fimmtudagur, janúar 27, 2011

Merkilega hreinskilið

Á leiðinni úr vinnunni í dag hitti ég eldri konu sem ég kannast við hérna í hverfinu, hún spjallar alltaf aðeins við mig þegar við hittumst enda opin og nokkuð hreinskilin.

Spjallið í dag var á þessa leið:

Konan: Nei hæ!
Ég: Hæ!
Konan: Flottar gammósíur sem þú ert í eða eru þetta sokkabuxur?
Ég: Já svona leggings bara...
Konan: Ertu ekki fegin alltaf á vorin þegar kennslu lýkur?
Ég: Jú jú, ég hef samt mjög gaman að þessu starfi en auðvitað alltaf gott að fara í sumarfrí
Konan: Ertu að fá einhverjar bólur þarna? (Og bendir fyrir neðan munninn á mér)
Ég: (Nokkuð góð bara í húðinni þessa stundina) Uh..ég veit það ekki...
Konan: Ég fékk nú bólur alveg fram til sextugs...
Ég: Já, ég hef nú heyrt um einhverja svoleiðis
Konan: Já, já eða kannski er þetta bara þetta mánaðarlega...
Ég: haha já getur verið en við sjáumst!
Konan: Já við sjáumst!

Alveg merkilegt hvað fólk telur sig geta verið hreinskilið við mig:)

þriðjudagur, janúar 18, 2011

Ertu kassi inni í kassanum?

Ég lenti í smá spjalli við einn nemanda minn um Stars Wars og ævintýramyndir og þætti yfir höfuð. Þetta byrjaði út frá því að ég sagði honum að ég væri ekki fyrir neitt ævintýra, hvorki bíómyndir, þætti eða annað slíkt. Hann vildi meina að maður yrði svo hugmyndaríkur með því að horfa á svona ævintýradótarí en ég þurfti í algjörri hreinskilni að segja honum að þetta hafi bara aldrei verið fyrir mig. Hann teiknaði þá svona kassa með fingrunum og spurði hvort ég væri bara inni í svona kassa, ég játti því og sagði honum að það kæmi alveg fyrir en þá bætti hann um betur teiknaði kassa inn í stóra kassann og spurði hvort ég væri kannski bara inni í kassa inni í kassa....!

Ég þarf að koma mér út úr þessum kassa stundum, það er alveg klárt mál. Ég get nefnilega hugsað út fyrir kassann en þarf að koma mér þaðan út hið snarasta!

fimmtudagur, janúar 13, 2011

Utanlandsferðir, danskeppnir og fleira skemmtilegt framundan!

Þegar ég hugsa tilbaka þessi 11 ár sem við Andri höfum verið saman telst mér svo til að ég hafi farið til útlanda að minnsta kosti einu sinni hvert eitt og einasta ár! Ég man að vísu ekki alveg hvort ég fór eitthvað árið 2002 og því miður var ég ekki byrjuð að blogga þá og get því ekki flett slíkum heimildum upp en eflaust á ég einhverja dagbók frá árinu þar sem ég hef skráð þetta hjá mér! Þetta eru náttúrulega alveg fáránleg forréttindi í ljósi þess að stóran hluta af þessum tíma var ég námsmaður og hinn hlutann kennari. Ástæðan fyrir þessum ferðum er auðvitað að stærstum hluta tilkomin vegna allra þeirra aukavinna sem mér hefur boðist að taka og það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að ég nenni því yfir höfuð, einungis í þeim tilgangi að komast að lágmarki einu sinni á ári út fyrir litlu eyjuna okkar.

Eftir hrunið hélt ég að nú yrði eitthvað lát á en síður en svo, strax nokkrum dögum eftir hrun áttum við bókað flug til Kaupmannahafnar með aðeins 2000 danskar í vasanum því meiri gjaldeyri var ekki að fá! Síðan var það Stokkhólmur og Ítalía 2009, árið 2010 hófst með ráðstefnunni BETT í London og paraferð um sumarið til Stokkhólms.

Og ég læt ekkert árið 2011 vera neinn eftirbáta hinna 11 á undan og eftir rúman mánuð er stefnan tekin á Paraferð part II Winter Edition þar sem við munum m.a. dvelja á þessu dásamlega Japanska Spa hóteli daglangt, sötra græn te, læra að gera sushi, fara í japönsk böð og iðka Zen hugleiðslu. Ótrúlega hvetjandi í annars drungalegum janúarmánuði að eiga þetta inni!

Í lok apríl tekur svo við önnur utanferð nánar tiltekið til Blackpool á danskeppni en dansskólinn fer að öllu líkindum með 9 pör á keppnina. Þetta verður langur tími frá fjölskyldunni á páskunum sjálfum en ég fer laugardaginn fyrir páska og kem ekkert aftur fyrr en laugardaginn 30. apríl! En stórskemmtilegt engu að síður og ótrúlega gaman að rifja skemmtilegar minningar síðan ég keppti sjálf í Blackpool á mínum yngri árum.

Nú þegar er verið að plana ömmu, systra og mæðgnaferð til Ameríku árið 2012 svo það lítur út fyrir að ekkert lát verði á þessum utanlandsferðum!

Það sem lítur hins vegar ekki vel út er fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og alveg ljóst að staðan fyrir næsta skólaár verður mjög erfið og því ekki úr vegi að nota kannski síðustu tækifærin í bili til utanferða!

Um helgina verð ég stödd hér ásamt flottu danspörunum okkar:)

Í kvöld er það Ofviðrið með leikhúsvinunum okkar þeim Láru og Benna - hlakka til!

laugardagur, janúar 08, 2011

Gleðilegt nýtt ár!
Við á Laugarnesveginum þökkum ykkur fyrir allt gamalt og gott og erum viss um það að 2011 verður gott ár:) Í ár verður enginn myndaannáll vegna þess að ég nenni því ekki og eitt af áramótaheitum 2011 er nefnilega leti og slökun, fækka excel skjölum og leggja sig þeim mun meira! Þið getið bara rúllað yfir myndirnar inni á myndasíðunni ef þið viljið rifja eitthvað upp:)

Við áttum dásamleg jól í faðmi vina og fjölskyldu og nutum þess að vera í fríi saman. Síðan er algjört janúarmöst hjá okkur að fá í það minnsta eina flensu og erum við mæðgurnar búnar að eyða síðast liðinni viku í slík skemmtilegheit - kvef, hósta og slen en ætlum að nota helgina til að hrista þetta af okkur.

Áran snéri sólarhringum alveg við í fríinu og var í ruglinu núna í vikunni þegar hún átti loks að mæta í leikskólann, vaknaði tvær nætur í röð um miðja nótt og vakti í þrjá tíma! Ekkert að henni, bara gat ekki sofið og var ekkert þreytt að eigin sögn. Frekar þreytandi fyrir foreldrana sem voru ekki að nenna þessu næturbrölti en gátu ekki annað en hlegið þegar hún spurði okkur hvort við vildum fimmu eða klesst´ann klukkan þrjú um nótt! Hressleikinn alveg í hámarki:)

Hún naut þess alveg að vera í fríi og slökun og sló svefnmet sitt á nýársdag þegar hún svaf til 13:00! Hún gat lesið á marga pakka og er farin að skrifa nöfnin á hennar nánasta fólki hjálparlaust enda dugleg að læra stafina, engin pressa samt þó ég viti að þið sjáið fyrir ykkur heræfingabúðir ala Linda:)

Inn á myndasíðunni má finna jóla og áramótamyndir, fimm ættliða myndir og nokkrar janúar myndir. Það er því algjör skylda að kvitta fyrir innlitið!