Einn dyggasti aðdáandi þessarar forlátu bloggsíðu, eiginmaðurinn sjálfur, kvartaði sáran undan þessu bloggleysi, honum finnst greinilega gaman að lesa fréttir af okkar innihaldsmikla lífi!
Á þessum tæpa mánuði sem hefur liðið milli blogga hafa nýjar atvinnuhugmyndir litið dagsins ljós hjá minnstu konunni, hún ætlar nefnilega að verða leikskólakennari - ekki dóttir foreldra sinna fyrir ekki neitt;) Hún ætlar að vinna á Laugaborg, fer auðvitað ekki úr LA.
Hún er líka búin að prófa ýmislegt og tók þá sjálfstæðu ákvörðun að hætta bara í dansi í bili, þetta var ekkert fyrir hana að vera að dansa við aðra að hennar sögn. Hún ætlaði nefnilega að byrja í fótbolta og að sjálfsögðu tókum við bara vel í það og ég bókaði hana á æfingu með 8. flokki Þróttar. Einn laugardagsmorguninn mættum við mægður síðan á æfingu hjá Þrótti en þarna áttu að vera samankomin börn á aldrinum 2005-2007 en vildi ekki betur til en svo að þær voru þrjár stúlkurnar ásamt 23 drengjum:) Áran okkar og Anna Karólína vinkona hennar og síðan ein önnur stelpa sem gafst fljótlega upp á þessu. Þær voru sem sagt tvær vinkonurnar með mörgum 5 ára drengjum og ég sem er nú ekkert sérlega viðkvæm fékk nú alveg sting í hjartað þegar vestum í þremur mismunandi litum var hent í þau og nú átti sko að spila fótbolta og þær vinkonurnar í rauða liðinu, þær léku aðeins með en gáfust fljótt upp því miður. Hins vegar fundu þær sig vel í boðhlaupi sem þriðja liðið fékk að vera í og æfingum með boltann og sprettum o.s.frv. Ára klára kláraði æfinguna með stæl og ég tók ansi skemmtilega mynd af henni í strákahafinu í "stórt skip, lítið skip" í lokin. Hún sagði mér samt á leiðinni heim að hún ætlaði ekkert að fara aftur þarna á fótboltaæfingu, nú myndi hún bara fara í ballet og fimleika:) Og mikið skil ég hana vel og vildi óska þess að það væri til fótbolti sem er bara fyrir stelpur á þessum aldri.
Þessa dagana er ákaflega vinsælt að teikna og hún er farin að teikna okkur öll með haus og fætur og hendur út frá honum, mjög svo skemmtilegar myndir og gaman að fylgjast með þróuninni í þessu en hún lærir örugglega mjög mikið af 4 ára krökkunum á deildinni. Síðan finnst henni líka alveg frábært að perla og gerir ótrúlega flott mynstur að mínu mati en hverjum finnst nú sinn fugl fagur eins og það stendur.
Í dag fór hún síðan í fyrsta skipti til tannlæknis, ég hafði heyrt gott orð af Heiðdísi nokkurri í Turninum í Kópavogi og hún var frábær, gerði tannlæknaheimsóknina að einhvers konar ævintýraferð sem gerði það að verkum að Ára vildi ekkert fara heim og fékk fínan hring í verðlaun.
Önnur læknaheimsókn á morgun út af grun um blöðrubólgu hjá dömunni sem er þó búið að kanna í þremur þvagprufum og einni blóðprufu en það er saga í annað blogg þegar hún var stungin milljón sinnum af mjög svo ófaglegum meinatækni svo ekki sé meira sagt. Meira um það síðar...
Við hjónin höfum síðan verið að halda ansi mörgum boltum á lofti það sem af er hausti en stefnum á rólegan desember, er það ekki bara málið að hella sér inn í aðventuna alveg bara í 1. gír - það held ég nú! En svona er þetta nú bara stundum, maður hellir sér út í allskyns hluti sem voru einhvern veginn ekki á teikniborðinu en virðast teikna sig þar sjálfir:)
Vetrarleyfið senn á enda sem og rauðvínsbeljan sem við Álfur byrjuðum á síðastliðið fimmtudagskvöld. Ég lofa síðan myndum fljótlega - þarf klárlega að bæta úr myndaleysi september mánaðar.
Aðíós.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli