Reglubundið eftirlit hjá Leitarstöðinni...
Ég skellti mér í dag enda stuðningsmaður þess að fylgja þessu eftir á tveggja ára fresti. Þetta er aldrei það skemmtilegasta sem kona fer í en alltaf mikill léttir þegar þessu er aflokið. Eftir gott spjall og ýmis ráð frá henni Möggu marghugu minni í gær varð ég reynslunni ríkari en ég hef aldrei farið beint niður á Leitarstöð heldur alltaf til míns læknis. Hún benti mér til að mynda á að það væri einn læknir sem væri sérlega harðhentur og því skyldi ég annað hvort biðja um annan lækni eða panta annan tíma. Ég var því ekki lengi að athuga hverjir væru á vakt dagsins til þess að fullvissa mig um að þessi læknir væri ekki á vakt. Svo var ekki.
Galvösk gekk ég svo inn á minn bás en eins og Magga lýsti réttilega er þetta eins og vera í fjósi, færð þinn bás og slopp og situr svo ber að neðan meðal annarra kvenna í sama leiðangri. Ég fór úr sokkunum, fannst það passa betur við sloppinn á meðan margar aðrar voru í sínum, allaveganna, ég er kölluð inn og spurð hvort mér sé sama að læknanemi sé viðstaddur, jújú ég er til í það, þekkjandi nokkra læknanema og vitandi að þetta er þeim nauðsynlegt. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir að læknanemar dagsins í dag eru ungir, ég er ung en þeir eru jafnvel enn yngri! Á móti mér tók því að mér fannst óttalega og jafnvel fullungur piltur sem ætlaði sér að vera viðstaddur þessa yndislegu athöfn. Og ekki varð það betra þegar læknirinn spurði hvort það væri í lagi mín vegna að unglambið fengi að taka sýnið undir hennar handleiðslu! Hvað getur maður sagt, ekki nei á þessu mómenti og sem betur fer þekkti ég ekki nemann! Þetta gekk samt vel hjá honum og hann alveg með þetta. Lærdómur dagsins framvegis er þó að afþakka læknanema nema fá að ganga úr skugga um að þekkja þá alls ekki. Mig langar ekkert sérstaklega að láta gamla nemendur mína vera að krukka eitthvað í kjallaranum mínum:)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli