Fyrsta bloggið eftir fæðingu Magdalenu!
Eins og flestir vita finnst mér ótrúlega gaman að skrásetja hlutina og halda utan um allar myndir á myndasíðunni okkar. Þetta er hins vegar orðið miklu flóknara núna með komu facebook, persónulega finnst mér miklu skemmtilegra að halda utan um þetta forláta blogg mitt heldur en að setja eitthvað þangað inn og þess vegna ætla ég að reyna að vera dugleg að skrifa eitthvað hérna og virkja vefdagbókina á myndasíðunni en ég sé að ég hef ekki látið neitt framhjá mér fara í þroska Áru svo það er eins gott að skrá allt sem hún litla Magdalena gerir:) Annars gæti ég átt á hættu að hún kvarti líkt og Svava sem segir að það muni enginn neitt síðan hún var lítil! Ég kom mér allaveganna í það að skrá fæðingarsöguna hennar í vefdagbókina á myndasíðunni!
Magdalena litla dafnar ótrúlega vel og hefur verið ljúf sem lamb frá fæðingu og ég krossa allt sem hægt er að krossa um að það haldist áfram. Hún er orðin mánaðargömul og maður furðar sig alltaf á því hvað tíminn líður hratt og þess vegna nauðsynlegt að njóta hverrar stundar því fyrr en varir verður hún orðin eins og tæplega fimm ára unglingurinn á heimilinu sem nennir ekki að vakna á morgnana og lokar hurðinni þegar maður kemur að vekja hana:)
Frá því við komum af spítalanum hefur Magdalena haldið uppteknum hætti hvað varðar drykkju, svefn og hægðir en þetta er jú það sem horft er á í fari ungabarna. Hún er búin að vera dugleg að drekka frá fyrstu mínútu og þurfti ekki að láta kenna sér hvernig á að sjúga þessar túttur og hefur því fengið slagorðið "Lena er dugleg á spena". Hún fékk góða dóma í fimm daga skoðuninni þrátt fyrir að vera svona nett eins og læknirinn orðaði það enda ekkert nema tröllvaxin 18 marka drengjabörn í skoðun á sama tíma og hún sem er bara petit á franska vísu.
Hún hefur verið að þyngjast um 300-350 gr. á viku sem telst gott að mati ungbarnaeftirlitsins. Hvað varðar svefn tekur hún mikið tillit til foreldra sinna sem eru jú á þrítugsaldri en ekki 24 ára unglingar líkt og síðast;) Þess vegna hefur hún sofið vel þessar fyrstu rúmlega 30 nætur af lífi sínu og er að sofna svona um eitt að meðaltali og hefur sífellt verið að lengja tímann í þessum fyrst dúr en í morgun drakk hún ekki fyrr en 6:30 og síðan ekkert fyrr en rúmlega 9. Þrátt fyrir að óska þess heitar en allt að hægt sé að kalla þetta einhverja rútínu veit ég betur og þetta getur auðvitað breyst á svipstundu en er á meðan er! Ég held líka að barn nr. 2 komist fyrr í einhvern gír því barn nr. 1 er auðvitað alltaf til staðar og við erum öll komin hérna á ról milli átta og níu á morgnana þar sem klónin þurfa að fara til vinnu og í leikskóla.
Hvað varðar hægðir er hún ekkert að spara gulu skiturnar og kemur þeim frá sér oft á dag ásamt háværum frethljóðum, þetta eins og allir foreldrar þekkja gleður mikið sem og öll rop sem hún kemur frá sér - þetta er auðvelt líf. Magdalena hefur hingað til ekki ælt neitt að undanskildum þremur gusum sem hún hefur tekið, það er kærkomið að þurfa ekki alltaf að vera með bleyju við hönd til að þurrka upp ælu og sparar líka þvott en af honum er feikinóg verandi fjögur í fjölskyldu.
Nú veit ég ekki hversu margir skemmta sér við þennan lestur en ég mun reyna að halda honum innan myndsíðunnar framvegis. Þar má líka finna restina af janúar myndum en hér að neðan er smá brotabrot en við gátum loksins farið út að ganga í gær eftir mikla ófærð en nýi kagginn er að gera mjög góða hluti og mamman hæstánægð með þetta samvinnuverkefni fjölskyldu og vina að láta nýjan vagn verða að veruleika, hann mun síðan bara ganga í erfðir til að nýta hann sem best:)
Ára klára heldur uppteknum hætti stóru systur og virðist ekki fá nóg af því að knúsa og kyssa Magdalenu og segja hvað hún sé nú mesta krútt í öllum heiminum. Hún tekur yfirleitt alltaf þátt í bleyjuskiptingum þegar hún er heima og passar alltaf að kyssa hana bless þegar hún fer eitthvað. Hún er líka dugleg að skottast eftir hlutum þegar maður þarf á einhverju að halda og ég var kannski farin að ofnota þetta á tímabili því þá kvartaði hún undan því að það væri soldið erfitt að vera stóra systir og þurfa alltaf að ná í allt:) Hún er líka farin að skeina sig sjálf við aðgerðir nr. 2 þannig að hún er svo gott sem orðin alveg sjálfbjarga!
Þetta var alltof sumt að sinni!
Komin í fína kjólinn frá Rögnu sinni
Eins mánaða blómarós:)
Prufukeyra nýja vagninn með Hörpu og Svövu
Flottar í fallega Laugardalnum
Systur horfa á barnatímann
Kósý stemning í fæðingarorlofi á Laugarnesveginum
LærdómsAndri
Engin ummæli:
Skrifa ummæli