laugardagur, desember 22, 2007

Þá er ég loksins komin í jólafrí...

búin að strípa upp á mér hárið og plokka brúnirnar enda ekki seinna vænna ef maður á ekki að fara í jólaköttinn. Það er vægast sagt búið að vera mikið að gera í "social" hjá mér enda var ég frekar "anti social" hérna fyrr á árinu. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn tekur þessu ekkert alltof vel og er með smá takta við mig sem felast t.d. í því að vilja ekki koma til mín og fara jafnvel að væla þegar ég tek hana úr fangi föður síns. Smá erfitt fyrir móðurhjartað en ég held að ég sé að vinna hana á mitt band aftur þegar hún áttaði sig á því að ég væri komin í frí! Vonum það allaveganna...

Hafði hugsað mér að kíkja á Pallaball núna en afo var að fara að hitta vini sína þannig að ég er bara heima. Skreytti jólatréð með aðstoð systra minna og er búin að undirbúa alþrif morgundagsins. Það er samt svo þægilegt að ég á eiginlega ekki eftir að gera neitt og þarf þar af leiðandi ekki að taka þátt í klikkuðu umferðinni út um allt!

Fór í sund áðan með kynsystrum mínum þeim Auði og Regínu og síðan átum við á okkur gat á Eldsmiðjunni. Góð stund hjá okkur æskuvinkonunum sem erum í því að fjölga okkur en Auður á von á barni í byrjun maí og þið getið náttúrulega ímyndað ykkur hversu spennt ég er á skalanum 0 til 10, svona miðað við hversu spennt ég var þegar tengdasonur minn fæddist og núna verður það bezta vinkona Ágústu Rutar, já ég skýt á stelpu...alveg út í bláinn!

Síðan er alltaf heitt á könnunni og rauðvín og bjór í boði Ruth og Lottó á Grettis, þannig að þið sem eigið leið hjá í bæjarröltinu...ekki hika við að detta inn! Ég held að það hafi í það minnsta komið 14 manns hingað í kvöld! Þetta er nefnilega það skemmtilega við að búa í bænum:)

...í bili...

Engin ummæli: