föstudagur, maí 15, 2009


Leikhúsvinirnir...


Við Andri höfum stundað það í alllangan tíma að fara með góðu vinafólki okkar þeim Láru og Benna í leikhús en leikhúsferðirnar hófust á köldum haustmánuðum árið 2005. Nú tæpum fjórum árum síðar höfum við farið á margar sýningar og í vetur fórum við á fjórar sýningar í Borgarleikhúsinu. Við getum nú seint talist snillingar í leikhúsferðum því yfirleitt náum við að klúðra einhverju í hverri ferð, hvort sem það er að mæta á vitlausum degi (og þurfa þá bara að fara í bíó) eða mæta í hléi og þurfa að fá nýja sýningu. Hins vegar er alltaf gaman hjá okkur og þau hjúin eðalfélagsskapur og vona ég að leikhúsfélagsskapur okkar sem og annar félagsskapur haldist um ókomna tíð.


Mig langaði aðeins að tæpa á þessum sýningum sem við höfum séð í vetur.


1. Fýsn var fyrsta sýningin sem við fórum á í þessari atrenu. Yfirskriftin er: Getur ástin fyrirgefið allt? Lífið virðist dans á rósum hjá ungum hjónum en síðan fara ýmis ógnvekjandi leyndarmál að koma upp á yfirborðið. Verkið fjallar um svartnætti mannlegs eðlis, örvæntingu, lygar og þrár. Þetta var frekar óspennandi verk og held ég að við félagarnir getum verið sammála um að þessi sýning var lélegust þennan veturinn. Kannski of drungalegt og leiðinlegt viðfangsefni á dimmum vetrarkvöldum...


2. Fólkið í blokkinni var næst á dagskrá, þrælskemmtilegt leikrit sem tekur einhvern veginn á öllum þáttum, fjölskyldan ákveður að setja upp söngleik sem fjallar um líf þeirra. Þarna er tekist á við fötlun, ótímabæra þungun, drykkjuvandamál, fjárhagsvandamál og svona beisiklí bara flóruna af svona hlutum sem margir eru að takast á við. Ótrúlega hjartnæm saga og fatlaði strákurinn nær að bræða alla. Á ákveðnum tímapunkti fengum við Lára tár í augun en það var bara út af einhverju "tötsí" lagi;) Ég myndi segja að þetta verk standi upp úr hvað varðar skemmtanagildi (kannski ekki alveg að marka þar sem öll hin þrjú komu að einhverju leyti inn á kynferðislega áreitni).


3. Rústað kom þar á eftir og rústaði allaveganna Fýsn svo mikið er víst. Sýningin var bönnuð innan 16 ára og ekki fyrir viðkvæma. Við vorum því undirbúin að fara út í sjokki en höndluðum þetta bara nokkuð vel. Sýningin tók einhvern allt það versta sem til er í heiminum og setti það saman í einn pakka. Ein kona hélt fyrir andlitið á sér megnið af sýningunni. Ég hefði ekki viljað sleppa þessari sýningu enda áttu Ingvar og Kristín Þóra stórleik.


4. Í kvöld voru það síðan Ökutímar sem fjallar um svik, ást og fyrirgefningu og tekur á viðkvæmu máli á óvenjulegan hátt. Skemmtileg mynd er dregin upp af Bandaríkjunum á þeim tíma sem leikritið á að gerast eða 7. áratugnum. Virkilega gott stykki og Kristín Þóra átti aftur stórleik, ég var að vísu pínu upptekin að pæla í því hvernig búningahönnuðir unnu að því að fela að hún væri ólétt en kannski bara af því ég vissi það. Hins vegar veit ég ekki hvort það var út af því að við vorum búin að fara á tvö verk þar sem kynferðislegt áreitni kom fyrir eða hvað þá fór þetta verk ekki í fyrsta sæti en við náðum síðan að tala um einn leikarann beint fyrir framan nefið á honum og vonum bara að hann hafi tekið því sem uppbyggilegri gagnrýni! Hefði líka verið gaman að hafa Lay Low á sviðinu en Ragnheiður Gröndal lék á gítar í hennar stað.
Og þar hafiði það...
lofa myndum um helgina af heimsætunni og fleirum inn á 123...

Engin ummæli: