þriðjudagur, apríl 28, 2009

Að öllu léttara hjali...

Einkadóttirin er að ganga í gegnum frábært tímabil núna. Einhvern veginn kemur alltaf nýtt tímabil hjá þessum litlu manneskjum sem manni finnst skemmtilegra en það sem var á undan þó maður hefði haldið að það væri ekki hægt að toppa tímabilið á undan. Núna fljúga svoleiðis gullmolarnir upp úr henni sem minnir mig á það að ég þarf að fara að skrá þetta einhvers staðar niður!

Fyrir nokkrum dögum ákváðum við að taka á duddumálum. Farið var eftir leið Láru kláru stórvinkonu minnar sem er með uppeldið alveg á hreinu. Leiðin fólst í því að einungis er leyfilegt að vera með dudduna í rúminu því jú þar sefur hún og þá má vera með duddu. Og þar sem Áran okkar hefur alltaf verið frekar mikill "bíldólgur" (sem er þó á undanhaldi) ákváðum við að það væri líka leyfilegt að fá dudduna í bílnum þ.e.a.s þegar hún biður um hana. Það skal tekið fram að Áran elskar duddurnar sínar næstmest á eftir foreldrunum.

Allaveganna fyrsta skiptið sem ég kynnti regluna fyrir henni grét hún aðeins, eðlilega enda vön því að heima ráði hún ferðinni alltof mikið með duddurnar, á leikskólanum hins vegar eru skýrar reglur enda er þetta ekki "issue" þar. Nú 4-5 dögum síðar er þetta ekki lengur vandamál og meira að segja þegar hún vaknaði í morgun labbaði hún fram með dudduna í munninum og ég kallaði svefndrukkin úr mínu bæli að hún ætti að fara með hana í rúmið sitt. Og viti menn barnið bara snéri við og skilaði henni í rúmið! Auðvitað koma móment sérstaklega eftir kvöldmat sem hún biður um hana og að sjálfsögðu er henni velkomið að vera í rúminu sínu og "dudda" aðeins og þá skoðar hún stundum bara bækur og svona í leiðinni og kallar svo á mig og lætur mig vita að hún ætli að koma og segir mér meira að segja að hún skilji dudduna eftir. Þannig að þrjú þúsund þakkir Lára fyrir gott ráð sem svínvirkar:)

Síðan var fyrsta nemendasýningin hennar um síðustu helgi í Danskóla Ragnars. Barnið hefur nú ekki verið þekkt fyrir að vera stilltasta barnið á svæðinu en alveg ágæt þó. En á sýningunni sjálfi þegar pabbinn var mættur til að horfa á dansaði hún allan tímann og tók ekki feilspor! Við vorum að sjálfsögðu afar stolt en bölvuðum því að vera ekki með videocameru en af þessu náðust þó nokkrar myndir sem koma von bráðar inn á myndasíðuna.

Það var ekki fleira í bili...

Engin ummæli: