þriðjudagur, febrúar 03, 2009


Jæja mikið er ég fegin að þessi blessaði janúarmánuðurinn er búinn...


og með hækkandi sól og hita verður heilsa heimilisfólksins vonandi betri.


Ára er búin með ágætisveikindapakka það sem af er árinu og var komin með bakteríu í lungun á föstudaginn sem var meðhöndluð með sýklalyfjum, hún fór samt í leikskólann í gær og var hin hressasta og borðaði yfir sig af steiktum fiski og kartöflum. Við fengum líka útskýringu á því af hverju hún er yfirleitt lystarlaus á kvöldin en samkvæmt deildarstjóranum borðar hún yfirleitt fjórar brauðsneiðar í kaffinu - meira en nokkurt annað barn á deildinni!


Í morgun var hún samt með nokkrar kommur og sökum nístingskuldans úti og undanfarinna veikinda þorðum við ekki að láta hana fara í leikskólann og því bjargaði amma Rut okkur enn og aftur fyrir horn og var heima hjá dísinni. Hún var síðan hitalaus í dag og klæddi sig nokkrum sinnum í skó og peysu og sagðist vera að fara út enda orðin hundleið á þessu innihangsi endalaust. Ég var að telja það saman að hún er búin að vera samtals 13 daga inni á nýju ári!


Við getum samt alls ekki kvartað - barnið búið að vera heilsuhraust fyrsta eina og hálfa árið og fyrst núna sem reynir aðeins á svona veikindadæmi og það verður frekar leiðinlegt til lengdar verð ég að segja.

Vikan er þéttskipuð verkefnum sem endranær - námsmat að nálgast í skólanum og fyrir liggja próf og einkunnagjafir, ég er samt búin að vera frekar skipulögð þessa önnina og sé fram á að vera búin að öllu vel tímalega.


Á morgun er skylmingaæfing og á fimmtudaginn ætlum við Laugó skvísur að gera milljónustu tilraunina til að hittast með börnin.

Föstudagur verður vonandi til fjár og á laugardaginn kenni ég smá dans í Dansskóla Ragnars og einnig stendur til að hafa FRAM feðradag en við foreldrarnir náðum að hittast síðasta föstudagskvöld í góðu glensi.

Hér á heimilingu ríkir einnig mikil sjálfstæðisbarátta sem fylgir því að verða tveggja ára í næsta mánuði. Undanfarna daga hefur litla konan sett blátt bann við því að fara í bað og það var ekki fyrr en í kvöld sem við náðum að plata hana ofan í. Hún hefur alltaf elskað baðið og skiljum við ekki hvaðan þessir stælar eru komnir. Einnig segir hún EKKI í annarri hverri setningu og Ágústa á þetta í hinni ásamt því að hafa sérstaklega sterkar skoðanir á því hverju hún skal klæðast. Til að mynda sendi faðir hennar hana í nátttreyjunni í leikskólann í gær því hann nennti ekki barningnum!

Þetta er nú meiri langlokan hjá mér en annars er ég komin upp í því við hjúin litum á hvort annað í morgun þegar risið var úr rekkju rúmlega sex og sögðum samtaka: "snemma upp í í kvöld og horfa á despó" haha ok ég kannski að horfa á despó en allaveganna hér verður ekki vakað til eitt eins og ég á alltof oft til:)

Hafið það nú gott því bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og sæta langa veikindalausa daga:)

Engin ummæli: