sunnudagur, september 10, 2006

Það sem maður leggur á sig fyrir skeinipappírinn...

Eins og fram hefur komið hér á síðunni fór ég í verslunarleiðangur í gær þar sem ég þræddi helstu búðir sem Íslendingar þræða um helgar þ.e. Elko, BT, Kringluna, IKEA, Rúmfatalagerinn, Blómaval og síðan endaði ég á Bonna í Holtagörðunum.

Í ljósi þess að kennaralaunin gefa meira af sér en von var á fannst mér alveg tilefni til þess að við Kambsvegsbúar færum að hreinsa á okkur neðri endann með aðeins betri pappír en undanfarið og splæsti í Andrex rúllur, nota bene 9 rúllur á 639 kr. Tek fram að það er góðæri í gangi á Kambsveginum í augnablikinu! Það fór nú ekki betur en svo að ég gleymdi pakkningunni á kassanum og kom því heim með engan pappír. Ég hugsaði með mér nei fjandinn hafi það ég verð að gera mér ferð þarna á morgun til að sækja helv... pappírinn enda búin að eyða alltof mikið í hann. Og það gerði ég, var að koma heim úr Bonna, náði rétt fyrir lokun og jú það passaði það hafði gleymst pakkning af Andrex á kassanum hjá Ragnheiði nokkurri og ég mátti bara skokka inn í búð og ná mér í nýja. Ég hélt af stað inn í búðina glöð í bragði með að málið væri svona auðleyst en viti menn þegar ég kom að hillunni þar sem Andrex átti að vera greip ég í tómt...allt búið!

Mér var því tjáð af öðrum starfsmanni að þær á kassanum yrðu bara að endurgreiða mér pappírinn og ekki nennti ég nú að fara að standa í 10 metra langri röð fyrir það þannig að ég spurði hvort ég mætti ekki bara velja mér aðra tegund og jú jú það var í lagi.

Það besta í stöðunni var að velja þriggja laga mjúkan Bonnapappír, 9 rúllur í pakka en auðvitað enginn Andrex. Ég gekk því nokkuð þungum skrefum út úr búðinni enda búin að tapa rúmum 240 kr. (því ég nennti ekki að bíða í röð til að fá mismuninn endurgreiddan) og leggja á mig ferð í búð út af skeinipappír...

Það verður langt í það að boðið verði upp á Andrex á Kambsveginum, það er þá ekki nema við einhver hátíðistilefni!

Engin ummæli: