sunnudagur, ágúst 30, 2009


Ágústa Rut Andradóttir

Snillingurinn okkar hún Ára er byrjuð á Laugaborg og er alveg hæstánægð - við vorum alltaf ánægð með Ægisborgina en hún er einhvern veginn bara í skýjunum að vera komin í hverfið sitt og við hliðina á vinnunni minni. Á hverjum degi hleypur hún á móti manni og segir að það hafi verið rosa gaman á leikskólanum. Það sem hjálpar henni líka mikið er að Fransiska nágranninn okkar hérna á 3. hæðinni var líka að byrja en hún er 4 ára og þær leika mikið saman í útivistinni og eru sko beztu vinkonur. Fransiska sagði mömmu sinni um daginn að hún og Ágústa ætluðu sko að giftast!

Þessa dagana eru miklar pælingar í gangi í tengslum við stelpur og stráka. Hún segir ósjaldan að strákar séu með typpi en stelpur "bullu" (við vitum ekki hvaðan nafnið bulla kemur en leyfum henni bara að kalla þetta bullu) Um daginn sagði hún síðan við pabba sinn: "Þegar þú varst lítill pabbi þá varstu bara með pííííínulítið typpi" jahá gott að vera með það á hreinu. Í hvert skipti sem við förum í sund segir hún mér líka alltaf að pabbi sé með typpi en við tvær með bullu. Síðan heyrist alltaf þegar við erum tvær einhvers staðar: "Bara við tvær stelpurnar" og það þykir soldið sport:) Hún virðist líka halda að maður verði strákur með aldrinum því hún segir stundum við Andra að þegar hún verði stór þá muni hún kunna að vera með typpi!

Bleyjuleysið gengur súpervel og mér hafði ekki órað fyrir að þetta gæti gengið svona vel. Ekkert slys á leikskólanum og rosa dugleg að segja til. Komu að vísu nokkrir dagar þar sem hún neitaði að gera nr. 2 og hljóp um allt og herpti rasskinnarnar á sér saman en síðan kom þetta allt saman þegar amma Rut stakk upp á því að láta hana blása í blöðru á klósettinu og stundum fær hún blöðru þegar illa gengur;)

Við erum bara svo ofsalega stolt af þessari litlu veru sem lyftir lífinu á hærra plan með hverjum deginum sem líður.

ps. massavís af myndum á myndasíðunni og muna að kvitta fyrir innlit - það gleður ennþá

Engin ummæli: