miðvikudagur, janúar 06, 2010

Dagbækur...

Sem mikill aðdáandi dagbóka þarf ég alltaf að byrja árið á einni slíkri. Ég hef velt fyrir mér formi, stærðum, línum, gormum, kostum og göllum dagbóka síðan ég var ca. 12-13 ára en þá bjuggum við Auður Agla alltaf til okkar eigin bækur því við vorum svo smámunasamar um hvernig við vildum hafa þær. Ég á síðan bækur frá öllum þessum árum í kassa og hef það aldrei í mér að henda þeim.

Í fyrra komst ég í kynni við þá beztu sem ég hef fundið hingað til - dagbók Íslandsbanka eða Glitnis (man ekki hvort það var búið að breyta). Þessi dagbók er í A5 broti, jafnvel örlítið stærra, er búin til úr endurunnum pappír og prentuð á Ítalíu. Hún inniheldur hverja viku á einni opnu, auka línur fyrir neðan til að skrifa punkta, yfirlitsdagatal í upphafi, minnisblöð í lokin, er í kápu en samt með gormum. Sem sagt í einu orði - fullkomin!

Nú fyrir jólin fór ég að sjálfsögðu að huga að bókinni fyrir 2010, hringdi símtöl í bankann til að kanna hvort hún væri komin, gerði mér ferð milli jóla og nýárs til að ná í mitt eintak en allt kom fyrir ekki, bókin skilaði sér ekki fyrir áramót og mín gamla bara til 3. jan! Ó mæ god terror fyrir dagbókarfólk sem skrifar fram í tímann. Til allrar hamingju var hún komin í gær og þjónustufulltrúinn minn svo almennilegur að láta mig fá eitt eintak því eftir því sem ég bezt veit er legið á þessu eins og gulli enda eðalbækur og ekki ódýrar í framleiðslu. Þið getið því rétt ímyndað ykkur spenninginn og tilhlökkunina þegar ég byrjaði að krota inn í hana í gær, afmælisdaga, hittinga, London ferð og þar fram eftir götunum.

En hvað haldiði að hafi legið á borðinu þegar ég kom heim úr vinnunni - Splunkuný rauð dagbók með gull áletrun á þar sem stóð Andri Fannar Ottósson, ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum! Þá hafði hann fengið þetta frá vinnunni sinni takk fyrir, bókin hefur allt sem mín bók hefur að bera að undanskildum gormunum sem gera sko gæfumuninn því þá getur maður lagt hana frá sér í brotinu sem er ekki hægt með Andra bók en gulláletrunina gæfi ég nú mikið fyrir, segi nú ekki annað!

Lifi dagbókin!

Engin ummæli: