Samanburður...
23-24 ára gömul ólétt kona...
Vann á siglinganámkeiði fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar en kom sér merkilega vel frá ógleðinni þrátt fyrir að vera með hana stöðuga frá morgni til kvölds með tilheyrandi gusum!
Byrjaði í nýrri vinnu um haustið í Laugalækjarskóla og fann alveg vel fyrir því að vera á fyrsta ári í kennslu, var í fullu starfi og eyddi heljarinnar tíma í skipulagningu. Átti að vísu ekki barn og gat því komið heim og lagt sig í stundum þrjá klukkutíma. Var merkilega skynsöm og hélt sig við eitt starf og vann því ekkert aukalega um helgar né aðra virka daga. Stjanaði mikið við sjálfa sig með ýmsu dekri, nuddi, jóga, spa meðferðum og fleiru góðu. Vann nánast fram á síðasta dag eða 38 og hálfa viku. Lét taka óléttumyndir vikulega frá 17. viku og las nánast yfir sig af efni varðandi meðgöngu, fæðingu og ungabörn. Var mjög spennt fyrir þessu öllu saman en samt líka kvíðin enda vissi hún ekkert út í hvað hún var að fara.
28-29 ára gömul ólétt kona...
Tók maí mánuð með trompi hvað varðar ógleði og ældi nánast upp á dag áður en haldið var í vinnu í Laugalæk og var að ljúka sínum fimmta vetri þar. Var alveg fram í júlí að kljást við ógleði og losnaði ekki við hana fyrr en um ca. 14 vikur og gott betur. Byrjaði svo að vinna aftur komin um 20 vikur og aldrei hressari, orðin sjóuð á vinnustaðnum og þurfti ekki að eyða eins miklum tíma í undirbúning og skipulag og gat því kennt töluvert meira á viku eða um 31 stund. Er orðin meðeigandi í dansskóla sem kallar á aukavinnu um helgar og suma virka daga og við bætast nokkrar klukkustundir í rúmlega 100% vinnuvikuna! Á barn fyrir og því fer lítið fyrir lagningu seinnipart dags líkt og á fyrri meðgöngu sem þýðir að hún fer stundum að sofa klukkan tíu á kvöldin sem er mjög ólíkt hennar karakter. Lætur samt dekra við sig með jógatímum og ómissandi nuddi frá eiginmanninum sem sleppir varla úr degi hvað það varðar. Er þrátt fyrir að vera upptekin, skynsöm og þykist kunna að lesa í aðstæður þar sem hún er orðin of þreytt en gerir það klárlega ekki nógu oft. Ætlar alls ekki að vinna lengur en þangað til í byrjun desember sem þýðir kannski rétt um átta vikur í viðbót. Er þó búin að fá hótun frá ljósmóðurinni um að hún geti skikkað hana til að hætta fyrr ef henni sýnist svo! Hefur bara látið taka eina óléttumynd og þó komin 27 vikur á leið og á í fullu fangi með að halda tölu á vikufjöldanum, hvað þá að lesa um hvað er að gerast á hverri viku! Er bara alveg ótrúlega spennt fyrir tímunum framundan og finnst hún ef eitthvað er töluvert meira tilbúin í þetta heldur en fyrir fimm árum.
-Lindoss-
Engin ummæli:
Skrifa ummæli