mánudagur, apríl 27, 2009

Vangaveltur líðandi stundar...

Nú þegar kosningum er lokið fer maður ósjálfrátt að velta framtíðinni fyrir sér. Hvernig verður þetta á næstu mánuðum? Munu Samfylkingin og Vinstri grænir ná saman? Förum við í ESB? Mun krónan styrkjast? Hvar sem er og hvert sem maður fer er verið að ræða ástandið, kosningarnar, atvinnuleysi, hækkanir, uppsagnir o.s.frv.

Það er ljóst að við Andri erum bæði með vinnu áfram enda bæði fastráðin og Reykjavíkurborg hefur gefið það út að vernda eigi störf fastráðinna. Það liggur samt alveg ljóst fyrir að lítil sem engin föst yfirvinna verður í boði og því verður tekjutapið eitthvað. Við erum mjög lukkuleg með þessa fastráðningu enda ekki allir svo heppnir. Rétt í þessu ræddi ég við vinkonu mína, frábær kennari sem hefur gefið sig alla í starfið sitt undanfarin tvö ár og unnið frábært starf í þágu stéttarinnar. Þessi vinkona mín fær ekki áframhaldandi starf næsta haust því hún var ekki fastráðin. Hrikalega súrt fyrir kennarastéttina að missa slíkan starfskraft.

Hún er heldur ekki sú eina í kringum okkur sem er ekki með vinnu, því miður get ég talið á fleiri fingrum en annarrar handar þá vini okkar sem eru atvinnulausir eða ekki öryggir með atvinnu næsta haust. Sú tilhugsun hryllir mig skelfilega. Fyrir utan þá vini okkar sem eru í námi erlendis og ná varla endum saman því íslensku námslánin duga skammt.

Mig langar alveg svakalega að vera jákvæð og bjartsýn fyrir hönd okkar allra enda er ég þannig að eðlisfari en stundum þegar maður fær svona endalaust leiðinlegar fréttir er það erfitt.

Í augnablikinu hef ég ekki áhyggjur af okkur hérna á Laugarnesveginum enda erum við með vinnu og á tímum sem þessum skiptir það öllu máli. Við getum enn borgað af íbúðinni okkar og höfum svo sem ekkert sérstaklega þurft að halda að okkur höndum, ekkert meira en venjulega í það minnsta. En við þurfum að vera mjög passasöm á næstunni og velta krónunum aðeins betur fyrir okkur.

Í fyrrasumar vann ég aukavinnu í sumarfríinu mínu til að vega upp á móti þeirri yfirvinnu sem ég fæ á veturna. Fyrr í vetur var ég löngu búin að ákveða að slíkt myndi ég ekki gera í sumar enda fáránlegt að fá aldrei almennilegt frí. Ég hef alltaf unnið mjög mikið og verið nösk við að krækja mér í aukakrónur sem hefur oft komið sér vel. Þrátt fyrir ástandið núna ætla ég að halda mig við fyrri plön, ég ætla bara að vera í mínu sumarfríi eins og allir aðrir! Ég mun þá bara finna mér aukavinnu næsta haust...

Ég hafði nú ekki hugsað mér að vera neikvæð en satt bezt að segja hef ég miklar áhyggjur af mörgum góðum vinum mínum.

Vonandi verður þetta hrun okkur öllum einhvern tímann til góðs og gömul og góð gildi fái aftur að líta dagsins ljós en eins og staðan er núna upplifi ég reiði og kvíða í kringum mig.

Ég ætla samt að sjá fyrir mér okkur vinkonurnar sitja saman, hlæja og gleðjast og rifja upp þennan tíma sem mun þá hafa falið í sér einhvern ný tækifæri...

Engin ummæli: