Af nógu að taka...
Kettlebells - Nýtt æði?
Ég og Álfurinn minn skelltum okkur í byrjendatíma í Kettlebells síðast liðinn fimmtudag og vorum ekki sviknar - af harðsperrum:) AFO er búin að stunda þetta samhliða Jiu Jitsu-inu og líkar vel og mig hefur vantað eitthvað með hlaupunum til að styrkja mig. Þrusugóðir tímar og ekkert gefið eftir en samt getur hver og einn stjórnað þyngdinni sem hann er með eins og ég var alveg bara í léttustu bjöllunum enda langt síðan ég hef verið að styrkja mig að ráði. Síðan fannst mér alveg ljómandi skemmtilegt að leyfa einhverjum öðrum að þræla mér út og góð tilbreyting frá því að vera sjálf að píska fólki áfram. Við fórum síðan aftur í tíma í gær og áðan hnerraði ég og langaði að grenja út af harðsperrum! Núna eigum við sex mánaða kort og verðum með alveg asskoti flottar línur í sumar!
Meðeigandi í dansskóla
Það er verið að ganga frá samningi um hlutafé mitt (og AFO auðvitað) í dansskóla sem hljómar mjög svo fullorðinslegt en um leið ótrúlega spennandi. Meira um það síðar en það er nóg að gera í dansinum núna fyrir Íslandsmeistaramótið með grunnaðferð sem verður helgina 1. og 2. maí.
Tengdó á Flórída
Sem kemur kannski fáum á óvart enda árlegur viðburður á þeim bænum. Ég þykist vita að búðirnar verði sóttar heim og flatmagað við sundlaugarbakkann. Ég nefndi það við Don Ruth að ef hún sæi einhverja almennilega brjóstahaldara þarna úti fyrir tvo litla tepoka þá mætti hún endilega kaupa fyrir mig, hún tók þessu greinilega mjög alvarlega og er nú þegar búin að fjárfesta í einum þremur stykkjum, öllum með góðum fyllingum:)
Áran mín klára
Er alltaf sami fallegi gullmolinn og kemur okkur sífellt á óvart með húmor og dugnaði. Hún er orðin heldur betur stór og sjálfstæð stúlka og alveg svakalega dugleg. Í kvöld t.d var ég að ganga frá þvotti og þá spyr hún hvort hún eigi ekki að hjálpa mér og tekur alla sokkana og raðar þeim réttum saman á ofninn, ekki dóttir mömmu sinnar fyrir ekki neitt! Hún er alveg hætt að sofa á daginn og er alltaf að höndla það betur og betur (ekki eins mikið um þreytu/pirring seinnipartinn) og á það til að sofa bara fram eftir um helgar (með fram eftir á ég við að ganga hálf tíu). Hún er líka dugleg að kalla í okkur foreldrana og taka hópknús og það er ekkert betra en slíkt knús:) Um helgina fórum við á Skoppu og Skrítlu og það vakti þvílíka lukku og ekki skemmdi fyrir að fá að setjast hjá þeim og meira að segja Lúsí líka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli