði þessu undir 50 og var lokaniðurstaðan 49:21, miðað við flöguna. Þrusuánægð með þetta og líka að ég var loksins fyrsta systirin eftir nokkurra ára pásu;) Hinar tvær stóðu sig ekki síður vel og voru rétt á eftir mér. Mamma sló síðan öll met þegar hún hljóp 3 km undir 15 min en mamma byrjaði bara að hlaupa í sumar - algjör snillingur og hún kom svo hratt í mark að við náðum henni ekki einu sinni á mynd!






þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Jæja kæru vinir...

það er mikið að maður lætur sjá sig hérna á síðunni! Ég hef bara verið einstaklega upptekin og ekkert gefið mér mikinn tíma í tölvuhangs sem skýrir almennt mynda- og bloggleysi. Haustið er að byrja og það er minn tími, skólinn kominn af stað, Hreyfing að komast í gang en ég hef verið að leysa aðeins af undanfarnar þrjá vikur og alveg ljómandi skemmtilegt að fara að kenna aftur.

Í vetur verð ég síðan með freestyle fyrir 8-10 og 10-13 ára í Dansskóla Ragnars og hvet ykkur auðvitað til að skrá börn sem eru á þessum aldri og á ykkar snærum;) Og auðvitað ef þið viljið loksins láta drauminn rætast þá eru frábærir byrjendahópar í samkvæmisdönsum fyrir fullorðna líka!

Að lokum er ég búin að skrá mig í blessaða Reykjavíkurmaraþonið - 10 km verða það í ár og nú hvet ég ykkur öll kæru vinir og fjölskylda til að heita á mig til styrktar Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna en þið hafið jú flest öll fylgst með litlu hetjunni okkar honum Úlfari Jökli sem gekk í gegnum erfiða lyfjameðferð síðast liðinn vetur, aðeins nokkurra mánaða gamall.

Það geta allir séð af einum 500 eða 1000 kalli í gott málefni ekki satt? Hér er hægt að skrá áheit.

og svona ykkur að segja þá væri ég til í að hlaupa á 50 mínútum en látum það samt alveg liggja á milli hluta!

Jæja komið gott af áróðursbloggi og ég lofa myndum í vikunni:)

sunnudagur, ágúst 02, 2009

Hjalti K. K fyrir Klofi - eini úr hópnum sem hefur mætt öll árin! Ómissandi hlekkur.

Gin og Klofaveikin 2005
Geðklofi 2006
Klofinn í herðar niður 2007

Bölvaður klofaskapur 2008
Klofi Annan 2009

-Að sjálfsögðu að öllum öðrum ólöstuðum sem hafa gert þessa hátíð að því sem hún er-




þriðjudagur, júlí 28, 2009

Jæja gott fólk núna eru allar myndirnar úr sumarfríinu komnar inn, plús nokkrar fyrir frí. Þetta eru tæplega 300 myndir og ég er líka búin að skrifa undir flestar fyrir þá sem vilja fylgja ferðasögunni. Þetta þýðir einungis eitt: "Ég heimta kvitt fyrir innlit". Veit ekki hvað það er en eitthvað svo notalegt að vita hverjir eru að skoða:)

Ég þarf síðan endilega að setja inn nokkrar af meistarastykkinu mínu í lökkun - rúminu góða sem heimasætan sefur núna vært í:)

Annars er mjög mikill hressleiki hér á bæ - allir í fríi og nóg að gera í hittingum og tjilli. Klofi annan um næstu helgi og við höfum ekki við að taka við skráningum en minnum þó á mottóið - engum boðið en allir velkomnir.

laugardagur, júlí 25, 2009

Smá myndir sem Haffitas tóku...komum heim á eftir!

Ís til að kæla sig niður

Stolist til að smella af í Duomo

Skylda að vera með sundhettu í lauginni

Sætasta sem er búin að vera ofurstillt í allri ferðinni:)


Minnum síðan á KlOFA ANNAN 2009 sem verður um næstu helgi. Skipulagning er komin á fullt - Engum boðið, allir velkomnir!