miðvikudagur, febrúar 29, 2012

Tveggja mánaða Magdalena - á sjálfan hlaupársdaginn 29. febrúar 2012!

Magdalena hefur haldið uppteknum hætti þennan seinni mánuð sinn. Sefur vel og drekkur vel og er alltaf að færa svefninn framar og framar, nú er hún að fá kvöldsopann upp úr tíu og fer síðan að sofa fljótlega eftir það með því að hlusta á óróann sem glymur í hausnum á manni þó það sé ekki kveikt á honum! Hún er enn bara að vakna einu sinni yfir blánóttina til að drekka en ég hef gefið henni snuð ef hún rumskar fyrr en ég óska eftir;) Hvar væri ég án snuða?

Við erum síðan búnar að kerrupúlast fjórum sinnum og ætlum að halda því eitthvað áfram. Hún líkt og systir sín gerði, sefur alveg einstaklega vel í vagni á ferð og er að taka langa lúra þegar ég er á ferðinni - stundum vaknar hún um leið og vagninn stoppar, stundum ekki. Hún er alltaf að splæsa í fleiri og fleiri bros og hefur stóra systir tekið fram úr pabba hvað varðar bros en ég get ímyndað mér að sú stóra verði heldur betur vinsæl þegar fer að koma almennilegt vit í þennan litla koll:)

Mamman er enn í fyrsta sætinu enda skartar hún byssunum sem bjarga öllu. Hún kann líka öll réttu handtökin og veit yfirleitt hvað virkar á Lenulús. Í minningunni var Ára alltaf í essinu sínu ef það voru læti og fjölmenni. Magdalena er öðruvísi, hún kann betur við rólegheitin og ekki of mikil læti, þá er eins og hún pirrist enda eins og ég hef sagt virðist vera rólegri karakter en Ára. Ég held hún sé lík Hörpu frænku sinni en hún sagði oft "læti" þegar hún var lítil ef henni fannst of hávaðasamt, kæmi mér ekki á óvart að Lena tæki upp á því einn daginn!


Orlofið rúllar þennan vanagang, hittingar, þvo, þrífa, ganga frá, ganga meira frá, þurrka meira ryk, þvo meiri þvott o.s.frv. þið vitið hvað ég meina;) En ég er að njóta þess í botn - finn hvað ég er bara hér og nú. Spurning hvort að zen áhrifin séu hægt og bítandi að færast yfir mig;)


Ágústa Rut er hress að vanda, telur nú niður daglega í afmælið sitt og getur ekki ákveðið sig hvort hún ætli að telja daginn sem er þann daginn með eða ekki;) Freistandi náttúrulega að sleppa honum! Sía "frænka" var komin með einhverja pressu hvað varðar bakstur fyrir stóra daginn og vildi að ég myndi leggja mig alla fram við það að uppfylla kökuóskir frumburðarins. Þannig að ég spurði hvernig köku hún vildi hafa og það lá ekki á svörunum - broskallaköku:) Þessi elska þekkir mömmu sína og veit að hún er ekkert að fara að hrista einhvern barbie-kastala fram úr erminni en broskall skal það vera og vel gulur:)

Ég set síðan seinna holl af febrúar á myndasíðuna á morgun!