sunnudagur, febrúar 13, 2005

Rauðar rútur........

Ég hef ekki séð mig knúna til þess að skrifa hér í einhvern tíma, sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því.

Þessi helgi er hins vegar búin að vera hressandi og hófst hún með semi Idol partý hérna á Grunninum. Mættir voru: Ég, Andri, Sóley, Kobbi, Sigríður Erna og Svava systir mín. Ég vonaðist til þess að Lísa dytti út en varð ekki að ósk minni enda söng Helgi sig réttilega úr keppninni með fáránlegu lagi. Að Idolinu loknu var haldið á Megasukk á Grand Rokk. Þar var margt um góðan manninn og slæman. Sóley og Kobbi slógust í för með okkur og við hittum síðan Stifamtmanninn með meiru, Hjalta Kris með bjór í annarri og sígó í hinni, Gunna og Orra úr FRAM og að ógleymdum rónunum sem dvelja á Grand Rokk. Tónleikarnir voru ágætir þrátt fyrir að reykjarmökkur og rónagól hafi sett dökkan blett á. Kallinn var í ágætis formi en ég hef þó séð hann betri. Fyrir menn eins og Andra og Stifta var auðvelt að fylgja textum eftir en amatörar eins og Sóley og Kobbi sátu með lafandi kjálka og stjörf augu. Við fórum rétt fyrir lok tónleikanna sökum þess að erfitt var að halda augunum opnum útaf sígarettureyk. Við heyrðum því ekki lagið Rauðar rútur sem hefði verið gaman. Mig dreymdi hins vegar nóttina eftir að við hefðum misst af þessu lagi svo það getur vel verið að þeir hafi tekið það eftir að við fórum.

Á laugardeginum átti systir mín afmæli. Harpa er orðin 16 ára sem segir mér það að ég er orðin hundgömul. Eftir að hafa kennt eitt stykki hjólatíma með látum var haldið smá kaffiboð í tilefni dagsins og gæddum við fjölskyldan okkur á dýrindis kræsingum.

Um kvöldið var stefnan sett á Öxina og jörðina drátt fyrir umdeilda dóma á sýningunni. En það er eins og einhver sé að segja okkur að fara ekki því síðast þegar við gerðum tilraun til þess fékk ég ælupest og í gærkvöldi var einn leikari veikur og sýningin féll niður. Ég vil hins vegar taka ofan fyrir starfsfólki Þjóðleikhússins sem endurgreiddi mér miðana að fullu þrátt fyrir að ég hefði greitt í cash á sínum tíma. 5200 kr koma sér vel fyrir mjög svo fátæka námsmenn.

Ég og Andri skelltum okkur því í bíó á myndina Meet the Fockers og ég varð ekki fyrir vonbrigðum, brandarar sem falla vel að mínum aulahúmor og gerðu kvöldið þrælskemmtilegt.

Í dag svaf ég fram að hádegi sem er besta sem ég geri. Ég kláraði minn hluta af barnabókmenntaverkefninu sem er magnað því einbeitingin hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið. Ég skellti í heitan salsarétt handa Andra (og smá mér) og á eftir hef ég hugsað mér að fara út að hlaupa. Góður sunnudagur sem mun sjálfsagt enda á lostætis grænmetissúpu hjá tengdó.

Framundan eru eintóm skilaverkefni og sé ég ekki fram á slökun fyrr en um páskana. 5 bls. verkefni í orðhlutafræði, 5 bls. ritgerð í nútímabókmenntum, barnabókaverkefni, kennsluáætlun og fleira og fleira og fleira og fleira, að ógleymdum gítarnum sem sárlangar í auma fingur.


Later
Lilly

Engin ummæli: