Kvöldið í kvöld er týpískt kvöld sem fær mig til að hugsa hvað í fjáranum ég var eiginlega að gera áður en ég fór út í barneignir og uppeldi. En annan hvern fimmtudag er Andri alltaf með vinnufundi til sjö og er því að detta í hús töluvert seinna en venjulega. Ég er góðu vön hérna heima og kann því best að hafa hann með mér milli sex og átta eða á þeim tíma sem þarf að fæða, baða, bursta, lesa og syngja, já þið megið segja skammskamm en Ára fer ekki enn ein inn í rúm og leggst og við förum bara út heldur syngjum við alltaf eftir að við erum búin að lesa fyrir hana - þetta tekur svona max 20 mín með lestri og ég hef ekkert séð eftir þessum tíma hingað til en með aðra á arminum verður þetta stundum töluvert flóknara. Sér í lagi þar sem maður getur ekki pantað að hún sé akkúrat sofandi á sama tíma og eldri fer að sofa og fyrir utan það þá er þetta svona sá tími dags sem hún er mest pirruð. Ára er hlýðin stúlka en hún er líka stríðin og elskar að espa mig upp þegar ég má síst við því eins og í kvöld þegar hún gerði allt flóknara en það þurfti að vera:) Lagðist þó loks upp í rúm og vildi lesa klukkubókina.
Magdalena ekki í besta skapinu sínu og Ára tók skýrt fram að hún vildi ekki að hún væri að gráta á meðan á lestri stæði - Magdalena er meðfærileg en þó ekki alveg svona meðfærileg:) Ég stakk því upp á því að ég myndi sitja á jógaboltanum þannig að M væri góð og Ára héldi á bókinni svo ég gæti lesið (fegin er ég að vera ekki orðin fjarsýnari en ég er). Það þurfti svo auðvitað að stilla klukkuna hárnákvæmt á hverri síðu en þetta gekk og Ára þreytt og sofnaði í öðru lagi sem er algengt.
Þá var hægt að sinna Magdalenu almennilega sem var eitthvað pirraðri en venjulega og þurfti fulla athygli. Pabbinn kom heim að verða níu (eftir brjálað strætóævintýri sem er efni í aðra færslu) og fór í það að græja sér eitthvað að borða á meðan ég tilkynnti honum að ég hefði nánast farið á núllinu í gegnum daginn - hluti af zero days prógrammi sem margir þekkja (en ef ekki þá efni í enn aðra færslu). Hann sagði mér að slíkt hið sama hefði verið upp á teningnum hjá honum, túnfiskur og banani úr Bónus! Því næst gekk hann frá öllu á sínu svæði - eldhúsinu og bauðst til að laga handa mér Latte (hefur séð þreytumerki á mér) á meðan ég horfði á Desperate með Magdalenu í smá færeyskum hringdansi eða þar til hún róaðist.
Eftir það settumst við aðeins niður og ég sagði honum í díteils frá mínum "viðburðaríka degi", svo vel að ég nánast lék samtölin hjá Áru og vinkonu hennar sem voru að leika hérna í dag. Á þessum tímapunkti var M alveg out en þarna var klukkan um hálf ellefu og ég þurfti að rjúka út að prenta út boðskort fyrir afmæli Áru, skutlaði M í fangið á AFO og brunaði á Grunninn. Prentaði vísareikninginn út í leiðinni, hugsaði með mér að það væri gott fyrir okkur að lesa hann yfir saman fyrir ZeroMars. Kom heim og þá var AFO lagstur upp í rúm, búinn að setja M í sitt svo ég skutlaði reikningnum í hann og sagði að það væri kannski gott að lesa yfir þetta. Því næst fór ég að klippa út boðskort og hanga í tölvunni. Áður en ég vissi af var hann steinsofnaður og það rann upp fyrir mér að ég vissi ekki neitt hvernig dagurinn hans var, eina sem ég vissi var að hann fékk sér túnfisk og banana í hádeginu og var í einn og hálfan tíma í strætó á leiðinni heim!
Eitt er víst að ég fæ ekki eiginkonuverðlaunin fyrir þessa frammistöðu - stefni ekkert nema upp á við á morgun!
Hins vegar setti ég inn fullt af myndum - svona er þetta, maður er dauðfegin að allir séu sofnaðir eftir langan dag en þá sest maður niður og fer að skoða og flokka myndir af fjölskyldumeðlimum:)