fimmtudagur, júlí 28, 2005

Örlítið update...

Er nú bara að blogga sökum þess að ég bíð óþreyjufull eftir að Desperate fari að byrja. Eftir að hafa setið föst við skjáinn í 19 vikur missti ég af síðasta þætti. Sía bætti samt úr því og ég horfði á hann í dag og kem því fersk til leiks á eftir.

Andri mætti í sinn fyrsta pump tíma til mín í gær, mér fannst mjög fyndið að hann væri þarna og þurfti að taka mér 15-20 sek þar sem ég snéri höfðinu að græjunum til þess að fá ekki hláturskast....týpískt ég ekki satt! Fékk samt alveg að taka þetta hláturskast þegar leið á tímann því Bobber bobber eða Bubbi nokkur Mortens ákvað að líta við í lok tímans. Ég stóð í þeirri meiningu að hann væri að biðja um að fá að vera með og bauð honum það. Hann hins gekk að speglinum rétt við hliðina á mér og byrjaði að taka trylltar boxæfingar...þessi saga er jú mun betri þegar ég sýni æfingarnar með. Nú ok með Bubba þarna trylltan við hliðina á mér og Andra á móti mér að gera mjög einfalda framstigsæfingu gat ég ekki meir. Ég byrjaði að brosa smá og sá þá að Andri og Sía gátu ekki heldur haldið í sér lengur, ekki frekar en restin af salnum sem lá á barmi hláturskasts. Bobber lét þetta nú ekki á sig fá og hélt tryllingsæfingunum áfram, þokkalegt show of þar á ferð:) Þangað að til að ég tók til minna ráða, því ekki fannst mér við hæfi að hann væri að þessu á meðan við værum að teygja. Hann hætti þá og smellti sér í massívar jógaæfingar. Já aldeilis frábær heimsókn þar á ferð, stjarnan þakkaði þó pent fyrir sig og bauð mér að koma í úthaldsæfingar á morgun með sér...nei nú lýg ég. Hann var allaveganna kurteis, gekk svo að afgreiðslunni og rétti fram höndina þar sem afgreiðslustúlkan smellti á hann einhverju bling bling armbandi, kastaði á okkur kveðju og strunsaði út á við ævintýranna. Eftir stóðum við og hlóum enn meira.

Ég er líka hætt að vinna í Hjól borg en fæ samt sem áður laun til 5. ágúst. Fannst það fínt í dag þegar sat og gæddi mér á heilsuklatta og kókoskúlu frá Jóa á launum.

Um helgina er stefan sett upp í Klofa, ekki upp í klof heldur KLOFA, sumarbústaðalandið sem fjölskyldan hans Andra á. Ýmsir góðir vinir eru búnir að melda sig inn á flötina með tjald og með því. Verður eflaust frábær skemmtun.

Í gær fór ég á hús kennt við kaffi með LA - genginu plús Ingu. Fékk mér tvo bjóra en leið eins og ég hefði drukkið tíu þegar ég vaknaði í morgun. Hlýt að hafa verið með vott af flensu. Áðan fór ég svo á Vegamót með Viðeyjarpíunum (8. skiptið í þessum mánuði sem ég gæði mér á mat þar!)

Nú er að smella í þáttinn þannig að L kveður að sinni og óskar mönnum góðrar helgar og biður fólk að fara sér hægt í umferð og inn um gleðinnar dyr:) Smúss á línuna

Lindsey

sunnudagur, júlí 24, 2005

Perfect day...

Bestu vaktirnar í búðinni eru án efa 10-16 vaktirnar. Eftir vinnu í gær fór ásamt Andra niður í bæ og við kíktum á Braga fornbókasala, Andri þarf alltaf að vera að lesa einhver ósköp! Síðan röltum við gegnum bæinn og vá hvað það var geggjað veður, fengum okkur ís á Ingólfstorgi enda fæ ég illt í magann ef ég fæ ekki ís á hverjum degi. Eftir það settumst við niður á Café París og sötruðum kaffi og íste og gæddum okkur á ljúffengu nachosi. Ég var einhvern veginn uppgefin í gær eftir mikla vinnu og því ákváðum við bara að vera heima og taka því rólega. Keyptum okkur lambalundir og smelltum á grillið ásamt kartöflum, sveppum með hvítlauksosti, salati og rauðvíni. Lúxusmáltíð alveg. Í eftirrétt var svo ananas, vínber og ostar. Horfðum á myndina Blow og fórum upp í rúm á skikkanlegum tíma. Alveg mættu allir dagar vera svona:)

Linda

föstudagur, júlí 22, 2005

Oh Emilíana var svoooo góð og sæt og fyndin og skemmtileg...mér finnst samt að það mætti alveg stærðarraða á svona tónleikum þar sem eru engin sæti, var með feitt og sveitt rassgat framan í mér smá stund sem dró athygli mína rétt eitt augnablik frá Torrini, annars var yndislegt. Byrjaði á því að kenna eitt stykki hjólatíma og Sía og Erna komu í tímann, við fórum svo á Vegó og gæddum okkur á góðum mat, FRAM vann í bikarnum og my man með eitt stykki mark, góð innkoma þar á ferð, keypti mér síðan nýjasta diskinn hennar Emí þrátt fyrir að eiga hann í tölvunni. Maður verður að styrkja þessa listamenn.

Farin að lúlla mér...
Góða nótt:)

mánudagur, júlí 18, 2005

Húspassarar með meiru...

Nú er kominn sá tími ársins þar sem ég og Andri pössum hús. Enn og aftur er það Efstasundið þrátt fyrir að margir aðrir hafi reynt að bjóða í okkur enda þrælvön þegar kemur að húspössun. Við munum dvelja þar næstu tvær vikurnar ásamt hundinum Grímu og væntanlega Æbbatjútt að hluta.

Í garðinum er flennistórt grill, pottur og risaverönd, að vísu eru einhverjar framkvæmdir í gangi því unnið er að stækkun hússins. Það er nokkuð ljóst að vel á eftir að fara um okkur næstu vikurnar.

Það er mikið að gera þessa dagana sem og aðra og feikiskemmtilegir hlutir að fara í gang.
Í dag eignaðist ég brúnar linsur svo ég geti nú skipts á að vera með bleu briller og brúnar linsur:)

Annars kom Svava litla systir mín með mér að hjóla í dag og gaf ekkert eftir gegn systur sinni. Svona er að vera komin af honum Atla hjólagarpi með meiru!

Er að hlusta á ljúfa tóna Emilíönnu enda tónleikar á fimmtudaginn og maður má alls ekki láta sig vanta á þá.

Þangað til later...
La casa passer

laugardagur, júlí 16, 2005

Ég ákvað að skipta um rauðvínstegund í gær, í stað El coto rioja sem ég hef drukkið í fjölda ára, fékk ég mér Gato Negro eða svarta köttinn. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum því kötturinn var alltof þurr fyrir mig sem kennir manni það að vera ekki að skipta út hlutum sem maður er ánægður með. Kvöldið í gær var hins vegar mjög svo hressandi. Tjilluðum á Laugateignum hjá Álfrúnu og síðan hélt ég heim með mínum ektamanni um tvöleytið. Ákvað að skippa bænum í þetta skiptið enda engin ástæða til að skemma síðustu helgi sem var frábær svona bæjarlega séð. Fólk hafði samt á orði hvort ég ætlaði bara að hætta að fara í bæinn svona yfir höfuð til að skemma ekki Kúltúra ferðina, það meinti ég nú ekki alls ekki, verð mætt á dansgólfið um næstu helgi, dillandi mér við góða tóna Stonie og Sillie:)

Þessa helgina mun ég njóta þess að vera í fríi...
Sé samt fram á þokkalega tiltekt hérna í greninu okkar enda er það að því komið að springa utan af okkur:)

Lindan ykkar

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Heimsmet í pulsuáti í flokknum 1,56 cm...

Ég sló persónulegt með í dag í pulsuáti. Ég náði sem sé að "pulsa" mig þokkalega upp á vinnuskólahátíðinni og tróð í mig þremur pullum! I know, ég er ógeð:(

Þetta er ekki búið því eftir það fór ég á kaffihús með viddaling og rex og fékk mér kakó með rjóma, lét ekki þar við sitja og fékk mér líka ís niðri í bæ sem var hrikalega góður með jarðaberjadýfu.

Ákvað að rita þetta hjá mér því sumir hafa sagt að það sé gott að skrifa niður það sem maður borðar, það hafi svona meiri áhrif á mann, einmitt!

Snertir ekki við mér og Doritosinu sem situr hérna hjá mér, er reyndar að bíða eftir að komast upp í Geisla í kvöldmat nema hvað að Andri er að slá persónulegt met í að vera ógeðslega lengi að koma sér heim af æfingu og mörg eru metin.

Elskið friðinn og strjúkið vömb;)

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Ég er búin að vera hreint ótrúlega slappur bloggari það sem af er viku enda vel eftir mig eftir að hafa farið út á lífið báða dagana um síðustu helgi. Já Linda litla sló met í þeim málum og var að vinna alla helgina. Ekki gerst í 100 ár!

Á föstudeginum var GRAND FINAL á STRÆTINU og tók ég góða innkomu þar því Álfrún hafði hent freyðivínsflöskunni minni á gólfið án þess að láta mig vita og gaus út um öll gólf þegar ég smellti tappanum. Þrælgóð skemmtun það kvöldið. Hressleikinn var hins vegar ekki alveg eins mikill á laugardeginum...

...en kom til baka um leið og ég hitti FRAMskonsurnar mínar á Vegamótum. Þar átum við og átum og fengum vott með. Ég, Ragna og Ingibjörg fórum á Eggertsgötuna og héldum svo niður í hinn mikilfenglega bæ sem var jafnleiðinlegur og ég átti von á. Þangað til við komum á Café Kúltura en þar voru Stonie og Sillie að spila og þvílík dúndurskemmtun, Andri og restin af hans gengi mættu líka og við dönsuðum af okkur rassgatið. Ótrúlegt hvað er gaman að rifja upp tónlist síðan á gaggó árunum og byrjun menntó.

Takk fyrir alla þessa frábæru skemmtun yndislega fólk:)

Vikan hefur farið í hjólreiðar og aftur hjólreiðar, ásamt kennslu á fyrsta formlega body jam tímanum.

Keyptum nýjan DVD í gær því talið var að hinn væri bilaður, en þegar litli rafvirkinn fór að tengja kom í ljós að það var ekkert spilaranum heldur annað sem kostar svona 1000 kall að laga en what the hack...hver vill ekki eiga tvo DVD spilara!

Á morgun er SUMARHÁTÍÐ Vinnuskóla og ég verð sett í það að vera með hjólaþraut...hvað annað?

Njótið lífsins:)

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Bendi á nýjar þankagöngur hjá Andra Frammari...
Ég hjólaði tæpa 32 km í dag. Heiman frá mér og upp í Selásskóla og svo þaðan út í Vesturbæjarlaug og aftur heim. Vona að ég eigi eftir að halda í hann afa gamla ef restin af sumrinu verður svona hjá mér!

Annars er ég að finna mig vel í þessu nýja djobbi, held mér vel vakandi allan daginn og er á ferð og flugi og enda svo í sólbaði í sundlauginni. Í augnablikinu gæti ég ekki verið í betra starfi.

Brunaði svo meðfram sjónum með góða tónlist í eyrunum...


Lilly

mánudagur, júlí 04, 2005

Hvíldin eina...

Er ansi hrædd um að ég hafi náð að slappa of mikið af þessa helgina. Aldrei þessu vant var slegið met í bústaðaferð okkar sem par. Í fyrsta skiptið fyrir utan Verslunarmannahelgar og utan tímabils náðum við að vera í bústað tæpa 45 klukkutíma. Enda er kallinn meiddur...

Mestum hlutanum var eytt í svefn og át enda er eins og ég sé komin 4 mánuði á leið svo útstæð er bumban á mér eftir þetta og hljóðin og loftsöfnunin eftir því!

Í gær afrekaði ég það að leggja mig 3svar þrátt fyrir að hafa sofið til hádegis, um miðjan daginn blundaði ég aðeins, aftur rétt fyrir kvöldmat og svo enn aftur rétt fyrir svefninn. Átti samt ekkert erfitt með að sofna aftur og sofa svo til að ganga eitt. Dáldið þreytt sjáiði til enda margar 50-60 tíma vinnuvikur að baki.

Kíktum á Draugasetrið á Stokkseyri og hrökk ég nú ansi oft í kút...enda alltaf fyrst inn um allar dyr og óhrædd við að skoða Mórana sem reyndust síðan oft vera lifandi manneskjur sem stukku að manni.

Svava 10 ára skildi hvorki upp né niður í öllum þessum lagninum sem systir hennar þurfti en þá sagði ég henni að vara sig því eftir nokkur ár yrði hún í sömu sporum, 6 ár og hún væri komin með svefnsýkina ef ekki fyrr. Hún hélt sko ekki heldur myndi hún væntanlega passa börnin mín þegar við færum í bústað til þess að ég gæti lagt mig. Það er þá ágætt að vita af því.

Á morgun byrja ég í training fyrir nýja djobbið, frétti að hjólagaurinn sem er með mér í þessu hjólar alltaf héðan úr Laugarnesinu og upp í Selás. Af hverju ætti ég svo sem ekki að geta það líka? Spurning, maður er hvort eð er í fríi frá morguntímunum út júlí...

Farin að reyna að sofa í hausinn á mér...góða nótt:)

föstudagur, júlí 01, 2005

Hjól í borg!

Já aldeilis fréttir, ég er komin með nýtt starf hjá vinnuskólanum FRÆÐSLULEIÐBEINANDI!
og mun sjá um fræðsluna Hjól í borg sem 10. bekkur fer í. Hjólað er frá Selásskóla og að Vesturbæjarlaug. Þetta mun vera á hverjum degi út júlí og ef rassinn á mér verður ekki orðin að kúlu þá verð ég fyrir miklum vonbrigðum!

Annars ætlaði ég að segja eitthvað miklu meira en verð að drífa mig að kenna eitt stykki tíma, svo er það Vegamót og bústaður

Góða helgi elskur:)