þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Nokkar vangaveltur eftir Innlit/útlit í kvöld...

Svartar jólskreytingar? Svartar fjaðrir og bara að þora að vera með soldið svart um jólin! Einmitt! Púff segi ég nú bara, rautt rautt rautt. Sá sem heldur því fram að svartar jólskreytingar komi með jólaandann getur bara étið já...Þetta er hátíð ljóss og friðar en ekki svartnættis!

Svartar eldhúsinnréttingar nje...

Stálstigi með glerþrepum...hvað er það?

Smá innlit inn til fólks sem er með gamalt hjá sér og svona eiginlega reynt að afsaka að það sé með svona gamalt hjá sér...

Stjörnubjartur veggur með ljósleiðurum og akkúrat stjörnurnar eins og þær voru daginn sem hjónin kynntust! Æj ég veit ekki...

Svakaleg ljósakróna sem er eftir einhvern trylltan ítalskan hönnuð og var bara gerð í fimm eintökum...já!

Box til að geyma matvæli í með talnalás og borvél! Spurning um að leggja það á sig fyrir tvær appelsínur...

Svo við gleymum nú ekki lykilsetningunni: Það eru þessir díteilar sem að meik the difference! Rústaði hjarta íslenskufræðingsins:)

Eina sem ég fílaði í þessum þætti voru barbapabbafígúrurnar, heimilið hjá dansaranum og að sjálfsögðu Potato hanskarnir sem eru án efa jólagjöfin í ár!

Annars var gaman að sjá eina lillu úr Laugalæk að gera upp herbergið sitt...

Ég er greinilega ekki inn í dag!
Kannski bara smá púki í mér í kvöld:)
Ein komin með draumarugluna á hæsta stigi!


Mig dreymdi svo fáránlegan draum í nótt að það er ótrúlegt. Dreymdi sumsé að ég og Andri værum búin að eignast strák sem var eins og snýttur úr nös á AFO, ekki reyndar í fyrsta skiptið sem mig dreymir það en það besta var að ég var ekkert viðstödd fæðinguna vegna þess að ég var í nuddi!


AFO sá alveg um þetta sjálfur og ég fékk bara að sjá myndir af honum að taka á móti barninu og klippa á naflastrenginn, þvílíkt stoltur með þetta allt saman! Ekki kom fram hvaðan barnið kom en það greinilega skipti ekki máli!


Síðan faldi pabbi minn drenginn inni í skáp því enginn mátti vita kynið fyrr en ég var búin að sjá hann og svo mætti ég þarna allt í einu og var komin með drenginn á brjóst og vissi einhvern veginn ekki neitt, kunni ekki neitt og átti ekki neitt. Þannig að við vorum svona að rúnta um bæinn, ég með barnið í fanginu í framsætinu, og redda hlutum sem við þurftum! Komum við hjá Adda og Ings og síðan skyndilega var ég komin í einhvers konar brjóstagjafakennslu til Láru supermom! Hahahahahahahah...ég vaknaði eiginlega hlæjandi...


Meira hvað maður getur verið klikkaður!

mánudagur, nóvember 27, 2006



"Hjallandra" kannski stelpa?Skyndilega erum við farin að hallast að því að "Hjallandra" (eins og sumir eru farnir að kalla hann!) sé jafnvel stelpa...veit ekki hvað veldur en nú erum við bara alls ekki viss! Eeenn það verður annað hvort...vonandi:)

AFO sagði samt áðan að hann sæi frekar lítinn strák fyrir sér hlaupa hérna um á Kambó en hefði samt tilfinningu fyrir að þetta væri stelpa, ég verð nú bara að viðurkenna að ég sé bara ekki fyrir mér að það verði skyndilega eitthvað barn hérna, finnst þetta voðalega fjarlægt eitthvað...
Ég fékk að heyra það í vinnunni í dag að ég væri algjör skipulagsfrík, ég tek nú bara eitt kvót frá Lottó og segi: Ekki segja mér draugasögu í björtu! (elska þegar Lottó tekur þetta). Ég tek bara alltaf að mér einhverja skipulagningu enda finnst mér það gaman, flokka, raða og flokka, raða aftur og skrifa niður og punkta og setja upp í skjal o.s.frv.
Ég er samt ótrúlega meðvituð um það að allt svona skipulag fer stundum í rúst en mér finnst bara betra að hafa það til staðar!
Set inn eina mynd síðan um helgina, svona verður þetta á Kambó í des, ekta heitt súkkulaði, smákökur og flatkökur með hangikjöti. Sía, Selma og fleiri í prófum, ekki vera feimin við að droppa við í smákökur og með því:)

Tók skype maraþon í kvöld...Regína, Ála, Sóley, hvar voruð þið?







laugardagur, nóvember 25, 2006


Nú er hægt að fara að droppa við í smákökur og kakó á Kambó!


Ein sort í hús og piparkökurnar nýkomnar úr ofninu. Jólastemning ríkti á Grunninum í dag þegar kvenmenn familíunnar bökuðu piparkökur. Svabba labba var duglegust en við ætlum síðan að skreyta þær í næstu viku.


Jólagardínurnar eru komnar í hús og nú fer maður aðeins að byrja að setja jólaskrautið upp enda ekki nema 4 vikur til jóla!


Jóla jóla jól...

fimmtudagur, nóvember 23, 2006


Litla krílið heldur ekki bara vöku fyrir mömmu sinni á nóttunni...


heldur leyfir það pabba sínum líka að finna aðeins fyrir sér!


Lá sem sagt eitthvað aðeins of klesst við AFO þannig að hann fann fyrir spörkum í bakið, hann skildi ekkert í því hvernig ég gæti sofið fyrir þessu...enda get ég það ekki alltaf:)


Eins og í fyrrinótt þegar ég var mætt í flatkökur með hangikjöti klukkan fimm um nóttina og skellti mér svo í bað því ég var eiginlega bara alveg vöknuð, asnaðist svo til að leggja mig aðeins aftur í klukkutíma sem var ekkert svo sniðugt því þá var ég svo rosa þreytt í vinnunni....


Annars er ég hressari en nokkru sinni!


Ætla baka eina sort á morgun og piparkökur á laugardaginn - það verður því hægt að mæta í smákökur og kakó á Kambó von bráðar!
Góða helgi! (eiginlega komin helgi)

þriðjudagur, nóvember 21, 2006


Andri kom heim frá NY í morgun...


og þið getið rétt ímyndað mér hvað ég var spennt að fá hann í kotið!

Hann talaði mikið um í meilunum sem hann sendi mér að hann væri ömurlegur shopper og ég var búin að segja hundrað og billjón sinnum að hann þyrfti ekki að kaupa neitt handa mér því ég hefði pantað allt það helsta og sent á hótelið til Don Ruth (sem er í Minneappolis)


En hann var ekkert að slaka á í kaupunum, keypti sex peysur á mig hahaha, jogging buxur, Converse skó og nærföt úr Victoriu!


Ég þakka bara kærlega fyrir mig:) Hann náði líka aðeins að dressa sig upp og auðvitað keypti hann slatta af bókum.


Ferðin var frábær í alla staði og mér skilst að Panic Penó hafi ekkert verið að panica alltof mikið og arkitektinn náði aðeins að slaka á!


Nú fer hins vegar smá sparnaður í gang á Kambó...þó ég hafi ekki farið neitt út náði ég alveg að eyða slatta í gegnum netið! Fínt að maður fær smá jólabónus í desember:)


bestu,

Linda

mánudagur, nóvember 20, 2006

Skáldalaun

Ég kaus að fara aðra leið.

En talaðu samt ekki
um gamlan, bitran mann
fyrirlitinn, misskilinn, gleymdan.

Ég var á hæstu launum
sem þessi heimur getur greitt:
Gleðinni yfir að skapa.

Gleðinni yfir að hafa storminn í fangið
og sjá mótvindinn dreifa fræjum mínum
um jörðina.

Gleðinni yfir að elska.

Gunnar Dal. Maður og jörð,1998.


Skemmtilegt ljóð vikunnar frá Ljósálfi!

sunnudagur, nóvember 19, 2006


Ég er svoooo fegin hvað ég svaf vel í nótt því ég hélt að ég væri orðin þreytt og bakveik ólétt kona...


En svo var ég það bara alls ekki heldur þurfti bara að snúa dýnunni við, var bara komin of mikil dæld í hana. Allt annað líf skal ég segja ykkur. Það gat heldur ekki verið annað, ég er ekki að fara að taka að mér einhverja svona bakverki!


Ég og BJ-Arna tókum maraþonspjall í gær. Byrjuðum á Vegamótum, færðum okkar svo yfir í Hagamelsísbúðina og enduðum svo hérna á Kambó. Áður en við vissum af var klukkan að ganga fjögur og allt á kafi í snjó! Takk fyrir kvöldið:)


Ég fékk meil frá AFO í gær, hann fór á fyrirlesturinn með Badiou og viti menn þar var mættur enginn annar en Zizek! Ótrúlegt að hann skildi ná að hitta hann og spjalla aðeins við hann. Það vantar bara Megas þarna til að fullkomna þrennuna: Dylan, Zizek, Megas:)
Mikið er nú huggulegt að sitja uppi í rúmi og hafa það kósý í snjónum, spurning að skella sér kannski út seinna í dag og gera nokkra snjóengla...
Har det brav!

föstudagur, nóvember 17, 2006


Celeb Laugar og Linda litla...


Skellti mér loksins í hreinsunardekrið sem AFO gaf mér í afmælisgjöf og það var enginn smá pakki!


Ég mætti galvösk með sundbolinn minn og byrjaði á því að fara í Baðstofuna í heitan saltpott og gufur sem ég rétt kíkti inn í enda ekki mælt með þeim fyrir bumbur. Lallaði svo þarna um svæðið í sloppnum mínum og leið eins og hálfgerðum lúða í gamla þvælda adidas sundbolnum mínum innan um Arnar, Bjarka, Garðar Gunnlaugs og Sveppa. Ég var svona meira eins og "ein úr Tungunum", alltaf óþægilegt þegar maður þekkir ekki inn á svæðið. Var síðan bara farin að bíða eftir að komast í nuddið og sat með lappir ofan í einhverjum vaski.


Síðan hófst meðferðin en fyrst þurfti ég að skella mér í g-strengs brækur sem voru svona eins og þunnt pungbindi. Ef ég hefði drullast til að mæta smekkleg í bikiníi hefði þetta verið óþarfi ennnn hvað um það. Tyrkneskri olíu var skrúbbað á mig bak og fyrir og skolað af með volgu vatni. Því næst tók við klukkutíma heilnudd ahhhhhhhhh, yndislegt alveg hreint.


Þegar ég var að fara út fylgdi nuddarinn mér síðan aftur inn á baðstofuna og sagði að maturinn væri að verða tilbúinn, ég myndi bara hafa það huggulegt á meðan! "Maturinn" hugsaði ég, var einhvern matur inni í þessu, AFO minntist ekkert á það! En þá var borið á borð dýrindis tortilla með allskyns grænmeti og boðið upp á rautt og hvítt með (sem ég afþakkaði pent í þetta skiptið). Þarna sat ég svo eins og prímadonna í sloppunum mínum og las slúðurblöð, hefði að vísu getað tekið svona 1/3 af þeim sem voru í blöðunum á tal enda lítur út fyrir að "elítan" á Íslandi eyði föstudagseftirmiðdögum í Spainu í Laugum!


Mér leið samt smá eins og ég væri utan af landi enda meira vön litla krúttlega Baðhúsinu mínu en þetta var alveg geggjað. Ég var ekki alveg að fatta pumpuna á sápunni í sturtunni en það kom eftir nokkrar pælingar, síðan þorði ég ekki að leggjast á einhverja bekki ef þeir væru kannski ekki til að leggjast á!


Ef einhvern langar að fara í þetta þá er ég allaveganna orðin reynslunni ríkari og þekki aðeins betur inn á umhverfið...og muna að vera í bikiníi! Regla númer eitt!
Fín byrjun á helginni.
Fékk meil frá AFO áðan (það gerist nb. aldrei!) og reyndar símtal í kjölfarið, hann skemmtir sér vel í NY, búinn að fara á Dylan tónleika og er á leið á Badou fyrirlestur. Óskar þess að hafa meðbyrinn sem ég og Sóley höfðum í búðunum og talaði um að hann kæmist ekki nálægt því að eyða 30.000 kalli á dag eins og við gerðum!
Góða helgi!
Mig dreymdi svo svakalega stóran og laaaaangan kúk í nótt sem einhver hundur hafði skilið eftir sig efst í stigapallinum á Selvogsgrunni! Hann var svo stór að venjulegur innkaupapoki náði ekki yfir lengdina á honum...

Og ég var að leggja mig alla fram við að taka kúkinn upp til að henda honum!

Ef ég er ekki að fara að verða milljónamæringur þá verð ég illa svikin:)

Eða kannski foreldrar mínir, hvernig er það með Happdrætti Háskólans er það ekki núna bráðum?

-L-

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

brrrrr...hvað er málið með þennan kulda?

Kósý en samt dáldið mikið kalt og ég kona ein í Kambókoti. Ítalíuhittingur hjá HRL í gær þar sem lífsspekin var rædd og mikið væri nú gott ef allir væru með þetta svona allt á hreinu eins og við! Við vitum sko alveg hvernig þetta virkar...hvort sem það snýr að barnauppeldi, skólamálum eða metnaði í starfi...ekki allir jafn séðir og við:)

Saumó í kvöld hjá mér, fyrst jóga og svo henda í eina franska...

Föstudagur á morgun og hrikalega er ég fegin enda er ég búin að vera eins og ólétt kona þessa vikuna, þreytt, illt í bakinu og vakna á nóttinni til að þurfa að pissa og snúa mér og laga kodda! Hlýtur að vera eitthvað tilfallandi, get nú ekki farið að haga mér svona:)

AFO í NY, ekkert samband næst við hann en ég heyrði því fleygt fram að Kommóðuhirðinnn hefði hirt þá félaga af götunni.

Bless í bili...

mánudagur, nóvember 13, 2006

Jæja alltof stutt helgi að baki...

Þurfti reyndar að vinna í gær frá 1-6 þannig að það stytti helgina svo um munar. Ég er alltaf að reyna að flýta fyrir mér ef ég yrði skyndilega ofur þreytt eða slöpp eða whatever...gengur ágætlega svo sem. Stutt í jólafrí, einungis fimm vikur eftir af almennri kennslu og þessi vika meðtalin. Tíminn flýgur áfram!

Fórum í mjög skemmtilegt innflutningspartý hjá Buffhrútnum og frú um helgina og var íbúðin hreint út sagt stórglæsileg, vel að verki staðið Daði. Ég get einmitt ekki beðið eftir að Andri taki eitthvað svona rými í gegn fyrir okkur;)

Loksins þegar við komum okkur af stað kíktum við til Panic Penó á Lindargötuna og Bjöggi hélt uppi stemningu með ýmsum partýhlutum...

Vikan er stútfull af prógrammi:
  • Andri fer til NY á mið og ég öfunda hann pínu en veit að hann kemur hlaðinn gjöfum heim þannig að ég þarf ekki að örvænta.
  • Miðvikudagskvöld, HDW+RÓ hittingur, alltof langt síðan síðast þannig að það lítur út fyrir að það verði stíf dagskrá
  • Fimmtudagur, Kvennóhittingur á Kambó hjá mér...
  • Föstudagur, loksins pantaði ég mér í Hreinsunardekrið sem AFO gaf mér í afmælisgjöf. Mæti í Laugar 16:30 og verð í tveggja tíma prógrammi og slaka svo á í potti...
  • Laugardagur, Don Ruth til Mineappolis og ég búin að panta aðeins í GAP og Victoria sem hún kemur með heim:) Arna er ekki síðan tilvalið fyrir tvær grasekkjur að eyða kvöldinu saman?
  • Sunnudagur...æj vá ekki meira plan!

Þannig að þetta verður góð vika og ég aðeins byrjuð að huga að komu krílisins gegn vilja mínum en maður verður víst að huga að einhverjum hlutum og hverju breytir það svo sem? Maður er bara svo skelfilega hjátrúarfullur!

Alltof langt hjá mér, afsakið...

tjuss

föstudagur, nóvember 10, 2006

Ég hef svo óbilandi áhuga á fólki og samskiptum fólks og hvernig best er að koma fram við ólíkar persónur og hvað maður þarf að gera til að vinna sem best með hverjum og einum...

að ég væri tilbúin í einhvers konar rannsóknarvinnu í tengslum við þetta!

Síðan hef ég svakalegan áhuga á íslensku og íslenskri málfræði og þessi áhugi er að aukast svo um munar eftir að ég hóf að starfa sem kennnari. Nú sæki ég í að lesa allskyns fræðigreinar og skoða hvað er það nýjasta í bransanum. Stóð mig að því í gær að horfa á Hrafnaþing III í BMM og velti því mikið fyrir mér hvort ég ætti að kaupa það enda stútfullt af nýjum greinum um það sem er í gangi akkúrat núna!

Síðan var ég að uppgötva hvað ég á eftir að lesa endalaust mikið af góðum bókmenntum og mér finnst eins og ég hafi engan tíma í þetta. Það verður að vera gott skipulagsplan á lestrinum um jólin, það er nokkuð ljóst!

Ég er einmitt aðeins að glugga í fornöfn núna og velta fyrir mér ýmsum hlutum í tengslum við þau...AFO er líka að lesa og læra. Við erum svoooo námsfús á föstudagskvöldi:)

Innflutningsteiti á morgun hjá Buffhrútnum og spúsu hans, búið að vara mann við hættulegum tröppum og leynileið niður í kjallarann góða og ekki annað hægt að segja en að maður sé spenntur að sjá híbýlin enda hefur vinnan við þau staðið í yfir tvö ár!

Góða helgi gæskur:)

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Mikið er nú gott að fara í jóga...

Er alveg endurnærð og tímarnir eru frábærir.

Undur og stórmerki áttu sér stað í gær, búendur á Kambó sofnuðu klukkan tíu takk fyrir. Hefur ekki gerst í 10 ár...

Helgi framundan og kvenleggur móðurættarinnar hyggur á búðarráp og jólagjafaundirbúning. Alltaf gaman þegar sá hópur kemur saman.

Góðar stundir!

miðvikudagur, nóvember 08, 2006


Ég setti mig í foreldragírinn í dag...

og held að ég hafi bara spjarað mig nokkuð vel í þeim 23 foreldraviðtölum sem ég tók, talaði tæpitungulaust frá 8-15 með 15 mín. pásu! Enda hefur það ekki reynst mér erfitt að tala hingað til:)

Foreldrarnir ánægðir með litlu kennarastelpuna og kennarastelpan ánægð með alla þessa frábæru foreldra, úff hvað er samt erfitt örugglega að vera foreldri og fara í svona viðtöl og taka á ýmsum málum og bla bla bla...en þetta ætlar maður að leggja út í!

Annars var fjórða bumban að koma út úr skápnum í dag á vinnustaðnum. Veit ekki hversu ánægðir stjórnendur skólans eru með mig að hafa startað þessu öllu saman en það lítur út fyrir að einhver faraldur sé farinn af stað...

farin á Grænan...

mánudagur, nóvember 06, 2006

Mikið er gott að ná einhvern tímann þeim markmiðum sem maður setur sér...

Ég setti mér nokkur markmið fyrir daginn í dag en ég vissi að ég þyrfti að vinna aðeins þó ég væri í vetrarfríi. Mig langaði samt að reyna að slappa eins mikið af og mögulegt væri! Ég ætlaði mér að klára:

  • Verkefni sem ég átti eftir að undirbúa fyrir morgundaginn
  • Áætlun fram að jólum í náttúrufræði
  • Laga og prenta út málfræðihefti
  • Undirbúa foreldradag
  • Klára bækling

Alltof mörg markmið eins og alltaf og ég næ aldrei að standa við það sem ég set mér fyrir en viti menn þrátt fyrir að hafa sofið út, farið í kíró, hitt Rögnu og slappað af náði ég þessu öllu plús áætlun í stærðfræði...allt útprentað og ljósritað fyrir alla!

Mikið er ég glöð og stefnan er sett á Borat í kvöld með Björnu og AFO...

sunnudagur, nóvember 05, 2006


Ég er að taka heimadag í dag...

Letidagur þar sem ég fer ekki út úr húsi nema í ítrustu neyð!
Set samt alveg í vél og skipti á rúminu, legg mig síðan ef ég vil, les bók, hlusta á góða tónlist og byrja að huga að jólunum. Það er soldið snemmt ég veit það en ræð ekki við mig. Verður eitthvað sérstakt við það að vera ekki í skóla í fyrsta skipti á ævinni í desember.

Hlakka óstjórnlega mikið til að jólskreyta og pakka inn gjöfum og setja upp mitt eigið jólatré í fyrsta skipti.

Veðrið lét aldeilis finna fyrir sér í nótt, vaknaði við grein að slást í rúðu og barn að sparka í maga! Var líka sárlega hungruð um fimmleytið og fór fram úr og fékk mér morgunkorn, las svo aðeins í bók og lagði mig aftur. Skrýtið að vakna svona á nóttinni en notalegt samt þ.e. ef maður getur sofið út...

Best að halda áfram að hafa það notalegt:)

laugardagur, nóvember 04, 2006

Yes ég var loksins að komast að í Lótusjóga...

eftir 7 vikna bið!

Byrja á þriðjudaginn þannig að nú fer ég í jóga þrisvar í viku.

Er líka búin að fara tvisvar í þessari viku og synda. Ætla halda því áfram enda þrælgott. AFO fór með mér áðan og hafði lítið sem ekkert í mig!

og vá hvað mér líður betur að vera komin með eitthvað svona prógram:)
Ég fór og heimsótti langömmu mína í gær sem ég geri alltof sjaldan...

skammarlegt alveg hreint. Hún er að verða 94 ára og í gær voru samankomnir 4 ættliðir hjá henni og eiginlega 4 og hálfur ef maður lítur svoleiðis á málið!


Fríður hópur!

Langamma er alltaf eins og drottning:)

Spáið í ef ég geng með stelpu, þá er þetta nú bara fréttnæmt!

-Góða helgi-


fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Tók smá powershopping í dag...

að vísu meira svona til að hjálpa Ruth vinnufélaga mínum en hún er einmitt nýútskrifaður kennari eins og ég, ólétt og lágvaxin. Við eigum því ansi margt sameiginlegt þessa dagana og markmiðið með þessari ferð að finna óléttuboli á hana enda ég komin með ansi góða reynslu í þeim málum. Ég var þvílíkt stabíl, einn geisladiskur (mjög góður með Möggu Stínu), ein jólagjöf og svo laumaðist einn hlýrabolur ofan í pokann...

þangað til ég fann gorgeous ullarkápu, hægt að vera feit í og grönn, tilvalin kápa og verður lífstíðareign. 15000 kall og þetta var slegið. Get samt mögulega skilað henni innan 30 daga en það gæti orðið hægara satt en gert...

Oh hvað þetta er ljúft...

Vaknaði bara snemma enda með mesta sinadrátt í Evrópu í hægri ökkla! Las blöðin uppi í rúmi, sit núna og gæði mér á Honey Nut og hlusta á Litlu fluguna á rúv:)

Skemmtileg grein um silfurskottur aftan á Fréttablaðinu, gott að fleiri en ég eru uppteknir af litlum skordýrum. Gaman líka hvað maður fær allaf að fylgjast með fjórburunum frægu. Ég man vel þegar þær byrjuðu í skóla, fermdust og nú eru þær skyndilega orðnar sjálfráða! Greyin fá alltaf grein um sig í blöðin með jöfnu millibili. Reyndar stórmerkilegt allt saman...ég býð ekki í það ef ég væri með fjóra krakka inni í mér, finnst þessi eini alveg nóg!

Annars fyrir þá sem eru að velta fyrir sér greinum um AFO í blöðunum um að hann sé að byrja aftur í boltanum þá eru þær ekki á rökum reistar. Hann er ekki að fara að byrja aftur.

Myndin er fyrir Möggu mína ástsælu vinkona í Berlín:)
Af hverju er ég enn á fótum...

Jú ég er í vetrarfríi sem er of gott til að vera satt. Útsofelsi í fimm heila daga! Mikið verður það næææs og kærkomið. Var að koma af "djamminu" ef svo má segja...skelltum okkur nokkrir kennarar á bar kenndan við 101 og átum saman. Fínn staður og mæli með honum, góður matur og lítill sem enginn reykur, fékk mér reyndar óáfengan Mohito og borgaði ekki nema 800 kr. fyrir hann! Hvað er það...

...skiptir samt kannski ekki máli því ég fékk tvöfalt útborgað í dag. Var að byrja á fyrirframgreiðslu og þá virkar þetta svona í kennarabransanum, þetta gerist nú samt væntanlega bara einu sinni á ævinni nema auðvitað að maður skipti mjög ört um vinnustað og taki sér pásur á milli! Sem gerist væntanlega í mínu tilviki þegar við flytjum vonandi til Parísar...

En að öðrum málum, ég mætti í Trilogiu peysunni í vinnuna í dag og við Andri tókum smá veðmál í morgun um hversu mörg komment ég fengi á hana (þið munið þetta er peysan sem ég fékk frá honum í jólagjöf í fyrra og fannst ég fyrst eins og rjómaterta í henni en þurfti bara að venjast!) en ég fékk 10 athugasemdir, allar jákvæðar og ein var á þá leið hvort að ég væri á samning við einhvern hönnuð...ég tók þessu öllu með þakklæti enda búin að vera á leiðinni í þessari peysu í þónokkurn tíma!

-Góðar stundir-