laugardagur, ágúst 29, 2009

Reykjavíkurmaraþonið 2009

Í ár var ég staðráðin í að hlaupa 10 km og á góðum tíma. Í vor þegar ég byrjaði að huga að þessu hugsaði ég með mér að nú væri alveg málið að æfa þrusuvel fyrir þetta og ná góðum tíma. Síðan líður bara alltaf sumarið og maður rétt dettur 2-3 í hlaup og svo er alltaf bara komið að þessu.

Hins vegar var ég búin að kenna aðeins í Hreyfingu í ágúst og taka nokkra hjólatíma og pump sem hjálpar alltaf til. Andri hafði lofað að hlaupa með mér til að ég næði betri tíma en svo var hann auðvitað með þessa fáránlegu afsökun að hann væri í gifsi;) Það sem bjargaði síðan öllu voru hérarnir sem hlupu með blöðrur merktar 40-45-50 o.s.frv. Ég stefndi á 50 mín en fannst alls ekki raunhæft að ég næði þessu undir 53. Kvöldið áður útbjó ég trylltan playlista sem spilaði stórt hlutverk og síðan fylgdi ég 50 blöðrunni og hún kom mér í gegnum síðustu 3 km þannig ég næði þessu undir 50 og var lokaniðurstaðan 49:21, miðað við flöguna. Þrusuánægð með þetta og líka að ég var loksins fyrsta systirin eftir nokkurra ára pásu;) Hinar tvær stóðu sig ekki síður vel og voru rétt á eftir mér. Mamma sló síðan öll met þegar hún hljóp 3 km undir 15 min en mamma byrjaði bara að hlaupa í sumar - algjör snillingur og hún kom svo hratt í mark að við náðum henni ekki einu sinni á mynd!






Engin ummæli: