Vetrarleyfi...
eru afar kærkomin og ég dýrka þau. Kannski ekki jafnhentug fyrir alla en frábær fyrir kennara eins og mig. Fimm dagar (með helginni) til að hlaða batteríin og gíra sig upp fyrir seinni helminginn fram að jólum. Það eru samt engin sérstök plön fyrir dagana enda Andri ekki í fríi en samt sem áður er margt á döfinni eins og nudd, litun og plokkun, kjötsúpuboð, matarboð og fleira skemmtilegt.
Verst að ég þjáist af afar mikilli ljótu þessa dagana, búin að vera spurð oftar en einu sinni að því hvort ég sé eitthvað veik, svo föl í framan og síðan hvort ég sé með einhvern vítamínskort því hárlosið þekur bakið mitt (ég veit Sóley hvað þú hugsar) en það er samt ekkert að mér, bara skammdegisljóta sem verður hresst upp á í dag með nuddi og lit og plokk. Hélt að ég myndi brjálast úr gleði í gærkvöldi yfir fríinu en ég gerði það einhvern veginn ekki, fór bara fáránlega snemma að sofa enda einhver uppsöfnuð þreyta í mér. Síðustu 9 vikur hafa nefnilega einkennst af aukavinnu hverja einustu viku, alltaf eitthvað auka sem ætti öllu jafna ekki að vera þannig að þessi vika var sú fyrsta síðan 17. ágúst með eðlilegu vikuprógrammi og þá verður maður oft bara fjandi þreyttur. En úr því verður bætt með góðum svefni og afslöppun um helgina.
Mér finnst svo leiðinlegt að vanrækja bloggið, hef í rauninni mun meira gaman að því en facebook, elska að lesa gamlar færslur og skoða hvernig maður breytist í gegnum skrifin. Ég tími bara ekki að sleppa hendinni af því.
Fleiri myndir hafa síðan bæst í október albúm á síðunni hennar Áru kláru. Muna eftir gestabókinni!
Góða helgi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli