fimmtudagur, janúar 29, 2009

Á þessum síðustu og verstu er nauðsynlegt að passa vel upp á peningana og gera ráðstafanir þegar fer að kreppa að...

það er nefnilega ekki svo víst að yfirvinna og annað slíkt verði í boði næsta vetur, hvað þá að maður fái eitthvað meira en aðeins 26 tíma kennsluskylduna sem dugir okkur því miður ekki.

þess vegna er ég farin að sanka að mér aukavinnu eins og mér var nú ansi mikið lagið hérna um árið;) Og þá er ég að tala um tímann þegar ég kenndi 6-8 tíma á viku á Baðhúsinu, vann um helgar í Adidas og skottaðist þess á milli í forföll í kennslu. Þetta var náttúrulega ofurLinda - ofurLinda hvarf eftir að barnið fæddist eða í það minnsta fór orka ofurLindu að leita á önnur mið.

Það sem liggur fyrir hjá mér hvað varðar aukavinnu er eftirfarandi:
  1. Er byrjuð að kenna þrek vikulega í Skylmingarfélagi Reykjavíkur en það er frekar auðfenginn peningur og ágætlega borgað - frekar leiðinleg tímasetning kl. 19:00 en sleppur alveg. Góð hreyfing líka.
  2. Taka börn úr öðrum skólum í aukakennslu í stærðfræði - hef yfirleitt verið með tvö þannig í áskrift sem taka góðar tarnir inni á milli og það telur í peningum skal ég segja ykkur.
  3. Vinna á böllum í skólanum eða öðrum skemmtunum utan skólatíma. Það er ágætt að taka svona inn á milli og í gær tók ég 4 tíma vakt undir hátalara á balli. Það var fínt en svona vinnu þarf maður að stilla í hóf enda með þessum krökkum stóran hluta úr deginum.
  4. Kenna í dansskóla einstaka laugardag. Það gæti verið afar skemmtilegt og vonandi verða einhver tækifæri til þess.
  5. Síðan er auðvitað möguleiki að taka afleysingar eða fasta tíma á líkamræktarstöð - spurningin er bara hvar og hversu mikið.

Gott að stilla sig inn á þetta til öryggis því ekki er ráð nema í tíma sé tekið! Síðan getur auðvitað vel verið að það verði einhverja yfirvinnu að fá og ofantalið detti upp fyrir sig. Ég hef bara alltaf viljað hafa svona hluti á hreinu mjööööööög tímanlega:)

Ég setti síðan nokkrar nýjar myndir inn á Áruna

Helgin ber margt í skauti sér en það er alveg efni í aðra færslu sko..

Engin ummæli: