fimmtudagur, júlí 31, 2008

Hvar skal nú byrja...

...nóg búið að gerast síðan ég hripaði eitthvað niður síðast.

Dvöl Kötu hjá okkur lauk síðasta föstudag með pompi og prakt þar sem Kata gaf Ágústu Rut flotta tösku og við skelltum okkur í sund. Tvær skemmtlegar vikur með henni frænku okkar og tveggjabarnamóðurreynsla fyrir mig og svona fyrir mína parta er Ára bara meira en nóg í bili.

Einnig lauk 6 morgnum í bili eða kannski bara forever því já ég var ærlega minnt á það hversu hryllilegt er að vakna alltaf svona snemma og ég held að ónæmiskerfið í mér þoli illa slíkar vaknanir því ég endaði síðan með streptakokkasýkingu um síðustu helgi og rétt náði að klára sushi og hvítvínsboðið sem við vorum með hérna á Laugarnesveginum en þegar gestirnir fóru að verða hálf tvö þá grét ég af verkjum og við sem vorum með næturpössun...alveg týpískt.

Ágústu var haldið víðs fjarri móður sinni þannig að hún fengi ekki sýkinguna og barnið var ekkert alveg að höndla það nógu vel - litli naglinn hún Ára er bara ekkert svo mikill nagli þegar allt kemur til alls og er búin að vera óhóflega mömmusjúk síðustu dagana en ég fór síðan upp í bústað til mömmu og pabba á mánudeginum en þau höfðu stolið henni með sér á sunnudeginum þannig að ég næði að hvíla mig meðan pensilínið var að kikka inn. Greyið litla hélt örugglega allan tímann að hún yrði síðan skilin eftir í bústaðnum. Reyndar er hún líka að fá svona ca. alla restina af tönnunum þannig að ekki skánar skapið við það!

Í dag finnst mér hún vera að ná jafnvægi og pensilínið búið að drepa mína bakteríu þannig að nú er okkur ekkert að vandbúnaði en að skella okkur á Klofa 2008. Ég er svona að byrja að pakka en það er nú ekkert lítið dót sem fylgir manni - þvílíkur haugur en ég geri þetta skipulega, finnst svo miklu miklu betra að pakka skipulega eins og þið væntanlega vitið...

Ég er með hrúgu af myndum sem ég þarf að setja inn en núna ætla ég að taka mér langþráða kríu meðan barnið lúrir.

Engin ummæli: