mánudagur, september 27, 2010

Dóttir mín hefur lengi vel haldið því fram að hún ætli að verða hárgreiðslukona þegar hún verður stór. Síðustu daga hefur hún hins vegar verið að breyta um skoðun, núna ætlar hún nefnilega að verða búðarkona. Ég spurði hana auðvitað hvað hún ætlaði að selja í búðinni sinni og svarið var einfalt: "mat!" og í kjölfarið kom: "Ég ætla að vinna í Bónus" og síðan bætti hún við að auðvitað þyrftum við samt að keyra hana þangað út af því að hún vissi ekkert hvar Bónus væri:)

Við munum auðvitað styðja hana í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur!

miðvikudagur, september 22, 2010

Ég lenti í hressandi atviki í kennslu nú á dögunum og er ekki frá því að þetta hafi verið eitt það vandræðalegasta á mínum ferli. Svo vandræðalegt að ég mun ekki rita það á netið en hef gaman að því segja frá munnlega. Þetta kennir manni eitt, ferðir á bókamarkað geta leikið mann grátt:)

Það rann upp fyrir mér að ég á afmæli eftir litlar tvær vikur - fáir gleyma þessum degi, 6. október enda dagurinn sem Guð þurfti að blessa Ísland.

28 ára - maður er ekkert að yngjast, það er nokkuð ljóst!

laugardagur, september 18, 2010

Föstudagstrítment...og laugardagseyðsla!

Sushi - lit og plokk - heilun - aukatími í stærðfræði - æfing hjá keppnishópnum í Ártúnsskóla! Kom síðan heim og þá var "ráðskonan" okkar búin að taka heimilið í gegn - já þið lásuð rétt við erum komin með "ráðskonu" til að taka alþrif tvisvar í mánuði svo við getum farið beint inn í helgina í frí án þess að eyða helmingnum í tiltekt og ég er yfir mig ánægð eftir þessa ákvörðun okkar:)

heimsætastan byrjaði síðan í samkvæmisdansinum í dag með 4-5 ára, stóð sig eins og hetja þó mamma hennar þyrfti að vera að kenna í tímanum, rosa margir krakkar hjá okkur eða um 25 stykki! Sem er auðvitað frábært. Ég kenndi síðan þremur hópum og það gekk vel, duglegir að dansa þessir ungu krakkar og 5-7 voru heimsins mestu dúllur í waltz og cha cha cha:)

Fórum síðan með Álfrúnu, Agli og Eldi á sushi lestina til að leyfa börnunum að gæða sér á gúrkubitum en þau elska sushi þessi litlu krútt:) Eldur að vísu heldur æstur í wasabi og þurfti næstum að hringja á 112 en það bjargaðist fyrir horn;)

Dóttirin búin að eignast nýtt par af Ecco skóm, svarta með glimmeri og dressuð upp af Janus fyrir veturinn - alveg hreint nauðsynlegt fyrir litlu lungun í þessum kulda.

Núna er bóndinn og litla konan að elda kjötsúpu, frúin er búin að opna rautt og framundan er kósýföstudagskvöld og kærkominn frídagur á morgun.

fimmtudagur, september 16, 2010

Góðar minningar...

Mér þykir alveg óendanlega vænt um þetta blogg mitt og skemmti mér oft konunglega við það eitt að lesa gamlar færslur, komment og rifja upp gamlar minningar. Stundum fæ ég alveg fáránlega mikinn kjánahroll og stundum skellihlæ ég. Það sem er samt einhvern veginn alltaf best er að ég er eiginlega aldrei að skrifa um neitt sem skiptir einhverju rosalegu máli, sjaldan að taka reiðiköst út í eitthvað, gagnrýna, pirrast eða koma með einhverja málefnalega punkta. Það skiptir líka engu máli því þegar upp er staðið eru þetta ómetanlegar minningar síðustu sjö ára sem ylja mér um hjartarætur.

...það sem mér finnst líka svo frábært er að þegar ég skoða t.d. september 2004 þá sé ég að ég hef bara ekkert breyst neitt svakalega mikið, er bara enn alveg að horfa á sex and the city, taka hlátursköst með Álfrúnu og partýprumpa:) Það er góðs viti held ég.

miðvikudagur, september 15, 2010

Halló halló...

í kollinum á mér leynist sjálfsagt heill haugur af bloggfærslum og heldur betur lélegt af mér að hafa ekki skrifað boffs hérna í alltof langan tíma!

Eftir sumarfrí var ekki laust við að við LA-búar hlökkuðum bara til haustsins og skammdegisins sem fylgir því í kjölfarið. Sumrin eru auðvitað alltaf æðisleg og forréttindi að fá gott og endalaust skemmtilegt sumarfrí eins og myndir myndasíðunnar gefa til kynna. En síðan verður maður bara pínu þreyttur á því að vera á stöðugu flakki, endalausum boðum, hittingum, afmælum, skírnum, brúðkaupum og þar fram eftir götunum, allar helgar smekkfullar. Ekki misskilja mig, þetta er ÆÐI! En svo er bara svo gott að eiga líka svona helgar þar sem maður er bara heima með fullt af kertum að kúrast uppi í sófa og gera akkúrat ekki neitt:)

Það er nú samt sem áður sjaldan þannig hjá mér, því ég er auðvitað snillingur í að taka að mér allskyns verkefni af öllum stærðum og gerðum. Veturinn fer vel af stað í Lauglæk og ég vil meina að ég sé í skemmtilegasta og mest gefandi starfi sem um getur, tekur stundum á en með mínum frábæru vinnufélögum verður þetta leikur einn. Andri heldur áfram að "verkefnasstjórast" á frístundaheimilinu en samhliða því er hann líka í kennsluréttindanámi í HÍ og auðvitað í Zen-inu og Jiu Jitsu. Hann verður síðan í vettvangsnámi í Laugalæk einn dag í viku þannig að við verðum samstarfsmenn:) Litlu krúttlegu kennarahjónin!

Ég er síðan orðinn formlegur meðeigandi í dansskólanum og verð með þrjá hópa í vetur og einu sinni í viku á æfingum með keppniskrakkana, ég veit dáldið mikið auka fyrir utan vinnuna en svo gat ég ekki sleppt því að vera með þrek einu sinni í viku í Skylmingafélaginu og tek líka einn menntaskólastrák heim í stærðfræðiaðstoð. Þetta hljómar kannski frekar yfirþyrmandi og krafðist þess alveg að ég myndi búa til sér stundatöflu fyrir allt sem við AFO gerum fyrir utan eðlilegan vinnutíma:) En ég er svona tarnakelling, mér finnst gaman að taka góða vinnutörn í 3 mánuði og tríta mig svo vel að því loknu, þannig er það nú bara. Við Álfur vorum síðan alveg hrikalega duglegar í bjöllunum í sumar og búum vel að því í vetur og ætlum að halda áfram að æfa þar, ég kemst því miður aðeins sjaldnar en ég vildi en Álfurinn er á útopnu og náði 313 endurtekningum í Fight Gone Bad nú á dögunum með réttum þyngdum - þeir skilja sem skilja:) Snillingur hún Álfrún.

Síðast en ekki síst er heimasætan hún Ágústa Rut orðin alveg svakalega fullorðinsleg. Hún tók stórt skref um miðjan ágúst þegar hún hoppaði yfir eina deild á leikskólanum ásamt þremur vinkonum sínum og er núna á Fagralæk með 2006 fæddum börnum. Og að sjálfsögðu nýttum við tækifærið og stungum upp á því að hætta með duddu um leið og hún myndi byrja á stóru deildinni og það samþykkti hún en með því skilyrði að Alma Júlía fengi að eiga duddurnar hennar þrjár sem eftir voru. Þann örlagaríka morgun 16. ágúst setti hún síðan duddurnar í box og Andri tók með sér í vinnuna til að afhenda Hjalta. Ég bjóst við einhverju hrikalegu enda búin að heyra sögur af börnum sem voru að vakna á nóttinni og vaka í fleiri fleiri tíma. Þótt ótrúlegt sé og miðað við duddusjúklinginn sem hún var þá var þetta EKKERT mál, grét í svona ca. tíu mínútur þegar hún kom úr leikskólanum og áttaði sig á því að þetta væri orðið að veruleika en svo bara ekki söguna meir, sofnaði bara um kvöldið og hefur ekki stungið snuði upp í sig síðan! Ég var nú bara dáldið stolt af henni að standa sig svona vel í þessu. Hún er síðan að fara að byrja í 4-5 ára hópnum í dansskólanum á laugardaginn og ég krossa putta að henni eigi eftir að finnast þetta jafngaman og móður hennar fannst. Ég er meira að segja búin að fá ekta dansskó fyrir hana í stærð 25!

Hún stjórnar líka hægri vinstri á heimilinu og lætur sko ekki segja sér hvað sem er. Ég fæ t.d. oft að heyra það að hún segi pabba ef ég er að skamma hana og einnig að ég eigi að segja fyrirgefðu og nennir alveg að þræta um það endalaust að við eigum að segja fyrirgefðu við hana:) Hún elskar líka að knúsa okkur og segja "mamma er best" og "pabbi er bestur" en stundum heyrist líka "pabbi er bara vinur minn":)

Ég held ég segi þetta bara gott í bili, lofa sjálfri mér hér með að skrifa meira inn á þessa annars ágætu síðu sem ég hef haldið til haga nú á sjöunda ár!

Aðíós Róbó Linda

föstudagur, september 03, 2010

Ég trúi ekki að skyndilindan hafi ekkert skrifað í rúman mánuð, hún hlýtur að fara að taka sér tak!

Mun til að byrja með setja inn myndir á myndasíðuna!