Afhending frestaðist...
fram yfir helgi því seljandinn býr á Egilsstöðum og gat ekki komið í bæinn fyrir helgi. Það er svo sem í allt í lagi okkar vegna - eykur bara á spennuna! Við erum svona í huganum búin að ákveða ýmislegt sem við ætlum að gera eins og lakka skápa og mála inn í eldhúsinnréttinguna og svo er ég auðvitað aðeins búin að spekúlera í herberginu hjá Skagadísinni, hvítt verður það og barbapabbaþemað fær að halda sér. Einhverra hluta vegna hef ég það ekki í mér að mála herbergi bleikt;) Kannski eftir að ýmsir uppnefndu mig Lindu bleiku hér á yngri árum!
Síðan er ég komin með ágætis hugmynd ásamt Don Ruth um að lappa upp á baðherbergið á sem ódýrastan hátt, verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Svo er ég auðvitað búin að fara margoft yfir það í huganum hvernig ætti að raða í stofuna og þar fram eftir götunum. Það verður að segjast að það er ólíkt skemmtilegra að innrétta svona þegar maður "á" íbúðina.
Við þurfum síðan að fjárfesta í ísskáp og rúmi en sófa keyptum við á útsölu í húsgagnahöllinni um daginn og hann er með tungu eins og mig hefur dreymt um í laaaaaaangan tíma. Ég er líka algjörlega búin að hertaka tunguna, hún er nefnilega svo handhæg sem skrifborð líka þegar maður er svona stuttur í annan endann, hægt að hafa tölvuna fyrir framan sig og fara yfir verkefni og próf - ásamt því auðvitað að kíkja á sjónvarpið annað slagið.
Við erum auðvitað alveg í skýjunum með þetta allt saman og að þetta sé barasta allt að fara að smella saman. Þetta hefði þó aldrei gengið upp nema með dyggum stuðningi foreldra okkar sem eru búnir að standa eins og klettar á bakvið okkur í þessu og leiðbeina okkur hvernig er best að fara að. Það kom nefnilega á daginn að "bremsan" og "bensíngjöfinni" vinna bara ansi vel saman:) Það er ómetanlegt að eiga svona góða foreldra að.
Síðan er ég að öllum líkindum komin með dagmömmu fyrir næsta haust í næstu blokk svona ef planið mitt um að koma Áru litlu inn á Laugaborg gengur ekki upp. Það er auðvitað mikill léttir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því en núna er hún byrjuð að vera hjá ömmu sinni og verður þangað til í byrjun júní.
Það er síðan löngu orðið deginum ljósara að ég þarf að fara að koma mér í almennilegt form ef ég ætla einhvern tímann að fara að kenna leikfimi aftur. Mér var því að detta það snjallræði í hug að kaupa mér 3 mánaða kort í Laugum þegar við flytjum (maður fær nefnilega svo heppilegan styrk þegar maður er kennari) og fara 3 morgna áður en ég fer í vinnuna, ég verð nefnilega alltaf bíllaus þannig að þá get ég bara rölt þetta á milli. Þetta er kannski alveg glórulaust hjá mér því ég er ekkert alltof mikið fyrir að vakna svona snemma en gerði þetta nú í þrjú ár þegar ég var að kenna þannig að þetta hlýtur að blessast. Og þá verð ég kennski komin í ágætis form þegar líður að vori og get farið að kenna sjálf og fá borgað fyrir það!
Geri mér grein fyrir að þetta er orðið alltof langt en svona meira gert fyrir Afa Wonder sem er að spóka sig á Kanarí!
Og þið hin sem nenntuð að lesa ef þið þekkið einhvern sem er að selja ísskáp - bendið endilega á mig!
Góða helgi
Engin ummæli:
Skrifa ummæli