þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Nýr ísskápur!

Við tókum ákvörðun í gær um að kaupa nýjan ísskáp - ástæðan: stór klaki sem myndaðist um leið og sá sem var á undan var fjarlægður og húsfreyjan orðin þreytt á því að afþýða á þriggja vikna fresti. Festum kaup á svipaðri stærð en auðvitað glænýjum og því töluverður munur þar á. Við erum þó endalaust þakklát fyrir Pay it forward leikinn sem Arna og Bjarni störtuðu fyrir ári síðan og höfum eins og hefð er fyrir haldið leiknum áfram og næsti viðkomustaður "Candy" er í Klofanum.

Varðandi heilsu þá segi ég sem minnst - þori ekki sökum hræðslu um að eitthvað nýtt mæti á svæðið...þannig no comment í þeim málum!

Ég tók mig til á föstudaginn og skipti um stofu í vinnunni, hefði átt að vera löngu búin að þessu en hef verið í 15 um þriggja ára skeið og maður er svo helv.. vanafastur. Á föstudaginn tók ég hins vegar þessa ákvörðun um að færa mig í 17 og sé sko ekki eftir því. Í fyrsta lagi er stofan töluvert stærri en mín og dreifir unglingunum um og lætin verða minni, í öðru lagi snúa gluggarnir í hentugri átt hvað varðar sól og nú með hækkandi sól vita allir að það fer að verða ansi mollulegt í stofum þar sem sólin skín yfir háannatíma. Í þriðja lagi sé ég yfir á Laugaborg en þar mun barnið að öllum líkindum vera á næsta skólaári og í fjórða lagi veit ég ekkert skemmtilegra en að raða og flokka og skipuleggja í nýju stofunni minni - þannig win win fyrir alla, mig og nemendur sem una breytingunni vel:)

Heimasætan er dáldið lítil í sér í leikskólanum og hálfgerð aðlögun í gangi eftir veikindin enda hefur hún varla verið heila viku á nýju ári. Á morgun er síðan skipulagsdagur en hún verður örugglega fegin að fá að vera heima hjá ömmu sinni. Hérna eru þrjár góðar af henni en þessa dagana er ýmislegt brallað og mörg gullkorn farin að fljúga upp úr henni:

"Afi er mesta dúllan"

"Amma er besta kellingin"

"Þetta gengur nú ekki ussusussususs"

"Búna kúka og hleypur og nær í bleyju"

Þannig að núna er næsta mál á dagskrá að koma henni á koppinn áður en stykkið er komið í bleyjuna og æfingar eru byrjaðar - við sitjum góða stund og skoðum bókina um Möggu sem er einmitt að verða tveggja ára og var að fá kopp og er að æfa sig að pissa í hann.

Komum að henni þar sem hún var búin að "dekoreita" stól!
Síðan er þetta eitthvað sport að fá naglalakk:)
Fékk svoleiðis áðan af því það er frí á leikskólanum og mín kona sat eins og myndastytta á meðan lakkinu var komið á!

Kannski óþarfi að hún mæti með naglalakk og Powerate í leikskólann en Powerate sagan er alveg efni í aðra færslu...
-Góðar stundir-



Engin ummæli: