Utanlandsferðir, danskeppnir og fleira skemmtilegt framundan!Þegar ég hugsa tilbaka þessi 11 ár sem við Andri höfum verið saman telst mér svo til að ég hafi farið til útlanda að minnsta kosti einu sinni hvert eitt og einasta ár! Ég man að vísu ekki alveg hvort ég fór eitthvað árið 2002 og því miður var ég ekki byrjuð að blogga þá og get því ekki flett slíkum heimildum upp en eflaust á ég einhverja dagbók frá árinu þar sem ég hef skráð þetta hjá mér! Þetta eru náttúrulega alveg fáránleg forréttindi í ljósi þess að stóran hluta af þessum tíma var ég námsmaður og hinn hlutann kennari. Ástæðan fyrir þessum ferðum er auðvitað að stærstum hluta tilkomin vegna allra þeirra aukavinna sem mér hefur boðist að taka og það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að ég nenni því yfir höfuð, einungis í þeim tilgangi að komast að lágmarki einu sinni á ári út fyrir litlu eyjuna okkar.
Eftir hrunið hélt ég að nú yrði eitthvað lát á en síður en svo, strax nokkrum dögum eftir hrun áttum við bókað flug til Kaupmannahafnar með aðeins 2000 danskar í vasanum því meiri gjaldeyri var ekki að fá! Síðan var það Stokkhólmur og Ítalía 2009, árið 2010 hófst með ráðstefnunni BETT í London og paraferð um sumarið til Stokkhólms.
Og ég læt ekkert árið 2011 vera neinn eftirbáta hinna 11 á undan og eftir rúman mánuð er stefnan tekin á
Paraferð part II Winter Edition þar sem við munum m.a. dvelja á þessu dásamlega
Japanska Spa hóteli daglangt, sötra græn te, læra að gera sushi, fara í japönsk böð og iðka Zen hugleiðslu. Ótrúlega hvetjandi í annars drungalegum janúarmánuði að eiga þetta inni!
Í lok apríl tekur svo við önnur utanferð nánar tiltekið til Blackpool á danskeppni en dansskólinn fer að öllu líkindum með 9 pör á
keppnina. Þetta verður langur tími frá fjölskyldunni á páskunum sjálfum en ég fer laugardaginn fyrir páska og kem ekkert aftur fyrr en laugardaginn 30. apríl! En stórskemmtilegt engu að síður og ótrúlega gaman að rifja skemmtilegar minningar síðan ég keppti sjálf í Blackpool á mínum yngri árum.
Nú þegar er verið að plana ömmu, systra og mæðgnaferð til Ameríku árið 2012 svo það lítur út fyrir að ekkert lát verði á þessum utanlandsferðum!
Það sem lítur hins vegar ekki vel út er fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og alveg ljóst að staðan fyrir næsta skólaár verður mjög erfið og því ekki úr vegi að nota kannski síðustu tækifærin í bili til utanferða!
Um helgina verð ég stödd
hér ásamt flottu danspörunum okkar:)
Í kvöld er það Ofviðrið með leikhúsvinunum okkar þeim Láru og Benna - hlakka til!